24.02.1964
Neðri deild: 60. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í C-deild Alþingistíðinda. (2190)

28. mál, sala Litlagerðis í Grýtubakkahreppi

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þetta mál er komið frá Ed. og hefur hlotið samþykki þeirrar hv. d., en það er um sölu eyðijarðarinnar Litlagerðis í Grýtubakkahreppi.

Það hafa legið fyrir hv. landbn. Ed. umsagnir nokkurra aðila um þetta mál. Það er umsögn landnámsstjóra, umsögn jarðeignadeildar ríkisins og enn fremur umsögn hreppsnefndar í Grýtubakkahreppi, og allar þessar umsagnir eru meðmæltar frv. Þarna er um að ræða litla jörð, sem er áfallasöm vegna skriðuhættu og snjóflóða, og eins og nú er, hefur jarðeignadeildin haft nokkurn kostnað af að eiga hana. Það eina, sem telja má kannske þessari jörð til gildis nú, er, að það fylgir henni nokkur silungsveiði í Fnjóská, en þar er þó um mjög lítið svæði að ræða, þar sem jörðin er mjög landlítil.

Ég sé ekki ástæðu að fara mörgum orðum um þetta. Það varð hins vegar ekki samstaða í hv. landbn. Nd. um þetta mál, og ef þeir nm., sem skrifuðu ekki undir þetta álit, telja ástæðu til, gera þeir grein fyrir sinni afstöðu hér á eftir, en mér skildist þó, að þeirra sérstaða mundi kannske frekast vera byggð á því, að það er venja með sölu á slíkum jörðum, að þær séu seldar ábúendum, en ekki er hér um það að ræða, þar sem jörðin er í eyði. En sem sagt, eins og fram kemur í nál. meiri hl., leggjum við til, að frv. verði samþykkt.