22.10.1963
Sameinað þing: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

1. mál, fjárlög 1964

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er það fimmta í röðinni, sem viðreisnarríkisstjórnin leggur fyrir Alþingi.

Fyrsta fjárlagafrv. núv. ríkisstj. var fyrir árið 1960. Það frv. var sérstaklega samið með tilliti til hinnar nýju efnahagsmálastefnu, sem ríkisstj. tók upp á árinu 1960.

Árið 1960 voru öll útgjöld ríkisins samkv. fjárl. ákveðin 1500 millj. kr. Frv. fyrir 1964, sem hér liggur fyrir til 1. umr., gerir ráð fyrir, að heildarútgjöld ríkisins verði 2539 millj. kr. Hækkunin frá 1960 nemur því 1039 millj. kr. eða rúmum milljarð. Þessi hækkun er um 70%.

Þessi samanburður er miðaður við fyrsta fjárlagaár viðreisnarinnar eða við þann tíma, þegar ríkisstj. taldi sig hafa gert nauðsynlegar leiðréttingar á skráningu krónunnar og aðrar fjármálalegar ráðstafanir til jafnvægis í þjóðarbúskapnum, til þess, eins og stjórnin sagði þá, að tryggja stöðugt verðlag og öruggt verðgildi peninganna.

Með fjárlagafrv. 1960 var tekið stórfellt hækkunarstökk frá því, sem verið hafði árið áður, 1959. Sé miðað við ríkisútgjöldin árið 1959, áður en viðreisnarstefnan kom til, og þau borin saman við fjárlagafrv. fyrir 1964, kemur í ljós, að heildarhækkunin á sambærilegum grundvelli nemur 1450 millj. kr. eða útgjöldin hafa hækkað um 140%.

Nú er það svo, að hverjum þeim, sem lítur á frv. það, sem hér er til umr., hlýtur að vera það ljóst, að útgjöld þess eiga eftir að hækka í meðförum Alþingis um marga milljónatugi. Þannig er augljóst, að útgjöld til tryggingamála hljóta að hækka mikið, og óhugsandi er annað en ellilaun og örorkulaun og ýmsar aðrar bætur almannatrygginganna verði hækkaðar til samræmis við launahækkun opinberra starfsmanna og annarra launþega, eins og jafnan hefur verið gert áður. Þær hækkanir hljóta að nema tugum milljóna. Hið sama er að segja um eftirlaun og lífeyrisgreiðslur ríkisins, þær verða að sjálfsögðu hækkaðar líka, enda ráð fyrir því gert í grg. frv. Hækkanir á heildarútgjöldum ríkissjóðs á árinu 1964 frá því, sem var á fyrsta ári viðreisnarinnar, 1960, munu því verða enn þá meiri en hér hefur verið tilgreint af mér í tölum.

Þessar gífurlegu hækkanir á útgjöldum ríkissjóðs á viðreisnartímabilinu segja sína sögu. Þær sýna, að á þessu tímabili hefur ekki ríkt stöðugt verðlag eða öruggt verðgildi peninganna. Þær sýna þvert á móti, að ráðstafanir viðreisnarinnar í efnahagsmálum hafa leitt til meiri stökkbreytinga í verðlagsmálum en áður hefur þekkzt.

Hinar miklu útgjaldahækkanir á fjárlögum á viðreisnartímanum eru aðeins augljóst dæmi um þá þróun verðlags- og fjármála, sem yfir hefur gengið í landinu á síðustu árum. Ríkissjóður er ekki einn um það að hafa orðið að hækka útgjöld sín á þennan hátt. Flest fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar hafa sömu sögu að segja. Tökum eina af stærstu ríkisstofnunum sem dæmi, póst og síma. Árið 1960 voru öll útgjöld þeirrar stofnunar áætluð 147 millj., en nú, 1964, eru öll útgjöld pósts og síma áætluð 314 millj. kr., eða útgjöldin hafa hækkað um meira en 100%. Þannig hefur þróunin í verðlags- og fjármálum verið. Þessi hefur orðið niðurstaðan af loforðum viðreisnarstefnunnar um stöðugt verðlag og öruggt verðgildi peninganna.

Fjárlög ríkisins verða ekki afgreidd nema í nánu samræmi við ríkjandi ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar almennt. Eftir fjögurra ára viðreisn hafa ný, stórfelld efnahagsvandamál komið til sögunnar í íslenzkum þjóðarbúskap, — vandamál, sem nú í dag virðast vera meiri og erfiðari en áður hefur verið við að glíma um langan tíma. Ég mun því ekki ræða nánar í þessum umr. fyrirliggjandi fjárlagafrv. sérstaklega, heldur nota tíma minn til þess að víkja nokkuð að ástandi efnahagsmálanna almennt.

Þeir munu fáir vera, sem ekki viðurkenna, að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar nú á þessu hausti sé erfiðari viðfangs og vandamálin torleystari en oftast áður. Mest beinist athygli manna að þróun verðlags- og launamála. Við skulum athuga þessa tvo veigamiklu þætti efnahagsmálanna nokkru nánar.

Samkv. nýjustu upplýsingum Hagstofu Íslands er vísitala matvöru komin upp í 175 stig, en það þýðir, að matvörur þær, sem reiknað er með í vísitölunni, hafa hækkað að meðaltali um 75% í tíð núv. ríkisstj. Samkv. sömu upplýsingum hagstofunnar kemur í ljós, að allar vörur og öll þjónusta, sem reiknað er með í útgjöldum vísitöluheimilisins, hafa hækkað um 63% að meðaltali í tíð viðreisnarstj. Útreikningar hagstofunnar sýna, að hinn 1. okt. s.l. var svo komið, að útgjöld vísitöluheimilisins fyrir vörur og þjónustu námu orðið 80 þús. kr. Sé við þau útgjöld bætt húsaleigu. 2 þús. kr. á mánuði, eða 24 þús. kr. á ári, og opinberum gjöldum, eins og reiknað er með í vísitölunni, 12 400 kr., og þó fullt tillit tekið til fjölskyldubóta og niðurgreiðslna, þá eru heildarútgjöld vísitöluheimilisins orðin 109 500 kr. Verkamannakaup fyrir 8 stunda vinnudag alla virka daga ársins á núgildandi kaupi nemur hins vegar aðeins 67 200 kr. Miðað við þessi heildarútgjöld vantar því á 42 300 kr. á ári, til þess að tekjur fyrir 8 stunda vinnudag á gildandi dagvinnukaupi hrökkvi fyrir útgjöldum meðalfjölskyldunnar.

Árið 1959, eftir að kaupið hafði þó verið fært niður með lögum, voru heildarútgjöld vísitölufjölskyldunnar á sama hátt reiknuð 66181 kr., en dagkaup fyrir 8 stunda vinnudag allt árið 49 608 kr. Þá vantaði verkamann 16 573 kr. á ári, til þess að dagvinnukaupið hrykki fyrir meðaltalsútgjöldum, en nú vantar sem sagt ekki 16 þús., heldur 42300 kr., reiknað á sama hátt, eða 25 727 kr. meira nú en þá. Þannig hefur sífellt hækkandi verðlag raunverulega minnkað kaupmátt tímakaupsins.

Sú geigvænlega dýrtíð, sem nú er orðin, er þó ekki allur vandinn í verðlagsmálunum, sem við er að fást í dag. Fyrirsjáanlegt er, að miklar hækkanir eru á næstu grösum í flestum greinum. Hið háa verðlag nú er þannig í upphafi stórfelldra launahækkana, sem enn eru ekki farnar að segja til sín í verðlaginu. Á næstunni koma hækkanir á rafmagni, hita, strætisvagnagjöldum, sjúkrasamlagsgjöldum og margs konar þjónustu, og enn eru ókomnar inn í verðlagið ýmsar afleiðingar af hækkun landbúnaðarvaranna frá í haust. Og enn eiga eftir að segja til sín í verðlaginu áhrifin af kauphækkun opinberra starfsmanna, kauphækkun bæjarstarfsmanna, væntanlegri kauphækkun verzlunarfólks og óhjákvæmilegri hækkun á kaupi iðnverkafólks og verkamanna. Þá hefur ríkisstj. tilkynnt í fjárlagafrv., að hún hafi ákveðið að minnka niðurgreiðslur á vörum innanlands á næsta ári um 92 millj. kr., en það jafngildir stórfelldri verðhækkun á fiski, smjöri, smjörlíki, kaffi og fleiri vörum.

Vandinn, sem við er að glíma í verðlagsmálunum, er ekkert smásmíði. En hverjar eru orsakirnar til þessarar gífurlegu dýrtíðar, til þessarar þróunar í verðlagsmálum í landinu? Orsakir þessarar óheillaþróunar er að rekja beint til efnahagsmálastefnu ríkisstj. sjálfrar.

Á tímabili viðreisnarinnar hafa verið framkvæmdar tvær gengislækkanir, auðvitað með afleiðingum hækkandi verðlags. Á tímabili viðreisnarinnar hefur verið haldið uppi hreinu vaxtaokri, sem auðvitað hefur leitt af sér aukinn kostnað í ýmsum greinum, m.a. stóraukinn húsnæðiskostnað. Á tímabili viðreisnarinnar hefur álagning verzlunar- og þjónustufyrirtækja verið hækkuð eða gefin frjáls, sem skiljanlega hefur leitt til hækkandi verðlags. Nú fyrir skemmstu voru öll flutningsgjöld skipafélaga gefin frjáls, sem auðvitað leiðir af sér tugmilljóna hækkun á vöruverði.

Stefna ríkisstj. hefur verið frjáls verðmyndun, þ.e.a.s. frjáls álagning, frjálsræði fyrirtækja og stofnana til þess að hagnast eftir getu. Verðlagseftirlit hefur raunverulega verið að engu gert. Það er þessi stefna frelsisins, hinna frjálsu gróðasjónarmiða og gengislækkunarráðstafanirnar, sem magnað hafa dýrtíðina og skapað hafa þann vanda, sem nú er við að glíma í verðlagsmálunum. Það er alger misskilningur að halda, að hin mikla dýrtíð nú eigi rætur sínar að rekja til of mikilla kauphækkana. Hitt er augljóst mál, sem allir verða að skilja, að með öllu er útilokað, að kaupgjald hækki ekki á eftir miklum verðlagshækkunum. Auðvitað hefur reynslan líka orðið sú hér á landi á undanförnum árum.

Staðreyndir kaupbreytinganna á undanförnum árum eru þessar í aðalatriðum. Allt árið 1959 bjó verkalýðshreyfingin í landinu við skert kaup frá því, sem hún hafði löglega samið um við atvinnurekendur. Það voru núv. stjórnarflokkar, sem þá færðu kaupið niður með lögum. Og enn tóku launþegar á sig kaupskerðingu með gengislækkunarlögunum í febr. 1960, og þeir biðu með óbreytt kaup fram á mitt ár 1961. Á þessu tímabili hafði kaupmáttur tímakaups farið úr 109 stigum í ársbyrjun 1959 í 84 stig í apríl 1961. Kaupmáttur hafði þannig stórlækkað, og stjórnarflokkarnir höfðu fengið biðtíma til þess að reyna efnahagsmálatill. sínar í 2½ ár án nokkurra kauphækkana.

Á miðju ári 1961 var samið um 10–12% kauphækkun verkafólks. Sú kauphækkun náði ekki að jafna þá kjaraskerðingu, sem orðið hafði á tíma viðreisnarinnar. Þessari kauphækkun svaraði ríkisstj. strax með nýrri gengislækkun, sem á skömmum tíma tók allar kauphækkanir til baka og ríflega það. Síðan hafa kauphækkanir verkafólks verið litlar og aðeins gerðar til þess að víkja af herðum verkafólks sárasta þunga sívaxandi dýrtíðar. Og nú í dag er þannig ástatt, að kaupmáttur tímakaups verkamanna er aðeins 82 stig og hefur aldrei orðið lægri um margra ára skeið.

Þannig eru staðreyndir kaupgjaldsbreytinganna alveg augljósar. Kaupið hefur dregizt langt aftur úr, en dýrtíðin rokið fram úr. Nauðvörn verkamanna og allra hinna lægst launuðu í þessu ójafna kapphlaupi hefur orðið sú að bæta við sig vinnustundum á hverjum degi og vinna fleiri og fleiri helgidaga ásamt með stóraukinni vinnu barna og kvenna og jafnvel gamalmenna. Þannig hefur tekizt að halda í horfinu á móti síhækkandi verðlagi.

Eins og nú er ástatt í íslenzkum efnahagsmálum, er óhjákvæmileg nauðsyn, að stjórnarvöld landsins viðurkenni þær staðreyndir, sem hér hafa verið raktar, ef nokkur von á að vera til þess, að hægt verði að ráða fram úr þeim vanda, sem við er að fást. Ríkisstj. verður að viðurkenna, að það eru afleiðingar af viðreisnarstefnu hennar, sem skapað hafa vandann, en ekki óeðlilegar kauphækkanir. Orsakir vandans liggja í endurteknum gengisfellingum, vaxtaokri og í hinni frjálsu verðmyndun, þ.e.a.s. orsakirnar liggja í því, að sjónarmið gróðahyggjunnar hefur fengið að ráða. Launahækkanirnar hafa komið á eftir og eru núna að koma í ríkara mæli en nokkru sinni áður vegna þessarar þróunar.

S.l. sumar kvað opinber dómstóll, kjaradómur, upp úrskurð um launakjör opinberra starfsmanna. Niðurstaða dómsins er talin hafa orðið sú, að meðaltalshækkun á kaupi opinberra starfsmanna hafi orðið um 45%. Ýmsir embættismenn hafa þó fengið miklu meiri hækkun eða 70–90%. Samkv. fjárlfrv. fyrir næsta ár telur fjmrh., að laun starfsmanna ríkisins muni hækka eftir dómnum um 225 millj. kr. og e.t.v. meir. Orsaka þessara miklu hækkana er að leita til mjög mikillar og almennrar óánægju, sem orðin var meðal embættismanna með launakjörin. Þannig höfðu verkfræðingar staðið í verkföllum út af sínum launakjörum, læknar sagt upp störfum og kennarar hótað að leggja niður sín störf. Auðvitað var hér að verki hin almenna þróun efnahagsmálanna í landinu. Næst á eftir kjaradómi komu blaðamenn og kröfðust kauphækkunar til jafns við opinbera starfsmenn, og nú brá svo við, að jafnvel blaðamenn Morgunblaðsins, sem alltaf höfðu, eins og hugsunarlausar vélar, skammazt út í allar launaleiðréttingar verkamanna og dásamað viðreisnarstefnuna, nú fóru þeir í verkfall og kröfðust 40–50% kauphækkunar sér til handa, auðvitað ekki af illgirni og fjandskap út í stjórnarstefnuna, heldur vegna þarfar á hækkuðu kaupi. Á eftir blaðamönnum komu svo starfsmenn Reykjavíkurborgar og bankanna, og þeir heimtuðu einnig stórfelldar kauphækkanir og fengu þær a. m. k. til jafns við opinbera starfsmenn. Og nú hafa samtök verzlunar- og skrifstofufólks gert sínar launakröfur um 40–50% kauphækkun eða til jafns við aðrar hliðstæðar vinnustéttir. Og síðast eru svo komnar fram kröfur almennu verkalýðsfélaganna, og þar er farið fram á 40% kauphækkun.

Allar þessar kauphækkanir, sem ýmist eru þegar samþykktar eða hljóta að ná fram að ganga að meira eða minna leyti, eiga orsakir sínar að rekja til efnahagsmálastefnu ríkisstj. Það er aðalatriði málsins, sem stjórnarvöldin verða að átta sig á. Auðvitað eru þessar kaupbreytingar og kaupkröfur misjafnlega réttlátar og eðlilegar. Sumar eiga eflaust fullan rétt á sér, aðrar eru vafasamar. Það er ekki aðalatriði málsins. Hitt skiptir mestu máli, að þessar almennu og miklu kaupbreytingar, sem m.a. sumt af tryggasta stuðningsliði stjórnarflokkanna stendur að, eru ekki komnar fram að ástæðulausu. Þær eru ekki komnar fram af fjandskap við ríkisstj. Ástæðurnar eru þær, að launastéttir landsins þola ekki lengur hina skilningslausu, neikvæðu kauplækkunar- og kjaraskerðingarstefnu viðreisnarinnar.

Ríkisstj. hefur allt of lengi blekkt sjálfa sig og aðra um hið rétta ástand efnahagsmálanna. Hún hefur hamrað á því, að viðreisnarstefna hennar hafi unnið afrek í efnahagsmálum þjóðarinnar. Viðreisninni var þakkaður mikill sjávarafli og auknar þjóðartekjur. Viðreisninni var þökkuð mikil atvinna. Viðreisnin var sögð hafa leitt til þess, að þjóðin ætti nú yfir 1 milljarð í gjaldeyrissjóði, og því var jafnvel haldið fram, að viðreisnin hefði fært launastéttunum í landinu hækkað raunverulegt kaup. Með slíkum blekkingum sem þessum smokraði ríkisstj. sér í gegnum síðustu alþingiskosningar. Henni tókst að blekkja þjóðina, og ekki er fjarri að álykta, að ýmsir af framámönnum stjórnarliðsins hafi ekki heldur gert sér fulla grein fyrir ástandi málanna. Viðreisnarstefnan átti auðvitað engan þátt í hinum gífurlega mikla síldarafla. Hitt var annað mál, að hinn mikli afli breiddi nokkuð yfir eða dró úr ágöllum viðreisnarstefnunnar. Hugsið ykkur, hvernig farið hefði, ef síldarafli hefði ekki orðið meiri s.l. 2 ár en hann var t.d. á dögum vinstri stjórnarinnar. Hvað hefði þá gerzt? Nú ætlar allt um þveran hrygg að brotna í efnahagsmálum þjóðarinnar, þó að um metaflaár sé að ræða. Hinn mikli gjaldeyrissjóður viðreisnarinnar var mestmegnis blekking í lok septembermánaðar s.l. var gjaldeyriseign bankanna talin 1.082 millj. kr. Á sama tíma voru stutt vörukaupalán verzlunarinnar við útlönd talin af bönkunum 550 millj. kr. Sé sú upphæð dregin frá, eins og auðvitað ber að gera, þá hefur nettógjaldeyriseignin numið 532 millj. kr. í septemberlok. Þess ber svo að gæta, að sú gjaldeyriseign er til komin m.a. á þann hátt, að tekin hafa verið erlendis lán á þessu og s.l. ári, sem nema mun hærri upphæð, og hefðu þau lán ekki verið tekin, hefði enginn gjaldeyrissjóður verið til. Þannig tók t.d. ríkissjóður um 240 millj. kr. lán í Bretlandi, og lán hafa verið tekin út á fiskafurðir frystihúsanna í Bandaríkjunum, sem nema rúmum 200 millj. kr. Þessi og önnur lán hafa auðvitað bætt gjaldeyrisstöðu bankanna, en ekki þjóðarheildarinnar.

Eitt af grundvallarstefnumiðum viðreisnarinnar var, að hér skyldi byggt upp frjálst hagkerfi, eins og það var orðað. Hið frjálsa hagkerfi var fólgið í því, að innflutningsverzlunin skyldi gefin frjáls. Innflytjendur áttu að fá gjaldeyri eftir vild og geta keypt inn það, sem þeir vildu og þar sem þeir vildu. Síðan átti að aflétta sem fyrst öllu verðlagseftirliti og frjáls verðmyndun átti að ráða í fjárfestingarmálum og peningamálum átti einnig allt að vera frjálst, engar hömlur, engin ríkisafskipti. Þessa stefnu hefur ríkisstj. burðazt við að framkvæma, þó með nokkrum undanþágum, þar sem gróðamönnum hefur þótt annað hentugra. Þessi stjórnleysisstefna í viðskipta- og fjárfestingarmálum hefur þegar beðið gjörsamlegt skipbrot. Viðskmrh. hefur nýlega viðurkennt í ræðu, að á yfirstandandi ári hafi innflutningur til landsins orðið allt of mikill og neyzla og fjárfesting hafi farið langt fram úr öllum áætlunum. Nú hafa þó verið í gildi öll þau sjálfvirku ráð, sem stjórnin telur að stjórnað geti þessum málum. Vextir hafa verið feiknaháir til þess að draga úr útlánum. Sparifjárbinding hefur verið framkvæmd í stórum stíl. Bönkunum hefur verið refsað með 18% vöxtum, ef þeir lánuðu út of mikið fé, og mikið vöruúrval hefur átt að tryggja lágmarkssamkeppnisverð á innanlandsmarkaði.

Viðskmrh. viðurkennir, að illa hafi farið, en hvað vill hann gera? Jú, afstaða hans er sú að sama stjórnleysiskerfið skuli gilda áfram. Ráðið er, segir hann, samræmdar aðgerðir í peningamálum, fjármálum og launamálum. M.ö.o.: leiðin virðist vera þessi, að hækka vexti enn og auka enn á sparifjárbindingu til þess að draga úr útlánum bankanna, og svo þarf enn að minnka kaupið, til þess að eyðslan og fjárfestingin minnki. Hvílík skammsýni, að sjá ekki betur, hvað gera þarf. Hinn skipulagslausi innflutningur hefur leitt til þess, að þjóðin hefur sóað hundruðum millj. á bílakaup fram yfir það, sem hóflegt hefði verið á þessu ári. Skipulagsleysið í fjárfestingarmálunum hefur leitt til þess, að íbúðarhúsabyggingar hafa dregizt saman á undanförnum árum, á sama tíma og verzlunarhúsnæði, bankabyggingar og hótel hafa stóraukizt samkvæmt opinberum skýrslum. Þjóð, sem stendur í mikilli uppbyggingu, verður blátt áfram að gera sér fyrir fram allnákvæma grein fyrir því, hve miklu hún getur eytt í fjárfestingu og hvaða fjárfesting þarf að ganga fyrir. Handahóf gróðasjónarmiðsins má ekki ráða í slíkum tilfellum.

Reynslan hefur áþreifanlega sannað, að stjórnleysisstefna ríkisstj., þ.e.a.s. sú stefna að gefa gróðaöflunum lausan tauminn í verðlags-, viðskipta- og fjárfestingarmálum, fær ekki staðizt. Viðreisnarstefnan er hrunin. Þeirri efnahagsstefnu verður ekki haldið lengur áfram nema með vaxandi erfiðleikum og tjóni fyrir þjóðarheildina. Þetta er nú viðurkennt af mönnum úr öllum flokkum og öllum stéttum. Þessa staðreynd verður ríkisstj. líka að viðurkenna. Frá viðreisnarstefnunni verður að hverfa. Nýja stefnu verður að taka upp í efnahagsmálum þjóðarinnar, — stefnu, sem byggir á sanngirni og samkomulagi við launþega og setur hagsmuni útflutningsframleiðslunnar ofar hagsmunum milliliða og kaupsýslumanna.

Það, sem skiptir mestu máli í dag í íslenzkri pólitík, er að viðurkenna þá staðreynd, að landinu verður ekki stjórnað, svo að vel sé og til heilla fyrir þjóðarheildina, nema í vinsamlegu samstarfi við launþegasamtökin í landinu, við undirstöðuafl þjóðfélagsins, sterkustu skipulagsheildina í landinu. Grundvöllur viðreisnarstefnunnar var sá, að landinu skyldi stjórnað í andstöðu við launþegasamtökin og ráðið skyldi fram úr vandamálum þjóðfélagsins í fullri andstöðu við hagsmuni launþega, en eftir hagsmunum milliliða og gróðamanna. Það var jafnvel talið sem dæmi um óþingræðisleg vinnubrögð að ræða um lausn efnahagsvandamálanna við aðila utan Alþingis, eins og launþegasamtökin.

Þó að vandi efnahagsmálanna sé mikill í dag vegna langvarandi rangrar stefnu í grundvallaratriðum, þá eru þó möguleikar þjóðarinnar til þess að ráða fram úr vandanum á ýmsan hátt góðir. Framleiðslutæki þjóðarinnar eru meiri og betri nú en nokkru sinni fyrr. Möguleikar til enn stóraukinnar framleiðslu eru vissulega fyrir hendi. Markaðir eru nægir, ef viðskiptamálum þjóðarinnar er beitt á hagkvæmasta hátt. Enginn vafi er á, að hægt er að stórauka þjóðartekjurnar á næstu árum með aukinni tækni, betri nýtingu þess, sem aflað er, og meiri hagkvæmni í rekstri.

En skilyrði þess, að hægt sé að komast út úr vandanum nú, er að skipt sé um stefnu í grundvallaratriðum. Við Alþb.-menn höfum frá byrjun barizt gegn kjaraskerðingarstefnu núv. stjórnarflokka. Við börðumst gegn lögþvingaðri lækkun á kaupi verkamanna, sjómanna og bænda árið 1959, sem þessir flokkar þá knúðu fram. Þá brást Framsfl. og aðstoðaði við þá kjaraskerðingu. Við börðumst gegn því, að vísitölutrygging á kaupi yrði afnumin, en slík trygging var nauðvörn verkamanna og bænda gegn hækkandi dýrtíð. Í því máli brást Framsfl. einnig.

Við Alþb.-menn höfum allan tímann barizt fyrir því, að mynduð yrði sem sterkust samstaða vinstri aflanna í landinu gegn hægri stefnu viðreisnarinnar. Í alþingiskosningunum s.l. sumar brást Framsfl. vonum vinstri manna með því að neita með öllu að lýsa yfir, að meirihlutaaðstaða vinstri manna yrði að kosningum loknum notuð til sameiginlegrar stjórnarstefnu. Þá varð ljós afstaða framsóknarforingjanna, að þeirra keppikefli var að fá aðstöðu til samninga við stjórnarflokkana, annan eða báða, en ekki að knýja fram sigur vinstri manna í landinu og breytta stefnu í grundvallaratriðum. Afstaða foringja Framsfl. er enn sú sama: Þeir miða allt við að fá samningsaðstöðu fyrir sig, en hafna öllu samstarfi við okkur Alþb.-menn., Þeir. vita þó fullvel, að enginn flokkur í landinu er eins sterkur í röðum verkalýðshreyfingarinnar og Alþb. né getur í jafnríkum mæli og það talizt flokkur verkalýðsins í landinu. Þessi afstaða foringja Framsfl. hefur glögglega komið fram á þessu þingi. Þeir hafa lagt áherzlu á, að við Alþb.-menn fengjum hvergi fulltrúa í þingnefndum, og hafa neitað öllu samstarfi við okkur, jafnvel í nefndum eins og kjörbréfanefnd og þingfararkaupsnefnd hefur Framsókn þótt nauðsynlegt að fá tvo flokksmenn sína kosna, til þess að enginn Alþb.-maður skyldi eiga þar sæti. Það er ljóst, að hverju ráðamenn Framsóknar stefna. Við Alþb.-menn munum vissulega draga okkar lærdóma af reynslunni.

Í dag stendur verkalýðshreyfingin frammi fyrir miklum vanda, sennilega stórfelldum verkfallsátökum, ef að venju lætur. Kjaraskerðingarstefna viðreisnarinnar hefur bitnað þyngst á verkafólki og bændum. Barátta verkalýðssamtakanna fyrir kaupleiðréttingu verkafólki til handa er jafnframt barátta fyrir bættum launum bænda, því að kjör þessara stétta eru bundin saman með lögum.

Í komandi baráttu verður verkalýðsstéttin að treysta á sig sjálfa. Hér á Alþingi er ekki nægilegur liðsstyrkur, til þess að málin verði leiðrétt þar. Aðstaða verkamanna í komandi kaupátökum er sterk. Enginn getur neitað því, að hið almenna verkamannakaup hefur hækkað miklu minna en dýrtíðin. Hin raunverulegu kjör hafa því versnað þrátt fyrir eindæma góðæri. Og enn þá síður verður því neitað, að hið almenna verkamannakaup hefur stórlega dregizt aftur úr kaupi annarra starfsstétta. Samanburður á kaupi nokkurra starfsgreina ber m.a. þetta með sér: Frá 1. okt. 1958 til 1. okt. 1963 hefur kaup ráðh. t.d. hækkað um 141%, kaup ráðuneytisstjóra um 140%, kaup borgarstjórans í Reykjavík um 137%, borgarverkfræðings í Reykjavík um 134%, skólastjóra barnaskóla með 11–18 kennara um 136%, fulltrúa I. flokks í stjórnarráðinu um 110%, lögregluþjóna ríkisins um 81%, bílstjóra stjórnarráðsins um 81%, ritara I. flokks í stjórnarráðinu um 132%, en almennur dagvinnutaxti verkamanna hefur á þessum tíma hækkað um aðeins 28%.

Sá vandi, sem útflutningsframleiðslan nú stendur frammi fyrir vegna þróunar verðlagsmálanna innanlands og þeirra stórfelldu kauphækkana, sem nú ganga yfir, er vissulega mikill. Sá vandi verður ekki leystur með því að grafa hausinn í sandinn og látast ekki sjá eða skilja hið rétta samhengi málanna, að vilja ekki viðurkenna orsakir þess, að svo er komið sem komið er. Sumir hæstv. ráðh. og stjórnarblöðin hafa nú síðustu dagana sagt, að nú verði að stinga við fótum og hindra frekari kauphækkanir. Sem sagt, eftir að ritstjórar stjórnarblaðanna hafa fengið 40–50% kauphækkun og ráðh. 90–100% kauphækkun, þá á að hindra frekari kauphækkanir. Dettur ríkisstj. virkilega í hug, að eftir það, sem hún hefur gert í verðlagsmálunum og stefna hennar hefur leitt til, og eftir þær kauphækkanir, sem hún hefur samþykkt, sé hægt að hindra kauphækkun verkafólks? Hefur ríkisstj. ekki gert sér ljóst, að það þarf að ráðast gegn orsök vandans, en ekki neita afleiðingunum? Öll sanngirni mælir með kröfum verkalýðsfélaganna um kauphækkun, og því verður ekki trúað að óreyndu, að almenn viðurkenning fáist ekki á nauðsynlegri leiðréttingu á kjörum hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu.

Sanngjörn kauphækkun er auðvitað mikilvæg fyrir verkalýðssamtökin. En rétt er þó að gera sér fulla grein fyrir því, að slíkur vinningur, sem felst í kauphækkun, nær skammt, ef ekki fylgir á eftir breytt stjórnarstefna, breytt viðhorf stjórnarvaldanna til kjaramála launastéttanna. Af þeim ástæðum er mikilvægasta verkefni launastéttanna nú í dag að knýja fram breytta stjórnarstefnu, — nýja stefnu, sem tryggi launþegum landsins réttlátan hluta af vaxandi þjóðartekjum.