21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í C-deild Alþingistíðinda. (2260)

142. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þessi hv. d. hefur nú átt þess kost á þessu síðkvöldi að hlýða á tvær mjög ýtarlegar og fróðlegar ræður um það mál, sem hér liggur fyrir, sem er frv. til l. um breyt. á l. frá 1960, nm takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti. Þannig hljóðar heiti þeirra laga. Ég ætla ekki að verða margorður um þetta mál, og mér þykir ekki hlýða að láta á þessu stigi uppi afstöðu til þessa frv., eins og það liggur fyrir, þar sem ég á sæti í þeirri n., sem gert er ráð fyrir að fái það til meðferðar. En í þeirri n. verða eflaust tekin til athugunar þau rök m.a., sem færð hafa verið gegn frv. af hv. þm., sem talað hafa.

Þetta mál er komið frá hv. Ed., og þar var það afgreitt, að ég ætla, ef ég hef tekið rétt eftir, með shlj. atkv. eða nálægt því. (Gripið fram í: Nálægt því, það var einn á móti.) Já, já, ég var ekki kominn að því, með shlj. greiddum atkv. gegn einu. Það var það, sem ég ætlaði mér að segja, en var ekki kominn lengra, þegar hv. þm. kom fram með sínar upplýsingar. Hér virðist nú eftir þær ræður, sem fluttar hafa verið, málið ekki hafa eins eindregið fylgi og það hafði í hv. Ed.

En það, sem kom mér til þess að kveðja mér hljóðs, voru ummæli, sem hv. 6. landsk. þm. hafði um áðurnefnd lög eða lagasetningu frá 1960. En hann komst að orði eitthvað á þá leið í ræðu sinni áðan, að þessi lög væru glöggt dæmi um það, hvernig löggjöf ætti ekki að vera. Og þarna fannst mér hv. þm. láta nokkuð mikið um mælt. (Gripið fram í: Þetta er ekki alveg rétt eftir haft.) Ekki kannske alveg, nei, þetta er eftir mínni, þetta er tilvitnun eftir mínni, en ég held, að það sé mjög nálægt þeim ummælum, sem hv. þm. hafði. (Gripið fram í: Má ég segja orðrétt það, sem ég sagði?) Já. (DÓ: Hvernig ekki ætti að setja reglur um fiskveiðar.) Jæja, m.ö.o. dæmi um það, hvernig fiskveiðilöggjöf ætti ekki að vera. Það, sem hv. þm. studdi þessi ummæli við, var það, að með setningu þessarar löggjafar hefði ekki verið farið nægilega eftir till. fræðimanna á þessu sviði.

Þetta mál, dragnótaveiðarnar, er ákaflega mikið deilumál hér á hinu háa Alþingi. Það hefur oft verið til meðferðar á þingi, alla tíð síðan fyrstu lögin um bann gegn dragnótaveiðum voru sett einhvern tíma milli 1920 og 1930, að ég ætla, og hefur gengið á ýmsu. Stundum hefur þessi veiði verið bönnuð með öllu, stundum hefur hún verið leyfð með meiri eða minni takmörkunum. Á Alþingi 1959-1960, þegar þau lög voru sett, sem nú gilda, voru menn sem fyrr mjög ósammála um þetta mál. Þá voru uppi till. um að leyfa dragnótaveiðina með litlum takmörkunum, en margir voru því mjög andvígir og allmargir mjög tregir til þess að leyfa notkun þessa veiðarfæris yfirleitt, sem þá hafði verið bannað um hríð. Það sem þá gerðist, var það, að farin var millileið í þessu máli, tekið tillit til hinna mismunandi sjónarmiða, og í sjútvn, þessarar hv. d. voru þá gerðar þær till., sem d. síðar og þingið samþykkti og felast í þessum lögum.

Því fer fjarri að mínum dómi, að með l. frá 1960 hafi ekki verið tekið tillit til vísindamanna og fræðimanna á þessu sviði, því að heimild ráðh. til þess að leyfa dragnótaveiði er í l. fyrst og fremst bundin því skilyrði, eins og segir í 1. gr. frv., að fiskideild atvinnudeildar háskólans og Fiskifélag Íslands hafi lagt samþykki sitt á þær ráðstafanir. Það er fyrsta skilyrðið, sem sett er í l. En síðan eru í l. fleiri skilyrði sett í þessari sömu grein, sem sé, að áður en ákvörðun er tekin, skuli Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna eiga að gæta á hlutaðeigandi veiðisvæði, og síðar í gr. er það nánar tiltekið, hverjir þessir aðilar séu, sem þar er um að ræða.

Niðurstaðan var þá sú, að fyrst og fremst skyldi veiðin ekki leyfð, nema þeir aðilar, sem byggja á vísindalegri þekkingu, hefðu lagt þar á samþykki sitt, en hún skyldi ekki heldur leyfð á þeim svæðum, þar sem þeir, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við fiskveiðar og annað atvinnulíf, teldu það ekki samrýmast hagsmunum atvinnulífsins á þeim slóðum, að hún væri leyfð. Þarna held ég, að Alþ. hafi á þessum tíma tekið með eðlilegum hætti á þessu máli og að hér sé ekki neitt dæmi um það, hvernig fiskveiðilöggjöf eigi ekki að vera.

Það var annað í ræðu hv. 6. landsk. þm. og einnig í ræðu hv. 3. þm. Sunnl., sem ég vildi leyfa mér að gera athugasemd við. Þeir halda því fram, þessir hv. þm., að ef Alþ. ákveður að banna dragnót á einhverju svæði, t.d. í Faxaflóa, þá sé þar í raun og veru verið að lýsa vantrausti á íslenzkum fiskifræðingum. Þetta finnst mér, að ekki fái staðizt. Það er ekki hlutverk fiskifræðinga að setja lög um það, á hvern hátt íslendingar hagnýti náttúruauðæfi þessa lands. Ég held, að þegar um það er að ræða að vernda slík verðmæti og þá alveg sérstaklega fiskimiðin kringum landið, sé betra að sýna of mikla varúð en of litla. Það sé betra fyrir framtíðina. Það er athyglisvert og kom fram m.a. í því, sem þessir 2 hv. ræðumenn lásu upp úr ritum vísindamanna um þessi efni, að þessir vísindamenn tala yfirleitt mjög gætilega um þessi efni, svo sem góðra vísindamanna er háttur. Þeir komast m.a. þannig að orði, eins og hér var lesið upp áðan, að ekkert sé fram komið, sem bendi til þess, að dragnótaveiði á vissum svæðum hafi áhrif á fiskstofninn. Og hv. 6. landsk. upplýsti það hér áðan, sem eflaust er rétt, að það væri ekki hægt á skömmum tíma að gera sér grein fyrir slíku, það tæki mörg ár, sagði hann, að gera slíkt, það tæki mörg ár að gera sér grein fyrir áhrifum veiði á fiskstofn. Það eru nú ekki liðin nema svo sem 3 ár eða 4 síðan dragnótaveiðin hófst hér aftur, og vísindamennirnir gera að sjálfsögðu enga kröfu um það, þó að þeir segi sem svo, að ekkert bendi til þess eða ekkert hafi komið fram, sem bendi til þess, að um of sé gengið á fiskstofninn, þá gera þeir enga kröfu um það, að við veiðum svo og svo mikið af kola við landið. Þeir taka það áreiðanlega ekki sem neitt vantraust á sig, þó að löggjafinn kynni að vilja sýna heldur of mikla varúð en of litla í þessum málum. Og í því felst ekki heldur neitt vantraust eða vanmat á starfi þessara manna, sem vissulega er mikilsvert og ómetanlegt og ber að viðurkenna og þakka.

Það er ekki mjög langt síðan við Íslendingar eignuðumst fræðimenn að nokkru ráði á þessu sviði, þ.e. a. s. fiskifræðinga, en það er langt síðan fiskimenn víðs vegar um landið komust á þá skoðun, að dragnótin væri hættulegt veiðarfæri fyrir innfjarðamiðin. Þessi skoðun var byggð á sjón og raun, hún var byggð á því, sem þeir menn sáu, sem komu um borð í dragnótabátana, dönsku dragnótabátana, sem hér voru víða inni á fjörðunum, áður en Íslendingar fóru að nota þetta veiðarfæri, og sáu, hvað þar var dregið upp á þiljur úr djúpinu. Út frá sínu leikmannssjónarmiði drógu þeir þá ályktun, að þarna væri verið að vinna tjón. Með réttu eða röngu drógu þeir þessa ályktun, reyndir menn, sem höfðu hagsmuna að gæta fyrir sig og sín byggðarlög á þessu sviði. Og þegar það er nú svo, að ekki er mjög langt síðan við eignuðumst hóp af fræðimönnum á þessu sviði, og þegar það er líka svo, að það tekur fræðimennina langan tíma, mjög langan tíma að vera alveg öruggir um niðurstöður sinar í þessum efnum, þá finnst mér, sem ekki er neinn fræðimaður um þessi efni, en met samt störf þeirra mikils, að við eigum ekki að gera lítið úr því, sem fiskimenn okkar hafa sagt um þessi mál, þeim skoðunum, sem þeir hafa myndað sér. Það getur verið, að þær reynist ekki hafa við nógu mikil rök að styðjast, en ég er ekki viss um, að það hafi verið sannað enn þá, og í tilefni af því langar mig til að spyrja þá hv. þm., sem hafa verið að fræða okkur um þetta efni í kvöld, hvort þær rannsóknir, sem eru gerðar á aflanum og dragnótinni, miðist við þann afla, sem kemur upp á þiljur úr sjónum, eða þann afla, sem lagður er á land til vinnslu í vinnslustöðvum. Þarna kann að vera nokkur munur á. Ég hef líka hug á að grennslast eftir því í sambandi við þær upplýsingar, sem hv. 6. landsk. gaf hér áðan um dragnótaaflann á árunum 1960-1962, — ég held, að það hafi eiginlega ekki náð lengra, — hvort hann hafi tölur um það, hvernig þessi afli skiptist, hvað mikið af honum hafi veríð koli, sem dragnótin á nú aðallega að veiða, og hvað mikið hafi verið aðrar fisktegundir.

Það hefði getað verið þess vert að ræða nokkuð um það, sem hv. þm. nefndi hér áðan um árekstra milli veiðarfærategunda í sambandi við dragnótina, og fræðast ofur lítið meira um það efni. Ég ætla nú ekki að hafa mál mitt lengra og eins og ég sagði ekki að ræða að svo stöddu um afstöðu mína til frv. sjálfs. En það, sem eiginlega kom mér til þess, eins og ég sagði áðan, að taka til máls, voru þau ummæli, sem komu fram áðan, annars vegar um löggjöfina frá 1960 og hins vegar um þetta svo kallaða vantraust á vísindamönnum, sem sumum hv. þm. finnst felast í ákvæðum eins og þeim, sem í þessu frv. eru, en þetta finnst mér ekki hafa við rök að styðjast.