22.01.1964
Sameinað þing: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2321)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það hefur margt verið sagt og skrifað um þennan svokallaða Moskvusáttmála seinustu mánuðina. Honum hefur verið tekið með miklum fögnuði af flestum þjóðum og stjórnmálamönnum, og það er vafalaust að bera í bakkafullan lækinn að bæta þar nokkru við. Ég get þó ekki látið hjá líða að minna á, að fáir Íslendingar munu fagna þessum sáttmála af jafnheilum hug og þeir menn á Íslandi, sem barizt hafa gegn vígbúnaði og erlendri hersetu. Ég vil einnig minna á, að samningur Þessi hefði aldrei verið gerður og stórveldin hefðu vafalaust haldið áfram sinni glæpsamlegu iðju með kjarnorkuvopn og haldið áfram að eitra andrúmsloftið, ef ekki hefði komið til langvarandi og sterk barátta friðarvina og andstæðinga kjarnorkuvopna, þ.e.a.s. hernámsandstæðinga, um heim allan. Þúsundir friðarvina hafa orðið að þola hnútukast og jafnvel ofsóknir yfirvalda fyrir baráttu sína gegn kjarnorkuvopnum, og það er rétt að minna á það núna, þegar samkomulag hefur tekizt, að um árabil hefur það verið argasti kommúnismi að berjast gegn þessum múgmorðstækjum. En barátta þessi hefur núna borið árangur, og ég vil minna á, að það er ekki fyrir starf stríðsæsingamanna, sem það hefur tekizt, heldur fyrir starf friðarvina. Þess vegna fagna þeir nú meir en aðrir menn.

Þessi staðreynd er vissulega þess verð, að hún gleymist ekki. En samt hef ég ekki staðið hér upp sérstaklega til að minnast á hana. Ég hef staðið hér upp til að minna á, að þetta er fyrsta skrefið á langri og torsóttri leið mannkynsins til fullkominnar afvopnunar. Ég vil minna á, að þegar þjóðir heimsins stíga þetta mikilvæga skref, hljóta þær um leið að hugleiða, hvert muni verða hið næsta skrefið. Þær hljóta að hugleiða, hvað þær geti lagt af mörkum í framhaldi af því, sem þegar hefur áunnizt, til friðarstarfsins í heiminum. Ég hef staðið hér upp til að minna á, um leið og við afgreiðum og fullgildum þennan sáttmála, að Þegar þessi samningur var undirritaður í Moskvu í júli s.l. sumar, beindi framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna, U Thant, þeirri áskorun til allra þjóða, að þær reyndu að koma upp kjarnorkulausum beltum sem víðast á jörðinni. U Thant lagði ekki aðeins á það áherzlu, að næsta skrefið í friðarátt ætti einmitt að vera þetta, heldur tók hann auk þess sérstaklega fram, að frumkvæðið að slíkum kjarnorkulausum svæðum í heiminum ætti að koma frá einstökum smáþjóðum. U Thant áleit ekki, að smáþjóðirnar ættu að bíða eftir því endalaust, að stórþjóðunum þóknaðist að semja um deilumál sín og semja um kjarnorkulaus belti, heldur skoraði hann á smáþjóðir eins og Íslendinga að taka einhliða ákvörðun ásamt nokkrum öðrum þjóðum, sem svipað væri ástatt um og ekki hefðu kjarnorkuvopn í landi sínu.

Ég álít, að framkvstj. Sameinuðu þjóðanna sé í slíkri stöðu á jörðinni, að við hljótum að virða orð hans að nokkru og eyða ofur litlum tíma til að hugleiða þau, sérstaklega þar sem svo stendur á, að Þessi áskorun hans er einmitt bundin við þennan samning um takmarkað bann við tilraunum með kjarnorkuvopn, sem hér liggur fyrir til umræðu. Ég þarf ekki að minna á það, að hugmyndin um kjarnorkulaus svæði hefur mjög verið á dagskrá víða í heiminum að undanförnu, og ég tel óþarft að fara um það mörgum orðum, hversu þýðingarmikið það er talið af flestum ábyrgum stjórnmálamönnum, að kjarnorkuvopnum verði ekki dreift meir en orðið er.

Sænski utanrrh., Unden, lagði til á þingi Sameinuðu þjóðanna fyrir tveimur árum, að undirbúinn yrði samningur með öllum þjóðum, sem þá höfðu ekki kjarnorkuvopn, og skyldu þær koma sér saman um, að svo yrði ekki heldur í framtíðinni. Var þetta nefnt á blaðamannamáli „klúbbur kjarnorkulausra þjóða“. Þessi till. var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hl., en hún komst samt ekki í framkvæmd og þá fyrst og fremst vegna andstöðu forusturíkja Atlantshafsbandalagsins. Fyrir nokkru gerðu Afríkuþjóðir þá samþykkt á fundi sínum í Addis Abeba, — en það voru þær þjóðir, sem hlutlausar eru í hernaði og óháðar í átökum stórveldanna, — að þær skyldu tilheyra sérstöku kjarnorkulausu svæði um alla framtíð. Svipuð meirihlutasamþykkt hefur verið gerð hjá Sameinuðu þjóðunum, og þess er væntanlega mjög skammt að bíða, að formlega verði gengið frá því með samningi allra þjóða Afríku, að Afríka verði fyrsta svæðið í veröldinni, þar sem kjarnorkuvopn fá ekki að vera. Hið sama gildir um Suður-Ameríku, þar sem talið er sennilegt, að bráðlega verði gengið frá því á þingi Sameinuðu þjóðanna, að Suður-Ameríka verði kjarnorkuvopnalaust svæði.

Í maímánuði s.l. lagði Kekkonen Finnlandsforseti fram þá hugmynd sína, að Norðurlöndin mynduðu kjarnorkulaust svæði. Það er af þessari hugmynd að segja, að sænska ríkisstj.

tók nokkuð vel í þessa hugmynd, enda þótt hvorki væri svarað neitandi né játandi, og Tage Erlander, forsrh. Svía, komst svo að orði, að þessi hugmynd væri mjög „interessant“. Afstaða dönsku og norsku ríkisstj. var aftur á móti öllu kuldalegri. Síðan þetta var, hefur Kekkonen Finnlandsforseti endurtekið þessa ósk sína hvað eftir annað. Þetta mál, hvort Norðurlönd skuli vera kjarnorkulaust svæði, er mál, sem nú er á dagskrá um öll Norðurlönd. Það er vitað, að þessi spurning mun verða á dagskrá Norðurlandaráðs, þegar það kemur saman í Stokkhóimi í miðjum febrúar n. k.

Nú vil ég leyfa mér að leggja fram þá spurningu, um leið og umr. um þann samning, sem hér liggur fyrir, fara fram, hver verði afstaða íslenzku ríkisstj. til þessarar hugmyndar Kekkonens Finnlandsforseta, en hann hefur fengið, eins og ég tók fram, mjög eindreginn stuðning U Thants framkvstj. Sameinuðu þjóðanna. Ég vil samt spyrja að því, vegna þess að það hefur enn ekki komið fram, hver verði afstaða íslenzku fulltrúanna á fundi Norðurlandaráðs, og einnig væri mjög ánægjulegt að heyra skoðanir annarra þeirra hv. þm., sem væntanlega munu sitja þennan fund. Ég vil minna á, enda þótt ekki sé fólgin í því nein sérstök illkvittni, að þegar kjarnorkusprengingar voru á dagskrá hér seinast á hv. Alþingi, fyrir um það bil 2 árum, neituðu núv. stjórnarflokkar að fordæma allar tilraunir með kjarnorkuvopn og létu sér nægja að fordæma þær tilraunir einar, sem Sovétríkin stóðu að. Einnig neituðu þessir sömu flokkar að samþykkja yfirlýsingu um, að aldrei skyldu verða kjarnorkuvopn á íslenzkri grund.

Það er áreiðanlega von meiri hl. íslenzku þjóðarinnar, að íslenzk utanríkisstefna sé stefna friðar og sátta, en ekki stefna stríðs og vígbúnaðar. Það er vafalaust, að þessi afstaða íslenzku ríkisstj. og stjórnarflokkanna fyrir tveimur árum varð íslenzku þjóðinni mikil vonbrigði, enda getur hún á engan hátt talizt í samræmi við stefnu friðar og sátta í heiminum. Það er vafalaust von meiri hl. íslenzku þjóðarinnar, að allar aðgerðir í utanríkismálum séu fyrst og fremst við það miðaðar, að þær geti orðið lóð á vogarskál friðarins.

Ég efast ekki um, að margir bera þá von í brjósti, að íslenzka ríkisstj, hafi breytt um stefnu í þessu máli og muni nú styðja afdráttarlaust þá hugmynd, sem fram hefur komið um kjarnorkulaust belti á Norðurlöndum. Hér reynir á friðarvilja íslenzku ríkisstj., og það er eðlilegt, að hv. Alþingi bíði eftir því með nokkurri forvitni að heyra svör hæstv. utanrrh. um þetta mikilsverða mál.