22.10.1963
Sameinað þing: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

1. mál, fjárlög 1964

Eysteinn Jónsson:

Gott kvöld. Lúðvík Jósefsson kvartaði yfir því, að Framsfl. vildi ekki gefa kommúnistum annað sætið, sem þeir eiga með réttu í fimm manna nefndum, og af þessu ætti að draga einhverjar merkar ályktanir. Tarna var skrítið. Hvernig dettur mönnum í hug, að það væri leyfilegt gagnvart þeim kjósendum, sem styrktu Framsfl, í síðustu alþingiskosningum svo myndarlega, að hann á nú rétt á að fá 2 af 5 mönnum í nefndir og ráð, að það væri leyfilegt gagnvart því fólki að gefa öðrum flokki annað sætið, sem unnizt hefur með harðri baráttu og vaxandi gengi?

Þá vil ég, áður en ég kem að fjárlfrv., vekja athygli á því, að það er svo sem auðheyrt á yfirlýsingum Gylfa Þ. Gíslasonar viðskmrh. um landbúnaðarverðlagið og aðferðina við að verðleggja landbúnaðarafurðir, hvað þeir eru að brugga landbúnaðinum um þessar mundir.

Þetta er fimmta fjárlfrv. þeirra viðreisnarmanna og þeirra miklu mest, því að nú eru þeir búnir að koma útgjöldunum upp í rúmlega hálfan þriðja milljarð og álögum á þjóðina jafnhátt og þó vafalaust mun hærra en áætlað er í frv. Og þetta á eftir að hækka mikið í meðförum Alþingis sem fyrr. Hækka nú fjárl. enn frá því, sem þau voru í ár, um 340 millj., en frv. þetta er 415 millj. kr. hærra en fjárlfrv. var í fyrra.

Eru þá þeir, sem kenna sig við lækkun skatta, búnir að hækka álögurnar á þjóðina um nálega 1700 millj. síðan 1958, og er þá um alveg sambærilegar tölur að ræða, því að þá er bætt við fjárlagatöluna 1958 því fé, sem gekk utan fjárlaga til niðurgreiðslu á vöruverði. Þeir segja, að þetta, nær 1700 millj., sé nú ekki eins mikið og það sýnist, því að krónan hafi minnkað svo mikið, og er þess þá að minnast, að til valda brutust þessir menn undir því herópi, að þeir hétu að stöðva dýrtíðina án nýrra skatta og vernda verðgildi krónunnar og sparifjárins. En hvernig hafa þessi býsn getað skeð, að álögur á landsmenn til ríkisins hafi hækkað mikið á annað þús. millj. á örfáum árum og þannig framkvæmd þessi loforð?

Við tvennar stórfelldar gengislækkanir hefur verðtollsprósentan verið látin halda sér og þar með hækkaður gífurlega verðtollurinn. Ofan á það var lögleiddur nýr allsherjarsöluskattur, 3%, jafnvel á innlendar matvörur, hvað þá annað. Ýmsar álögur, sem gengu áður í útflutningsuppbætur, svo sem benzíngjald og fleira, voru látnar halda sér, þótt uppbæturnar væru afnumdar og settar inn í ríkissjóðinn. Nýr söluskattur var lögleiddur á innfluttar vörur, sem nam hundruðum millj., og lofað að afnema hann eftir árið. En í stað þess var hann felldur inn í nýju tollskrána og lögleiddur til frambúðar með henni ásamt allri aðflutningsgjaldasúpunni. Sagðist fjmrh. þá hafa gefið eftir 98 millj. af þessu öllu saman og gefið það til baka upp í viðskipti sín við almenning á kjörtímabilinu síðasta. En sú lækkun reyndist þannig úti látin, að dýrtíðarvogin, þ.e.a.s. vísitöluvogin, tók hana ekki, sem kunnugt er. Hún hafði ekki slík áhrif á afkomu meðalheimilis í landinu, að það yrði mælt né vegið á þá vog, en jafnvel þessi lækkun er nú hengd á menn að nýju í einum böggli, sem fylgir þessu frv., því að nú á að minnka niðurgreiðslur á vöruverði sem næst nákvæmlega um sömu fjárhæð og þessi tollalækkun nam. Menn fá tollalækkunina frá því fyrir kosningarnar því á sig aftur núna í hækkuðu verði matvæla, og kemst því nú enginn undan.

Fer því fjarri, að með þessu sé þó tíundað allt álagaflóð ríkisstj. Gjöld ríkisstofnana fyrir þjónustu hafa verið hækkuð gífurlega, t.d. símagjöld, póstgjöld og flutningsgjöld með ströndum fram. Sérstakur launaskattur hefur verið lagður á bændur, því að ekki voru sagðir peningar fáanlegir með öðru móti til að lána þeim sjálfum til framkvæmda. Útflutningsgjöld á sjávarafurðir hafa verið hækkuð, þangað til þau eru komin upp í 7.4%, í frv., sem hér voru flutt af stjórninni á Alþingi í fyrra, úði svo enn og grúði af nýjum sérsköttum. Því að sagt var, að ekki væru peningar til af álögunum til að kosta þá þjónustu, sem þar var ráðgerð, þ. á m. margar merkustu rannsóknir, sem þjóðin þarf að láta gera. Þar voru t.d. till. um sérskatt á sement, á innflutt timbur og járn, á launaútborganir iðnfyrirtækja, svo að dæmi séu nefnd, nýir skattar og nýir tollar í hinum fáránlegustu myndum ofan á súpuna, sem fyrir var.

Innan um þetta birtast svo ræður og greinar um það, hvað þeir, sem fyrir þessu standa og hafa staðið, væru önnum kafnir. Við hvað? Við að lækka tollana og skattana, var sagt. Og þetta er sagt enn. Fjmrh. var óþreytandi að lýsa því sérstaklega, að höfuðáherzlan væri þó lögð á að lækka beinu skattana, og aðvífandi menn ókunnugir hefðu hlotið að halda, að það væru ekki neinir beinir skattar lengur til á Íslandi. Og satt er það, að skattstigarnir voru lækkaðir. En allar aðfarir ríkisstj. í fjármálum hafa orðið þannig, að meðalfjölskylda á Íslandi borgar miklu meira, líka í beina skatta, en áður af þeim tekjum, sem þarf til að draga fram lífið, og fjmrh., sem alltaf er að lækka skattana, hefur orðið að horfa upp á, að vísitala beinna skatta hefur farið síhækkandi og framfærsluvísitalan hækkaði bara á einum mánuði í sumar una 2.6 stig af þeim ástæðum einum saman, að vísitala beinna skatta hafði hækkað, og hafði hún þó stórhækkað áður, en þessi eins mánaðar hækkun vegna hækkunarinnar á beinu sköttunum einum jafngildir 5.2 vísitölustigum fyrir viðreisn, og hefði slík hækkun ein út af fyrir sig þá þótt ærið vandamál. En nú er þetta eins og dropi í dýrtíðarsjónum.

Þessi saga um stjórnina, sem alltaf segist hafa verið að lækka tolla og skatta, er ófögur, en sönn. Með þessum aðförum eru álögur á landsmenn og þar með fjárl. komin upp í hálfan þriðja milljarð og þó drjúgum betur í reynd.

En hvað er þá um þjónustuna við landsmenn? Hefur hún ekki aukizt og batnað og framlögin til verklegra framkvæmda? En af því er þá sorglegu sögu að segja, að stöðugt rennur minni og minni hluti ríkisteknanna, álaganna, til opinberra framkvæmda og uppbyggingar í landinu og aldrei minna tiltölulega en á þessu fjárlfrv. Ríkisbáknið sjálft þenst út með ofsahraða, enda er hæstv. ráðh. hættur að tala um hagsýslu, hann nefndi hana ekki á nafn áðan, og beinn kostnaður við starfræksluna fer sívaxandi, og eru það efndirnar á um það bil 59 sparnaðar- og ráðdeildarfyrirheitum fjmrh. og hans manna, sem gefin voru við upphaf ferðar.

Nýjar rándýrar stofnanir þjóta upp, þ. á m. ein, sem á að hjálpa til að halda jafnvæginu, Efnahagsstofnunin. Sparnaður við skattaálagningu er þannig framkvæmdur, að kostnaðurinn hækkar stórkostlega, og er þó minnst fram komið enn þá. En hvað um það, upp úr því hafðist allténd sums staðar, að úrvals dugnaðarmenn voru hraktir úr störfum með ruddaskap, bara af því að þeir voru ekki á sömu skoðun og ráðh.

Loforðið um fækkun nefnda er þannig framkvæmt, að nefndir heita ekki nefndir lengur á ríkisreikningnum nema fáeinar. Nefndanöfnum hefur fækkað, en ekki nefndunum, og er það gott sýnishorn um hagsýslu hæstv. stjórnar, en framlögin til verklegra framkvæmda verða að víkja í vaxandi mæli. Það er til marks um, hve óðfluga sigið hefur á ógæfuhlið varðandi hlut verklegra framkvæmda úr þeim tollum og sköttum, sem lagðir eru á þjóðina, að miðað við fjárlög ársins 1958 annars vegar ættu framlög til nokkurra verklegra framkvæmda núna á þessu fjárlagafrv. að vera sem hér segir, ef halda ætti í horfinu um framlög af skatta- og tolltekjunum:

Til nýrra raforkuframkvæmda ætti að vera á frv. 71 millj., en er 41 millj. Til vega, þar með viðhalds, ættu að vera 142 millj., en eru 107. Og til brúa ættu að vera nálega 32 millj., en eru tæplega 15 millj. Þetta eru bara dæmi, örfá. Svona er þróunin.

Öngþveiti ríkir í vegamálum landsins þrátt fyrir hinar gífurlegu nýju álögur. Vegunum er ekki haldið við. Sums staðar er ekki hægt að hefla vegina lengur, því að ofaníburðurinn er farinn, og sagt, að ríkissjóður hafi ekki ráð á að skaffa ofaníburð. Farartæki manna liggja á vorin á kafi í leðjunni víðs vegar um landið, því að eldri vegir viðhaldssveltir þola ekki aukna umferð þyngri bíla, en atvinnurekstur landsmanna byggist í æ ríkara mæli á þungaflutningum á landi. Af 2500 millj. er ekki hægt að sjá af nema 25 millj. og 800 þús. til að leggja nýja vegi og ekki sagt mögulegt að halda þeim eldri við, hvað þá leggja vegina að nýju og bæta af viðhaldsfé, eins og siður var, meðan fjárl. í heild voru ekki nema 17 millj., enda er ástandið þannig, að víða er búið að vinna fyrir fram fyrir allar fjárveitingar næsta ár og heimamenn draga á eftir sér skuldaslóðann vegna ríkisveganna. Þetta eru staðreyndir, sem ekki breytast, þótt ráðh. nefni hærri tölur en áður til vegamála.

Strandferðirnar eru þannig sveltar að fé, að Skipaútgerðin getur alls ekki og hefur ekki getað flutt lífsnauðsynlegan varning út um landið, til stórtjóns fyrir allan atvinnurekstur um allt land, og á þessu fjárlfrv. er ekki einu sinni gert ráð fyrir nándar nærri því framlagi, sem þarf til að halda uppi núv. strandferðum, hvað þá meiru, enda er allt löðrandi í ráðagerðum um að minnka enn strandferðaþjónustuna.

Í skólamálum er ástandið þannig, eftir því sem eitt stjórnarblaðið segir frá, að hundruðum unglinga hefur verið synjað um vist í skólum vegna plássleysis, og þrátt fyrir hækkaða fjárveitingu í krónutölu til þeirra mála og það verulega hækkaða, hefur ekki einu sinni tekizt að halda í horfinu miðað við þörfina á skólabyggingum. Það breytir ekki heldur þessum staðreyndum um ástandið, þótt lesnar séu tölur um fleiri krónur en áður til þessara mála.

Framlög til stuðnings uppbyggingu í sjávarplássum hafa verið skorin svo niður, að nær eru orðin að engu, og urðu þó áður fyrr einhver hin drýgstu framlög til að efla uppbyggingu skipastóls og annarra framkvæmda við sjávarsíðuna á vegum dugmikilla fiskimanna, sem vildu geta haft sjálfstæðan atvinnurekstur. Framlög til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins hafa dregizt stórkostlega saman. Framlög til raforkumála hafa verið minnkuð meira að segja í krónutölu. Og svona mætti lengi telja. Ástandið í húsnæðismálum fer síversnandi.

Þetta eru aðeins dæmi um hinar geigvænlegu afleiðingar stjórnarstefnunnar í þessum greinum.

Framlög til lífsnauðsynlegustu undirstöðurannsókna í þágu framleiðslunnar eru skorin svo við nögl, að stórtjóni veldur og óhugsandi er, að geti staðizt, ef framleiðni og framleiðsla á að geta vaxið svo sem brýna nauðsyn ber til. Ekki peningar til, er sagt.

Ofan á þetta bætist svo, að þrátt fyrir þessar gífurlegu álögur er vaxandi hluti af því, sem gengur til framkvæmda af hálfu ríkisins, tekinn að láni, eins og menn heyrðu á ræðu hæstv. ráðh., og velt yfir á framtíðina, og eru nú á þessu fjárlfrv. í fyrsta sinn stórir útgjaldaliðir til að standa undir þessum skuldum, sem hefur verið safnað á góðu árunum, og þessir liðir hækka gífurlega á næstu árum.

Sumar af þessum ríkisskuldum virðast ekki einu sinni taldar á ríkisreikningnum fyrir 1962 t.d. og ekki milljónatuga útgjöld, sem greidd eru með lántöku, en ráðh. segist hafa haft afgang af álögum sínum 1962 og muni hafa einnig í ár, og þykir engum það mikið, sem sér innflutninginn núna og verzlunarjöfnuðinn við útlönd

Segist ráðh. leggja eitthvað talsvert á bók til að styrkja jafnvægi í efnahagsmálum, sem þeir kalla, og er það tilkynnt með viðhöfn á sérstökum tyllidögum ríkisstj. En hversdagslega eru engir peningar til, til þess að halda uppi lífsnauðsynlegum samgöngum í landinu t.d., hvað þá til að halda í horfinu um skólamál, húsnæðismál og önnur þvílík mál í mesta góðæri, sem þjóðin hefur lengi lifað.

Allar till. framsóknarmanna til að tryggja, að hæfilegur hluti ríkisteknanna renni sem áður til slíkra framkvæmda, hafa verið felldar og ýmist sagt, að ekki væru peningar til eða ef peningar voru til, þá að það mætti ekki nota peningana, því að það skapaði ofþenslu.

Áunnizt hefur þó, að ríkisstj. er orðin meira en lítið óróleg undir þungri pressu vegna öngþveitisins í vegamálum, enda verður ekki þar á linað né í fleiri slíkum málum, fyrr en undan verður látið.

Hæstv. fjmrh. er nú búinn að skrumskæla þannig ríkisreikninginn, að enginn fær af honum séð, hver afkoma ríkissjóðs raunverulega er. Ríkislánum og stórum útgjaldapóstum, eins og t.d. ríkisábyrgðatöpum, er haldið alveg utan við reikninginn. Þykjumst við þó sjá, að greiðsluafgangur sé raunverulega 1962, þótt ekkert sé að sjálfsögðu, þegar svona er komið, að marka tölur hæstv. ráðh., og þá hlýtur einnig að verða verulegur afgangur á þessu ári, enda dýru verði keyptur af almenningi, eins og sést á álögunum.

Munum við nú, framsóknarmenn, hefja harða sókn fyrir því, að einhverju verulegu, sem um munar, af því, sem með þessum gegndarlausu álögum hefur verið tekið af almenningi umfram þarfir ríkisins, verði varið til þess að styðja framgang sumra hinna brýnustu nauðsynjamála, sem setið hafa á hakanum undanfarið, svo sem samgöngumála, íbúðamála og ýmissa fleiri mála. Við erum ekki í miklum vafa um, hverju till. okkar um þetta eiga að mæta frá stjórnarliðinu, því miður. En betur væri þó, að rangt væri til getið um það. Það verður vafalaust sagt: Þessa peninga má ekki nota, það veldur ofþenslu. Það verður að leggja þessa peninga inn í bankakerfið. — En sú viðureign, sem um þetta verður, ætti að geta orðið mörgum lærdómsrík.

Það er sem sé ofþensla að veita meira fjármagn í íbúðabyggingar, svo að forðað verði frá neyðarástandi í húsnæðismálum, og það þótt féð væri tekið með beinum álögum á þjóðina, eða t.d. í auknar framkvæmdir til þess að taka á móti síld. Sama er að segja um að verja skattafé í vegi, brýr, framkvæmdir í sveitum eða við sjó og hvað eina, sem lífsnauðsynlegt er að koma í framkvæmd almennings vegna. Þessar framkvæmdir verða að bíða, segja þeir, og það fé, sem tekið er af mönnum með álögum, megi ekki nota í þessar framfarir, sem almenningur hefur mesta þörf fyrir, það skapi ofþenslu.

Hvers vegna eiga þessar framkvæmdir að bíða og peningarnir að leggjast til jafnvægis í kerfið? Jú, til þess að þeir, sem fyrir fjármagni ráða í landinu og hafa aðgang að fjármagni handa sér fyrir náð ríkisstj., komist að með sínar framkvæmdir og sína eyðslu. Þeirra framkvæmdir og þeirra eyðsla valda ekki ofþenslu, þær eru ekki ábyrgðarleysi, eins og till, framsóknarmanna um að leggja fjármagn til lífsnauðsynlegustu framkvæmda í þágu almennings og framleiðslunnar. Íbúðabyggingar, raforkulínur, vegagerðir og aðrar slíkar eiga samkv. stjórnarstefnunni að víkja fyrir því, sem þeir peningasterku vilja koma í framkvæmd og sjá sér mestan hag í að gera. Það er þeirra stefna. En við segjum: Það verður að beina fjármagninu til þeirra framkvæmda í landinu, sem lífsnauðsynlegar eru, og þeirra, sem mest auka framleiðnina. Þær eiga að sitja fyrir, og því á hiklaust að nota fé ríkisins í því skyni. Og fyrir því verður barizt.

Allir vita, að fullkomið öngþveiti og stjórnleysi ríkir í fjárfestingarmálum eins og öðrum efnum. En í öllu kaosinu er þó einn fastur punktur, sem er kjarni stjórnarstefnunnar. Þeir, sem fyrir fjármagninu ráða og stjórnin vill hlaða undir, stórkapítalið, það á að fá að rótfesta sig með sínum framkvæmdum óáreitt í sem flestum greinum, en almannaframkvæmdir eiga að víkja og þær framkvæmdir almennings, sem studdar hafa verið af almannafé. Með þessum aðförum verður sjálfum grundvelli þjóðarbúskaparins breytt óðfluga, enda hefur það alltaf verið höfuðtilgangur stjórnarstefnunnar, en allt annað ýmist bara umbúðir eða aukaatriði. Um þessar stefnur tvær verður tekizt á við afgreiðslu fjárlaga sem fyrr nú undanfarið og þau mörgu þingmál önnur, sem um þetta fjalla.

Þeir, sem vilja láta framkvæmdir í almannaþágu og framkvæmdir einstaklinga til að auka framleiðni og framleiðslu sitja fyrir með því að veita skipulega og hiklaust fé til þeirra, þeir verða með okkur. En þeir, sem vilja gera þessar framkvæmdir að hornreku og láta þær víkja, svo að stórkapítalið geti leikið lausum hala með sínar framkvæmdir, hversu fjarri sem þær kunnu að vera því að leysa úr brýnustu þörf þjóðarinnar og hversu gífurlega sóun sem þær kunna að hafa í för með sér, þeir sem þessa stefnu vilja styðja, þeir verða með hinum.

En það er til marks um átökin, sem fram undan eru um það, hvað eigi að víkja og hvað eigi að sitja fyrir, að stórkapítalið er farið að heimta stóran greiðsluafgang hjá ríkissjóði, sem lagður sé inn í peningakerfið til jafnvægis. Og stjórnin tekur undir. Og máske eigum við eftir að sjá framan í tillögur um aukna neyzluskatta í þessu skyni á lagða, þrengja að neyzlu og framkvæmdum almennings og leggja peningana inn, svo að hinir, þeir sem fjármagninu ráða mest, geti komið sínu í framkvæmd. En baráttulaust mun þetta ekki gerast og ekki ólíklegt, að þetta skýri nokkuð stefnur í þjóðmálum.

Við þessa umr. er skylt að reyna að bregða upp ofur lítilli mynd af efnahagsmálaástandinu, þótt hæstv. fjmrh. gerði ekki mikið að því, því að ríkisbúskapurinn verður ekki slitinn úr sambandi við annað starfslíf í landinu.

Það blasir nú við þjóðinni, svo að ekki verður um deilt né um villzt, að stefna ríkisstj., viðreisnin, sællar minningar eða hitt þó heldur, hefur beðið algert skipbrot. Reynt var með hvers kyns ljótum brögðum að leyna þessu nokkuð í vor fyrir þjóðinni og þá vantaði ekki glæsilegar lýsingar á því, sem kallað var „árangur viðreisnarinnar”. Meira að segja var kosningum flýtt um nokkrar vikur, til þess að ekki skyldi koma fram, hvað kjaradómsmenn, hlutlausir menn, teldu opinbera starfsmenn þurfa að hafa í kaup í viðreisnarríkinu. Stjórnarflokkarnir náðu meiri hluta við illan leik í vor með blekkingum um ástandið, sem nú liggur alveg ljóst fyrir.

Bjarni Benediktsson lýsti því yfir á Varðarfundi fyrir nokkrum dögum, að öngþveiti blasti nú við í launamálum, — öngþveiti í launamálum, — enda víst ekki gott að komast hjá því að játa það lengur, hvernig komið er, þegar búið er að afskræma þannig efnahagskerfið, að verkamaður vinnur sér inn rétt ríflega vexti og annan kostnað af lítilli íbúð með viðreisnarverðinu með því að vinna 8 stundir hvern virkan dag ársins. Og með landbúnaðarverðinu, sem nýbúið er að setja, getur bóndinn ekki staðið til fulls undir afskriftum af einni dráttarvél með viðreisnarverðinu, hvað þá öðrum vélakosti. Er það nokkur furða, þó að þeir, sem fyrir þessu standa, neyðist til að játa öngþveitið, sem búið er að stofna til við hagstæðustu ytri skilyrði, sem þekkzt hafa hér á landi?

Viðskmrh. orðaði játningu sína þannig í áróðursræðu, sem hann lét tvílesa í hlutlausa útvarpið okkar um daginn og haldin var hjá verzlunarráðinu, að í einu atriði ríkti ringulreið, það væri í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Atriðin virtust því í raun og veru tvö. En sumir voru að tala um, að hann hefði átt að segja, að í „einu“ atriði ríkti ringulreið, þ.e. í verðlagsmálum, kaupgjaldsmálum, húsnæðismálum, fjárfestingarmálum yfirleitt og málefnum framleiðslunnar t.d., því að ekki hefði að heldur verið allt talið, sem í játningunni átti að vera með réttu.

Væri nú ekki rétt fyrir þessa menn að gera þjóðinni grein fyrir því, hvers vegna viðreisnin hefur farið svo gersamlega út um þúfur og hvað þeir hafa af þessu lært? Og kem ég ofur lítið síðar að hinni sérkennilegu grg. hæstv. fjmrh. um þetta efni, því að ekkert þýðir lengur fyrir hæstv. ráðh, að halda því fram, að viðreisnin hafi farið út um þúfur af því, að kaupgjald til verkamanna hafi hækkað 50–60 kr. of mikið á viku árið 1961. En þá lækkuðu þeir gengi ísl. kr. um 13% út af kaupgjaldságreiningi, sem svaraði til 1–2% breytinga á útflutningsverði, og sú gengislækkun var gerð þrátt fyrir stóraukna framleiðslu og hækkandi verð á útflutningsafurðum.

Um það segir stjórn Seðlabankans í ársskýrslu sinni fyrir árið 1961 orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar á heildina er litið, hefur verð á útflutningsafurðum batnað verulega á árinu“ — þ.e. á árinu 1961. Samt lækkuðu þeir gengið, og þrátt fyrir þessa staðreynd lét hæstv. viðskmrh. sér sæma í þeirri óvönduðu áróðursræðu, sem ég minntist á áðan, að halda því fram, að þeir hefðu lækkað gengið vegna verðlækkana á afurðum, og meira að segja hér áðan var hann að endurtaka þetta sama: vegna verðlækkana á afurðum 1961. En það er staðreynd, að verðið fór batnandi verulega, eins og seðlabankaskýrslan segir.

Allir vita nú, að gengislækkunin 1961 var ástæðulaust frumhlaup, gert í bræði og átti að kenna mönnum að gera það eitt, sem stjórnin vildi. Gengislækkun þeirra þá reyndist eins og benzín á dýrtíðarbálið, og síðan hefur stjórnin ekki ráðið við neitt. Þeir hafa nú viðurkennt þetta hreinlega og þar með ómerkt öll sín ljótu svívirðingarorð um þá, sem leystu kjaramálin 1961 og björguðu þjóðarframleiðslunni það ár.

Bjarni Benediktsson talar nú um gengislækkunarleik, sem ekki megi endurtaka og verði að ljúka, krónan sé ekki fallin núna og eigi því ekki að fella hana. Þetta eru játningar, sem segja sex, dómur um þeirra eigin verk og málflutning og hvers trausts hann er verður, sem ekki mun fara fram hjá neinum. Það er gott, ef nú á að standa við það að fella ekki krónuna enn þá einu sinni, og þeim mun verða haldið að þeim loforðum sínum. En þjóðin spyr: Hvað réttlætti gengislækkun 1961? Hvað réttlætti þann þokkalega leik, þegar nú er játað af þeim seku frá 1961, að ekkert réttlæti gengislækkun nú, þrátt fyrir stórfelldar hækkanir, sem orðið hafa inn á við?

Viðreisnin átti að skapa jafnvægi og stöðugt verðlag, en hefur sprengt efnahagskerfið og valdið meinlegri dýrtíðarólgu en dæmi eru áður til í landinu, umturnað öllu efnahagskerfi landsins. Í stað þess að tryggja verðgildi sparifjár hefur orðið heiftarlegri rýrnun á verðgildi sparifjár en áður eru dæmi til. Í stað jafnvægis í lánamálum stórfelldari lánsfjárkreppa og harðhentari lánsfjárskömmtun en áður hefur þekkzt í landinu. Og svo er þetta kallað frelsi. Í stað skattalækkana meiri álögur en nokkru sinni áður í sögu þjóðarinnar. Og svo átti þetta allt að vera gert til að lækka skuldirnar við útlönd og búin til þjóðsagan um hallann út á við á þjóðarbúinu, sem þyrfti að rétta, sem hæstv. viðskmrh. var að segja þjóðinni hér, í hundraðasta skipti, býst ég við. En nú er útkoman sú, að skuldir við útlönd að frádregnum innstæðum eru hærri en nokkru sinni fyrr.

Fjmrh. hæstv. viðurkenndi hér líka áðan, að allir veigamestu þættir efnahagsmálanna væru á ringulreið. En þegar hann hafði játað þetta, kastaði hann því framan í menn, að þjóðin hefði skapað erfiðleikana, eins og hann orðaði það svo smekklega hér áðan — eða hitt þó heldur. Þegar vel gengur, þá er það þeirra verk, stjórnarherranna, en þegar flest gengur úrskeiðis vegna rangrar stjórnarstefnu og óviturlegra ráðstafana ríkisstj., þá er það þjóðinni að kenna.

Hvað hefur þjóðin gert undanfarið stjórninni til miska? Þjóðin hefur framleitt meira en nokkru sinni fyrr. Þjóðin hefur lagt meira að sér með eftirvinnu og næturvinnu en nálega nokkru sinni áður. Þjóðin hefur ekki sparað sig í neinu, því að menn hafa blátt áfram verið neyddir til, ef þeir áttu að hafa minnstu möguleika til að hafa í sig og á. Vegna þessara átaka þjóðarinnar hefur stjórn landsins haft betri skilyrði til þess að stjórna, svo að vel færi, en nokkur önnur stjórn á Íslandi hefur nokkru sinni haft. En allir vita, hvernig farið hefur. Er það nú ekki heldur þykkt smurt að koma eftir þessar aðfarir og þessa, frammistöðu og kasta því í andlit þjóðarinnar, að það sé henni að kenna, hvernig komið er.

Sannleikurinn er sá, að þannig var í pottinn búið strax 1960, að svona hlaut að fara, og stjórnarandstaðan gerði þá skyldu sína strax og varaði við. Þeir byrjuðu með ráðstöfunum, sem fyrirsjáanlega hlutu að valda verðhækkunaráhrifum upp á a.m.k. 1100 millj. í þjóðarbúskap, þar sem allar þjóðartekjurnar voru áætlaðar 5–6 milljarðar, og ætluðu kaupi og afurðaverði að standa í stað. Um þessar fyrirætlanir allar sagði ég m.a. við umr. á Alþingi 1960, með leyfi hæstv. forseta: Svona ráðstafanir er blátt áfram ekki hægt að gera. Það er með öllu gersamlega óeðlilegt, hvernig nokkrum manni dettur í hug að koma fram með svona áætlanir eða svona fyrirætlanir. Hefur þetta alls ekki verið athugað — eða hvað? Hafa þessir hæstv. ráðh. ekki gert sér grein fyrir því, hvað þeir eru raunverulega að fara? Hvernig halda menn, að áhrifin af þessu verði í þjóðarbúskapnum? Og dettur mönnum í hug, að þetta sé í raun og veru framkvæmanlegt?“ Og enn fremur sagði ég þá, með leyfi hæstv. forseta: „Ég vil í fullri alvöru og einlægni biðja hæstv. ríkisstj. að endurskoða þessar fyrirætlanir og endurskoða þessar áætlanir, því að vitanlega er ekkert til hættulegra í efnahagsmálum landsins en það að gera einhverjar panikráðstafanir, sem enga stoð eiga í raunveruleikanum og enga möguleika hafa til að heppnast. Menn hafa ekki leyfi til þess að gera slíkar ráðstafanir, vegna þess að slíkt hlýtur að stórauka vandann frá því, sem hann er eða hefur verið.“

Þessum aðvörunum, sem bornar voru fram af mér og félögum mínum þá af þeirri einföldu ástæðu, að við vorum blátt áfram hræddir við fyrirsjáanlegar afleiðingar þess, sem verið var að gera, var svarað með hroka og botnlausum skömmum og háðsyrðum um þá kenningu framsóknarmanna að leysa vandann í áföngum. Þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson sögðu ýmist, að það yrði að horfast í augu við allan vandann í einu eða að þessar ráðstafanir mundu koma í veg fyrir hinir stöðugu, síendurteknu ráðstafanir ár frá ári. Þeir fundu upp það spakmæli til að forherða sig í þessu og auka sér kjark til að leggja út í þetta, að það væri ekki hægt að stökkva yfir gjána í áföngum, sögðu þeir. Sem sagt, hér var fundin lausn í eitt skipti fyrir öll. Þeir voru gagnteknir þeirri skoðun, að með viðreisninni væri komið sjálfvirkt kerfi, allur vandi leystur í eitt skipti fyrir öll. En öllum þeim, sem höfðu minnstu nasasjón af íslenzku efnahags- og atvinnulífi, átti að geta verið ljóst, að þetta bar dauðann í sér. Afleiðingin hlaut að verða sú, að hver dýrtíðaraldan risi af annarri sem afleiðing þeirrar holskeflu, sem steypt var yfir þjóðina með viðreisnarráðstöfununum sjálfum 1960. Reynslan er nú orðin ólygnust um þetta, en dýr er hún orðin og þó minnst enn fram komið, því að alls fjarri fer því, að afleiðingar viðreisnarinnar séu t.d. komnar inn í kaupgjaldið og verðlagið og inn í efnahagslífið til fulls. Það sést t.d. á því, að þegar Gylfi Þ. Gíslason er að reikna kaupmátt tekna fyrir heimilin til að finna það út, að jafnvel kaupmáttur launatekna hefði aukizt, þá reiknar hann með 922 kr. húsnæðiskostnaði á mánuði. Hvað segir unga fólkið um þá fræðilegu fyrirlestra um ástandið, sem á slíkum fjarstæðum eru byggðir, fólkið, sem býr við viðreisnarhúsaleiguna? Ég sagði 922 kr. á mánuði, það er það, sem reiknað er inn í dæmið hjá ráðherranum. Eru það ekki raunsæir fyrirlestrar og raunsæjar ályktanir um efnahagsástandið, sem byggðar eru á öðru eins og þessu?

Hverjum dettur svo í hug, að almennt kaup og verzlunarmannakaup t.d., svo að dæmi séu nefnd, geti staðizt stundinni lengur, eins og það er í dag, eða afurðaverð til bænda geti lengi staðizt, eins og það er núna, samanborið við framleiðslukostnað og stofnkostnað.

Nú spyrja menn hver annan, hvort ríkisstj. muni hafa lært eitthvað af þessum óförum, og sumir telja svardagana um að lækka ekki gengið núna vott þess, að ríkisstj. hafi mikið lært. Betur, að svo væri. En því miður bendir margt til, að svo sé ekki, þrátt fyrir þessa svardaga. Megingrundvöllur viðreisnarinnar var að ná því, sem þeir kalla jafnvægi í þjóðarbúskapnum, með því að láta verðlagið hækka, gera lánsfé dýrara og takmarka lánsféð, en kaupgjald og afurðaverð stæði í stað. Um þetta verður ekki deilt. Þetta var meginkjarninn, og því miður er þetta prédikað enn, og allt, sem frá stjórninni kemur enn, gengur í þessa sömu átt, nú síðast að hækka verðlagið með t.d. stórfelldum hækkunum á póst- og símagjöldum og minnka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum til að hækka verð til neytenda, þrátt fyrir mikinn afgang af tolla- og skattatekjum.

Sýnilegt er, að þeir hafa brennt sig á gengislækkuninni 1961 út af fyrir sig og sverja nú fyrir gengislækkun. En menn spyrja, og það er aðalatriðið: Er sú meginstefna breytt að leita jafnvægis með því fyrst og fremst að láta verðlag hækka og kostnað við lánsfé, en halda niðri kaupgjaldi og afurðaverði til bænda? Er sú stefna breytt? Það er helzt að sjá af stjórnarblöðunum og ræðum ráðamanna, sbr. fyrirlestur hæstv. viðskmrh. hér áðan, að þeim finnist það eitt hafa mistekizt að halda niðri kaupinu og afurðaverðinu til bænda og meginstefnan sé óbreytt þrátt fyrir ófarirnar.

Þrálátur orðrómur gengur um, að nýju úrræðin, sem ekki eru nefnd opinberlega, en farið er í kringum eins og köttur fer í kringum heitt soð, séu þau að halda niðri kaupgjaldi og afurðaverði með lagaboðum. Meginstefnan eigi sem sé að vera óbreytt, en leita „sterkari“ ráða, eins og það mun kallað í þessum herbúðum, til að framkvæma þann þáttinn, sem þeir telja hafa bilað. Ég vildi, að þessi orðrómur væri rangur, því að ef hann reyndist réttur, hafa þeir ekkert lært, og þá er bara efnt til nýrrar styrjaldar við almenning í landinu á rústum viðreisnarinnar, og við því má þjóðin allra sízt.

Enginn mun fúsari að játa það en ég, að úr vöndu er að ráða, eins og nú er komið. Í því sambandi bendi ég á nokkur aðalatriði, sem þýðingarmikil eru að mínum dómi. Menn verða að gera sér grein fyrir því, bæði stjórnarvöldin og allur almenningur í landinu, að út úr þessu verður ekki komizt í einu stökki. Skekkjur þær, sem orðnar eru, verður að leiðrétta í áföngum. Sporin hræða, menn hafa fyrir augum sér, hvernig fer, ef öðruvísi er að farið.

Fyrsta boðorðið verður að vera að reyna að komast út úr vandanum jákvæðu leiðina, mæta nauðsynlegri hækkun kaupgjalds og afurðaverðs til bænda með skipulegri allsherjarsókn í landinu undir merki vísinda og tækni til að auka framleiðni og þjóðarframleiðslu. Taka verður þau mál með margvíslegu móti nýjum tökum, sem of langt yrði hér upp að telja, og bjóða út öllum hinum beztu kröftum og samstilla þá. Þetta er sú aðalleið, sem ein er sæmandi þeirri þjóð, sem þrátt fyrir allt hefur á fáum áratugum sótt fram úr fátækt til bjargálna. Með aukinni vélvæðingu, bættum vinnuaðferðum, aukinni tækni verður að gera íslenzku atvinnuvegunum fært að borga á ný mannsæmandi kaup og losa sig úr viðreisnarviðjunum. En allir verða að hafa í huga, að í einu stökki verður ekki komizt í land né æskilegum árangri náð.

Það verður að lækka vextina, því að íslenzkum framleiðslugreinum er gersamlega um megn að keppa á erlendum mörkuðum með því að borga slíka okurvexti sem nú gilda, og atvinnuvegunum verður einnig um megn að borga það kaup, sem unga fólkið þarf að hafa til að standa undir vaxtabyrðinni, og bændur fá ekki það verð fyrir afurðir sínar, að þeir geti staðið undir slíkum vöxtum.

Útflutningsgjöld þurfa að lækka, en þau eru nú 7.4%, eftir því sem ég bezt veit, af verði afurðanna og jafngilda tugum þúsunda af kaupgjaldinu við framleiðsluna. Sama er um tollana. Og yfir höfuð verður að gera allt, sem unnt er, til þess að gera framleiðslunni mögulegt að standa undir því kaupgjaldi, sem viðreisnardýrtíðin gerir óhjákvæmilegt að borga.

Þá verður að gera skipulagðar ráðstafanir til, að því fjármagni, sem þjóðin hefur yfir að ráða, verði beint til þeirra framkvæmda, sem mest auka framleiðni og þjóðartekjur, og þeirra almannaframkvæmda, sem mestu máli skipta, og það fé, sem fæst með álögum á almenning, og sparifjáraukningin sé hiklaust notað í þessu skyni, í stað þess að halda því fé föstu að verulegu leyti og láta þar með þessar framkvæmdir víkja fyrir því, sem þeim þóknast að framkvæma, sem af einhverjum ástæðum hafa fullar hendur fjár, hversu fjarri sem það kann að vera því að leysa úr brýnustu þörfum þjóðarinnar.

Allir sjá nú, hvílík ringulreið í fjárfestingarmálum fylgir viðreisninni. Og svo er talað um áætlunarbúskap og framkvæmdaáætlanir í stað upplausnar og ringulreiðar í fjárfestingarmálum og tæknimálum þarf markvissa stjórn til að beina fjármagninu í rétta farvegi og margvíslegar aðrar ráðstafanir í sömu átt. Það verður í sem flestum greinum að koma til móts við og létta undir með unga fólkinu, sem erfiðasta baggann ber nú, því að að öðrum kosti skapast hér á næstunni öreigalið, sem allt verður að sækja undir þá, sem yfir fjármagninu ráða, í stað þess að fram að þessu hefur það verið aðalsmerki íslenzks búskaparlags, að hér hafa menn ekki átt allt að sækja til fárra og sterkra auðfélaga, eins og á sér stað í öðrum löndum mörgum, og margir orðið hér efnalega sjálfstæðir.

Umfram allt verður að breyta um stefnu og sýna, að horfið sé frá því að reyna að lækna allar meinsemdir með því að hækka vexti á nauðsynjum, en halda tekjum almennings niðri. Fyrstu skrefin þarf að stíga þannig, að þau veki traust og hjálpi til að losa þjóðina við þá panik, sem gjaldþrot stjórnarstefnunnar því miður hefur valdið. En allir verða að muna, að aðeins í áföngum er hægt að koma á samræmi í stað þeirrar ringulreiðar, sem orðin er.

Núv ríkisstj. hefur yfirleitt ekki traust, og bætist það ofan á annan vanda, að mönnum varð það á að sleppa henni með meiri hl. gegnum kosningarnar. Að vísu byggðist það á röngum upplýsingum, eins og nú má heyra á þeim játningum, sem ráðamenn flytja á torgunum, í lengstu lög skulum við þó vona, að stjórnin hafi eitthvað lært af þessu öllu. Fram hjá því verður ekki komizt, að hún hefur enn glatað trausti og hefur veikan meiri hl. og illa fenginn. Samt er það svo, að meiri hl. mörðu stjórnarflokkarnir í vor, og því er það ríkisstjórnarinnar að koma fram með úrræði sín. Bíða menn nú og sjá, hvort stjórnin vill draga skynsamlegar ályktanir af reynslunni eða ekki. En Framsfl. mun ótrauður halda áfram baráttunni fyrir sinni stefnu. — Góða nótt.