20.01.1964
Efri deild: 34. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í C-deild Alþingistíðinda. (2180)

28. mál, sala Litlagerðis í Grýtubakkahreppi

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta um sölu Litlagerðis í Grýtubakkahreppi var flutt hér á Alþingi í fyrra og afgreitt út úr þessari deild samhljóða, en dagaði uppi í Nd. Það voru viðhöfð venjuleg vinnubrögð við afgreiðslu þessa máls í nefnd í fyrra. Það var sent til umsagnar, bæði jarðeignadeildar ríkisins og landnámsstjóra, sem mæltu eindregið með, að þessi sala yrði leyfð. Einnig lágu fyrir meðmæli frá hreppsnefndinni í Grýtubakkahreppi. Þetta frv. var afgreitt úr landbn. 13. des. í vetur shlj., og mælir n. með, að það verði samþykkt. En við þessa umr. er rétt að geta þess, að til n. hefur borizt ósk frá landbrn. um að tengja við þetta frv. sölu á hluta úr annarri jörð, sem er Miðhús í Egilsstaðahreppi, og heimila Skógrækt ríkisins, sem er eigandi Miðhúsa, að selja ábúandanum þar, Halldóri Sigurðssyni, hluta úr þessari jörð. Bréf þetta hefur ekki borizt landbn. fyrr en núna rétt um helgina, og landbn. hafði ekki tíma til að leita sér þeirra upplýsinga um þetta mál, sem venjulegt er að gera, og á fundi í morgun ákvað hún því að fresta afgreiðslu þess úr nefnd og áskilur sér rétt til þess að tengja það við þetta frv., sem hér liggur fyrir, við 3. umr. málsins, að ósk landbrn., ef henni sýnist við nánari athugun, að sú leið sé eðlileg og skynsamleg. Eins og fyrr er sagt, leggur landbn. til, að þetta frv. verði samþykkt.