08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (2421)

41. mál, ráðstafanir til að tryggja að hlunnindajarðir haldist í ábúð

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til athugunar þáltill. á þskj. 41, um ráðstafanir til að tryggja, að hlunnindajarðir haldist í ábúð, og athugun á því, hvers vegna góðar bújarðir fari í eyði. Þáltill. þessi hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 3 manna nefnd og sé hún þannig skipuð, að búnaðarmálastjóri og landnámsstjóri séu sjálfkjörnir, en landbrh. skipi þriðja nm. án tilnefningar. Verkefni nefndarinnar séu:

1) Að kynna sér ástæður fyrir því, að jarðir fara í eyði, og sé einkum athugað, að hve miklu leyti þær fara í eyði vegna þess, að einstakir menn kaupi þær eða sleppi ekki eignarrétti sínum af þeim vegna laxveiði eða annarra hlunninda.

2) Að safna gögnum um áhrif slíkrar þróunar

á landbúnað annarra þjóða og ráðstafanir þeirra þjóða til varnar gegn henni.

3) Að semja frv. til 1., sem tryggi það, svo sem auðið er, að komið sé í veg fyrir slíka þróun. Í sambandi við undirbúning að lagafrv. skal n. athuga eftirfarandi:

1) Hvort ekki sé eðlilegt, að jarðakaupasjóður ríkisins sé skyldaður til að kaupa slíkar jarðir, ef ekki fæst kaupandi, sem tryggir það, að þær séu í ábúð, og þá sé kveðið á í lögum um þessi jarðakaup jarðakaupasjóðs.

2) Hvort ekki sé jafnframt eðlilegt, að jarðakaupasjóður selji þessar jarðir aftur, þegar ábúandi fæst.

3) Hvort ekki sé eðlilegt og réttmætt, þar til lög þau taka gildi, er hér um ræðir, að gera eigendum þeirra laxveiðijarða, sem í eyði eru og síðar verða, að greiða til sveitarsjóða viðkomandi sveitarfélaga skatt, sem svarar meðalútsvari af viðkomandi jörð síðustu 3 árin, sem hún var í byggð, þó með þeim hlutfallslegu breytingum, sem orðið hafa á útsvari til hækkunar eða lækkunar í sveitarfélaginu á því tímabili.

Nefndin hraði störfum svo sem auðið er og skili áliti og lagafrv. eigi síðar en á árinu 1964. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Fjvn. er á einu máli um, að hér sé um mikið vandamál að ræða, og nauðsyn þess, að athugun verði látin fram fara. Hins vegar sá nefndin ekki ástæðu til að afmarka verksvið væntanlegrar nefndar og hefur því leyft sér að flytja brtt. á þskj. 421, en þar segir, með leyfi forseta, og eru till. um breytingar:

1) Við fyrri hluta tillgr. í stað 3. tölul. komi tvær málsgr., er orðist svo:

Nefndin hraði störfum, svo sem auðið er, og skili till. til úrbóta svo fljótt sem verða má. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

2) Siðari hluti tillgr.: „Í sambandi við undirbúning að lagafrv.“ o.s.frv. til loka tillgr. falli niður.

Á undanförnum árum hafa verið nokkur brögð að því, að þær jarðir, sem hlunnindi hafa og þá sérstaklega í sambandi við laxveiði, hafa verið keyptar af einstaklingum og jafnvel félögum í því skyni að hagnýta einungis laxveiðina, en ekki hirt um, að jarðirnar væru setnar og starfræktar með venjulegan búrekstur fyrir augum. Í sumum tilfellum hefur þessi þróun gengið svo langt, að margar jarðir í einu og sama sveitarfélaginu hafa lagzt í eyði. Hefur slík þróun að sjálfsögðu komið hart niður og verið tilfinnanleg í fámennum sveitarfélögum. Til þess að rétta hlut sveitarfélaganna, þegar svona stendur á, kemur vissulega til greina, að eigendur laxveiðijarðanna verði látnir greiða til sveitarsjóðs opinber gjöld í hlutfalli við það, sem bændur með meðalbú í sveitinni verða að greiða í útsvar og annað þess háttar til sveitarsjóðs. Með þeim ráðstöfunum væri komið í veg fyrir, að fjárhagslegar byrðar legðust með of miklum þunga á þá bændur, sem eftir væru í sveitarfélaginu, og kæmu þá um leið í veg fyrir, að þeir flosnuðu upp af búum sínum vegna óeðlilega mikilla gjalda til sveitarsjóðs, sem vissulega geta skapazt, þegar svona stendur á.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en mæli með því, að það hljóti afgreiðslu, svo sem fjvn, hefur lagt til.