10.03.1964
Efri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í C-deild Alþingistíðinda. (2285)

182. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Vegna þess að ég get búizt við, að þetta frv. verði nokkurs konar prófsteinn á það, hvort ganga á inn á þá braut að smækka sveitarfélög eða kljúfa þau vegna innbyrðis ágreinings í sveitarfélögunum um viss mál, sem er mjóg algengur hlutur, hef ég óskað eftir að fara nokkrum orðum um þetta frv., áður en það kemur til n. til athugunar og umr. þá þar í nefndinni.

Eins og ég sagði, virðist það, að frv. sé einkum flutt vegna ágreinings innan sveitarfélagsins, og er mér sagt, að það stafi af ágreiningi um staðarval fyrir félagsheimill. Þetta er ekkert annað en það, sem fyrir kemur í mjög mörgum sveitarfélögum, þegar byggja á félagsheimili eða skóla, en hjaðnar venjulega fljótlega aftur, þegar menn hafa áttað sig á hlutunum. Þetta þekkja allir í öllum áttum, og ég hef oftsinnis orðið var við það, að í sveitarfélögum, þar sem svona stendur á, hefur verið óskað eftir því að flytja frv. um það að kljúfa sveitirnar af þessum ástæðum. Þó að þessi ágreiningsmál séu nokkuð stór á tímabili, er það, eins og ég sagði, venjulegt, að þau hjaðna niður af sjálfu sér.

Ég tel, að yfirleitt, ef slíkum óskum er sinnt, að smækka sveitarfélög eða kljúfa út úr þeim, sé það til skemmda fyrir sveitarfélögin og þess vegna beri að ganga mjög varlega í þá átt. Nú nýlega var flutt í sameinuðu þingi þáltill., sem gekk í þá átt, að athuga skyldi um sameiningu smærri sveitarfélaga, eitthvað hliðstætt því, sem nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa nú þegar gert meira og minna, og Samband ísl. sveitarfélaga hefur haft þetta mál á dagskrá sinni nú hin síðari ár og nú síðast, að ég hygg, fyrir fáum dögum, og allir, sem þekkja til sveitarstjórnarmála, vita, að sum sveitarfélög eru svo smá, að þau af þeirri einu ástæðu eru mjög vanmegnug til að standa undir kostnaði við framkvæmdir og framfærslu og hitt og annað, sem á hvert sveitarfélag leggst.

Hér eru í lögum um sveitarstjórnarmál ákvæði um það, að ekki skuli kljúfa sveitarfélög smærra en það, að 200 íbúar verði í hverju sveitarfélagi. Íbúar í Kjalarneshreppi munu vera liðlega 200, og er hann þá svo lítill, að ef út úr honum er klofið verulega, fer íbúatala hans niður fyrir þetta lágmark, sem sveitarstjórnarlögin gera ráð fyrir. Með frv. þessu er gert ráð fyrir að rýra þennan litla hrepp um 10–12 býli eða allt að því 1/4 af íbúum hans, eftir því sem mér hefur skilizt, og bæta þessum 10-12 býlum við annan hrepp, sem er um það bil þrefalt stærri en Kjalarneshreppur, eftir því sem ég bezt veit. Býli þau, sem hér er um að ræða, eru Mógilsá, eign Skógræktar ríkisins, mun fara í eyði á næstunni, Kollafjörður, sem er klakstöðin, Naustanes, sem er í sjálfsábúð, Álfsnes, eigandi þess er í Reykjavík, Víðines, eign Bláa bandsins, Fitjakot, eigandi í Reykjavík, Varmidalur, í leiguábúð, Vellir, eigendur í Reykjavík, jörðin er leigð hestamannafélaginu Fák, Norður-Gröf, í sjálfsábúð, Þverárholt, eyðibýli, sem hreppurinn á, og Hrafnhólar og Stardalur.

Svo sem að líkum lætur, eru hreppsbúar í ýmsum félögum og hafa verið og alls konar samtökum og háðir hver öðrum meira og mínna um samstarf og samhjálp, og held ég, að talsverðum örðugleikum sé bundið að slíta þetta sundur, og það eigi ekki að gera það, nema eitthvað sérstaklega knýi á um það. Framsögumaður þessa máls, hæstv. utanrrh., gat þess í framsögu, að íbúar hreppsins væru í tveimur búnaðarfélögum. Mér virðist það stangast á við bréf, sem Búnaðarfélag Íslands hefur nýlega ritað út af ágreiningi um þetta mál, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af bréfi stjórnar Búnaðarfélags Kjalarness vili stjórn Búnaðarfélags Íslands taka fram, að hún telur, að hér hafi ekki verið fyrir hendi þau skilyrði, sem heimila mönnum að vera í búnaðarfélagi annars hrepps, og auk þess er svo ákveðið í lögum Búnaðarfélags Mosfellshrepps, að rétt til inngöngu í það félag hafi eingöngu íbúar hreppsins.

Það er því ályktun stjórnar Búnaðarfélags Íslands, að innganga bænda í Kjalarneshreppi í Búnaðarfélag Mosfellshrepps hafi ekki við lög að styðjast. Er þessi niðurstaða í samræmi við álit lögfræðings Búnaðarfélags Íslands, herra Sveinbjörns Jónssonar hrl. Þetta tilkynnist yður hér með.

Virðingarfyllst, Þorsteinn Sigurðsson.“

Þetta bréf skýrir mjög vel þau tengsl, sem verða að vera á milli íbúa innan eins og sama sveitarfélags, ekki aðeins í búnaðarfélagi, heldur í mörgum öðrum samtökum. T.d. er þarna skógræktarfélag fyrir allan hreppinn, slysavarnardeild fyrir allan hreppinn, sláturfélagsdeild fyrir allan hreppinn og líklega kaupfélagsdeild og sameiginlegir mjólkurflutningar fyrir allan hreppinn. Að sjálfsögðu eru það ekki óyfirstíganlegir örðugleikar að skipta eignum þessara félaga með einhverju móti, ef landfræðileg rök væru fyrir því eða enn veigameiri ástæður væru fyrir því og sveitarfélagið ekki gert of veikt með því að taka frá því þessi 10-12 býli. Hér munu gilda forn hreppamörk, svo að tandfræðilegum rökum mun tæplega vera til að dreifa, eins og vegasambandi er nú háttað. Á stærð sveitarfélagsins hefur þegar verið drepið, og tel ég það aðalástæðuna, sem mælir gegn því, að þetta litla sveitarfélag sé minnkað. Sú þróun gengur í þá átt, sem ég tel vera mjög óheppilega, að því er snertir sveitarfélög yfirleitt. Og ég hef eingöngu og aðallega óskað eftir að koma þessum sjónarmiðum á framfæri vegna þess, að ég veit, að það eru fyrir hendi víða óskir um það að kljúfa út úr sveitarfélögum á svipaðan hátt og hér er lagt til. Að þessu öllu athuguðu tel ég, að fleira mæli móti því en með að samþykkja þetta frv.