13.11.1963
Sameinað þing: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (2436)

59. mál, varnir gegn tjóni af völdum Kötluhlaups

Flm. (Ragnar Jónsson):

Herra forseti. Till. til þál. um varnir byggðar í Álftaveri og Vík í Mýrdal gegn hugsanlegu tjóni af völdum Kötluhlaups á þskj. 62 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að láta undirbúa og hefja þegar á næsta ári nauðsynlegar aðgerðir til varnar mannvirkjum og gróðurlöndum í Álftaveri og Vík í Mýrdal með tilliti til hugsanlegs Kötluhlaups, á grundvelli þeirra athugana, sem þegar hafa verið framkvæmdar og fyrir liggja.“

Það fer ekki hjá því, að sérstök tilfinning hljóti að grípa menn, sem fara yfir Mýrdalssand og verður hugsað til þess, að við upphaf Íslandsbyggðar var þessi mikla auðn öll gróðri vafin.

Atlir þekkja frásögn Landnámu um það, er Dufþakur, þræll Hjörleifs, bruggaði húsbónda sinum banaráð með því að telja honum trú um, að skógarbjörn hefði komið og drepið uxa hans. Og er þeir Hjörleifur dreifðu sér um skóginn að leita bjarnarins, réðust þrælarnir að þeim og drápu. En þó að saga Hjörleifs yrði ekki löng á Íslandi, þá komu brátt fleiri landnámsmenn í hans kjölfar. Þar kom Hrafn hallalykill og nam land á þessu svæði, sem núna er Mýrdalssandur. Og hann nefndi bæ sinn að Dynskógum. Á eftir honum komu svo hver á fætur öðrum og nefndu bæi sína fallegum nöfnum, eins og Loðinsvíkur, Atlaey, Keldur, Laufskála o.s.frv. Þessi nöfn gefa nokkurt tilefni til þess að ætla, að landið hafi verið gróðurmikið. En byggðin með þessi fallegu bæjanöfn átti sér skamman aldur. Árið 894 gaus Katla, og mjög snemma á öldum eyddist allt land milli Hafurseyjar og Hólmsár, ofan frá jökli og suður að Skálm, sem rennur fyrir norðan Álftaverið, og þar hefur aldrei verið byggð síðan. Gosið 894 er fyrsta gos Kötlu, sem vitað er um, en síðan hefur hún gosið 15 sinnum, síðast haustið 1918, eins og öllum er kunnugt.

Til eru góðar heimildir um Kötlugos frá upphafi Íslandsbyggðar, skráðar af Markúsi Hjörleifssyni bónda í Hjörleifshöfða. Hann bjó í Höfðanum um langa ævi og lézt árið 1906. Hann gaf út bók um þetta efni, sem hann kallaði ,.Rit um jarðelda á Íslandi“. Þar er mikinn fróðleik að finna, og geta menn lesið þar, hvernig jökulhlaupin, sem jafnan fylgja Kötlugosunum og venjulega hafa átt sér stað tvisvar á öld, hafa smáeytt landið og skapað þá eyðimörk, sem við blasir í dag og við nefnum Mýrdalssand. En Katla hefur þó þyrmt Álftaverinu að nokkru leyti fram á þennan dag, þótt hún hafi mjög að því sorfið á köflum.

Ég vil aðeins nefna hér tvö dæmi úr fyrrnefndri bók Markúsar Loftssonar, en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, um gosið 1580:

„Þá sprakk sundur Mýrdalsjökull með eldingum og reiðarslögum, sem heyrðust víða um land, en vatnið flóði um allan sandinn vestan frá Mýrdal og austur að Þykkvabæjarklaustri. Skemmdust þá nokkrar jarðir í Álftaveri, en urðu þó flestar næstum jafngóðar að fáum árum liðnum.“

Og um gosið 1660 segir svo:

.,Skemmdist Álftaverið mikið. Eyðilögðust þar fjórar jarðir um nokkur ár: Hraunbær, Skálmarbær, Hraungerði og Sauðhúsnes.“

Ég vil geta þess, að þrjár þessar fyrrnefndu jarðir eru enn í byggð. Álftaverið er láglend sveit og hefur af þeim sökum alitaf legið undir miklum áföllum, þegar Mýrdalsjökull sprakk. Nú eru þar 11 byggðar jarðir. Fyrir austan er Kúðafljót, að vestan Mýrdalssandur, að norðan Skálm. Það er því ekki að furða, þótt þess í litla sveit hafi oft orðið fyrir þungum búsifjum á liðnum öldum af völdum jökulhlaupanna.

Á jörðum þeim í Álftaveri, sem nú eru í byggð, er búskapur góður og afkoma fólksins þar sízt lakari en gerist og gengur. Það er því full ástæða til þess að beita þeirri tækni, sem við höfum yfir að ráða í dag, til þess að tryggja framtíð þessarar sveitar, sem staðið hefur eins og vin í eyðimörk allt frá landnámstíð. Sem betur fer, eru líkurnar til þess, að það sé hægt, mjög sterkar og það án tilfinnanlegs kostnaðar. En eins og fram er tekið í grg, með till. þeirri, sem hér er til umr., eru mestar líkur til þess, að Álftaverið verði umflotið um nokkurn tíma, ef Katla skyldi gjósa enn einu sinni, og það er barnaskapur að hugsa sér, að hún sé sofnuð fyrir fullt og allt. Á 17. öldinni gaus hún þrisvar, en síðan hefur hún gosið tvisvar á öld. Jökulhlaupin, sem gosunum fylgja, hafa verið misjafnlega mikil. Á síðustu áratugum hefur Mýrdalsjökull hopað mjög eins og aðrir jöklar á landi hér, og þess vegna eru líkur til þess, að næsta hlaup verði ekki eins tröllaukið og stundum áður. En eins og fyrr mundi Álftaverið eigi að síður verða umflotið og einangrast um lengri eða skemmri tíma, vegna þess að þá yrðu allar brýr af ánum á Mýrdalssandi, eða Blautukvísl. Malakvísl og Skálm. Sumarið 1955 kom hlaup úr Mýrdalsjökli. sem stóð ekki í sambandi við eldsumbrot, og það ruddi í burtu brúnum á Múlakvísl og Skálm, og vatnselgurinn í þessum ám var svo mikill allt sumarið, að til stórvandræða horfði. Þessu var þó bjargað áður en í algert óefni var komið með því að fá stóra herbíla, sem svömluðu yfir torfærurnar og fluttu fólkinu nauðsynjar þess. Nú er allgóður flugvöllur í Álftaveri, sem byggður var fyrir nokkrum árum. Hann mundi geta bjargað frá miklum vandræðum, ef hann yrði varinn. Til þess þarf að gera garða á tveim stöðum. Annar þessara garða þarf að koma vestan við völlinn og hinn fyrir norðan hann, en þar kom einmitt vatn fram 1918 og flæddi yfir land jarðanna Holts og Herjólfsstaða. Ég hef rætt við eldri menn. sem þarna áttu heima þá og búa þar enn. Þeir fullyrða, að ef þá hefði verið varnargarður, þar sem hugsað er að byggja hann núna, mundi vatnið ekki hafa brotið hann. Við ána Skálm var fyrir fáum árum gerður allmikill varnargarður. Hann hefur nú þegar forðað frá landbroti, gerði það í vatnavöxtunum miklu, sem urðu á Mýrdalssandi sumurin 1959 og 1960. Til frekara öryggis teljum við flm. þessarar till., að efla beri varnirnar við Skálm með nýjum garði, sem yrði byggður ofar með ánni en gamli garðurinn, eða fyrir vestan túnið í Skálmarbæ. Enn fremur teljum við sjálfsagt að fela verkfræðingi að gera enn frekari athuganir á því, hvað hægt er að gera meira Álftaverinu til varnar en bað, sem þegar hefur verið framkvæmt og getið er um í grg. með till, þessari. En þær verkfræðilegu rannsóknir, sem þarna fóru fram s.l. sumar, gefa mjög góðar vonir um, að mikið megi gera til varnar byggðinni án tilfinnanlegs kostnaðar.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um varnir fyrir Víkurkauptún í Mýrdal, en þær eru ekki síður nauðsynlegar en varnirnar við Álftaverið.

Við flm. till. höfum í grg, lýst nokkuð staðháttum í Vík, og ég tel ekki ástæðu til að orðlengja það. En það er staðreynd, að í mörgum Kötlugosum hefur flóðið komið vestur með Höfðabrekkuhálsi út að Víkurhömrum, alla leið vestur að Reynisfjalli og kaffært sandsléttuna, sem þorpið hefur að mestu byggzt á. Þetta skeði í gosinu 1755 og aftur 1823, einnig, en þó minna 1860. En árið 1918 munaði ekki nema litlu, að vatnið bryti sér leið vestur til Víkur, eftir því sem kunnugir menn hafa sagt mér. Að ekki fór verr, var að þakka allháum bakka vestan við Múlakvísl. Lágu ísjakar uppi á bakkanum eftir hlaupið. Nú hefur farvegur Múlakvíslar hækkað mikið síðan vegna sandburðar. Er bakkinn því ekki líkt því eins mikil vörn og áður. Auk þess hefur landið frá fjalli til sjávar breikkað mikið, því að Kötlutangi, sem myndaðist við gosið 1918, hefur stöðugt verið að eyðast og sandurinn að berast vestur að ströndinni. Þá er og sjávarkamburinn þarna nokkuð hár og allmiklu hærri en landið fyrir ofan. Allt þetta gerir það að verkum, að hugsanlegt jökulhlaup, sem brytist gegnum skarðið, sem þjóðleiðin liggur um milli Höfðabrekkuháls og Höfðabrekkujökuls, ætti ógreiða leið til sjávar og mundi þá óneitanlega leita vestur með fjallinu til Víkur. Öll nýbyggðin í Vík að heita má og nokkur hluti eldri byggðarinnar einnig stendur mjög lágt. Þarna eru mikil verðmæti, sem gætu orðið fyrir eyðileggingu, ef jökulhlaup kæmist enn einu sinni vestur að Reynisfjalli. En það, sem hefur skeð, getur skeð aftur og það er skylt að gera ráð fyrir þeim möguleika. Á sléttunni eru auk margra íbúðarhúsa öll verzlunarhús staðarins ásamt vörugeymslum, bifreiðaverkstæðum, trésmiðjum, tveimur frystihúsum, sem meginhluta ársins eru fullt af kjötvörum, margra milljóna virði.

Nú spyrja menn eðlilega: Getur nokkurt mannvirki staðizt þann tröllskap, sem losnar úr læðingi, þegar eldfjöll taka að gjósa? Því er vitanlega erfitt að svara, fyrr en á reynir. En það er staðreynd, að jökulhlaup flytur ætíð með sér mikla jakahrönn, og ef hún mætir verulegri fyrirstöðu, þá hjálpar hún til að mynda stíflu. Þess vegna standa vonir til, að garður, sem gerður yrði milli Höfðabrekkuháls, — ég vil taka það fram fyrir þá, sem ókunnugir eru þarna, að það, sem kallað er Höfðabrekkujökull, eru sandöldur, gamlar jökulleifar rétt austan við Höfðabrekkuháls, — ef varnargarður yrði gerður milli Höfðabrekkuháls og Höfðabrekkujökuls, er sennilegt, að það gæti orðið sú vörn, sem dygði. Líka er von til þess, að næsta jökulhlaup, sem hugsanlega kæmi, yrði ekki eins kraftmikið og það hefur stundum verið áður, vegna þess, hve jökullinn hefur gengið mikið saman á síðustu áratugum, eins og ég hef minnzt á áður. En hér er um vandamál að ræða, sem við flm. teljum nauðsynlegt að taka til athugunar án tafar.

Ég vænti þess, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþykkja till. Herra forseti. Ég vil leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.