31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (2390)

94. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þessari till. og stuðningi mínum við málið. Ég vil jafnframt láta þess getið, að mál af þessu tagi er ekki alveg nýtt hér, þetta er ekki í fyrsta sinn, sem till. af svipuðu tagi er borin fram hér, því að fyrir 2 árum, — það var á þinginu 1961—62, — var lögð hér fram till. sama efnis af okkur þremur þm. úr Suðurlandskjördæmi, Bergþóri Finnbogasyni, Birni Fr. Björnssyni og mér. Sú till. var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 5 manna nefnd í sameinuðu þingi til þess að rannsaka og gera till. um, á hvern hátt ríkisvaldið getur bezt stuðlað að auknum, hagkvæmum iðnaði i kauptúnum og þorpum, sem byggja ekki afkomu sína á sjávarútvegi. N. skal skila áliti og leggja till. sínar fyrir næsta reglulegt Alþingi. Allur nefndarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.“

Þannig hljóðaði sú till., en hún hlaut ekki afgreiðslu hér á hv. Alþingi.

Ég álít, að þetta mál, sem hér er til meðferðar, sé eitt af þýðingarmestu málefnum dreifbýlisins og landsbyggðarinnar í heild. Það er víða, sem hafa vaxið upp þorp, sem þannig er háttað til í, að þar er næg og góð atvinna nokkurn tíma ársins, en svo koma önnur tímabil, þar sem lítið eða ekkert er að gera. Á þessum stöðum er vitanlega mikil nauðsyn á því, að komið verði upp einhverri þeirri starfsemi, sem tryggi það, að fólkið geti haft næga atvinnu árið um kring. Og mjög víða verða mikil vandamál með æskuna, hvað hún eigi að starfa þann tímann, sem hún er ekki í skólum. Ég veit, að t.d. á Suðurlandi er það þannig í sumum þorpum þar, að þetta er að verða vandamál, t.d. á Selfossi, sem er nú að verða um 2000 manna þorp. Í Suðurlandskjördæmi eru mörg þorp. Ég ætla að telja þau upp. Það er Þorlákshöfn, Hveragerði, Selfoss, Eyrarbakki, Stokkseyri, Hella, Hvolsvöllur, Vík, þarna eru 8 þorp, og mörg þessara þorpa mundu hafa þörf fyrir að fá einhverja iðngrein til þess að veita atvinnu, a.m.k. einhvern tíma ársins, því fólki, sem þá hefur ekki öðrum störfum að sinna. Ég tel þess vegna, að það sé mjög þýðingarmikið atriði, að nú sé hafizt handa um það, eins og till. gerir ráð fyrir, sem hér liggur fyrir, nú sé hafizt handa um það að rannsaka, á hvern hátt megi bæta úr þessu ástandi víðs vegar um landið. En þá vil ég einmitt taka það fram, og til þess stóð ég nú fyrst og fremst upp, — taka það fram, að þessi mál þarf að skipuleggja vel. Ég var nýlega að líta í bók, sem segir frá því, hvernig ýmsir bæir og borgir mynduðust í Bandaríkjunum á þeim tíma, þegar mest landnámið var þar. Og sumir bæirnir og borgirnar þar í landi mynduðust þannig, að fólk, sem hafði setzt að á einhverjum vissum stað til búsetu, tók upp á því til þess að hafa eitthvað fyrir stafni að vinna ýmsa hluti á mjög frumstæðan hátt þá, sem síðan hefur orðið í þessum stöðum að stóriðnaði og stórbæir hafa vaxið upp i kringum þennan iðnað. T.d. á einum stað fóru íbúarnir í einhverju smáþorpi að sauma skyrtuflibba, og síðan hefur það farið þannig, að þessi staður framleiðir næstum alla eða alla þá skyrtuflibba, sem Bandaríkjamenn þurfa að nota. Á öðrum stað t.d. tóku íbúarnir upp á því, einhverjir fáeinir borgarar, sem höfðu setzt að á einhverjum vissum stað, að sauma hanzka, og síðan hefur vaxið þar upp bær, sem sér þessu stóra ríki fyrir mestöllum þeim hönzkum, sem íbúarnir þurfa. Við þurfum einhvern veginn svona að byggja upp iðnaðinn í okkar landi, smáiðnaðinn. Við eigum ekki að setja upp sams konar iðnað í hverju þorpinu við annað, heldur eigum við að reyna að skipta þessu þannig, að eitt þorpið hefur þessa grein iðnaðar, annað þorpið hina o.s.frv., því að í okkar litla landi, sem ekki þarf að gera ráð fyrir að verði mikill útflytjandi iðnaðarvara á næstunni, megum við ekki sóa fjármunum í það að setja upp verksmiðjur og koma upp iðnaði í sömu iðngreininni á mörgum stöðum, því að það eru líkur til, að mjög lítið þorp geti framleitt og fullnægt þjóðinni um ýmsan smávarning, sem þar væri hægt að framleiða.

Þetta vildi ég leggja áherzlu á, ef úr því yrði, sem ég vona fastlega, að þessi till. yrði samþ. og ríkisstj. skipaði nefnd til þess að rannsaka þetta mál, að sú nefnd einmitt sérstaklega hefði þetta sjónarmið i huga, þegar hún færi að rannsaka þetta mál.