10.03.1964
Efri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í C-deild Alþingistíðinda. (2288)

182. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég er að vísu í einu og öllu ósammála þeim hv. þremur þm., sem þegar hafa tekið til máls um þetta mál. En engu að síður verð ég að þakka þeim fyrir þeirra málflutning hér og fyrir þeirra þátttöku í þessum umr. Það hefur sem sagt skeð hvorki meira né mínna en að hér hafa risið upp talsmenn, sinn frá hverjum af þremur stjórnmálaflokkum utan Alþfl., til þess að láta í ljós skoðun sína á málinu. Það eitt bendir til þess, að hér er á ferðinni mjög athyglisvert mál, sem er vissulega þess virði, að það sé athugað, og ekki þannig vaxið, að menn eigi að láta það þegjandi fram hjá sér fara.

Hv. 1. þm. Vesturl. lagði á það megináherzlu í andmælum sínum gegn frv., að ákvæði þess væru ekki í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaganna um skiptingu sveitarfélaga. Vegna þess að hér væri ósamræmi á milli, taldi þessi hv. þm. sjálfsagt, að þetta frv. fengi ekki fullnaðarsamþykkt á hv. Alþingi. Hann getur sem sagt ekki hugsað sér, að afgreidd séu lög, sem ekki séu nákvæmlega í einu og öllu í samræmi við þau lög, sem gildandi eru í landinu fyrir. Nú hefur þessi hv. þm. átt sæti á Alþingi á annan áratug. Hvað hefur hann verið að gera allan þennan tíma? Ég veit ekki betur en hann, eins og við allir, sem eigum hér sæti, höfum haft það fyrir fast starf á Alþingi, ekki aðeins að samþykkja ný lög, heldur að breyta lögum. Á hverju einasta Alþingi er breytt — ekki tugum, heldur hundruðum lagaákvæða. Þetta veit þessi hv. þm. ákaflega vel eins og við allir hinir. Aldrei hefur hann séð ástæðu til að rísa hér upp og setja það fram eins og einhverja algilda kenningu, að það sé eitthvert ódæði að breyta gildandi lagaákvæðum, fyrr en nú, þegar þetta litla frv. kemur hér, sem gerir ráð fyrir því, að breytt sé ákvæði að því er þetta varðar í gildandi lögum. Þá er slíkt slík fjarstæða, að af prinsip-ástæðum má ómögulega samþykkja það. Þessi hv. þm. getur að sjálfsögðu tint hér fram þau rök, sem hann hefur á móti málinu, byggð á efnisástæðum. En mér finnst það með öllu óframbærileg rök á Alþingi að halda því fram, að ekki megi breyta ákvæðum í lögum. Ég hef a.m.k. ekki heyrt slíkt fyrr.

Þá vitnaði hv. 1. þm. Vesturl. til þeirra umsagna, sem hv. allshn. í Nd. bárust á s.l. ári um frv. samhljóða þessu. Hann minntist þar á umsögn sýslunefndar Kjósarsýslu, og hann lét þess getíð, að ég væri einhver ráðamaður í þeirri sýslunefnd. Hér fer þessi hv. þm. algerlega villur vega. Ég hef ekki komið nálægt, hvorki störfum sýslunefndar Gullbringu- eða Kjósarsýslu né heldur sýslumannsembættisins í því lögsagnarumdæmi síðan síðla sumars 1956 og engin afskipti haft af málum, sem þar eru til meðferðar. Ég hef forðazt það með öllu að hafa nokkurt samband við sýslunefndina eða afskipti af því, hvernig hún afgreiddi þetta mál. Ég lét sýslunefndarmenn algerlega um það, enda hefði allt annað verið mjög óviðeigandi af minni hálfu. En þegar þeir í sýslunefnd Kjósarsýslu fóru að skoða þetta frv. og athuga, þá hneyksluðust þeir ekki á því, sem hv. 1. þm. Vesturl. hneykslaðist mest á, að hér væri verið að sniðganga ákvæði sveitarstjórnarlaganna um skiptingu sveitarfétaga. Þeir sáu ekkert athugavert við það form. sem hér er tekið upp á skiptingu sveitarfélaga. Sýslunefnd Kjósarsýslu hreyfði engum andmælum gegn frv. á þeim grundvelli, og yfirleitt niðurstaða sýslun. var sú, að hún andmælir frv. ekki, sem ekki er heldur von. Sýslunefndarmenn eru allir það vel kunnugir í Kjalarneshreppi, að þeir vita það, að með rökum verður þessu frv. ekki andmælt. Þess vegna létu þeir sér nægja að segja það eitt: Við vonum, að þeir, sem þarna eru að deila, komi sér saman. — Engin andmæli, engin andstaða af hálfu sýslunefndarinnar, heldur aðeins ósk til þeirra, sem voru að deila, um, að þeir kæmu þeir saman. Það má geta nærri, að ef sýslun. hefði viljað taka undir eitthvað af því, sem andmælendur frv. hafa sagt hér á þessum fundi í hv. Alþingi í dag, þá hefðu þeir látíð það fram koma í sinni umsögn. Þeir gerðu það ekki, og til þess lágu fullgildar ástæður.

Það er hins vegar rétt, að hreppsnefnd Kjalarneshrepps andmælti þessu frv. Hún andmælti því mjög ákveðið. Grundvöllur hennar andmæla er fyrst og fremst sá, að í frv. felist frekleg árás á sjálfræði sveitarfélaganna til að ákveða mörk sín. En hver er þessi árás, og hver er að fremja þessa árás? Hún er eingöngu sú, að nokkur hluti íbúa Kjalarneshrepps kemur og segir: Við höfum ekki átt og við eigum ekki félagslega samleið með öðrum íbúum Kjalarneshrepps. Okkar félagslegu samskipti hafa verið við nágrannahreppinn, Mosfellshrepp. Þess vegna biðjum við Alþingi að opna augun fyrir þessari staðreynd og leyfa það, að við fáum að vera meðlimir í því sveitarfélagi, sem við eigum félagslega samleið með, en ekki hinu, sem við eigum ekki félagslega samleið með. Þessi rökstuddu tilmæli eru það, sem menn leyfa sér hér að kalla freklega árás á sjálfsforræði sveitarfélags.

Þá var og vísað til umsagnar hreppsnefndar Mosfellshrepps. En í þeirri umsögn kemur greinilega fram, að hreppsnefndin hefur ekkert við það að athuga og hún er því ekki mótfallin, að Mosfellshreppur verði stækkaður, þannig að hann nái vestur að Kleifum. Að öðru leyti óskar hreppsnefnd Mosfellshrepps ekki að úttala sig um málið, sem hún veit að er ágreiningsmál.

Hv. 5. þm. Reykn. vildi halda því fram hér, að þetta frv. væri að efni til algert einsdæmi. Það hefði ekki þekkzt áður á Alþingi, að borin væru fram frv. að efni til í þá átt að taka hluta úr einu sveitarfélagi og leggja undir annað gegn vilja þeirra, sem klofnir eru út úr sínu upprunalega sveitarfélagi. Hann tetur, að þetta sé algerlega einsdæmi. Ég hef nú alltaf staðið í þeirri trú, að þessi hv. þm. væri nokkuð vel að sér í ýmsum sögulegum fróðleik og þá ekki hvað sízt því, sem næst gæti legið því kjördæmi, sem hann s,jálfur er þm. fyrir. En ég sé af þessum ummælum hans, að hann hefur ekki kynnt sér málið niður í kjölinn. Það hefur sem sagt komið fyrir og það kom fyrir oftar en einn sinni og oftar en tvisvar, að sveitarfélögum í Gullbringu- og Kjósarsýslu væri skipt og hluti þeirra lagður undir umdæmi algerlega gegn vilja þeirra, sem var verið að flyt,ja milli umdæma. Ég minnist þess, þegar ég var nýkominn hér á hv. Alþingi, að eitt af þeim fyrstu málum, sem ég mætti þá, var frv., sem hér var flutt um það að kljúfa Mosfellshrepp og leggja hluta af honum undir Reykjavík. Hreppsnefnd Mosfellshrepps mótmælti þessu frv. íbúar þeir í Mosfellshreppi, sem átti að flytja á milli lögsagnarumdæma, mótmæltu þessu sem einn maður, og hinir íbúar Mosfellshrepps, sem eftir áttu að vera í Mosfellshreppi, mótmæltu einnig. Allir íbúar Mosfellshrepps stóðu saman um að mótmæla þessu frv. og þessari lagasetningu. En frv. var samþ. og frv. varð að lögum. Þannig liggur fyrir ljóst dæmi, sem sannar, að það, sem hv. 5. þm. Reykn. var að halda fram um þetta, hefur ekki við rök að styðjast. Ég gæti nefnt fleiri dæmi og þau einmitt úr þessu sama lögsagnarumdæmi, en ég hirði ekki um að telja upp fleira að sinni.

En þetta frv., sem hér liggur fyrir, er gerólíkt frv. um breytingu á Mosfellshreppi frá því í kringum 1942 eða 1943 að því leyti, að þá mótmæltu þeir menn breytingu á hreppamörkunum, sem átti að flytja á milli hreppa, sem átti að flytja á milli sveitarfélaga, þeir mótmæltu breytingunni. En hvað er að gerast hér? Eru þeir menn, sem verið er að tala um að flytja á milli sveitarfélaga, að mótmæla? Er þetta gert gegn vilja þeirra? Nei, þvert á móti. Frv. er flutt samkv. skriflegri beiðni þeirra manna í Kjalarneshreppi. sem eru að óska eftir flutningi á milli sveitarfélaga. Það er flutt samkv. skriflegri beiðni þeirra og að þeirra vilja. Hér er þess vegna ekki verið að gera nokkurn skapaðan hlut gegn vilja þeirra, sem verið er að færa á milli sveitarfélaga, heldur þvert á móti, það er verið að fara að þeirra óskum.

Því hefur verið haldið fram í umr., að þetta frv. væri einkum flutt vegna ágreinings um staðarval fyrir félagsheimili í Kjalarneshreppi. Það er út af fyrir sig rétt. Það hefur verið ágreiningur um það í Kjalarneshreppi, hvort þar skyldi byggt félagsheimili eða ekki, og það hefur verið ágreiningur um það, hvar þetta félagsheimili skyldi vera. Þessi ágreiningur innan hreppsins er mjög djúpstæður, og hann hefur haft alvarleg áhrif — á alla sambúð íbúa Kjalarneshrepps, því miður. En þetta frv., sem hér er flutt, er ekki flutt á grundvelli þess ágreinings. Ég vitna til þeirrar grg., sem birt er með frv., og ég vitna til þeirrar framsögu, sem ég hélt fyrir málinu áðan. Þar voru hvergi færð sem rök fyrir því, að þetta frv. væri flutt eða ætti að ná fram að ganga, að ágreiningur væri um það í Kjalarneshreppi, hvort félagsheimili skyldi byggt eða ekki byggt eða hvar það skyldi byggt. Ástæðurnar, sem ég færði fram fyrir flutningi frv., voru allt annars eðlis.

Það er sýnt fram á það með ljósum rökum í grg. frv. og var endurtekið í minni framsöguræðu, að af landfræðilegum ástæðum hefði það verið eðlilegast, að íbúar Kjalarneshrepps austan Kleifa hefðu sitt félagslega samneyti, ekki við hreppsbúa sina í Kjalarneshreppi, heldur í Mosfellshreppi, og þetta hefur ekki verið aðeins eðlilegt landfræðilega, heldur hefur þetta einnig verið þannig í rauninni. Það hefur verið þannig í framkvæmd, að samskipti Kjalnesinga innan hreppsins hafa verið klofin, þannig að hluti hreppsins hefur leitað yfir í annað sveitarfélag. Kirkjusóknin, Búnaðarfélagið, Ungmennafélagið, Kvenfélagið og að nokkru leyti barnafræðslan og félagslífið yfirleitt er órækt dæmi og óræk sönnun þess, sem ég hef sagt. Af eðlilegum og sjálfsögðum ástæðum hafa íbúar Kjalarneshrepps austan Kleifa leitað með þessa starfsemi sína yfir í sitt nágrannafélag, en ekki til sveitunga sinna í Kjalarneshreppi. Því hefur verið haldið fram hér, að stjórn Búnaðarfélagsins hafi vísað þeim Kjalnesingum austan Kleifa burt úr Búnaðarfélagi Mosfellshrepps. Ég skal ekki ræða um það hér, hvort þessi úrskurður fær staðizt eða er á rökum reistur. En ef hann fær staðizt, eru þarna komin enn ein ný sterk rök fyrir því, að þetta frv. fái að ná fram að ganga. Íbúar Kjalarneshrepps austan Kleifa hafa ekki viljað vera í Búnaðarfélagi Kjalarneshrepps, vegna þess að landfræðilega eiga þeir ekki samleið með sínum sveitungum í búnaðarmálum, landfræðilega eiga þeir samleið með Mosfellshreppi. Þess vegna leita þeir þangað. Nú er okkur sagt, að þeim skuli úthýst úr Búnaðarfélagi Mosfellssveitar samkv. úrskurði stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Þeim er vísað í burtu úr búnaðarfélaginu í þeim hreppi, sem þeir kjósa að vera í samstarfi með. Og hvert eiga þeir að fara? Þeir telja sig ekki eiga samleið með sveitungum sínum í Kjalarneshreppi.

Það þýðir, að þeir verða að vera utan búnaðarfélags. Ég vil nú spyrja hv. þm., hvort þeim finnist það ekki sanngjarnt, — margir þeirra eru bændur og ættu að geta vel skilið það, — ég vil spyrja þá, hvort þeim finnist það ekki sanngjarnt, að bændur í Kjalarneshreppi austan Kleifa geti átt þess kost að vera meðlimir í því búnaðarfélagi, sem þeir af landfræðilegum og félagslegum ástæðum telja sig eiga samleið með, eða hvort hv. þm. telja það rétt að pína þessa menn annaðhvort til að vera utan búnaðarfélaga eða í búnaðarfélagi, sem þeir eiga ekki samleið með og telja sig ekki hafa gagn af því að vera í þar. Ég held, að það væri hin mesta ósanngirni og hin mesta óbilgirni af hv. Alþingi að fara að beita þessa menn í Austur-Kjalarneshreppi slíku ofbeldi ofan á allt saman að neyða þá nú að vera utan búnaðarfélegs með því að neita um breytingu á þessum hreppamörkum.

Því hefur verið haldið fram hér, að í hv. sameinuðu Alþingi hafi verið borin fram till. um að athuga um stækkun sveitarfélaga. Þetta er alveg rétt, og ég er fyrir mitt leyti alveg sammála þeirri stefnu, sem í till. felst. hað á að vinna að því að stækka sveitarfélögin. En þessi skoðun mín er í fullkomnu samræmi við það frv., sem ég hef borið hér fram. Kjalarneshreppur, eins og hann hefur verið og eins og hann er í dag, er í rauninni allt of lítill hreppur. Og það er ástæða til að taka það mál til athugunar út af fyrir sig, án tillits til þess, hvort nokkur ósk hefði komið fram í þessa átt eða ekki. En hér liggur fyrir till., sem miðar að því að stækka Mosfellshrepp, og þó að Kjalarneshreppur minnki að sama skapi við það í bili, aðeins opnar það leiðina fyrir þeim möguleika, að Kjalarneshreppur á fullkomlega samleið, félagslega samleið með nábúum í Kjósarhreppi. Og það er á þeim grundvelli, sem ég tel, að óhjákvæmilegt sé að athuga málið.

Þeir hv. þrír þm., sem töluðu hér á móti þessu frv., héldu því fram, að bezt væri, að annaðhvort færi þetta mál ekki lengra, dagaði uppi, yrði vísað frá með rökst. dagskrá eða hreinlega fellt. Ég fyrir mitt leyti legg á það mikla áherzlu, að engar af þessum hugmyndum þessara hv, þm. eigi eftir að rætast. Ég legg á það áherzlu, að þetta frv. verði samþykkt nú á þessu þingi. En hvað sem því liður, þá get ég sagt þessum þm. eitt með öruggri vissu: Það er hægt að tefja fyrir framgangi þessa máls, en það er aðeins hægt að tefja fyrir því. Það er ekki hægt að sporna við framgangi þess til frambúðar. Það er hægt að setja stíflu fyrir á eða læk, sem rennur niður fjallshlíð eða bratta, það er hægt að setja stíflu og tefja rennslið um tíma, en innan skamms rennur lækurinn eða áin yfir bakkana og ryður stíflunni úr vegi, og nákvæmlega eins verður með þetta frv. Menn geta tafið fyrir því og eytt tíma í það, en það getur aldrei orðið annað en tímaspur smál. Og ég vildi nú gjarnan mega gefa þeim hv. þm., sem hafa andmælt þessu frv., það góða ráð að fara sér hóflega og hægt í andmælunum, því að þeim mun léttara verður undanhaldið, þegar þar að kemur.