19.12.1963
Efri deild: 31. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

103. mál, náttúruvernd

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað þetta frv. Nm. voru sammála um það, að hlutverk náttúruverndarráðs væri ekki þess eðlis, að það væri nauðsynlegt, að þar sæti löglærður maður í forsæti eða löglærður maður ætti sæti í ráðinu. Reynslan virðist líka styðja þessa skoðun, að það sé svo tiltölulega lítill hluti af störfum ráðsins, sem sé lögfræðilegs eðlis, að það sé ástæðulaust að fenginni reynslu að halda í þessa kröfu, sem var í lögunum frá 1956, um það, að formaður ráðsins skuli vera embættisgengur lögfræðingur.

Í þessu frv. er sú breyting gerð, eins og kunnugt er, að í stað skilyrðis um það, að formaður og varaformaður, en ég vil taka fram, að varaformaðurinn á ekki sæti í ráðinu, — í stað þess skilyrðis, að þeir skuli vera lögfræðingar, þá er hér hvikað frá því á þann veg að kveða svo á um, að annar hvor þeirra skuli vera embættisgengur lögfræðingur. N. telur, að þetta sé ekki rökrétt, því að ef það er ekki ástæða til, að formaðurinn sé embættisgengur lögfræðingur, þá er auðvitað en síður ástæða til þess, að varaformaðurinn sé það. Aftur á móti ef formaðurinn væri lögfræðingur og þyrfti stöðu sinnar vegna að vera það, þá væri í sjálfu sér eðlilegt, að varaformaðurinn, sem þarf þá að hlaupa í skarðið og gegna formannsstöðunni við og við, uppfyllti sama skilyrði, enda mun það vera óþekkt í lögum, svo að vitað sé, að hliðstæð skilyrði séu, sett, að annaðhvort formaður eða varaformaður tiltekins ráðs eða nefndar skuli uppfylla eitthvert tiltekið skilyrði, þegar þannig er háttað, að varamaðurinn á ekki sæti í sjálfu ráðinu eða nefndinni.

Menntmn. hefur því lagt til að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem hér liggur fyrir á þskj.169, þ.e.a.s. orðin „og skal annar hvor þeirra vera embættisgengur lögfræðingur“ verði felld niður.