29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2450)

53. mál, umferðarmál í Kópavogi og Garðahreppi

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. fjvn. afgreiðslu á þeirri till., sem við höfum flutt hér á þskj. 54. Ég er fyllilega sammála þeirri breyt., sem n. leggur til að gerð verði, og tel, að þetta mál, eins og það er nú vaxið, sé orðið slíkt nauðsynjamál, að það verði ekki á nokkurn hátt hægt að draga að hefja framkvæmdir um bættar samgöngur á þessu svæði.

Eins og frsm. benti á, kom það fram í umsögn vegamálastjóra, að á s.l. hausti hefði umferðin í Kópavogi verið komin á 14. þús. Hún fer ört vaxandi, og síðustu talningar, sem áttu sér stað eftir áramótin, sýna, að hún hefur komizt suma daga upp í tæpar 16 þús. bifreiðar. Þetta sýnir og sannar, að tvöföld akbraut, sem talið er að þoli 10 þús. bifreiðar á dag til umferðar, getur tæpast annað þeirri umferð, sem hér er komin, enda umferðin oft og tíðum í slíkum hnút, að þeir, sem þurfa á sæmilegan hátt að komast leiðar sinnar, sjá alls ekki, á hvern hátt þessum málum verður borgið, ef ekkert verður að gert.

Ég endurtek svo þakkir mínar til nefndarinnar, og ég veit, að núv. ríkisstj. og sá ráðh., sem með þessi mál fer, hefur mikinn skilning á þessu máli og að framkvæmdir verði hafnar hið allra fyrsta.