22.01.1964
Sameinað þing: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2483)

79. mál, efling byggðar á Reykhólum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir og flutt er af okkur 4 þm. Vestf., felur í sér áskorun til ríkisstj. um að láta fram fara nýjar athuganir á því, hvernig hagnýta megi hið forna höfuðból, Reykhóla á Reykjanesi, þannig, að byggð þar eflist og verði jafnframt nálægum sveitum til stuðnings. Í till. er tekið fram, að sérstaklega skuli athuga möguleika á eftirfarandi: Í fyrsta lagi auknum stuðningi við hagnýtingu jarðhita á staðnum til gróðurhúsaræktunar. Í öðru lagi uppbyggingu iðnaðar, t.d. mjólkuriðnaðar og þangvinnslu. Í þriðja lagi umbótum í skólamálum, t.d. með bættri aðstöðu til unglingafræðslu og stofnun héraðsskóla. Í fjórða lagi lendingarbótum á Stað á Reykjanesi eða á öðrum þeim stað, sem hentugur yrði talinn. Loks er lagt til í till., að ríkisstj. skipi 5 manna nefnd til þess að gera tillögur um framkvæmdir á Reykhólum og hvernig stuðla megi að aukinni byggð þar. Skal einn nm. tilnefndur af hreppsnefnd Reykhólahrepps, annar af sýslunefnd Austur-Barðastrandarsýslu, en þrír skipaðir án til nefningar. Er gert ráð fyrir því, að n. hafi lokið athugun sinni og skilað till. sínum fyrir 1, okt. þ. á.

Reykhólar á Reykjanesi eru glæsilegt og merkilegt höfuðból allt frá fornu fari. Þar eru lönd víð og góð. Hiti er mikill í jörðu og náttúrufegurð og víðsýni mikið. En þessi fagri og svipmikli staður og náttúruauðæfi hans hafa ekki verið hagnýtt sem skyldi. Á undanförnum árum hafa þó verið uppi ýmsar till. og hugmyndir um framkvæmdir þar. T.d. beitti Gísli Jónsson, þáv. þm. Barðstrendinga, sér fyrir því árið 1943, að sett var á stofn sérstök nefnd til þess að gera nákvæmar athuganir og till. um framtíðarnot jarðarinnar Reykhóla sem skólaseturs og tilraunaseturs fyrir Vesturland. Þessi nefnd skilaði allýtarlegu áliti, og á grundvelli þess flutti Gísli Jónsson frv. til 1. um skólasetur og tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum. Í framhaldi af þessu frv. var svo árið 1944 flutt frv. til l. um tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum. Var slík stofnun síðan sett á laggirnar og hefur verið rekin þar síðan. Enn fremur hefur Landnám ríkisins unnið miklar ræktunarframkvæmdir á staðnum.

Af öðrum framkvæmdum, sem unnar hafa verið á þessum stað á seinni árum, má nefna, að þar hafa verið reistir embættisbústaðir fyrir lækni og prest, byggð ný og myndarleg kirkja, heimavist fyrir barnaskóla og sundlaug. Má því segja, að allmiklar umbætur hafi verið unnar á Reykhólum á undanförnum árum. En sú staðreynd verður þó ekki sniðgengin, að aðalnáttúruauðæfi staðarins, jarðhitinn, hafa ekki enn verið hagnýtt nema til upphitunar örfárra íbúðarhúsa. Íbúar Reykhóla munu nú vera rúmlega 60, og ríkir mikill og vaxandi áhugi á því, að haldið verði áfram uppbyggingu staðarins. Í sveitum Austur-Barðastrandarsýslu verður þess einnig mjög vart, að fólkið byggir miklar vonir á Reykhólum og ýmislegri starfsemi í þágu héraðanna, sem þar sé auðveit að reka.

Það er skoðun okkar flm. þessarar till., að brýna nauðsyn beri til þess að stuðla að aukinni hagnýtingu jarðhitans og þá fyrst og fremst til gróðurhúsaræktunar, sem hægt væri að reka á Reykhólum í stórum stíl. Á Vestfjörðum er hiti í jörðu í flestum sveitum, en á aðeins 2 eða 3 stöðum er hann hagnýttur til ræktunar. Vestfirðingar verða árlega að kaupa grænmeti og blóm úr öðrum landshlutum, á sama tíma og jarðhitinn ólgar ónýttur við fætur þeirra. Á þessu hlýtur að verða breyting. Staður eins og Reykhólar, þar sem jarðhiti er svo að segja ótakmarkaður, verður að fá aðstöðu til þess að hagnýta þessi auðæfi í þágu íbúa sinna og aðliggjandi héraða og raunar þjóðarinnar allrar. Hið opinbera verður að sinna hagnýtingu jarðhitans í vaxandi mæli, ekki aðeins í þéttbýlinu, heldur einnig úti í strjálbýlinu, sem getur haft margvísleg not af þessum náttúruauðæfum.

Á Reykhólum kemur enn fremur til greina uppbygging iðnaðar, og hefur nú begar verið hafizt handa um byggingu mjólkurbús á staðnum. Er ákveðið, að þeirri framkvæmd verði haldið áfram og starfræksla mjólkurbús hafin, þegar grundvöllur hefur myndazt fyrir rekstri þess með aukinni mjólkurframleiðslu bænda í Austur-Barðastrandarsýslu. Þá hefur verið rætt um möguleika þangvinnslu við norðanverðan Breiðafjörð, og telja sumir, að hún væri vel sett á Reykhólum.

Undanfarin ár hefur verið haldið uppi unglinga- og barnafræðslu á Reykhólum við erfiðar aðstæður. Byggð hefur verið heimavist fyrir barnaskóla, en kennsluhúsnæði skortir. Er nauðsynlegt að ljúka sem fyrst byggingu þess, og kemur þá einnig til athugunar, hvort ekki sé tímabært að koma upp héraðsskóla á staðnum. En eins og kunnugt er, er aðsókn nú orðin svo mikil að þeim héraðsskólum, sem fyrir eru í sveitum landsins, að árlega verður að vísa frá fjölda nemenda.

Þá er talið, að samgöngum við norðanverðan Breiðafjörð og sambandinu við Breiðafjarðareyjar, sem nú eru aðeins örfáar eftir byggðar, væri veruleg bót að ferjubryggju á Reykjanesi. Í því sambandi hefur helzt verið rætt um bryggjugerð á Stað. Var á s.l. sumri lagður akvegur frá Stað niður að sjónum og hugsanlegu bryggjustæði.

Það er ósk og vilji okkar flm. þessarar till., að öll þessi atriði og ýmis fleiri varðandi framtið Reykhóla og sveitanna í Austur-Barðastrandarsýslu verði tekin til ýtarlegrar athugunar. Við leggjum til, að sú nefnd, sem gert er ráð fyrir að hana framkvæmi, hafi lokið störfum sínum og skilað till. fyrir 1. okt. n.k.

Það er einnig álit okkar flm., að það sé mjög þýðingarmikið fyrir strjálbýlið á Vestfjörðum, að mynduð verði ný þéttbýlishverfi á einstökum stöðum, þar sem framleiðsluskilyrði eru góð og aðstaða til félagslegs samstarfs og samgangna hagstæð. Það er einmitt slík þéttbýlismyndun í strjálbýlinu, sem getur að okkar áliti á marga lund orðið því til ómetanlegs gagns og eflingar, t.d. á sviði menningar-, heilbrigðis-, fræðslu- og félagsmála. Það, sem fyrir okkur vakir með þessari till., er, að á Reykhólum verði byggður upp Þróttmikill skólastaður með gróðurhúsarækt, iðnaði og greiðum og öruggum samgöngum á öllum árstímum. Ef þetta tækist, mundi það hafa mikla þýðingu, ekki aðeins fyrir byggðina í Austur-Barðastrandarsýslu, heldur fyrir alla Vestfirði. Það er von okkar flm., að till. megi verða til þess að koma nýjum skriði á framkvæmdir á Reykhólum, stuðla að eflingu byggðarinnar þar og aukinni trú á framtíðina i þessum fögru og kjarnmiklu sveitum.

Ég vil að lokum geta þess, að fyrir nokkru er hafin athugun á því, hvernig unnið skuli að eflingu byggðar á Vestfjörðum yfirleitt. Fer sú athugun fram á grundvelli þáltill., sem samþykkt var á síðasta Alþingi. Er það von okkar flm., að jákvæður árangur verði af þeirri athugun og henni ljúki innan skamms. Til þess ber brýna nauðsyn, að byggð haldist alls staðar þar í okkar landi, sem aðstaða er góð til framleiðslu og fólkið getur lifað við góð og þroskavænleg lífskjör. Vestfirðingar hafa jafnan tekið þróttmikinn þátt í framleiðslustarfsemi þjóðarinnar. Það væri þess vegna mikið tap fyrir þjóðarheildina, ef byggð þar héldi áfram að eyðast og fólki að fækka. Einskis má láta ófreistað til að gera aðstöðu fólksins í þess um landshluta sem bezta. Eina leiðin til þess, að fólkið uni við framleiðslustörfin úti um land, er að tryggja því jafngóð lífskjör og fólkið nýtur í þéttbýlinu. Á þeirri grundvallarstaðreynd verður stefna ríkisvaldsins á hverjum tíma að byggjast.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að þessari till. verði að lokinni fyrri umr. vísað til hv. allshn.