22.01.1964
Sameinað þing: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2320)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundason):

Herra forseti. Þann 25. júlí 1963 var undirritað af hálfu ríkisstj. Bretlands, Bandaríkjanna og Ráðstjórnarríkjanna samkomulag um takmarkað bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn. Samkomulag þetta hefur verið lagt fyrir löggjafarþing þeirra þriggja þjóða, sem voru upphaflega aðilar að samningnum, og hefur samkomulagið verið staðfest í öllum þremur löndunum. Samkomulagið gerði ráð fyrir því, að ríkisstj. annarra landa væri gefinn kostur á að gerast aðili samkomulagsins, og jafnframt voru öll ríki heims hvött til að gerast aðilar að samkomulaginu.

Ríkisstjórn Íslands taldi, að Íslandi bæri að láta í ljós samþykki sitt og áhuga fyrir þeirri stefnu og þeim sjónarmiðum, sem fram koma í samkomulaginu, sem þarna hafði verið gert. Jafnframt taldi ríkisstj. sjálfsagt að láta í ljós þann vilja sinn, að áfram yrði haldið á þeirri braut, sem í samkomulaginu fólst. Af þessum ástæðum ákvað ríkisstj. Íslands, að Ísland skyldi gerast aðili að þessu samkomulagi, og var samkomulagið undirritað af Íslands hálfu 12. ágúst 1963. Nauðsynlegt er að fullgilda þetta samkomulag hér á hv. Alþingi, og hefur það verið lagt hér fram og lagt til, að það verði fullgilt.

Leyfi ég mér að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til utanrmn.