26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (2302)

18. mál, viðgerðarþjónusta fiskileitartækja

Frsm. (Jón Þorateinsson):

Herra forseti. Till. þessi, sem hér er til umr., er fram borin af hv. 12. þm. Reykv. og er á þá leið, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á því, hvernig verði bezt fyrir komið hreyfanlegri viðgerðarþjónustu við fiskileitartæki síldveiðiflotans. Það er óþarft að fara um það mörgum orðum, hversu þýðingarmikil þessi fiskileitartæki eru fyrir veiðiskipin og mikið undir því komið, ef eitthvað ber út af með þau, að unnt sé að veita skjóta og góða viðgerðarþjónustu.

Þessari till. var vísað til allshn. og hefur n. rætt hana á nokkrum fundum og sent hana til umsagnar. Það eru fjórir aðilar, sem hafa sent umsagnir um þessa till., þ. á m. er Alþýðusamband Íslands, en það segir svo m.a. í sinni umsögn, sem ég vil leyfa mér að lesa hér upp úr, með leyfi forseta:

„Alþýðusambandið telur sjálfsagt, að slík athugun fari fram, þar eð augljóst er, að árangur síldveiðanna er að mjög miklu leyti háður þessum dýrmætu leitartækjum. Það er því óbætanlegt tjón, ef miklar veiðitafir verða vegna bilana á þessum tækjum. Athuga ber sérstaklega, hvort umboð fiskileitartækjanna verða ekki að teljast skyld til að kosta og sjá um viðgerðarþjónustu í því formi, sem bezt tryggir skjóta viðgerð, ef bilanir verða.“

Þetta var úr umsögn A.S.Í. Og nm. vilja einmitt alveg sérstaklega vekja athygli á þessari ábendingu, að þegar að því kemur, að athugun fari fram í sambandi við þessa till., ef hún verður samþykkt, þá sé einmitt mjög rík ástæða til að hugleiða, hvort ekki sé hægt að skylda umboð eða seljendur fiskileitartækjanna til að veita betri þjónustu en gert er nú.

Till. var einnig send til umsagnar Sjómannasambandi Íslands, og það mælir eindregið með því, að hún verði samþykkt.

Þá var hún enn fremur send til umsagnar landssímanum. Landssíminn tekur fram, að hann hafi að vísu ekki með viðgerðarþjónustu á þessum tækjum að gera, en hann hafi hins vegar séð um viðhald radíótækja í skipum. En landssíminn telur, að svipað fyrirkomulag geti hentað um viðgerðarþjónustu vegna fiskileitartækjanna og á þann hátt að hafa viðgerðarmenn í stærstu verstöðvunum með hreyfanlegum verkstæðum og með nægum birgðum varahluta og tækja.

Þá var þessi till. einnig borin undir Landssamband ísl. útvegsmanna, en í umsögn þess segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér viljum þó nú þegar greina frá því, að vér teldum heppilegra, að staðsettir yrðu viðgerðarmenn með næga varahluti í fiskileitartækin á þeim 3-4 stöðum á Norður- og Austurlandi, sem mestu síldarmagni er landað á, heldur en komið yrði á hreyfanlegri viðgerðarþjónustu, eins og um getur í bréfi yðar.“

Allshn. er sammála um, að það sé nauðsyn á bættri þjónustu í þessum efnum. Hins vegar kunni það að þurfa nánari athugunar við, á hvern hátt sé eðlilegast að bæta þjónustuna, hvort það verði gert t.d. á þann hátt, eins og lagt er til í till., að hún verði hreyfanlegri en áður, eða þá með einhverjum öðrum hætti, og allshn. telur ekki rétt, að það sé í upphafi tekin afstaða til þess, á hvern veg viðgerðarþjónustan verði bætt, heldur sé bezt, að þeir aðilar, sem verði falin athugun þessa máls, ákveði það að Þeirri athugun lokinni. Þess vegna hefur allshn. einróma lagt til, að þáltill. yrði samþykkt með þeirri breyt., sem greinir á þskj. 243, sem sagt að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, hvernig bæta megi viðgerðarþjónustu í sambandi við fiskileitartæki síldveiðiflotans, þ. á m. verði athugaðir möguleikar á hreyfanlegri þjónustu.“

Þá hefur n. einnig lagt til, að fyrirsögn till. verði breytt í samræmi við þetta.