31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (2388)

94. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við ræðu hv. 1. flm. að bæta, stóð nánast upp til þess að taka undir Þær óskir hans, að þessi till. okkar og hv. 5. þm. Vesturl. fái greiða og jákvæða afgreiðslu hér í þinginu.

Við erum víst öll sammála um, að það fer ekki allt sem skyldi í þjóðlífi okkar Íslendinga og þar er við margs konar vanda að glíma, svo sem glögglega hefur komið fram í miklum umr. hér á Alþingi nú undanfarna daga. Því verður hins vegar ekki neitað, að þrátt fyrir sífellda örðugleika, sem við hefur verið að fást í efnahagslífi okkar á undanförnum árum og raunar áratugum, ríkir mikil velmegun í landinu, þegar á heildina er litið. Atvinna hefur verið mikil yfirleitt og jafnvel meiri en hægt hefur verið að sinna, og það hlýtur vissulega að vera okkur öllum svo sem allri þjóðinni hið mesta fagnaðarefni, að við höfum ekki átt að stríða við atvinnuleysi og allar þær illu afleiðingar, sem það hefur í för með sér. En því miður er í þessum efnum ekki hægt að segja nákvæmlega sömu sögu úr öllum byggðarlögum eða öllum landshlutum. í því kjördæmi, sem ég og hv. 1. flm. erum umboðsmenn fyrir hér á þingi, hefur ríkt, sérstaklega á s.l. ári og raunar lengur, annað og verra ástand í atvinnulífi en víðast hvar annars staðar á landinu, og því miður er ekki hægt að segja, að á þessari stundu sé bjart fram undan hvað atvinnuhorfur snertir í þessum landshluta, og þá auðvitað fyrst og fremst í kaupstöðum og kauptúnum.

Fólkið, sem þessi sveitarfélög byggir, hefur að verulegu leyti, eins og annars staðar er víða gert við sjávarsíðuna, byggt afkomu sína á þeim afla, sem úr sjó hefur fengizt, og þeirri vinnu, sem vinnsla sjávaraflans hefur skapað. Þegar Það svo gerist, sem gerzt hefur á vestanverðu Norðurlandi, að sjávaraflinn bregzt, hlýtur það óhjákvæmilega að leiða til þess, að verulegt atvinnuleysi haldi innreið sína og fólkið neyðist til þess annaðhvort að leita sér atvinnu fjarri heimahögum sínum sér til mikilla óþæginda og kostnaðarauka eða þá hitt, að Það yfirgefur heimabyggðir sínar, flytur Þangað sem atvinnuöryggi er meira og lífsafkoma tryggari, en verður um leið að ganga frá eignum sínum án þess í mörgum tilfeilum að fá fyrir þær það verð, sem það hefur í þær lagt og það þarf að fá fyrir þær. Við, sem byggjum þennan landshluta, eigum þá gt með að sætta okkur við þá hugsun, að við, sem þarna erum, þurfum að búa við önnur og lakari atvinnuskilyrði og verri afkomu en fólk í öðrum landshlutum, og er þó siður en svo, að velgengni annarra sé okkur nokkurt öfundarefni. Og við trúum því, að þetta þurfi ekki svona til að ganga, ef bæði heimamenn sameinast um úrbætur og fá til þess nauðsynlegan stuðning hins opinbera.

Eins og hv. flm. benti réttilega á og við þekkjum öll, hefur þessi landshluti, Norðurlandskjördæmi vestra, vissulega upp á að bjóða fjölmörg skilyrði til góðrar lífsafkomu fólksins, sem þar býr. Þar eru einhver okkar frjósömustu og blómlegustu landbúnaðarhéruð með ótæmandi möguleikum til aukinnar ræktunar og framleiðslu. Þar er eitt mesta jarðhitasvæði á landi okkar, sem er Skagafjörður. Þar eru skilyrði til aukinnar raforku, en það er að sjálfsögðu ein meginforsenda fyrir Því, að hægt verði að byggja upp verulegan iðnað í þessum landshluta, að raforkan verði aukin. Hún rétt nægir okkur, eins og er, og helming þeirrar orku, sem við notum nú, fáum við frá dísilstöðvum. Meginundirstaðan fyrir því, að iðnaði sé hægt að koma upp þarna, verður það að auka raforkuna, hvort heldur það verður gert með því að reisa ný raforkumannvirki heima fyrir eða leiða þangað rafmagn frá væntanlegri stórvirkjun.

Við vitum, að aflaleysi er tímabundið, og þótt hin gjöfulu síldveiðisvæði fyrir Norðvesturlandi hafi brugðizt um skeið, þarf ekki svo ávallt að verða. En reynslan hefur kennt okkur að skilja, hversu mikið öryggisleysi býr í einhæfu atvinnulífi. Og till. okkar þremenninganna miðar einmitt að því að leita eftir leiðum til þess að efla atvinnu og ekki sízt til þess að auka fjölbreytni í atvinnuháttum á þeim stöðum í landinu, þar sem atvinna er ónóg, ekki aðeins í kjördæmi mínu, þótt mér af skiljanlegum ástæðum sé hugstæðast atvinnuástandið þar, þegar ég ræði þessi mál, heldur hvarvetna í landinu, þar sem þörf er á umbótum í þessum efnum og þar sem skilyrði eru fyrir hendi, til þess að fólkið geti notið góðra lífskjara. Ég tel því þessa till. mjög athyglisverða og hér sé um aðkallandi málefni að ræða. Þess vegna er það, að ég treysti því, að hið háa Alþingi taki þetta mál til rækilegrar athugunar og afgreiði það þannig, að til nytja megi verða fyrir fólkið í landinu.