06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (2493)

100. mál, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Utanrmn. hefur rætt till. þá til þál., sem hér liggur fyrir, um heimild til aðildar Íslands að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Leggur n. einróma til, að hún verði samþykkt óbreytt.

Samkv. till. þessari er ríkisstj. heimitað að gerast fyrir Íslands hönd aðili að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization, og takast á hendur skyldur þær, sem samkv. stofnskrá Menningarmálastofnunarinnar eru aðildinni samfara. Gert er ráð fyrir, að kostnaður Íslands af Þátttöku í UNESCO muni á árinu 1964 nema rösklega 335 þús. kr. auk byrjunarframlags, sem er að upphæð 57 þús. kr. Fyrir árið 1965 og 1966 er gert ráð fyrir, að árgjaldið muni nema um 387 þús. kr. hvort árið.

Tilgangur Menningarmálastofnunarinnar er að stuðla að friði og öryggi með því að efla samstarf þjóða í milli með fræðslu-, vísinda- og menningarstarfsemi, til þess að auka almenna virðingu fyrir réttlæti, lögum og mannréttindum og mannfrelsi, sem staðfest er í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna fyrir þjóðir heimsins, án tillits til kynþáttar, kynferðis, tungu eða trúarbragða. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru nú aðilar að Menningarmálastofnun samtakanna, að tveimur undanteknum, Suður-Afríku og Portúgal. Frá því að stofnunin var sett á laggirnar árið 1945, hefur hún haldið uppi fjölþættri starfsemi á sviði fræðslu-, vísinda- og menningarmála. Er óhætt að fullyrða, að íslenzku þjóðinni geti orðið mikið gagn að aðild að þessum víðtæku alþjóðasamtökum. Stofnunin veitir t.d. margs konar styrki, sem íslenzkir námsmenn, listamenn og vísindamenn geta orðið aðnjótandi. Má gera ráð fyrir, að Ísland muni hafa af þessu allmiklu meiri hagnað en sem nemur kostnaðinum af aðildinni að samtökunum.

Samkv. framansögðu leggur utanrmn. til, að till. verði samþykkt óbreytt.