22.10.1963
Sameinað þing: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

1. mál, fjárlög 1964

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Afkoma ríkissjóðs á árinu 1962 varð í meginatriðum eins og nú skal greina:

Tekjur ríkissjóðs voru áætlaðar í fjárl. 1752 millj. Þær urðu 2062 millj. og fóru þannig 310 millj. fram úr áætlun. Valda þar mestu um aðflutningsgjöld af innfluttum vörum, en það eru verðtollur, vörumagnstollur, innflutningsgjald, innflutningssöluskattur og bifreiðagjald. Þessi aðflutningsgjöld urðu samtals 214 millj. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Stafar þetta af því að innflutningur til landsins varð miklu meiri en reiknað var með, þegar fjárlög voru samin. Tekju- og eignarskattur varð 24 millj. umfram fjárlög og tekjur af ríkisstofnunum 11 millj. umfram. Útgjöld ríkissjóðs voru áætluð í fjárl. 1749 millj., þegar talin eru saman rekstrargjöld 7.–19. gr. fjárl. 1633 millj. og útgjöld 20. gr. 111 millj. Útgjöld reyndust samkv. þessum fjárlagaliðum 1871 millj. kr. eða 122 millj. hærri en fjárlög ráðgerðu. Rekstrargjöld urðu 1756 millj. og gjöld samkv. 20. gr. 11.5 millj.

Orsakir þess, að útgjöld urðu 122 millj. hærri en fjárlög ráðgerðu, eru einkum þrjár. Í fyrsta lagi urðu niðurgreiðslur á vöruverði innanlands og uppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur samtals 378 millj. eða 78 millj. umfram fjárlög. Þegar fjárl. voru samin, stóð yfir rækileg athugun fyrirkomulags á niðurgreiðslum, og gerðu menn sér vonir um, að unnt yrði að lækka þessi útgjöld verulega, en það reyndist ekki fært. Í öðru lagi var í fjárlögum reiknað með 4% launahækkun frá 1. júní 1962, eins og stéttarfélög höfðu þá samið um. En vegna frekari almennra kauphækkana fengu ríkisstarfsmenn 7% launahækkun til viðbótar. Kostnaður við þær launahækkanir, sem fjárl. höfðu ekki gert ráð fyrir, hefur numið yfir 20 millj. kr. í þriðja lagi urðu framlög til samgöngumála, þ.e. vega, brúa, flugvalla og samgangna á sjó, rúmlega 20 millj. yfir áætlun. Nokkrir útgjaldaliðir urðu undir áætlun, svo sem vaxtagreiðslur ríkissjóðs.

Lausaskuldir voru engar í árslok 1962 annað árið í röð.

Auk tekna og gjalda samkv. fjárlagaliðum eru ýmsar útborganir og innborganir hjá ríkissjóði, sem hafa áhrif á greiðslujöfnuðinn. Það eru hreyfingar á geymslufé, aukið rekstrarfé ríkisstofnana, veitt lán, fyrirframgreiðslur o. fl. Þegar öll þessi atriði voru uppgerð, varð greiðsluafgangur ríkissjóðs á árinu 1962 162 millj. kr.

Ég hef áður getið um það, að ríkisbókhaldið og Seðlabankinn hafa notað nokkuð mismunandi reglur við að reikna út greiðslujöfnuð ríkissjóðs. Að þessu sinni verður útkoman næstum sú sama, hvor aðferðin sem höfð er, munar aðeins 51 þús. Er greint frá þessu á bls. 34 í hinum prentaða ríkisreikningi, sem hv. þm. hafa fengið í hendur.

38.7 millj. kr. af greiðsluafganginum var varið til þess að greiða gamla skuld ríkissjóðs við Seðlabankann vegna smíði 10 togara. Eins og ástatt hefur verið í efnahagsmálum þjóðarinnar á þessu ári, miklar framkvæmdir, blómlegt atvinnulíf, en skortur á vinnuafli, þótti ríkisstj. ekki rétt né fært að verja greiðsluafgangi ríkissjóðs til aukinna framkvæmda nú.

Fyrir rösklega 30 árum voru sett um jöfnunarsjóð ríkisins. Samkv. þeim lögum skal leggja í þann sjóð tekjuafgang ríkissjóðs, þegar hann fer fram úr tiltekinni upphæð. Fé úr þessum sjóði má aðeins nota til þess að lækka skuldir ríkisins, mæta tekjuhalla ríkissjóðs, ef svo ber undir, en fyrst og fremst skal nota fé sjóðsins til þess að auka atvinnu og framkvæmdir, þegar atvinnubrestur verður og afturkippur í framkvæmdum. Í rúm 30 ár höfðu lög þessi aldrei verið framkvæmd, en þau standa enn í góðu gildi, og þau rök, sem lágu til setningar þeirra, eru jafngild nú í dag og þá. Ríkisstj. taldi rétt að láta þessi merku lög koma til framkvæmda og ákvað því að leggja í jöfnunarsjóð ríkisins 100 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs á árinu 1962. Sá afgangur, sem eftir verður að gerðum þessum tveimur ráðstöfunum, stendur inni í ríkissjóði sem rekstrarfé.

Í sambandi við þetta yfirlit um meginatriði ríkisreiknings fyrir 1962 þykir rétt að víkja nokkuð að ríkisskuldunum. Skrá um skuldirnar í árslok 1962 er að finna á bls. 9 og 10 í ríkisreikningnum. Við þá skýrslu vil ég bæta upplýsingum um breytingar, sem orðið hafa á ríkisskuldunum á þessu ári fram til dagsins í dag. Öll innlend lán ríkissjóðs eru föst, umsamin lán, lausaskuldir eru engar og hafa ekki verið um tvenn undanfarin áramót. Hin föstu innlendu lán voru í árslok 1962 203.2 millj. kr. og lækkuðu um 3 millj. á árinu. Stærstu skuldaliðirnir eru þessir: 1) Skuld við Seðlabankann vegna gullframlags til Alþjóðabankans 54.8 millj. 2) Lán vegna kaupa á 10 togurum árin 1948–1949 38.7 millj. 3) Happdrættislán ríkissjóðs frá 1948 27.8 millj. 4) Skuld vegna lánadeildar smáíbúða, sem ríkissjóður tók að sér gagnvart Seðlabankanum, 21.1 millj. 5) Lán til byggingar landsspítalans 11 millj. 6) Lán til byggingar kennaraskólans 7.9 millj. Þessir voru stærstu skuldaliðirnir um s.l. áramót. Á yfirstandandi ári hafa ný byggingarlán verið tekin vegna landsspítala, kennaraskóla og lögreglustöðvar í Reykjavík til þess að hraða þessum byggingum. En togaralánið, 38.7 millj., var borgað upp, og umsamdar afborganir hafa lækkað föstu lánin, og hafa því innlendar skuldir ríkissjóðs lækkað um 36 millj. frá áramótum.

Þetta voru innlendu skuldirnar. Erlendar skuldir voru um áramótin einnig aðeins fastar, umsamdar skuldir, þar sem erlendar lausaskuldir voru greiddar upp 1951. Hinar erlendu ríkisskuldir voru um síðustu áramót 691.6 millj. kr. Tekið var nýtt lán hjá Alþjóðabankanum til hitaveituframkvæmda í Reykjavík, 86.1 millj. En þrátt fyrir þá lántöku hækkuðu erlendar ríkisskuldir aðeins um 49.5 millj., því að hinar föstu afborganir komu þar til frádráttar.

Þessi erlendu lán hafa gengið til eftirtalinna framkvæmda, — hér er ekki talin upphafleg lánsfjárhæð, heldur eftirstöðvar um síðustu áramót: Sogs- og Laxárvirkjanir 137 millj., raforkusjóður 116 millj., hitaveitan í Reykjavík 86 millj., fiskiðnaður 82 millj., togarakaup 1949–1950 70 millj., búnaðarsjóðirnir 59 millj., áburðarverksmiðja 57 millj., fiskveiðasjóður 39 millj., hafnir 32 millj., sementsverksmiðja 13 millj. Á árinu 1963 lækka ýmis þessara lána vegna umsaminna afborgana, en við bætist brezka framkvæmdalánið, 240 millj. kr. Af því láni var ráðstafað í samráði við fjvn. Alþ. til raforkumála 1.20 millj., til fiskiðnaðar 50 millj., til hafna 50 millj, og til iðnaðar 10 millj. Þessi erlendu ríkislán, sem eins og ég gat um voru um síðustu áramót 691.6 millj. kr. og hafa hækkað á þessu ári vegna brezka framkvæmdalánsins, eru ekki tekin vegna þarfa ríkissjóðsins sjálfs, heldur hefur hann endurlánað þau öll til annarra. Ríkissjóður þarf því ekki að standa straum af þessum erlendu lánum. Þess vegna er ekki heldur gert ráð fyrir vöxtum né afborgunum af þeim í fjárlfrv., eins og sjá má af grg. frv. við 7. gr. Þar eru sundurliðaðir vextir og afborganir af þeim innlendu lánum, sem ríkissjóður stendur straum af, en engin slík lán erlend hvíla nú á ríkissjóði.

Í opinberum skýrslum eru ríkisskuldirnar greindar sundur og flokkaðar með ýmsum hætti. Aðalflokkarnir eru oftast þessir: 1) Innlend lán, sem þá greinast í föst lán og laus lán. 2) Erlend lán, sem greinast einnig í föst og laus lán. 3) Geymt fé, sem greinist annars vegar í ónotaðar fjárveitingar samkv. fjárl., sem geymdar eru, og hins vegar annað fé, sem ríkissjóður innheimtir og afhendir sjóðum eða stofnunum til ráðstöfunar. Heildarupphæð ríkisskulda, talin með þessum hætti, var í árslok 1962 1061 millj. Flokkun ríkisskuldanna er nú í athugun í sambandi við undirbúning nýrrar löggjafar um bókhald ríkisins.

Geymt fé eða geymslufé á 20. gr. ríkisreiknings er tvenns konar, eins og ég gat um. Annars vegar ónotaðar fjárveitingar, sem hafa verið færðar til gjalda á ýmsum greinum rekstrarreiknings og eru því færðar sem inngreiðslur á eignahreyfingum á móti. Þegar þessar fjárveitingar eru notaðar, eru þær svo færðar meðal útgreiðslna á eignarhreyfingum, en ekki færðar til gjalda á rekstrarreikningi. Gjaldfærslan er m.ö.o: miðuð við fjárveitingarárið, en ekki notkunarárið. Notkun geymdra fjárveitinga og viðbót við geymdar fjárveitingar sést hins vegar á eignahreyfingum.

Hinn liður geymds fjár á eignahreyfingum er svo innborgað eða innheimt fé fyrir aðra aðila en ríkissjóð. Þetta fé er rekstrarreikningi óviðkomandi, en hefur áhrif á eignahreyfingar ríkissjóðs, þar sem hið innheimta fé fyrir aðra aðila er sjaldan sama upphæð árlega og það, sem ríkissjóður greiðir viðkomandi aðilum. Þannig eykst ýmist eða minnkar sjóður innheimts fjár fyrir aðra hjá ríkissjóði. Þessar geymdu fjárhæðir nema oft háum upphæðum. Til þess að eyða að mestu áhrifum þessa innheimtufjár á sjóðseignir ríkissjóðs og greiðslujöfnuð hefur á þessu ári verið tekin upp sú aðferð að leggja innheimtuféð inn á sérstakan reikning í Seðlabanka Íslands, sem ekki er talinn með sjóðseign ríkissjóðs. Meðal stærstu innheimtuliðanna, sem þannig er nú farið með, eru aflatryggingasjóður, útflutningsgjald, jöfnunarsjóður sveitarfélaga, vegasjóður, brúasjóður, byggingarsjóður, tollstöðvagjald o. fl.

Þegar Alþingi hefur í fjárlagaræðum verið gerð grein fyrir skuldum ríkissjóðs, hafa fjmrh. um áratugi tekið eingöngu þær skuldir, sem ríkissjóður stendur straum af, enda skipta þær meginmáli í sambandi við útgjöld ríkisins og afgreiðslu fjárl. í því sambandi eru þó ekki talin ríkislán, sem eru endurlánuð öðrum, né geymslufé. Lán þau, sem ríkissjóður stendur straum af, þ.e. greiðir vexti og afborganir af, voru um síðustu áramót 183.2 millj. kr. Nú í dag eru þau 147.6 millj. og hafa því lækkað í ár um 36 millj.

Þegar ríkissjóður hefur milligöngu um lántökur erlendis, er það oft og tíðum hreint formsatriði, hvort ríkissjóður er sjálfur lántakandi eða ekki. Má nefna til skýringar hitaveitulánið hjá Alþjóðabankanum á s.l. ári. Við þá lántöku koma þrjár aðferðir til greina: 1) Að Reykjavíkurborg væri sjálf lántakandi gagnvart Alþjóðabankanum, en fengi ríkisábyrgð á láninu. 2) Að íslenzkur banki tæki lánið og endurlánaði það Reykjavíkurborg. 3) Að ríkissjóður væri lántakandi og endurlánaði féð til hitaveitunnar. Þar sem Alþjóðabankinn óskaði helzt eftir þriðju leiðinni, var hún farin. Það form er efnislega mjög skylt því, ef hinn raunverulegi lántakandi, þ.e.a.s. Reykjavík, hefði tekið lánið með ríkisábyrgð. En þar sem ríkissjóður er lántakandinn að formi til gagnvart lánveitanda, eru slík lán talin til ríkisskulda, en hins vegar ekki þau lán, sem ríkisábyrgð er veitt á.

Það er sjálfsagt og eðlilegt, að ríkissjóður greiði fyrir skynsamlegum erlendum lántökum. Í þessu efni veltur á miklu, að hvort tveggja fari saman, að íslenzka ríkið hafi áunnið sér traust hjá erlendum fjármálastofnunum, og hins vegar, að sú stofnun, það fyrirtæki eða mannvirki, sem fjár skal aflað til, sé álitlegt og æskilegt í framfarasókn þjóðarinnar. En um leið kemur það til álita, hvort efnahagsástandið innanlands sé á hverjum tíma með þeim hætti, að rétt sé eða verjandi að taka veruleg erlend lán. Framkvæmdaáætlun Íslendinga gerir ráð fyrir stórum, erlendum lántökum, en vegna hinnar miklu þenslu, sem nú er hér á landi, og skorts á vinnuafli verður að fara mjög varlega í það að svo stöddu að taka erlend framkvæmdalán. Þá þarf að gæta þess vandlega, að greiðslubyrðin gagnvart útlöndum verði ekki of þung miðað við gjaldeyristekjur og framleiðslu þjóðarinnar. Þar getur það ráðið úrslitum, að lánstími sé langur og vöxtum í hóf stillt.

Þegar viðreisnin hófst, var eitt af vandamálunum það, hversu mikið hafði verið tekið af erlendum lánum til stutts tíma. Það var ljóst, að greiðslubyrði vaxta og afborgana til útlanda yrði þung og vaxandi á næstu árum. Er rétt að gefa hér yfirlit um greiðslubyrðina gagnvart útlöndum árin 1958–1963. Allar tölur eru þar reiknaðar með núv. gengi, til þess að samanburðurinn verði gleggri. Eru þá taldar greiðslur vaxta og afborgana af öllum erlendum lánum, bæði opinberum og einkaaðila, og enn fremur getið um hundraðshluta þeirra af gjaldeyristekjum þjóðarinnar á því ári. Árið í ár er áætlað af Seðlabankanum. Greiðslubyrði vaxta og afborgana gagnvart útlöndum er sem hér segir:

Árið 1958 222 millj., sem er 5.5% af gjaldeyristekjum þá. Árið 1959 358 millj., sem er 8.7% af gjaldeyristekjum. 1960 425 millj., sem er 9.9% af gjaldeyristekjum. 1961 504 millj., sem er 10.9% af gjaldeyristekjum. Árið 1962 571 millj., sem er 10.8% af gjaldeyristekjum. Og árið 1963 496 millj., sem er 9.1% af gjaldeyristekjum.

Eins og ég gat um, mátti gera ráð fyrir því, að greiðslubyrðin færi vaxandi á næstu árum eftir stjórnarskiptin, en greiðslubyrðin er nú byrjuð að minnka aftur á þessu ári frá því, sem var í fyrra. Varðandi horfur um afkomu ríkissjóðs í ár vil ég taka þetta fram:

Í fjárl. fyrir 1963 eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 2198 millj. kr. Þegar 9 mánuðir voru liðnir af árinu, 30. sept. s.l., voru tekjurnar orðnar 1689 millj. eða nær 77% af áætlun fjárl. Rekstrarútgjöld eru áætluð í fjárlögum 2052 millj., en voru 30. sept. orðin 1505 millj. eða um 73% áætlaðra rekstrargjalda. Það er venja, að bæði tekjur og gjöld séu hlutfallslega hærri 3 síðustu mánuði ársins en aðra mánuði. Það er því ljóst, að bæði tekjur og gjöld munu fara fram úr áætlun. Um tekjurnar stafar þetta einkum af því, að innflutningur hefur reynzt meiri það sem af er þessu ári en ráðgert var, þegar gengið var frá tekjuáætlun fjárlaga í fyrra. Verða því tekjur af aðflutningsgjöldum meiri en áætlað var. Einnig munu tekjur af tekjuskatti og eignarskatti svo og af ríkisstofnunum fara nokkuð fram úr áætlun. Umframgreiðslur á gjaldahlið verða einkum á launaliðum sökum kauphækkana þeirra, sem ríkisstarfsmenn fengu frá 1. júlí. Enn fremur hækka ýmsir rekstrarliðir vegna almennra launahækkana, sem orðið hafa á þessu ári. Greiðsluafgangur mun verða hjá ríkissjóði í ár, en um upphæð hans verður ekki hægt að fullyrða að svo stöddu.

Samkv. fjárlfrv. fyrir 1964, sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., eru tekjur áætlaðar alls 2539.7 millj. kr. Sú áætlun er 341.6 millj. hærri en í gildandi fjárl. Rekstrarútgjöld samkv. frv. eru áætluð 2381.5 millj, eða 329.2 millj. hærri. Og önnur útgjöld, þ.e. samkv. 20. gr., afborganir lána og til eignaaukningar, eru áætluð 147.3 millj. og er það 10.2 millj. hærra en í ár. Greiðsluafgangur samkv. frv. er áætlaður 10.8 millj. á móti 8.7 í gildandi fjárlögum.

Sú tekjuhækkun, sem hér er gert ráð fyrir, byggist á óbreyttum öllum tolla- og skattastigum. Engar hækkanir á þeim né nýjar álögur eru hér að verki. Ástæðurnar til þessarar tekjuhækkunar eru meiri innflutningur en fjárl. 1963 reiknuðu með, meiri velta og hærri tekjur almennings á árinu 1963 en 1962. Tekju- og eignarskatturinn var í ár áætlaður 165 millj., en í frv. 210 millj., hækkar um 45 millj. Þessi hækkaða áætlun er gerð þrátt fyrir það, að fyrir þetta þing verður lagt frv. um lækkun á tekjuskattsstiganum. Sú lækkun felur það í sér, að hinar skattfrjálsu tekjur hækki um 30% til samræmis við breytingar á launum og verðlagi, sem orðið hafa síðan skattstiginn var ákveðinn 1960. Sú lækkun, sem þá var gerð á tekjuskattinum, var byggð á þeirri stefnu stjórnarinnar að gera almennar launatekjur skattfrjálsar. Skattfrjálsar fyrir einstakling eru nú 50 þús., en verða eftir hinu nýja frv. um 65 þús., fyrir hjón 70 þús. nú, verða um 90 þús., og fyrir hvert barn 10 þús., verða um 13 þús. Hjón með tvö börn hafa nú 70 þús. kr. skattfrjálsar. Þau mundu samkv. hinni væntanlegu breytingu hafa skattfrjálsar 115–120 þús. kr.

Aðflutningsgjöldin eiga að skila í ríkissjóð allmiklu hærri fjárhæð nú en fjárl. fyrir 1963 gera ráð fyrir, þrátt fyrir þær margvíslegu tollalækkanir, sem urðu samkv. nýju tollskránni frá síðasta þingi. Áætlað er í frv., að aðflutningsgjöldin skili 1366 millj., og er það byggt á innflutningi, sem þjóðhags- og framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir, svo og reynslu þeirri, sem fengin er á þessu ári. Þessi upphæð er 176 millj. hærri en í fjárlögum nú.

Á s.l. vori tók gildi ný tollskrá. Hún kom í stað eldri tollskrár, sem var frá árinu 1939, og í stað þeirra miklu viðauka og breytinga, sem á tæpum aldarfjórðungi höfðu verið gerðar á henni. Breytingar á eldri tollskránni voru oft gerðar til þess að leysa brýn aðsteðjandi fjárhagsvandamál, án þess að tekið væri tillit til áhrifa þeirra á tollakerfið í heild. Mikið misræmi skapaðist því oft við ákvörðun tolla af skyldum vörutegundum. Það leiddi til þess, að kerfið varð svo flókið og margbrotið, að útreikningur aðflutningsgjalda ýmissa vara var afar tímafrekur og aðeins á fárra manna færi.

Að formi til er nýja tollskráin sniðin eftir alþjóðlegri tollskrárfyrirmynd, Brüsselskránni svonefndu, sem öll lönd Vestur-Evrópu hafa nú tekið upp, auk margra annarra. Samræming við tollskrár svo margra viðskiptaþjóða okkar auðveldar mjög allt samstarf þjóða í þeim efnum. Af notkun Brüsselformsins leiðir, að tekin er upp ný vöruflokkun. Ýmis gjöld, sem fyrr voru reiknuð sérstaklega ásamt álögum, hafa nú verið sameinuð í einn verðtollstaxta. Útreikningur gjalda, sem runnu ekki í ríkissjóð, hefur verið gerður einfaldari og sum gjöld felld niður. Með hinni nýju tollskrá var stefnt að því að samræma, svo sem kostur var á, tolla á skyldum og sambærilegum vörum. Heildarlækkun aðflutningsgjalda, sem af breytingunni leiddi, er um 97 millj. kr. eða 8.3%, miðað við magn og samsetningu innflutnings á árinu 1962. Tollar lækkuðu á mörgum vörutegundum, og eru hæstu innflutningsgjöld nú 125%, en voru áður 344%. Á mörgum vörum námu heildaraðflutningsgjöldin 200–300%. Lækkun hinna óhóflegu gjalda lækkaði útsöluverð vörunnar, dró úr smygli og jók tekjur ríkissjóðs. Lækkaðir voru verulega ýmsir tollar á rekstrarvörum og tækjum til landbúnaðar og sjávarútvegs.

Nýja tollskráin er grundvöllur tollakerfis Íslands á komandi árum. Endurskoðun og umbótum þarf að halda áfram. Nákvæma athugun þarf að gera á tollun vara til íslenzks iðnaðar. Þar þarf að afnema oftollun hráefnis, en einnig að koma í veg fyrir of- eða vantollun á fullunnum innfluttum vörum. Það þarf að samræma, lækka og fella niður tolla á tækjum til útflutningsframleiðslunnar. Þessi eru þau markmið, sem að skal stefnt í framtíðinni.

3% söluskatturinn er áætlaður 262 millj., að frádregnum hluta jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, 65 millj. Samtals er því ráðgert, að söluskatturinn gefi 327 millj., og er það um 74 millj. meira en samkv. fjárlögum í ár og byggist á aukinni viðskiptaveltu.

Snemma árs 1960 samþykkti Alþ. gagngerar breytingar á tekjustofnum ríkissjóðs og sveitarfélaganna. Síðan hafa engir álagsstigar verið hækkaðir, en fremur stefnt í þá átt að lækka álögur, eins og tollalækkunin í nóv. 1961 og tollskráin frá s.l. vori bera órækan vott um. Þetta er í fjórða sinn í röð, sem fjárlög eru lögð fyrir Alþ. án þess að hækka tolla eða skatta eða grípa til nýrra tekjustofna.

Af útgjaldahækkunum samkv. frv. er langstærsti liðurinn launahækkanir til ríkisstarfsmanna. Þær munu valda hækkun um 175 millj. fyrir ríkissjóðinn sjálfan, en auk þess eru launahækkanir um 50 millj. hjá ríkisstofnunum, sem munu sjálfar standa undir þeim auknu gjöldum með tekjum sínum.

Aðrar hækkanir, sem verulegu máli skipta, eru þessar: Almannatryggingar hækka um 72.3 millj., framlag til lífeyristrygginganna um 53.6 millj., og stafar sú hækkun að meiri hluta af nýjum lögum um almannatryggingar, sem samþ. voru á síðasta þingi og ganga í gildi 1. jan. n.k., en að nokkru stafar hækkunin af fjölgun bótaþega og fleiri ástæðum. Framlag til sjúkratrygginga hækkar um 13.3 millj., og stafar það að rúmum helmingi af hækkun daggjalda á sjúkrahúsum og hælum, en að öðru leyti af breytingum á lögum um almannatryggingar og af fjölgun hinna tryggðu. Framlag til atvinnuleysistryggingasjóðs hækkar um 5.4 millj.

Ég vil bæta því við, að í meðförum Alþ. þarf að ætla fjárhæð til viðbótar til þess að hækka ellilaun gamla fólksins og gera nokkrar aðrar umbætur í sambandi við tryggingamálin.

Kostnaður við kennslumál, annar en launahækkanir, hækkar um 27 millj. Dómgæzla og lögreglustjórn um 20 millj. Framlög til lífeyrissjóða og uppbót á lífeyri um 15.5 millj. Framlög til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis 14.4 millj. Til framfærslu sjúkra manna og örkumla 8.6 millj. Nema þessir liðir, sem ég nú taldi, aðrir en launahækkanir, um 158 millj. kr. Á hinn bóginn lækkar liðurinn framlög til niðurgreiðslu á vöruverði og uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir um 37 millj., og hið sérstaka framlag til aflatryggingasjóðs vegna aflabrests togaranna, 15 millj., var miðað við eitt ár og fellur því niður.

Í aprílmánuði 1962 voru samþykkt á Alþ. einróma lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þau lög voru byggð á samkomulagi við bandalag opinberra starfsmanna og hlutu stuðning þingflokka og þingmanna ágreiningslaust. Með þeim lögum var gerð breyting á skipan launamála ríkisstarfsmanna. Í stað launalaga var hinum opinberu starfsmönnum veittur samningsréttur, en að því leyti sem samningar næðust ekki, skyldi kjaradómur skera úr og kveða á um laun og önnur kjör. Kjaradómur er skipaður fimm dómendum. Eru þrír þeirra skipaðir af hæstarétti, en einn af hvorum aðila, ríkisstj. og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Samningar tókust milli ríkis og starfsmanna um flokkun þeirra í 28 launaflokkum, en kjaradómur ákvað laun í hverjum flokki, setti reglur um yfirvinnu og fleira og ákvað greiðslu fyrir hana: Hin nýju ákvæði um launaflokkun og launagreiðslur gengu í gildi 1. júlí s.l. En þótt samkomulag yrði um flokkun starfsmanna í fyrrgreinda 28 launaflokka, var eftir að skipa einstökum ríkisstarfsmönnum í þá flokka og kveða nánar á um framkvæmd ýmissa ákvæða kjaradóms, aldurshækkanir og margt fleira. Samningar um þetta hafa staðið yfir milli samninganefndar ríkisins og kjararáðs bandalagsins undanfarna. mánuði. Það er mikið verk og tafsamt, og á það enn langt í land, að endanleg skipan sé komin á um þetta efni. Því var ákveðið, að útborgun launa hæfist eftir bráðabirgðatill., sem samninganefnd ríkisins um launamál hafði gert, og síðan skyldi unnið áfram að lausn ágreiningsatriða. Ef ekki gengur saman, fellir kjaranefnd loka úrskurð í þeim málum, en hún er einnig að meiri hluta skipuð af hæstarétti.

Þessar miklu breytingar á launakerfinu torvelduðu að sjálfsögðu undirbúning fjárlagafrv., þar sem óvíst var þá um fjölmarga starfsmenn, hvar þeim yrði að lokum skipað í launaflokk. Var horfið að því ráði, enda ekki annars kostur, að áætla launaliði í frv. í samræmi við þessa bráðabirgðaflokkun. Ef í ljós kemur, að þar skeikar einhverju, sem umtalsvert er, mætti lagfæra þá liði í meðförum þingsins. En þar eð svo er ástatt sem nú er rakið, þótti rétt í þetta sinn að fella niður þá starfsmannaskrá, sem undanfarið hefur fylgt fjárlagafrv., vegna þess að ekki eru nú fyrir hendi lokaniðurstöður um launaflokkun starfsfólks hjá einstökum stofnunum.

Vil ég nú víkja að nokkrum liðum fjárlagafrv., en vísa að öðru leyti til grg. þess um einstaka liði.

7. gr. fjallar um vaxtagreiðslur ríkissjóðs. í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir, að þær nemi 10.6 millj. kr., en í frv. fyrir 1964 eru þær áætlaðar helmingi lægri eða 5.3 millj. Þessi lækkun stafar af ýmsum ástæðum. Hún stafar af því, að nú er lokið vaxtagreiðslum vegna happdrættislána ríkissjóðs, og nemur það 1.5 millj., að vaxtagreiðslur ríkissjóðs af láni vegna kaupa á Borgartúni 7, 1.2 millj., falla niður, vegna þess að húseignin á sjálf að standa undir þeirri greiðslu, og að vextir, 2.7 millj., af togaraláninu hjá Seðlabankanum frá 1949 falla niður, en það lán var, eins og fyrr er getið, greitt upp í byrjun þessa árs af greiðsluafgangi síðasta árs.

Til þess að fá rétta mynd af vaxtabyrði ríkissjóðs á hverjum tíma er gleggst að athuga saman 4. gr. fjárlaga, sem fjallar um vaxtatekjur, og 7. gr., sem fjallar um vaxtaútgjöld ríkissjóðs. Við þennan samanburð sleppi ég þó efnum lið 4. gr., sem er arður af hlutabréfaeign. Þegar reiknaður er út mismunur á vaxtatekjum og vaxtagjöldum ríkissjóðs frá og með árinu 1950, kemur í ljós, að flest áin hafa útgjöldin numið meiru en tekjurnar eða allt upp í 4 millj. á ári. Tvö ár, 1955 og 1960, urðu vaxtatekjurnar þó nokkru hærri en gjöldin, fyrra árið tæpar 85 þús., síðara árið rúmar 3 millj. Á árinu 1962 varð hins vegar mismunurinn rúmar 5 millj. kr. ríkissjóði í hag. Vaxtatekjurnar urðu þessari upphæð hærri en vaxtagreiðslurnar.

Tekjur og gjöld ríkissjóðs eru árstíðabundin og sveiflum háð. Yfirleitt koma tekjurnar inn síðar en útgjöldin falla til. Verður því á vissum árstímum að gera ráð fyrir skuld við Seðlabankann. Sú skuld hefur orðið allhá á stundum, þegar tekjur hafa brugðizt eða komið seint inn af sérstökum ástæðum, t.d. vegna vinnustöðvunar og þar með stöðvunar á tollafgreiðslu vara. Meginreglan ætti að vera sú, að ríkissjóður sé skuldlaus um áramót á aðalviðskiptareikningi sínum við Seðlabankann. Það er eðli þessara viðskipta. Þessu markmiði hefur þó ekki verið náð fyrr en á síðustu árum. Tókst það fyrst í árslok 1961 að hafa ríkissjóð skuldlausan.

Á yfirstandandi ári hefur afstaða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum verið óvenju hagstæð. Undanfarið hefur ríkissjóður verið í yfirdrætti, sem kallað er, milli 250 og 270 daga ársins, en átt inneign 30–50 daga. Það sem af er þessu ári hefur yfirdráttur hins vegar verið í 83 daga, en inneign í 160 daga. Mun þetta að sjálfsögðu segja til sín við vaxtareikning og vaxtajöfnuð, þegar upp verður gert fyrir þetta ár, en væntanlega einnig hafa hagstæð áhrif fyrir ríkissjóð fram á næsta ár.

Í 10. gr. frv. vil ég sérstaklega nefna 3 liði, sem snerta Sameinuðu þjóðirnar.

Hið fasta framlag til Sameinuðu þjóðanna hækkar um 205 þús. og verður nú 1.5 millj. Þá er nýr liður framlag til starfsemi Sameinuðu þjóðanna í Kongó 1032 000 kr. Og loks er gert ráð fyrir því, að tillögu utanrrn., að Ísland gangi í Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco. Eru teknar í því skyni 393 þús. kr. Ég efa það ekki, að allri íslenzku þjóðinni virðist það sjálfsagt og rétt, að Ísland leggi til Sameinuðu þjóðanna og starfsemi þeirra það, sem með eðlilegum hætti má ætlast til af okkar þjóð, og telji því ekki eftir þau framlög, sem hér voru rakin.

Á síðasta þingi voru samþykkt ný lög um lögreglumenn. Með þeim lögum var gengið mjög til móts við gamlar og nýjar óskir sveitarfélaganna um, að ríkissjóður taki meiri þátt í lögreglukostnaði en áður var. Hækkun ríkisútgjalda vegna þessara laga er áætluð í frv. fyrir 1964 nærri 7 millj. kr. í lok síðasta árs var sett ný löggjöf um almannavarnir, og hækkar fjárveiting til þeirra úr 1 í 4 millj. kr. Kostnaður við landhelgisgæzlu hækkar um 4.5 millj. kr. Stuðningur við bindindisstarfsemi er aukinn. Styrkurinn til áfengisvarnaráðs hækkar um 100 þús. kr., upp í 950 þús., styrkurinn til Stórstúku Íslands um 100 þús., upp í 390 þús. Kostnaður við skattamál hækkar um 7 millj. kr. Stafar það bæði af launahækkunum, ýmiss konar stofnkostnaði o. fl.

Undanfarið hefur verið unnið að endurskipulagningu á framkvæmd skattamála í samræmi við ákvæði nýju skattalaganna frá 1962. Margt er það í hinu nýja fyrirkomulagi, sem horfir mjög til bóta og er þegar farið að bera árangur. Nú er unnið að því að koma á fót sérstakri eftirlits- og rannsóknardeild við embætti ríkisskattstjóra til þess að hafa strangt og víðtækt eftirlit með framtölum og framkvæmd laga um tekju- og eignarskatt, útsvör, aðstöðugjöld og söluskatt.

12. gr. frv. fjallar um heilbrigðismál. Rekstrarhalli ríkisspítalanna hækkar um rúmar 42 millj. kr. Stafar sú hækkun af launahækkunum að miklu leyti og auknum kostnaði við aukavinnu, en enn fremur af þörf fyrir aukið starfsmannahald við spítalana.

13. gr. A fjallar um vegamál. Fjárveiting til þjóðvega hækkar um 16.5 millj., upp í 107 millj. kr., auk 7.1 millj., sem er vegagjald af benzíni til millibyggðavega. Vegaviðhaldið hækkar um 7 millj., og er nú áætlað, að það kosti 70 millj. kr. á næsta ári. Auk þess eru ætlaðar til greiðslu af vegalánum 10.4 millj. Hér er um að ræða greiðslur af föstum lánum vegna Reykjanesbrautar, Siglufjarðarvegar ytri (Strákavegar), Múlavegar og Hellissandsvegar um Ólafsvíkurenni. Lán voru tekin á þessu ári til að hraða þessum vegaframkvæmdum. Lánin eru flest til 15 ára ég vextir 8½–9½% á ári.

13. gr. B fjallar um samgöngur á sjó. Rekstrarhalli Skipaútgerðar ríkisins hækkar um 5 millj. kr.

13. gr. C er um vitamál og hafnargerðir. Þar er nýr liður: Til greiðslu af hafnarlánum 9.9 millj. kr. Hér er um að ræða greiðslur af framkvæmdalánum, sem tekin hafa verið til landshafna í Keflavík–Njarðvík og í Rifi og til hafnargerðar í Þorlákshöfn.

14. gr. fjallar um kennslumál. Þar er mesta hækkunin til barnafræðslunnar eða 58 millj. rúmar. Meginhluti þess er vegna launahækkunar kennara og vegna fjölgunar kennara til þess að fullnægja fræðsluskyldunni. Framlag til byggingar barnaskóla, sem í smíðum eru, hækkar um 8.6 millj., upp í 36.2. Auk þess eru ætlaðar 8.5 millj. kr. til byggingar nýrra skóla. Framlög til gagnfræðamenntunar hækka samtals um 35.3 millj. Meginhlutinn er þar einnig launahækkun og kennarafjölgun, en þeim þarf að fjölga um 36. Framlag til byggingar gagnfræðaskóla hækkar um 4.7 millj., upp í 22 millj. Á síðasta þingi voru sett ný lög um almenningsbókasöfn, og hækka framlög til þeirra um 2.5 millj. frá gildandi fjárlögum.

15. gr. fjallar um kirkjumál. Þar eru 3 liðir, sem snerta Skálholt: Í fyrsta lagi kostnaður við Skálholtshátíðina 725 þús. kr. Í öðru lagi eftirstöðvar af byggingarkostnaði Skálholtskirkju, sá liður hækkar um 700 þús. í 1.5 millj. Loks er í þriðja lagi einnar millj. kr. framlag til Skálholtsstaðar samkv. ákvæðum laga um afhendingu Skálholts þjóðkirkjunni til handa.

Kostnaður við sauðfjársjúkdómavarnir hækkar verulega, vegna þess að fyrir dyrum standa fjárskipti í Dölum. Eru áætlaðar bætur og styrkir í sambandi við fjárskiptin í frv. 8650 þús. kr. Þarna er um að ræða 18 þús. fjár. Síðan fjárlagafrv. var samið og prentað, hafa fulltrúar bænda í Dölum borið fram óskir í sambandi við fjarskiptin, óskir, sem þurfa sérstakrar athugunar við. Vil ég beina því til hv. fjvn., að hún taki það mál sérstaklega til meðferðar í samráði við ríkisstj.

Með lögum frá í fyrra var breytt ákvæðum um framlög ríkisins til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Áður var hámarksupphæð í lögum um framlag ríkissjóðs 4 millj. á ári. Þetta hámark var nú afnumið, og hækkar fjárveitingin til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis um 14:4 millj. kr.

Á 20. gr. eru nokkrar breytingar, m.a. er framlag til byggingar menntaskóla í Reykjavík hækkað um 1 millj. kr. og til byggingar Kennaraskóla Íslands um 1 millj. Þá er nýr liður: Til byggingar handritahúss, að upphæð 3 millj. kr., sem er byrjunarframlag, en auk þess eru í 14. gr. veittar 2 millj. kr. til starfsemi hinnar nýju Handritastofnunar Íslands.

Í febrúar 1960, réttum 3 mánuðum eftir að núv. stjórn tók til starfa, voru lögfestar víðtækar efnahagsaðgerðir. Þær miðuðu að því að koma þjóðarbúinu á réttan kjöl eftir stórfelldan hallarekstur undangenginna ára, hafta- og uppbótakerfi og hvers konar skekkjur og aflögun í athafna- og viðskiptalífi. Tilgangurinn var sá að koma á jafnvægi í sem flestum þáttum efnahagslífsins og tryggja örugga og næga atvinnu handa öllum landsins börnum. Hvernig hefur þessi viðreisn tekizt? Þegar litið er á 3 fyrstu árin, árin 1960, 1961 og 1962, er það ljóst, að í öllum meginatriðum tókst viðreisnin vel, þeim árangri var náð, sem að var stefnt. Skulu nefnd hér nokkur dæmi til sönnunar.

Hallarekstur þjóðarbúsins gagnvart útlöndum var stöðvaður. Þegar á árinu 1961 tókst að jafna þann halla og ná hagstæðum greiðslujöfnuði við útlönd. Sami árangur náðist á árinu 1962. Í staðinn fyrir sífellt gjaldeyrishungur tókst á þessum árum að safna álitlegum gjaldeyrisforða. Í febrúarlok 1960 var gjaldeyrisskuld bankanna 216 millj. kr., en um síðustu áramót, eftir tæplega 3 ára viðreisn, var gjaldeyrisforði 1150 millj. kr. Með honum var lagður grunnur að lánstrausti Íslands erlendis, eins og verkin sýna, og skapaður varasjóður til þess að mæta örðugleikum af náttúrunnar völdum, markaðstregðu, verðfalli eða öðru óláni, sem við getum ekki við ráðið. Sparifjársöfnun er undirstaða allra framfara. Á henni byggist það, hversu bankar og lánsstofnanir geta lánað mikið út til framkvæmda og fjárfestingar. Sparifjársöfnunin hefur aukizt frá febr. 1960 til síðustu áramóta úr 1825 millj. upp í 3531 millj. eða nær tvöfaldazt. Full atvinna hefur verið yfirleitt um allt land allan þennan tíma. Öll árin voru afgreidd og framkvæmd hallalaus fjárlög. Greiðsluafgangur hefur orðið á hverju ári hjá ríkissjóði, sem var eitt af grundvallarskilyrðum þess, að viðreisnin tækist. Viðskiptafrelsi var stóraukið í landinu, og hagur þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, bættur með meiri umbótum á almannatryggingum en dæmi eru til áður í sögu landsins. í öllum þessum undirstöðuatriðum hefur viðreisnin vel tekizt. En á þessu ári, sem nú er að líða, hefur margt gengið úr skorðum og stefnir nú á annan veg en undanfarin 3 ár. Um orsakir þess skal ég ekki ræða hér. En á þessu ári er orðinn ískyggilegur halli á viðskiptunum við útlönd. Innflutningur hefur aukizt gífurlega, gjaldeyrissjóðurinn hefur ekki vaxið frá áramótum, sparifjáraukning er tregari en áður, eftirspurn eftir vinnuafli er í mörgum greinum svo mikill, að enginn vegur er að fullnægja henni, og yfirborganir og undandráttur sigla í kjölfarið. Fiskvinnslustöðvarnar telja sig trauðlega geta risið undir þeirri hækkun kaups og annars kostnaðar, sem orðinn er. Allir þessir örðugleikar eru heimatilbúnir, og eins og íslenzku þjóðinni hefur tekizt að búa þá til, eins er ég viss um, að hún getur ráðið við þá. En til þess þarf rétt vinnubrögð og snör og djarfleg handtök. Verðbólgan má ekki gleypa hina álitlegu ávexti viðreisnarinnar. Ríkisstj. undirbýr nú lausn vandans. Tillögur sínar mun hún leggja fyrir þing og þjóð innan skamms. Þær munu hvorki fela í sér gengislækkun né uppbótakerfi, heldur heilbrigða lausn til framhalds og verndar viðreisninni.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. um fjárlagafrv. verði frestað og því vísað til hv. fjvn.