21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í C-deild Alþingistíðinda. (2168)

212. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Gísli Guðmundason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður til muna, en ég vil láta í l,jós ánægju mína yfir því, að komið skuli vera fram frv. til laga um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum.

Það hefur tíðkazt mjög hér, þegar settar hafa verið á stofn ríkisstofnanir, þ. á m. skólar, að þá hefur þeim stofnunum verið ætlaður staður í höfuðborginni. Menn virtust lengi vel telja sjálfsagt, að slíkar stofnanir ættu að vera í höfuðstaðnum. Til skamms tíma eða þangað til fyrir rúmum 30 árum var aðeins einn menntaskóli á landi hér, í Reykjavík, og það kostaði mikla baráttu hér á hinu háa Alþingi og utan þings að fá því til vegar komið, að annar menntaskóli yrði stofnaður á Norðurlandi. Síðan hefur það miðað áfram á þessu sviði, að því er varðar menntaskólana, að einnig hefur verið stofnaður menntaskóli á Laugarvatni, og nú er uppi hér á Alþingi till. um menntaskóla á Austurlandi og menntaskóla á Vesturlandi. En vissulega þarf að gera meira í þessa átt. Það þarf að vinna að því, að fleiri æðri menntastofnanir og fleiri þjóðstofnanir verði staðsettar utan höfuðborgarinnar í ýmsum landshlutum, eða a.m.k. einhver grein af starfsemi þeirra. Það er engan veginn sjálfsagt, að þær séu yfirleitt staðsettar á einum stað, og það mun reynast styrkur fyrir landsbyggðina, að slíkum menntastofnunum verði dreift um landið. Með þetta í huga vil ég, eins og ég sagði áðan, lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum skuli vera fram komið. En ég tek undir það, sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að mér hefði þótt hlýða, að þessu máli væri vísað til annarrar nefndar, annaðhvort til sjútvn., sem oft hefur fjallað um málefni stýrimannaskólans, eða þá til menntmn. deildarinnar.

Í 13. gr. þessa frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Kostnaður við stofnun skólans og rekstur greiðist úr bæjarsjóði Vestmannaeyja.“ Það virðist koma fram, að þeir, sem málum ráða í Vestmannaeyjum, séu fúsir til þess að taka það á herðar bæjarfélagsins að stofna og greiða rekstrarkostnað við þennan skóla, og er það vissulega virðingarvert og sýnir áhuga fyrir málinu. En það er nú svo, að ríkið greiðir yfirleitt kostnað við hinar æðri menntastofnanir. Það er nú svo, og ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að mér sýnist, að ef það verður niðurstaðan, að Vestmannaeyjar beri allan kostnað af þessum skóla, sem stofnaður verður, þá sýnist mér, að það megi ekki vera fordæmi á þessu sviði. Það má ekki þýða það, að ef léð er máls á því að koma upp æðri menntastofnunum einhvers staðar utan höfuðborgarinnar, þá skuli það kosta það fyrir viðkomandi landshluta, að hann eigi að hera stofnkostnað og rekstrarkostnað við þessa stofnun, því að það er fullkomlega eðlilegt, þegar um sams konar starfsemi er að ræða og á sér stað í menntastofnunum höfuðborgarinnar og fólk almennt fær aðgang að, þá beri þjóðfélagið í heild kostnaðinn af því, á sama hátt og það ber kostnaðinn af slíkum menntastofnunum í höfuðborginni. Það vil ég segja almennt um þetta atriði.

Ég skal svo ekki hafa um þetta mál fleiri orð, en auðvitað er það til athugunar framvegis, hvort ástæða væri til að koma upp kennsluaðstöðu, að meira eða mínna leyti hliðstæðri, á fleiri stöðum í landinu. Skal ég þó ekki ræða frekar um það hér.