11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2394)

94. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fjvn. fyrir afgreiðslu á þessari till. Þeir hafa raunar breytt henni ofur lítið; þannig að þessi n. verði alveg stjórnskipuð, en ég get fyrir mitt leyti fallizt á það. Aðalatriðið er, að n. verði skipuð, og ég treysti ríkisstj. til þess að skipa hana þannig, að sem mest gagn verði að henni. Fyrir mér vakti a.m.k. það viðvíkjandi því, að þingið kysi tvo menn, að þeir væru fulltrúar fólksins, en hinir hefðu aftur faglega þekkingu, sem ríkisstj. skipaði. En þó að ríkisstj. skipi alla, er ekki ólíklegt, að hún taki tillit til þess, að það verði menn, sem hefðu skilning á kjörum fólksins úti á landsbyggðinni. En aðalatriðið er, að eitthvað verði gert í þessu máli síðar.

Ég geri ráð fyrir, úr því að n. stóð einhuga að þessu, að þá verði þessi þáltill. samþykkt, og þá er aðalatriðið, að hafizt verði handa sem fyrst. Við vitum það, að fyrir menn úti á landi, sem langar til að gera eitthvað í iðnaðarmálum, er það svo að segja ókleift, eins og lánakjörum er nú háttað. Þegar þeir leita til bankanna, fá þeir annaðhvort enga fyrirgreiðslu eða það ófullkomna, að það er algerlega ófullnægjandi. Ef við látum unga fólkið flytja úr kauptúnunum úti á landi til Reykjavíkur eða Faxaflóasvæðisins, er mjög erfitt að fá það til að flytja út á landsbyggðina aftur, þegar það er búið að stofna heimili sín hér. Þess vegna verður að hefjast handa í tíma. Þetta er höfuðmál dreifbýlisins. Það er ekki aðalatriðið, að hvert fjaliakot sé í byggð. Aðalatriðið er, að við nýtum þann hluta landsins, sem er hagkvæmast að nýta. Við getum ekki búizt við því, að Hornstrandir byggist aftur í bráð. Þar eru léleg landbúnaðarskilyrði, og þannig er með firðina milli Skjálfanda og Eyjafjarðar. (Gripið fram í: Það er misskilningur.) Jú, það eru ekki ræktunarskilyrði á Hornströndum, og það er ekki hægt að koma þar við véltækni og nútíma búskaparháttum. Við verðum að athuga, að kjörin eru breytt frá því, sem var fyrir 50 árum. Þá gat verið gott að búa á Hornströndum. Þar var reki, þaðan er stutt á miðin og þá voru heimilin svo mannmörg, að það var hægt að róa áraþá t út á sjóinn og fiska. Þá var á margan hátt bezt að lifa á þessum stöðum. En þetta er breytt, og við verðum að líta á aðstöðuna eins og hún er. Látum vera, þó að t.d. 2—3 hreppar norðast á Vestfjörðunum séu ekki í byggð, það er ekki aðalatriðið, heldur að stöðva flóttann frá aðalsvæðunum, eins og t.d. Ísafirði, fjörðunum þar fyrir sunnan og jafnvel Hólmavík og þar í kring. Og reynslan sýnir það, að fólkið er að flytja úr þeim sveitum, þar sem ekki eru skilyrði fyrir vaxandi kauptún. Þar fækkar fólkinu mest. Það þarf þegar í stað að stöðva þennan flótta.

Ég álít, að þessi n., sem væntanlega verður skipuð, eigi fyrst og fremst að skipuleggja atvinnulífið hvað iðnaðinn snertir úti í byggðum landsins, þannig að í þessu kauptúninu eða kaupstaðnum eigi að reka þessa iðngrein og í öðrum hina, svo njóti þessi fyrirtæki hæfilegs fjárhagslegs stuðnings. Víða er nokkur iðnaður fyrir, og þá á að efla hann með hæfilegu lánsfé, þannig að það sé hægt að starfrækja hann. Ég veit það, að í mörgum kauptúnum og kaupstöðum úti á landi eru menn með nokkra tæknilega þekkingu, sem gætu rekið iðnað í miklu stærri stíl en nú er, aðeins ef þeir fengju fjárhagslega fyrirgreiðslu. En þetta þarf allt að athugast. Þó að einstakir þm. fari að koma með till. um þessi efni, þá vitum við, að það er næsta lítið gert með það. Þess vegna verður að fá stjórnskipaða nefnd, sem leggur sitt tillögukerfi fyrir, og það sé svo endurskoðað og athugað af þingi og ríkisstj. Svo sé hafizt handa um framkvæmdir. Það er ekki hentugt, að sama iðngreinin sé rekin í mörgum kauptúnum, það verður að skipta þessu niður eðlilega. Skilyrði fyrir blómlegum sveitabúskap er, að það myndist bæjarfélög, hæfilega stór bæjarfélög. Við skulum bara taka niðurlagningu síldar á Siglufirði. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þar voru stórfelld mistök. Í fyrsta lagi er óhentugt að leggja síld niður, ef á að flytja hana út, vegna þess, hve hún þolir litla geymslu. Í öðru lagi höfum við áreiðanlega gert vitleysu eða réttara sagt gert of lítið eða jafnvel ekki neitt til að koma henni á markaðinn, ekki kynnt okkur, hvaða skilyrðum þyrfti að fullnægja til að geta selt hana, og ekki starfað nóg á því sviði. Ég sé ekkert athugavert við það, eins og er verið að undirbúa nú, að hafa samband við Bjelland um að sjóða niður síld. Við skulum segja, að hann hafi dreifingarhringinn í sinni hendi, og við skulum segja, að hann græði eitthvað á því, en það er allt í lagi í bili, ef okkar fólk lærir iðn sina. Við erum á algeru frumstigi i iðnaðarmálum, við þurfum að læra. Þegar við erum búnir að læra að sjóða niður þessar síldarvörur, þurfum við ekkert að vera upp á Bjelland komin og getum brotið okkur leið inn á fiskmarkaðinn. Við þurfum fyrst og fremst að fá menn, sem standa okkur framar í iðngreinunum, til að kenna okkur.

Þannig er með allan iðnað hér, hann er á frumstigi. Það var verið að tala um skipasmíðar áðan. Við þurfum ekkert að vera að blekkja okkur á því, við höfum ekki svipað því eins mikla æfingu og erlendar skipasmíðastöðvar og enga möguleika til að gera þetta jafnfljótt og jafnvel. En ég er sannfærður um, að við getum lært þetta. Þar að auki er aðbúnaðurinn að þessum skipasmíðastöðvum miklu lakari hér. Hér eru okurvextir, og skipasmíðastöðvum er ekki tryggt rekstrarfé, þannig að skilyrðin til að gera þetta eru alls ekki eins góð hér og viða annars staðar. Við þurfum að byggja skip og halda þeim við, því er sjáifsagt að byggja þessa atvinnugrein skynsamlega upp, bæði tæknilega og fjárhagslega, þannig að við séum samkeppnishæfir. Timburskip eru til mikilla muna dýrari hér en í Danmörku.

Þannig er með fleiri iðngreinar. Það er mikið af iðnaðarvörum okkar verndað með allt að 90% tollum. Hvaða vit haldið þið, að sé í þessu? Annaðhvort er iðngreinin lakar rekin en annars staðar eða þá að iðnrekandinn hirðir ágóðann. Þannig er fjöldamargt af okkar iðnvarningi. Það er ekkert vit í að vernda nokkra iðngrein með 90% innflutningsgjöldum, það er ekki nokkurt hóf á því, það væri hæfilegt 2030%. Svo er fólkið í landinu skattlagt, það verður að borga vöruna. Og þar að auki nær iðnaðurinn ekki nægilegri þróun á þennan hátt. Það á að hafa hæfileg innflutningsgjöld, ekki allt of há. Annaðhvort leggur fólkið sig ekki fram með að reka iðngreinarnar eða iðnrekandinn hirðir óhóflegan gróða. Það er hægt að nefna kvenkápur í þessu sambandi. Það eru fluttar inn erlendar kvenkápur og seldar svo á svipuðu verði og þær íslenzku. Tollurinn á þeim er 90%. Ég hef átt tal um þetta við mann, sem selur slíkar kvenkápur. Hann segir, að við saumum ekki jafnvel. Þannig er með ótal atriði.

Iðnþróunin hér á landi er skammt á veg komin. En ég er sannfærður um, að við getum orðið iðnaðarþjóð. Það tekur talsverðan tíma, en við eigum að vinna að því að efla þá atvinnugrein. Hraðinn og þróunin hefur verið svo ör, að vandvirknin er ekki nógu mikil. Við þurfum að reka alla okkar höfuðatvinnuvegi á hagkvæmari hátt en nú er gert, bæði landbúnað, sjávarútveg og iðnað. En þetta er allt saman eðlilegt. Við erum á byrjunarstigi, og það er ekki von, að við séum búnir að ná tæknikunnáttu á við þær þjóðir, sem hafa stundað þetta áratugum og jafnvei öldum saman.

Ég er þakklátur n. fyrir að hafa staðið einhuga að þessu máli og vona, að vei verði unnið að þessu máli í framtíðinni og það megi verða okkar dreifðu byggðum og þjóðinni í heild til góðs.