11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2381)

93. mál, efling skipasmíða

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., en út af ummælum, sem féllu hér áðan, þykir mér rétt að taka það fram, að auðvitað kemur mér ekki til hugar og sjálfsagt engum, að hér eigi eftirleiðis eingöngu að smíða stór skip til síldveiða á hafi úti. Ég nefndi þetta aðeins um stærri skipin til þess að skýra það mál, sem raunar fleiri hafa gert, hvernig á því stendur, að nú síðustu árin hafa einkum verið flutt inn stór skip og fiskiskipin farið stækkandi. Hitt er svo auðvitað mál, að það þarf að smíða mikið af öðrum skipum. Það þarf að smíða 50-60 tonna skip og ekki aðeins það, heldur Þarf að smíða hér mikið af smærri þá tum, og það væri æskilegt að mega vona það, að einmitt útgerð smærri þá tanna fari mjög vaxandi í þessu landi, jafnhliða því sem friðun fiskimiðanna eykst. Við þurfum að sjálfsögðu að hafa víðsvegar um land smærri skipasmíðastöðvar, sem smíða bæði hina venjulegu vertíðarþá tastærð af skipum, eins og tíðkast hér á vetrarvertíð, og svo einnig hina smærri þilfarsbáta og opna vélþá ta, og einmitt þessir minni þilfarsbátar og opnir vélbátar eru og munu verða fyrst um sinn ein aðalundirstaða landsbyggðarinnar.

Í sambandi við vaxandi smíði stórra fiskibáta hér á landi, hvort sem um er að ræða tréskip eða stálskip, og þó einkum stálskip, skiptir það auðvitað mjög miklu máli, að verðið verði sambærilegt við það verð, sem hægt er að fá erlendis á þessum skipum. Og þegar ég talaði hér áðan um byrjunarerfiðleika, sem þyrfti að yfirvinna í þessum efnum, átti ég ekki sízt við það. Ég vil nefna það í þessu sambandi, af því að farið er að tala svona almennt um þessi mál, að fyrir 1—2 árum átti ég tal við allmarga skipasmíði og forstöðumenn skipasmiðja á Akureyri um skipasmíðina þar, sem hefur verið vaxandi, og um framtíð skipasmíða og möguleika fyrir vexti skipasmíða þar sérstaklega og hér á landi almennt. Ég man eftir því, að í þessum viðræðum kom það fram hjá sumum þeirra, sem þarna áttu hlut að máli, og það gæti verið fróðlegt að íhuga það í sambandi við það, sem hér er talað um viðgerðirnar í sambandi við skipasmíðar, að þeir töldu, þessir menn, að til þess að hægt væri að framleiða stór fiskiskip, með sem minnstum kostnaði eða á sem lægstu verði, þyrftu skipasmíðar að vera algerlega aðgreindar frá viðgerðum, og þeir færðu fyrir þessu ýmis rök, sem mér þóttu athyglisverð, að þetta þyrfti að vera svona. Ég ætla ekki að fara að telja fram þau rök hér, enda er ég ekki það fróður á þessu sviði, að ég sé fær um að gera það. En þeir héldu þessu sem sé fram, þessir menn, að til þess að framleiða verulega ódýr skip, til þess að koma framleiðslukostnaði skipanna niður, ættu skipasmíðastöðvar, sem smíðuðu slík skip og ætluðu að framleiða þau á sem lægstu verði, helzt ekki annað að gera en eingöngu að smíða skip. Hitt er svo auðvitað vandamál, eins og ræðumenn hafa bent hér á, hvernig á að halda uppi hér starfsemi viðgerðarstöðvanna, sem inna náttúrlega af hendi mjög mikilsverð og óhjákvæmileg störf við viðgerð fiskiflotans, hvernig á að halda starfsemi þeirra gangandi, þegar, eins og ástatt er, viðgerðir skipa fara einkum fram á vissum árstímum, þannig að vinnan hlýtur að vera misjöfn. En í sambandi við þetta mál og eflingu skipasmíðaiðnaðar hér innanlands þarf áreiðanlega að taka til gaumgæfilegrar athugunar viðfangsefni af þessu tagi annars vegar, hver aðferðin sé til þess að framleiða sem ódýrust skip, og hins vegar, á hvern hátt viðgerðirnar verði tryggðar. Þetta vildi ég nú minnast á í sambandi við þær umr., sem hér hafa faríð fram, og til íhugunar fyrir þá, sem við þessi mál fást í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir, og yfirleitt.