26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (2330)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil aðeins leggja hér orð í belg, þegar um það er rætt. hvort þessi brtt., sem hér liggur fyrir, eigi heima við afgreiðslu á þessari till. um staðfestingu á samningi um bann við kjarnorkuvopnatilraunum. Ég vil benda á það til viðbótar því, sem sagt hefur verið hér. að þegar þessi samningur var undirritaður í Moskvu í sumar, gerðist það einmitt, að U Thant, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, einn helzti valdamaður heimsins. hvatti til þess, að næsta skrefið á afvopnunarbrautinni yrði einmitt að koma upp kjarnorkuvopnalausum beltum sem víðast á jörðinni og að einstakar smáþjóðir reyndu að eiga frumkvæði að slíku. Þess vegna er það að mínu áliti heldur en ekki út í hött að segja, að þessi brtt. eigi ekki hér heima, því að ef við samþykktum þessa brtt., værum við ekki að gera annað en að verða við tilmælum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Hæstv. utanrrh. sagði hér áðan, að kjarnorkuvonn hefðu ekki verið hér á Íslandi, þau væru ekki hér á Íslandi og það hefði ekki verið farið fram á það, að þau yrðu staðsett hér. En hann vill ekki lýsa því yfir, að þau verði ekki hér í framtíðinni. Mér er spurn: Er þá í rauninni aðeins beðið eftir því, að farið verði fram á, að kjarnorkuvopn verði staðsett á Íslandi? Hver er hin raunverulega ástæða til þess, að ekki er hægt að gefa þessa yfirlýsingu, sem þó allir, sem hér hafa talað, virðast a.m.k. á yfirborðinu telja sig sammála?

Að lokum vil ég nefna það atriði, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, þar sem hann sagði, að ekki væri hægt að gefa slíka yfirlýsingu af hálfu þingsins, ekki væri hægt að binda þingið um alla framtíð. En hvað er verið að gera með samningnum, sem hér liggur fyrir til umr.? Er ekki verið að binda þingið og ríkisstj. eins og allar aðrar ríkisstj. og öll önnur þjóðþing i heiminum, sem hafa þegar samþykkt þennan samning? Erum við ekki að binda hendur okkar um alla framtíð? Og hvers vegna ættum við ekki að geta gefið slíka yfirlýsingu um þetta tiltekna atriði? Ef ekki er unnt að gefa slíka yfirlýsingu og binda hendur þingsins og ríkisstj., þá er í rauninni ekki hægt að gera neina alþjóðasamninga yfirleitt, og sér þá auðvitað hver maður, að þessi skilningur er alrangur.