11.12.1963
Sameinað þing: 25. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (2366)

62. mál, hefting sandfoks við Þorlákshöfn

Flm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér er til umr., er flutt af mér og tveim öðrum hv. þm. Sunnl. Till. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að auknar verði framkvæmdir til heftingar sandfoks og uppblásturs við Þorlákshöfn.“

Það landssvæði, sem þarna er um að ræða, nær frá Ölfusá, þar sem hún fellur um Ölfusið neðanvert til sjávar, og svæðið nær allt út að Selvogi. Þarna er um víðáttumikið land að ræða, sem um áratugi hefur verið í umsjá sandgræðslu ríkisins, afgirt og friðað fyrir ágangi búfjár. Ætla mætti því, að þarna væri orðið gróið land eftir svo langan friðunartíma, en því miður er ekki því að heilsa. Segja má, að þarna sé stöðugt sandfok, þegar vind hreyfir. Vegurinn til Þorlákshafnar liggur þvert fyrir sandfokinu í norðan- og austanáttum og er því oft og tíðum illfær yfirferðar, þar sem hann liggur lægst. Í Þorlákshöfn er nú ört vaxandi byggð og ýmsar stórframkvæmdir þar á döfinni, sem eðlilega skapast með bættum hafnarskilyrðum á staðnum. Fiskmóttaka og fiskverkun fer vaxandi ár frá ári, frysting, söltun og skreiðarverkun. Fyrir alla þessa starfsemi er sandurinn mesti skaðvaldur, sem nauðsynlegt er að útrýma. Hefting sandfoksins á Þessum stað er því mjög aðkallandi.

Eins og ég gat um, hefur sandgræðsla ríkisins full umráð yfir því landi öllu, sem þarna er um að ræða. Það má enginn snerta við neinu innan girðingar, nema leyfi sandgræðslustjóra komi til. Þessi skipan er ekki nýtilkomin, eins og ég gat um, heldur hefur hún gilt um tugi ára. Það er því ekki óeðlilegt, þótt fram komi sú spurning, hvort þarna verði ekki um bætt frá því, sem nú er, og þeirri spurningu beint til sandgræðslustjóra. Það skal fram tekið, að nokkuð hefur gróið upp á þessu svæði og þá helzt fyrstu árin, eftir að landið var friðað, en á síðari árum virðist gróðurinn hafa átt erfitt uppdráttar eða stöðvazt með öllu. Við flm. þessarar till. óskum eindregið eftir að fá úr því skorið, hvort þarna verði ekki um bætt, þannig að gróðurinn aukist og komið verði í veg fyrir sandfokið og uppblásturinn, og þá, hvað gera þurfi, til þess að sá árangur náist.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. um till. verði nú frestað og henni vísað til hv. allshn.