29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (2463)

121. mál, fiskiðnskóli

Ingvar Gíslason. Herra forseti. Ég vil þakka allshn. fyrir afgreiðsluna á þessu máli. Eins og fram kemur í till., er það álit okkar tillögumanna, að heppilegast sé, að samstarf takist milli hins opinbera og samtaka fiskiðnaðarins um málið. Það er greinilegt af því , sem fram hefur komið í þessu máli, að samtökum fiskiðnaðarmannanna er ljós nauðsynin á aukinni skólafræðslu allra þeirra, sem vinna að verkstjórn og leiðbeiningu varðandi vinnslu sjávarafurða, og ég tel, að það sé mjög æskilegt einmitt, ef farið verður að vinna að því að koma á fiskiðnskóla eða undirbúa stofnun slíks skóla, að þá verði komið á slíku samstarfi sem gert er ráð fyrir í þessari till. Sú lítilvæga breyt., sem hv. allshn. hefur gert, breytir í engu þeim grunni, sem lagður var upphaflega með till. okkar flm.

Um þetta mál er það annars almennt að segja, að telja má, að fiskiðnaður okkar sé síður en svo vel rekinn. Það er ýmislegt, sem skortir á um vinnutilhögun og verkstjórn, og óhætt að segja, að þar sé úr mörgu að bæta. Það liggur e.t.v. ekki mikið fyrir opinberlega um samanburð á nýtingu hráefnis á milli einstakra vinnslustöðva í landinu, en ég hygg þó, að nógu mikið sé komið í ljós af slíkum athugunum til þess að sýna, að það er um stórkostlega mikinn mun að ræða í nýtingu á afla, og það mun líka vera samdóma álit þeirra, sem þetta hafa athugað, að ástæðan til þess sé sú, hversu vinnutilhögun er illa fyrir komið í fiskvinnslustöðvum okkar, hreinlega um að ræða þekkingarleysi, kannske hirðuleysi þeirra, sem hafa með að gera verkstjórn þessara fiskiðjufyrirtækja.

Um okkur Íslendinga er það sagt, að við séum mesta fiskveiðiþjóð í heimi, og mun það e.t.v. láta nærri, og e.t.v. eigum við eða fiskimenn okkar sumir hverjir aflamet á fiskveiðum. En hins vegar er miklu minna talað um það, að við séum fiskiðnaðarmenn á borð við aðra. Við höfum miklu fremur verið haldnir veiðimannshugarfari en því, sem telja má þroskaðra hugarfar, ræktunarhugarfari, ef svo mætti segja. En einmitt í sambandi við fiskiðnaðinn þurfum við að taka upp miklu ræktaðra hugarfar en við höfum til þessa tamið okkur og leggja niður veiðimannshugarfarið í svo ríkum mæli sem verið hefur. Og þess vegna er áreiðanlega nauðsynlegt, að lögð verði stórmikil áherzla á að auka fiskiðnaðinn og stefnt að því að flytja fiskinn út sem allra mest í fullunnu ástandi.

Það hefur verið venja hér býsna lengi m.a. að flytja fisk ísvarinn á markaði, í Englandi og i Þýzkalandi aðallega, en í sjálfu sér er þetta mjög frumstæð aðferð til sölu á fiski, vegna þess að þessi fiskur er að mjög verulegu leyti unninn í Englandi og í Þýzkalandi og breytt í aðra vöru. Og raunverulega ættum við að vinna að því, að svo megi takast, að við getum flutt allan okkar fisk út fullunninn eða sem allra mest unninn, því að það mun sannast mála, að atvinnuuppbygging okkar í framtíðinni mun að verulegu leyti, ég vil segja að langmestu leyti, byggjast á því að efla iðnað úr okkar íslenzku afurðum, úr afurðum sjávarútvegs og landbúnaðar. Það er sú þróun, sem hefur verið hér í þessu landi, og ég hygg að við munum halda áfram að byggja upp iðnað úr þessum meginafurðum okkar, og hygg ég, að það verði sú farsælasta atvinnuuppbygging, sem við getum stefnt að. Þó að á hitt beri að líta líka, hvað hægt sé að gera til þess að vinna úr innfluttu hráefni, verður þó alltaf höfuðatriðið, höfuðmarkmið okkar að vinna sem bezt úr afurðum landbúnaðar og sjávarútvegs, því að möguleikar á því sviði eru áreiðanlega mjög miklir, og ég hygg, að þeir séu, þegar allt kemur til alls, flestir litt eða ekki notaðir.

Ég vona líka, að samþykkt þessarar till., sem væntanlega verður, verði til þess, sem við flm. höfðum í huga, að bætt verði úr hinum brýna skorti hæfra manna til þess að hafa með höndum verkstjórn i fiskiðjuverum og þá jafnframt almenna stjórn þeirra. Í þessu sambandi er þó ástæða til að geta þess, að án efa þurfum við á því að halda að fá æðri fiskiðnfræðslu hér inn í landið. Við verðum að stofna okkar fiskiðnaðardeild við Háskóla Íslands, og að því hlýtur að koma, og einnig er eðlilegt, eins og gert er ráð fyrir, að ég hygg, í lögunum um Tækniskóla Íslands, að þar verði sérstök deild, sem fjallar um fiskiðnað. En okkur vantar líka, eins og við tillögumenn höfum fremur gert ráð fyrir, almennan verkstjóraskóla fyrir fiskiðnaðinn, og vona ég, að hann rísi fljótlega á legg hér, eftir að athugun þess máls hefur farið gaumgæfilega fram.

Aðrar fiskveiðiþjóðir hafa skipað fiskiðnaðarmálum sínum miklu betur en við höfum gert, og vil ég þar sérstaklega nefna Norðmenn. Ég get líka nefnt Japani, sem ég hef haft örlitlar spurnir af í sambandi við uppbyggingu fiskiðnaðarskóla. Þeir leggja mjög mikla áherzlu á að kenna vel undirstöðuatriði fiskiðnfræði. Þeir gera það á ýmsum stigum fræðslunnar, hafa m.a. víða um landið, — því að Japan er stórt land og mikið fiskveiðiland, — þeir hafa víða um landið það, sem einn kunningi minn hefur skrifað mér í bréfi að þeir kalli „high schools“, fiskiðnaðar „high schools“. Að vísu þýðum við „high school“ venjulegast með gagnfræðaskóli, og sjáum við af því, að þarna er ekki um að ræða neina æðri fiskiðnfræði, heldur hagnýta fiskiðnfræði, sem kemur væntanlega þeim að gagni, sem hafa með leiðbeiningar að gera í fiskiðjunni sem daglegir verkstjórar og slíkir.

En sem sagt, ég vil þakka hv. allshn. fyrir jákvæða afgreiðslu þessa máls og vona, að þetta verði til þess, sem við flm. höfum vænzt, að bæta úr brýnum skorti, sem er á sérhæfðum mönnum til að hafa með höndum stjórn fiskiðjuvera.