11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2393)

94. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til meðferðar till. til þál. um athugun á auknum iðnrekstri í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem ónóg er atvinna. Við sendum till. þessa til umsagnar til Sambands ísl. sveitarfélaga, Efnahagsstofnunarinnar og Landssambands iðnaðarmanna og óskuðum eftir því, að umsagnir frá þessum aðilum bærust n. fljótlega. En þegar við tókum till. til afgreiðslu nú fyrir nokkrum dögum í fjvn., höfðu þessar umsagnir ekki borizt, og við sáum þá ekki ástæðu til þess að bíða eftir þeim og afgreiddum málið, og er fjvn. sammála um að mæla með samþykkt till., þó með þeirri breytingu, að upphaf hennar orðist svo, eins og segir í nái. á þskj. 361:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa 5 manna nefnd til þess að athuga, hvað hægt sé að gera til þess að auka iðnað í þeim kauptúnum og kaupstöðum, þar sem ónóg er atvinna. Störf n, skulu vera” o.s.frv. eins og stendur í till. upphaflega.

Eins og sést af þessu, er breytingin í því fólgin, að ríkisstj. er falið að skipa þá nefnd, sem till. gerir ráð fyrir að verði sett á laggirnar til þess að vinna að þeim verkefnum, sem tillgr. telur upp, en í till. upphaflega var lagt til, að þrír nm. yrðu skipaðir af ríkisstj., en tveir kjörnir af Alþingi. Ég segi fyrir mig, sem er einn af flm. þessarar till., að ég er ásáttur um þessa breyt., enda stóð ég að henni ásamt öðrum hv. fjvn: mönnum, því að ég vænti þess fastlega, að hæstv. iðnmrh., sem ég hygg að komi til með að skipa þessa nefnd, geri það þannig, að sem mestur einhugur verði um það starf, sem n. er ætlað að vinna, og að beztur árangur náist af störfum hennar fyrir þau byggðarlög, sem búa við ónóga atvinnu og búa við öryggisleysi í atvinnulífi sínu.

Því miður er það svo, þó að atvinna hafi verið mikil í landi okkar á undanförnum árum, þá eru þó nokkur byggðarlög i landinu, sem hafa átt, ég vil segja: við atvinnuleysi að búa síðustu missirin, og þarf ég ekki að lýsa því neitt, það hefur verið gert hér áður, bæði þegar þessi till. var flutt hér á sínum tíma og eins i sambandi við aðra þáltill., sem hefur verið flutt í þinginu, og við væntum þess, flm. og fjvn: menn, að skipun þessarar n. verði hraðað, svo að hún geti farið sem fyrst að sinna þeim verkefnum, sem brýn nauðsyn er á að verði unnin.

Ég sé ekki neina ástæðu til þess að fara að halda langa ræðu um þetta mál nú. Hv. 1. flm., 5. þm. Norðurl. v., flutti ýtarlega ræðu um málið hér við fyrri umr., og ég tók þá undir mál hans, og ef ég færi að segja eitthvað frekar um það nú, þá yrðu það endurtekningar, sem ég sé ekki ástæðu til að fara að þylja hér nú. Ég vænti þess, að hv. Alþingi geti fallizt á að samþykkja till. og þá brtt., sem fjvn. flytur.