29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (2449)

53. mál, umferðarmál í Kópavogi og Garðahreppi

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað till. og orðið sammála um að mæla með samþykkt hennar með þeirri viðbótartill., sem um getur á þskj. 442.

Allir munu vera sammála um, að bæta þurfi samgönguleiðina á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, þar sem núverandi akbraut fullnægir hvergi nærri umferðarþörfinnt. Með viðbótartill. n. er bent á, að æskilegt væri, að ný umferðarleið kæmi ofan við mesta þéttbylið í Kópavogi og Garðahreppi.

N. leitaði umsagnar vegamálastjóra um till., og þar sem umsögn hans er stutt, en á margan hátt fróðleg, ætla ég að leyfa mér að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta:

Fjvn. Alþingis hefur með bréfi til mín, dags. 5. Þ.m., sent mér til umsagnar ofangreinda till. til þál., þar sem skorað er á ríkisstj. að láta, svo fljótt sem auðið er, hefjast handa um staðsetningu og lagningu tvöfaldrar akbrautar frá Reykjavík og Kópavogi til Hafnarfjarðar. Í grg. með till. er nánar vikið að nauðsyn þessara framkvæmda, og fæ ég ekki betur séð en að flest af því, sem þar er sagt, sé á rökum reist.

Geta má þess þó, að umferð um Reykjanesbraut í Fossvogi var á s.l. hausti komin nokkuð á 14. þús. bifreiða á dag og umferð um Kópavogslæk á sama tíma var tæpur helmingur umferðarinnar um Fossvogslæk. Er það augljóst, að núv. vegur um Fossvog annar alls ekki þessari umferð með neinu skynsamlegu móti, enda eru daglega orðnar verulegar tafir fyrir umferðina í Fossvogi og norðanverðum Kópavogi. Vegagerð ríkisins hefur lengi verið það ljóst að stefnt er að fullkomnu umferðaröngþveiti í Fossvogi og Kópavogi, ef ekkert verður að gert til þess að auka afkastagetu núv. vegar á þessu svæði. Innan fárra ára verður umferðin sunnan Kópavogs komin í 10 þús. bifreiðar á dag, og verður þá að hefja lagningu fleiri akbrauta þaðan og til Hafnarfjarðar, eða a.m.k. að vegamótum hjá Engidal.

Hins vegar er þess að geta, að það hefur ekki staðið á vegagerð ríkisins að gera nauðsynlegar áætlanir um lagningu fleiri akbrauta á Reykjanesbraut á þessum slóðum, þó að það eitt út af fyrir sig sé mjög umfangsmikið verk. Það, sem tafið hefur fyrir því, að ráðizt hafi verið í þessar áætlunargerðir, er fyrst og fremst það, að heildarskipulag í Fossvogsdalnum og miðbiki Kópavogskaupstaðar, á Digraneshálsi, hefur ekki verið fyrir hendi og er það raunar ekki enn. Meðan ekki er ákveðið, hvort umferð sú, sem nú er um Reykjanesbraut frá Miklatorgi um Öskjuhlíð og Fossvog, verði í framtíðinni látin fara þá leið eða um hina fyrirhuguðu Kringlumýrarbraut eða jafnvel að nokkru leyti um nýjan veg sunnan Öskjuhlíðar, er engin leið að hefja mælingar og gera áætlanir um lagningu nýrra akbrauta. Vonir standa þó til, að á komandi vori verði lagt fram heildarskipulag af þessu svæði í megindráttum og lega aðalumferðaræða þar með ákveðin.

Um legu Reykjanesbrautar í Kópavogskaupstað er þess að geta, að núv. vegur klýfur kaupstaðinn í tvo hluta, og yrðu byggðar tvær akbrautir til viðbótar þeim, sem fyrir eru, með sama hætti og nú er, þá yrðu allar samgöngur milli bæjarhlutanna algerlega óviðunandi. Bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar er þetta fyllilega ljóst, og hefur bæjarstjórnin ákveðið í samráði við skipulagsnefnd ríkisins að láta fara fram nú í vor hugmyndasamkeppni um skipulag að miðbæ Kópavogskaupstaðar á Digraneshálsi. Í slíkri samkeppni yrði ein meginkrafan sú, að samgöngur milli bæjarhlutanna yfir Reykjanesbraut gætu verið hindrunarlausar af umferð eftir Reykjanesbraut. Jafnframt er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því , að Reykjanesbraut verði skipt í 4 akbrautir. Lítil von er þó til þess, að nothæft skipulag fáist úr slíkri samkeppni, og tel ég litlar líkur á því, að slíkt skipulag verði fullgert fyrir árið 1965, og fyrr verður ekki hægt að hefja gerð endanlegra áætlana um framtíðarlegu vegarins í Kópavogi.

Undanfarin ár hafa verið gerðar nokkrar ráðstafanir á Reykjanesbraut í Kópavogi til þess að tryggja öryggi vegfarenda og þá sérstaklega gangandi fólks, sem fara þarf yfir veginn. Haldið verður áfram við slíkar aðgerðir. En þær auka ekki afkastagetu vegarins, nema síður sé. Með hinum nýju vegalögum fæst nokkur fjárhagslegur grundvöllur til þess að hefja byrjunarframkvæmdir við lagningu fleiri akbrauta á Reykjanesbraut á ofangreindu svæði. Hins vegar er enginn vafi á því, að þessar framkvæmdir verða mjög fjárfrekar. En vonandi verður hægt að gera eitthvað nánari grein fyrir þeirri hlið málsins, er vegáætlunin fyrir tímabilið 1965-1968 verður lögð fram á Alþingi á hausti komanda. En fullnaðaráætlanir um þessar framkvæmdir geta þó alls ekki legið fyrir þá af þeim ástæðum, sem að framan greinir.“

Eins og ég gat um, mælir fjvn. með samþykkt till. með þeirri brtt., sem fyrir liggur á þskj. 442.