11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2380)

93. mál, efling skipasmíða

Hannibal Valdimarsson:

Herra forsati. Hér er til umr. till. um eflingu innlendra skipasmíða. Ég álít þessa till. þarfa og góða og kem ekki hér í ræðustól til þess að mæla gegn henni, heldur þvert á móti til þess að láta í ljós stuðning minn og fylgi við hana. Og ég fagna því, að nú virðist svo komið, að slík till. eigi nokkru fylgi að fagna á Alþingi. Svo hefur þó ekki verið á tveimur undanförnum þingum, því að ég hef tvívegis flutt till. um sama efni, till, um eflingu innlends skipasmíðaiðnaðar og þá alveg sérstaklega með tilliti til þess, að aðstoð væri veitt til, að stálskipasmíði gæti hafizt hér á landi, og þeir, sem slík skip kaupa, öðluðust möguleika til að kaupa skip af innlendum skipasmíðastöðvum ekki síður en útlendum. En á því hefur, eins og hv. flm. málsins vék hér að áðan, gróskan í íslenzkum skipasmíðaiðnaði strandað, að það hefur ekki fengizt fyrirgreiðsla fjárhagslega til að kaupa skip af íslenzkum skipasmíðastöðvum, eins og erlendar skipasmíðastöðvar hafa veitt þeim, sem hafa boðizt til að kaupa skip af þeim. Það er það, sem hefur stöðvað vöxt og viðgang íslenzks skipasmíðaiðnaðar, ekki hitt, að Íslendingar væru ekki færir um að smíða flest sin fiskiskip innanlands, ef fjárhagshliðin hefði fengizt leyst.

Smíði dráttarbátsins Magna fyrir Reykjavíkurborg eða Reykjavíkurhöfn, smíði varðskipsins Alberts, smíði allstórs fiskiskips, sem smíðað hefur verið hér í íslenzkri skipasmíðastöð, og smíði þeirra stálþá ta, sem smíðaðir hafa verið nú á árinu 1963, og smíði þeirra skipa, sem nú hafa verið lögð undir í íslenzkum skipasmíðastöðvum, sannar það, að íslenzkar skipasmíðastöðvar eru vel færar um að smíða járnskip, stálskip, sem henta Íslendingum og við þurfum til þess að endurnýja okkar fiskiskipaflota. Það er ekki á vankunnáttu, sem þetta hefur strandað. Íslenzk stálskipasmíði hefur verið í spennitreyju og ekki haft vaxtarskilyrði, af því að þeir, sem kaupa af þeim skipin, gátu ekki fengið sams konar lán til þess að kaupa skipin smíðuð hér eins og erlendar skipasmíðastöðvar buðu. Um þetta hef ég, eins og hv. flm. nú, rætt við forstjóra fiskveiðasjóðs, og hann hefur gefið þessar sömu upplýsingar, og það er sú hlið, sem enn þá er óleyst, og enn kann svo að fara, þó að þessi till. verði samþykkt á hv. Alþingi, að ef hæstv. ríkisstj. beitir sér ekki fyrir því að leysa þennan vanda, þá verður till. því miður að litlu gagni. Það er fjárhagshliðin, sem er óleyst, og ríkisvaldið hefur ekki sýnt áhuga á því til þessa að jafna þarna metin. Þegar menn geta fengið skipin erlendis með því að greiða upp andvirði þeirra á 7 árum og í einstaka tilfellum allt upp í 11 ár, hygg ég, þá er það mikill munur, og þetta hafa íslenzku skipasmíðastöðvarnar ekki getað boðið, því að þær hafa ekki fengið lán til þess að standa undir byggingarkostnaðinum og afla sér rekstrarfjár til þess að geta haldið starfseminni áfram.

Það er dálítið athyglisvert, að þeir, sem nú hafa undirbúið sig hvað bezt undir smíði íslenzkra stálskipa, hafa fært sig út úr Reykjavíkurborg og hafa sett sig niður hér við Arnarnesvog, þar sem í raun og veru engin sérstök aðstaða var önnur en kyrrlátur vogur, og þar byggja Þeir nú upp sín mannvirki, og það er einnig athyglisvert, að skipasmíðastöðvarnar í Noregi og Hollandi og þar sem þau skip, sem við höfum verið að kaupa, eru byggð, þar eru ósköp litlar stöðvar með mjög litlum tilfæringum út yfir það, sem alveg nauðsynlega útheimtist til þessarar smíði. Og það hefur sannfært mig um það, að sjá þessa aðstöðu, sem er fyrir hendi, þar sem okkar aðkeyptu skip frá útlöndum eru smíðuð, að það ætti að vera sjálfgefið, að Íslendingar kappkostuðu að smíða sín fiskiskip sjálfir, jafnt stálskipin sem tréskipin, og að þessum iðnaði yrði dreift nokkuð um landið, þ.e.a.s. að þar sem allmikil útgerð er og margir fiskiþá tar, í fiskiþorpunum okkar hinum stærri og útgerðarbæjunum, ætti að efla á allmörgum stöðum úti um landið skipasmíðastöð, af því að þar verður að tryggja, að þjónusta sé fyrir hendi fyrir flotann að fá viðgerðir, og viðgerðir og nýsmíði verða að haldast í hendur. Það er hárrétt, sem flm. hér sagði áðan, það er hárrétt, og meira að segja viðgerðum og viðhaldi fiskiskipaflotans er stefnt í háska, ef ekki verður hafizt handa um að skapa aðstöðu fyrir nýsmíði jafnframt, því að þá er fyrst skapaður möguleiki til þess, að skipasmíðir geti haft stöðuga atvinnu árið um kring. Sé ekki að neinu að halda sér nema ígripavinnu við viðgerð báta 1–2 mánuði í senn á ári, þá læra menn ekki skipasmíði og haldast ekki við sem skipasmíðir á stöðunum, þar sem flotinn er þó fyrir hendi og þarf að eiga öruggt viðhald, og þá er stefnt í voða.

Ég tel það gott, að Alþingi samþykki till. sem þessa og færi hæstv. ríkisstj. þannig verkefnið í fang að leysa fjárhagshlið málsins, en án þess að hún verði leyst, þannig að kaupendur fiskiskipa eigi völ á nokkurn veginn sams konar kjörum og hjá norskri eða hollenzkri skipasmíðastöð, færist fiskiskipasmíðin ekki inn í landið. Ég tel sem sé gott, að hæstv. ríkisstj. fái þetta verkefni í hendur, og þetta verkefni verður að leysa. Það er til stórkostlegs vansa fyrir íslenzku þjóðina sem fiskveiðiþjóð að sækja meginþorra sinna fiskiskipa til annarra landa og stofnar í raun og veru möguleikum til viðhalds okkar flota í háska og óvissu. Það er það, sem er óviðunandi hjá okkur, það er, hve lítið er smíðað innanlands af okkar fiskiskipum og hve mikill hluti af þeirri viðbót, sem við þurfum til endurnýjunar ár hvert, er smíðaður erlendis algerlega að óþörfu, því að þessu verkefni orka okkar iðnaðarmenn, og iðnaðurinn er þess konar, að hann væri mjög vel til þess fallinn að vera undirstöðuiðngrein í okkar stærri fiskiþorpum og fiskibæjunum.

Ég held, að þetta sé ágætt, þegar við stjórnarandstöðuþm. erum búnir að flytja till. um góð mál hér á Alþingi tvisvar til þrisvar sinnum fyrir daufum eyrum og fá þær lagðar í glatkistu nefnda á þinginu, þá flytjum við þær ekki í von um það, að stjórnarstuðningsþm. taki þær annaðhvort orðrétt eða efnislega og flytji þær og komi þeim á framfæri, og í þessu tilfelli er ég þakklátur hv. 11. landsk. þm. fyrir að hafa þannig bjargað í land þeirri till., sem ég er búinn að sjá hér tvisvar sinnum svæfða.