31.10.1963
Efri deild: 8. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í C-deild Alþingistíðinda. (2206)

42. mál, bústofnslánasjóður

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv., sem liggur nú fyrir, á þskj. 42, er flestum hv. dm. nokkuð kunnugt, þar sem það hefur verið flutt á nokkrum undanförnum þingum, og get ég af þeirri ástæðu verið nokkru fáorðari um það nú en ella væri hægt. Efni þessa frv. er í stuttu máli það, að þar er lagt til, að stofnaður sé sérstakur lánasjóður, sem kallaður er bústofnslánasjóður, er hafi það sérstaka hlutverk að veita frumbýlingum og öðrum efnalitlum bændum lán til bústofnskaupa og til vélakaupa. Það er gert ráð fyrir því, að lán, sem þessi sjóður veitir til þessara hluta, séu sérstaklega hagstæð, m.a. er gert ráð fyrir því, að það séu af þeim greiddir tiltölulega lágir vextir miðað við þá vexti, sem nú eru venjulegir. Í annan stað er gert ráð fyrir því, að þessi lán, sem þarna er um að tefla, megi veita gegn öðrum tryggingum en nú eru tíðkanlegar, svo sem nánar segir í 5. gr. frv., en þar er svo mælt fyrir, að auk þess sem heimilt er að lána gegn fasteignaveði, þá sé heimilt líka að lána gegn veði í vélum og verkfærum og gegn veði í búfé gegn sveitarábyrgð og gegn sjálfskuldarábyrgð tveggja eða fleiri aðila. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að þessi sjóður fái stofnfé að upphæð l00 millj. kr., að nokkrum hluta með óafturkræfu framlagi ríkissjóðs, sem gert er ráð fyrir í frv. að sé 40 millj., sem lagt skal fram á nokkrum árum, og að nokkru leyti fengið með lántöku, eða 60 millj. Þessar upphæðir, sem þarna eru ákveðnar, eru þær sömu sem voru í frv. í fyrra. Ég hef ekki séð ástæðu til að gera á þeim breytingar, af því að frv. er nú lagt fram óbreytt frá því, sem þá var. En vitaskuld kemur það til athugunar í þeirri nefnd, sem þetta frv. fær til meðferðar, hvort ekki muni rétt að hækka þessar upphæðir eitthvað til samræmis við þær breytingar, sem átt hafa sér stað á verðlagi upp á síðkastið. Það er gert ráð fyrir sérstakri stjórn á þessum sjóði, sem er fimm manna stjórn og þannig skipuð, að fjórir stjórnarmanna eru kjörnir af Alþ., en sá fimmti, sem jafnframt er formaður, skipaður samkvæmt tilnefningu Stéttarsambands bænda. Þessari stjórn er ætlað ákvörðunarvald um lánveitingar. En Búnaðarhankanum er að öðru leyti falið að annast um meðferð sjóðsins og bókhald, sem þar að lýtur.

Ég geri ráð fyrir, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um það, hver nauðsyn er á slíkri lánastarfsemi sem þeirri, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég hygg, að það verði fáir til að andmæla því, að frumbýlingum, alveg sérstaklega frumbýlingum og raunar einnig öðrum efnalitlum hændum, sé þörf á sérstaklega hagstæðum tánum til þess að auka bústofn sinn og til þess að auka vélakost sinn. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þeir eru tiltölulega fáir, ungu bændurnir, sem nú byrja búskap. Að sjálfsögðu liggja til þess ýmsar ástæður, m.a. ýmsar þjóðlífsástæður, sem ég skal ekki hér fara að ræða um, m.a. það, að kjör bænda hafa sjálfsagt ekki verið þannig, að þau hafi sérstaklega freistað ungra manna, svo og það, að þegar atvinna hefur verið mikil annars staðar, eins og verið hefur nú um nokkur ár, þá leita ungir menn nokkuð þangað. En þó að það sé svo og ekki ástæða til þess að neita þessum ástæðum, sem fyrir hendi eru, þá er alveg áreiðanlegt, að fjármagnsskortur stendur mjög oft í vegi fyrir því, að ungir menn hefji búskap. Það þarf mikið fé nú á dögum til þess að byrja búskap. Það eru gerðar allt aðrar kröfur í því efni nú en áður var, og það er, að ég hygg, nokkuð viðurkennt, að það sé ekki hægt að reka búskap nú með nokkrum sæmilegum hætti nema hafa allgóðan vélakost og önnur tæki, sem nauðsynleg eru við búreksturinn, en þær vélar og þau tæki eru hins vegar mjög dýr. Til þess bæði að geta aflað þeirra tækja og til þess að geta staðið undir kostnaði við rekstur slíkra véla þurfa búin að vera nokkuð stór, bæði hjá byrjendum og eins þurfa þau að stækka hjá hinum, sem lítil bú hafa. Þetta eru staðreyndir, sem eru deginum ljósari.

Það má að vísu segja það, að framkvæmdasamir ungir menn geti lagt fyrir eitthvert fé og gætu haft eitthvert fé, þegar þeir byrja búskap. En þó að svo sé, þá er þó enginn vafi á því, að það er langt frá því, að það nægi til þess að stofna til búskapar með sæmilegum hætti. Það er orðið svo kostnaðarsamt nú á dögum, að það eru fæstir ungir menn, sem hafa það fé handa á milli eða eiga það fé, að þeir geti keypt þann bústofn og þær vélar, sem eru nauðsynlegar í upphafi búskapar, ef hann á að fara af stað með sæmilegum hætti. Það hefur ekki verið kostur á sérstökum lánum til þessara hluta, en á því er mikil nauðsyn. Ég hef hvað eftir annað komizt í kynni við ungt fólk, sem hefur haft fullan hug á því að setjast að í sveit og stofna þar til búskapar, en hefur að athuguðu máli orðið að hverfa frá þeirri ætlan einmitt vegna þess, að það hefur ekki haft nægilegt fjármagn til þess að byrja búskap, hvorki til þess að kaupa bústofn né óhjákvæmilegar vélar, jafnvel þó að það ætti kost á því að fá jarðnæði með sæmilegum kjörum. Ég veit, að hv. þdm. þekkja vafalaust einnig mörg slík dæmi.

Ég tel það sérstaklega heppilegt að fela sérstakri lánsstofnun að hafa með höndum þetta hlutverk. Ég held, að það sé hætta á því, að þetta verkefni verði útundan hjá annarri lánsstofnun, sem jafnframt væru ætluð önnur verkefni og fyrst og fremst önnur verkefni, — það er hætta á, að þetta verkefni yrði útundan, þegar fjármagn til skipta er af skornum skammti. Því verður ef til vill hreyft sem mótbárum gegn þessu frv., að það sé gert ráð fyrir veðsetningum, sem séu ekki tryggilegar, eins og t.d. veð í búfé. Það er alveg rétt, að veð í slíku lausafé er nokkrum vandkvæðum bundið, en ég held samt, að það megi nú ganga frá þeim málum þannig, að það þurfi ekki að vera sérstök vandkvæði á því að taka þær tryggingar gildar, sem í frv. eru nefndar. En það er víst, að ef það yrði hægt að fá lán gegn einmitt þvílíkum tryggingum, þá mundi það greiða fyrir mörgum, sem ekki eru aðrar tryggingar tiltækar eða hafa ekki möguleika á því að bjóða fram eða setja aðrar tryggingar. Þó að ég, eins og ég gat um áðan, telji það heppilegt og heppilegast, að alveg sérstakri lánsstofnun eða sjóði sé falið þetta sérstaka og afmarkaða verkefni, þá vil ég þó taka það skýrt fram, að formið á þessari starfsemi er vitaskuld ekkert aðalatriði, og um öll þvílík atriði erum við flutningsmennirnir að sjálfsögðu til viðræðu.

Ég held, að ég geti svo að öðru leyti látið nægja til rökstuðnings fyrir þessu frv. að vísa til grg. Það er sannfæring mín, að þetta sé mikið nauðsynjamál, og ég vona það fastlega, að hv. d. daufheyrist nú ekki öllu lengur við því að sinna þessu máli. Og ég vonast fastlega til þess, að sú nefnd, sem fær þetta frv. til meðferðar, láti nú ekki á því standa að gefa út um það nefndarálit, en því miður hafa örlög þess á undanförnum þingum orðið þau, að það hefur ekki verið afgreitt í nefnd. Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2, umr. og fjhn.