31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (2389)

94. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða, að það séu ekki eingöngu þingmenn úr Norðurlandskjördæmi vestra, sem taka til máls um þá till., sem hér er um að ræða og hér liggur fyrir á þskj. 107, því að það er eins og hv. 1. flm. málsins sagði hér áðan, að þó að sá landshluti, Norðurlandskjördæmi vestra, sé táknrænn fyrir þá byggð, þar sem sérstök þörf virðist vera fyrir iðnað, eru slíkar byggðir fleiri hér á landi. Þetta er sem sé, eins og hann líka gerði grein fyrir í sinni ýtarlegu og fróðlegu ræðu hér áðan, landsmál, en ekki mál neins einstaks landshluta.

Í þessari till., sem hér liggur fyrir á þskj. 107, er lagt til, að Alþingi feli 5 manna nefnd að framkvæma athugun og gera till. og gefa upplýsingar samkv. því, sem nánar er tiltekið í fjórum töluliðum, sem þar fara á eftir, í fyrsta lagi er gert ráð fyrir athugun á því, hvar mest sé þörf fyrir aukinn iðnað vegna ónógrar atvinnu, í öðru lagi athugun á því, hvaða iðngreinar sé hagkvæmast að starfrækja á hverjum stað, í þriðja lagi að gera till. um, á hvern hátt eigi að útvega fjármagn, svo að hægt sé að starfrækja iðnfyrirtækin, og í fjórða lagi að gefa upplýsingar um þá faglegu þekkingu, sem nauðsynleg er til þess, að hægt sé að starfrækja þau iðnfyrirtæki, sem nefndin, Þ.e.a.s. sú nefnd, sem þarna er lagt til að skipuð verði, leggur til að stofna.

Ég ætla, að hér sé hreyft þarflegu máli, sem ástæða sé til að gefa gaum hér á hinu háa Alþingi. Ég tók ekki eftir því, hvort hv. flm. lagði til, að málið yrði athugað í einhverri nefnd, en að sjálfsögðu verður það gert. Eigi að síður vil ég minnast á örfá atriði, áður en málið fer til nefndar.

Ég hygg, að af þeim 4 töluliðum, sem taldir eru upp i þáltill., skipti 3. töluliðurinn mestu máli, þ.e.a.s. að gerðar verði till. um, á hvern hátt eigi að útvega fjármagn, svo að hægt sé að starfrækja iðnaðarfyrirtækin. Eins og hv. frummælandi tók fram, er það víða svo, þar sem menn hafa viljað stofna til iðnrekstrar, að þá hafa þeir ekki getað það vegna skorts á fjármagni eða þá að það, sem framkvæmt hefur verið, hefur vegna fjármagnsskorts orðið minna í sniðum en það ella hefði þurft að vera, til þess að reksturinn verði hagkvæmur. Það er sérstaklega ein tegund iðnaðarfyrirtækja, sem ég vildi leyfa mér að benda á í þessu sambandi, og það eru vélaverkstæði. Fyrir nokkru voru vélaverkstæði, sem gera við bátavélar og bifreiðar og landbúnaðarvélar, ekki nema tiltölulega fá hér í landinu. Síðan hefur þeim verið að smáfjölga, þeim er verið að koma upp víðar og víðar á landinu, enda er það svo, að með aukinni bifreiða- og vélanotkun um land allt er þörfin eiginlega alls staðar ákaflega brýn á þessum verkstæðum eða viðgerðarstöðvum. Slíkar viðgerðarstöðvar eða verkstæði þurfa að verða til í hverju einasta þorpi á landinu eða a.m.k. í flestum þorpum í landinu, því að það er gífurlegt óhagræði að því fyrir eigendur bifreiða og véla að þurfa að fara með Þær langar leiðir eða senda með skipum eða á landi langar leiðir á verkstæði annars staðar til viðgerðar, auk þess sem þá þarf oft og tíðum að bíða lengi — til stórtjóns — eftir því, að viðgerðirnar verði framkvæmdar. Og þetta hygg ég, að sé eitt af því, sem er mest aðkallandi, eins og sakir standa, að stuðla að því með fjármagni, að á þeim stöðum, sem hafa ófullnægjandi uppbyggingu þessara verkstæða, sé hægt að gera þessi verkstæði betur úr garði en þau eru nú gerð og skapa þeim meiri möguleika. Ég nefni þetta að

eins sem dæmi um iðnað, sem á sér mjög víða grundvöll og víða eru verkefni fyrir, en ekki hefur náð eðlilegum þroska vegna skorts á fjármagni. Hins vegar er það suðvitað þannig, að það þarf, eins og í till. er gert ráð fyrir, að fara fram athugun á því varðandi aðrar hugsanlegar iðngreinar, á hvaða stað hver iðngrein kann að vera bezt sett eða hvaða iðngreinar henta þeim stað, sem um er að ræða í hvert sinn, því að þar á ekki alls staðar við hið sama, þótt segja megi, að .að sé í sjálfu sér mjög víða, af því að aðstæðurnar í þorpum hér á landi eru á margan hátt mjög svipaðar. Ég hygg, að af þeim þorpum og kaupstöðum, sem nú eru hér á landi, sem ég man nú ekki nákvæmlega í svipinn, hve mörg eru, svo að ég þori að nefna það, séu um 60, sem byggjast á sjávarútvegi. Ég held, að í útflutningsskýrslunum, sem nýlega eru komnar út í Hagtíðindum, sé útfluttur fiskafli talinn á 60 stöðum á landinu, og það er auðsætt, að á öllum þessum stöðum er það náttúrlega tvennt, sem fyrst og fremst verður að leggja áherzlu á, það gefur auga leið, þ.e. að efla útgerðina eftir föngum og að efla sjávarvöruvinnsluna, gera hana sem bezt úr garði. Það er sú tegund iðnaðar, sem þar liggur beinast við að efla. Svo eru aftur aðrir staðir, eins og þeir, sem hv. frummælandi nefndi hér áðan, staðir eins og Blönduós. Blönduós hefur verið nokkuð vaxandi staður að undanförnu, mun hafa nú um 500 íbúa og kannske rúmlega Það, en þar er engin útgerð. Þessi vöxtur íbúafjöldans á Blönduósi um síðustu áratugi byggist að nokkru leyti á landbúnaði. Það er töluvert um landbúnað Þar, og þótt merkilegt sé allmikil hrossaeign, ef ég man rétt, en atvinnulífið byggist líka að verulegu leyti á viðskiptum við sveitirnar og svo að öðru leyti á iðnaði og samgöngum. Mjög margir menn á þessum stað hafa atvinnu sem bifreiðastjórar á flutninga- og fólksbifreiðum, og það er líka tiltölulega margt, að ég ætla, af íbúum þessa staðar, sem vinnur við vega- og brúargerð yfir sumarið, það vill nú þannig til. Eins er um Hvammstanga, þar er ekki teljandi útgerð, eins og sakir standa, þótt hafnarskilyrði séu þar allgóð frá náttúrunnar hendi. Þá eru staðir eins og Vík í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu. Þar í Vestur-Skaftafellssýslu er engin útgerð talin nú, þótt menn stunduðu þar veiðar fyrrum á róðrarþá tum, og þess vegna gefur það auga leið, að það þyrfti að efla iðnað í því þorpi og í fleiri þorpum, sem upp kynnu að koma þar eystra. Sama er að segja um Rangárvallasýslu, þar er heldur enginn útgerðarstaður, svo að dæmi séu nefnd. En ég ætla nú ekki að fara að bollaleggja um mörg atriði í þessu sambandi, en ég vil nefna það aftur, að ég tel, að af þeim atriðum, sem hér eru talin upp í till., skipti 3. töluliðurinn mestu, þ.e.a.s. að gera till. um, á hvern hátt eigi að útvega fjármagn til að starfrækja iðnfyrirtækin. Og það er þar, sem hnífurinn stendur í kúnni, að fá fjármagnið til uppbyggingar atvinnulífsins á landsbyggðinni, — það er þar, sem hnífurinn stendur í kúnni og þar sem að mínum dómi og okkar margra hefur verið of lítið að gert. Menn hafa ekki sinnt nægilega þeirri aðvörun, sem hinir miklu fólksflutningar undanfarandi ára hafa gefið stjórnendum þessa lands.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að á öndverðu þessu þingi fluttum við 6 þm. hér í hv. d. frv. til l. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þetta er 23. mál á þessu þingi, og má af því marka, að það er búið að liggja nokkuð lengi fyrir þinginu. Ég man ekki gerla, hvenær þetta mál var tekið til 1. umr., en langt er nú síðan liðið. Því var vísað til hv. fjhn. þessarar d. og hefur ekki komið þaðan enn. (Forseti: Hv, þm. er staddur í Sþ.) Já, ég bið afsökunar, við tölum nú svo oft í Nd., því var vísað til hv. fjhn. í Nd. Alþingis og hefur ekki komið þaðan enn. En á hessum fundi er meiri hlutinn úr þeirri hv. d., og ef það kemst gegnum hana, þá væntanlega fær hinn hlutinn það einnig til meðferðar í Ed., og ég vildi nota tækifærið til þess að minna á þetta mál og nauðsynina á því, að þingið fari að snúa sér að því að sinna þessu máli og afgreiða það.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að sett verði á stofn eða komið verði upp fastri stofnun á vegum Þjóðfélagsins, sem hafi það verkefni með höndum að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með rannsóknarstörfum, áætlunargerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í landshlutum, þar sem bein hlutfallsleg fólksfækkun hefur átt sér stað undanfarið eða er talin yfirvofandi. Og í frv. er enn fremur gert ráð fyrir sérstakri tekjuöflun árlega til þessarar starfsemi. Það er gert ráð fyrir, að sjóðurinn fái til starfsemi sinnar tiltekinn hluta af ríkistekjunum ár hvert, 11/2%, sem er þannig sett í frv. til þess að koma í veg fyrir, að tekjur þessarar stofnunar og þar með framkvæmdamöguleikar hennar rýrni með vexti dýrtíðarinnar. Ég hygg, að það eitt verði að fullu gagni í þessu máli að koma upp slíkri stofnun, sem ekki aðeins starfar nokkra mánuði eða eitt ár og skilar svo till. til ríkisstj. og Alþingis, heldur hefur líka með framkvæmdir að gera og hefur fjármagn til þeirra í samræmi við þær till. og áætlanir, sem um er að ræða. Ég segi þetta ekki til að kasta neinni rýrð á þessa till., sem hér liggur fyrir, eða það, sem hv. flm. hafa verið að mæla hér fyrir henni, því að hún út af fyrir sig er merkilegt mál, en tekur aðeins til hluta af því viðfangsefni að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Hv. flm. þessaxar till., sem hér töluðu, annar eða kannske báðir drápu á það, sem líka er vikið að í 4. tölulið till., að til uppbyggingar iðnaði í bæjum og þorpum landsbyggðarinnar þurfi sérþekkingu. Það er alveg rétt. Til þess að byggja upp slíka starfsemi þarf sérþekkingu, verklega þekkingu og stundum jafnvel verkfræðiþekkingu líka. Og í því sambandi vil ég vekja athygli á því, að sums staðar er svo ástatt á þessum stöðum, að þó að tilraunir séu gerðar til þess að útvega slíka menn, iðnaðarmenn eða aðra sérfróða menn, til að standa fyrir svona fyrirtækjum, t.d. verkstæðum, þá strandar það sums staðar á því, að þar skortir húsnæði fyrir þessa menn, til þess að þeir geti flutt sig á þessa staði. Sveitarfélögin eða fyrirtækin, sem menn vilja stofna, hafa ekki umráð yfir slíku húsnæði, sem þau geti boðið nauðsynlegum starfsmönnum. Þess vegna er það eitt af því, sem taka þarf til meðferðar í sambandi við þetta mál og önnur jafnvægismál, að sjá um, að alltaf sé til íbúðarhúsnæði fyrir sérfróða menn, sem vilja standa fyrir einhverri uppbyggingu í þessum landshlutum.

Ég hef veitt því athygli í nýútkomnu norsku blaði, sem einhver benti mér á hér um daginn, — það er eitt af stórblöðum Noregs, Aftenposten, ef ég man rétt, — þar er verið að segja frá greinargerð, sem ríkisstj. hefur nýlega lagt fyrir Stórþingið norska um framkvæmd þess, sem kalla mætti jafnvægismál þeirra Norðmanna. En Norðmenn hófu fyrir nær hálfum öðrum áratug að setja löggjöf, sem varð upphaf að starfsemi þeirra á þessu sviði, og á ég þar við hina svokölluðu Norður-Noregsáætlun. Nú fyrir fáum árum, eftir að Norður-Noregsáætluninni var lokið, hefur þessi löggjöf verið færð út á víðari grundvöll og nær ekki aðeins til Norður-Noregs, heldur yfirleitt til þeirra landshluta í Noregi, þar sem hættan á brottflutningi fólks er talin mest og hefur sýnt sig að er mest. Og ég tók eftir því, og þess vegna nefni ég það í þessu sambandi, að eitt af því, sem norska stjórnin gerir nú ráð fyrir sem jafnvægisráðstöfun í Noregi, er að koma upp húsnæði á ýmsum stöðum á landsbyggðinni fyrir faglærða menn og sérfróða. Og einmitt í þessu frv., sem er búið að liggja fyrir þinginu í eina 2—3 mánuði eða fyrir hv. Nd., svo að ég nefni það rétt, í 2—3 mánuði eða vel það, er einmitt ákvæði, sem að þessu lúta og ég nota nú tækifærið til að minna á, um leið og ég nota tækifærið til að minna á þetta stórmál í heild, sem enn þá hefur ekki hlotið neina afgreiðslu á þessu þingi.