10.02.1964
Efri deild: 45. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

133. mál, sparifjársöfnun ungmenna

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. síðustu ræðumanna. Hér er á ferðinni athyglisvert mál og mál, sem er að vissu leyti liður í miklu stærra vandamáli. Spurning er, hvort einmitt þessi verðrýrnun sparifjárins er ekki einn meginþátturinn í því að viðhalda þeirri verðbólgu, sem við eigum við að stríða nú um mörg ár. En það er stórt mál og mikið. Hér er um það að ræða að verðtryggja sparifé barna og ég tel það vera sérstaklega mikilsvert, eiginlega miklu mikilsverðara mál en ölt önnur verðtrygging sparifjár. Ég er þess vegna ekki alveg sammála hv. síðustu ræðumönnum um það, að þetta mál eigi að tengja verðtryggingu sparifjár í víðtækustu merkingu og athuga það allt frá grunni. Ég er ekki sammála þeim í þessu atriði, ef það á að verða til þess að tefja framgang þessa máls, sparifjársöfnun og verðtryggingu sparifjár barna, því að það mál hefur alveg sérstaka hlið, sem verðtrygging sparifjár að öðru leyti hefur ekkí, og það er uppeldisgildið.

Í mörg ár hefur það verið erfitt verkefni fyrir foreldra og aðra uppalendur að brýna sparnað fyrir börnum sínum, en það var þó talin dyggð áður fyrr. Það er svo nú, að það er blátt áfram hlægilegt að ætlast til þess, að foreldrar hvetji börnin sín til þess að leggja peninga sina í banka, því að það er sennilega erfitt að verja fénu verr á annan hátt. Þetta er vandamál, og þeir, sem hafa uppeldismál með höndum, finna áreiðanlega fyrir þessu. Það er enginn grundvöllur til í okkar þjóðfélagi fyrir því að innræta börnum sparnað.

Ef þetta frv. yrði að lögum efnislega, væri þó fenginn nokkur grundvöllur fyrir því, að unnt væri á ný að innræta börnum sparsemi, innræta börnum að fara vel með peninga. Það er verðtrygging sparifjárins, sem hér þarf til. Ég stend hér upp eingöngu til þess að benda á þetta og skora á hv. fjhn. að taka þetta mál fyrir af fullri alvöru og röggsemi, eins og það liggur fyrir, verðtryggingu sparifjár barna, en láta heldur bíða aðrar hliðar á verðtryggingu sparifjár vegna þess, sem ég gat um, að hér er í húfi mikið og mikilvægt uppeldíslegt mál. Ég er mjög ánægður með, að frv. um þetta efni skuli fram komið hér í hv. d., og ég er sérstaklega ánægður með það, af því að það kemur frá stuðningsmanni hæstv. ríkisstj. Það var þessi hv. þm., sem mér fannst fyrir 1-2 árum nánast sjá rautt, ef hann heyrði minnzt á verðtryggingu eða vísitölutryggingu. Hér er sýnilega um framför að ræða í stjórnarliðinu, a.m.k. viðurkenningu á staðreyndum, þeim staðreyndum, að öll hin gullnu loforð viðreisnarinnar eru orðin að engu fyrir löngu, og nú verður að taka til frá byrjun á ný. Það finnst mér til fyrirmyndar, að fram skuli koma hjá hv. flm. viðurkenning á þessu, því að það er alltaf gott að geta lært.