15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (2501)

211. mál, vegáætlun 1964

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þá er komin fyrsta vegáætlunin samkv. nýju vegalögunum. Eg verð að játa, að ég hef ekki haft tækifæri til að athuga til fullrar hlítar öll einstök atriði, sem upplýsingar eru gefnar um í þeim miklu skilríkjum, sem birt eru með þessari fyrstu vegáætlun. En ég hef samt sem áður veríð þess hvetjandi, að þetta mál yrði tekið strax á dagskrá, og mun stuðla að því, að fyrri umr. þurfi ekki að verða löng, og það er af áhuga á því, að málið komist sem allra fyrst í fjvn., til þess að hún geti farið að vinna að því:

Okkur er öllum ljóst, að það er mjög liðið á þingtímann og hver mínúta dýr svo að segja fyrir fjvn. að vinna að þessu, því að hún á fram undan mikið og örðugt verkefni, en það er að skipta því fé, sem hér er stungið upp á, í einstakar framkvæmdir í landinu. En það er ekki auðvelt verk, eins og mun koma fram að sumu leyti í þeim fáu orðum, sem ég ætla að koma hér á framfæri við þessa fyrri umr.

Fyrst vil ég minna á, að Framsfl. fylgdi því eindregið, að lagðar yrðu nýjar álögur á, u.þ.b. 100 millj. kr., og þeim varið til veganna og brúanna. Þetta er nýstárlegt, að stjórnarandstaða fylgi þannig stórum nýjum álögum, og ekki sízt þegar þannig stendur á, að við teljum, að ríkisstj. hafi sópað af fólki óþarflega miklu fé með hinum nýjustu samþykktum í því efni. En við gerðum þetta, eins og við sögðum greinilega, vegna þess að okkur var ljóst, að það mundi ekki fást nýtt fé til veganna og brúnna nema með því að leggja á í því skyni nýjar álögur. Þegar við vorum alveg sannfærðir um þetta, vildum við heldur vera með í því að leggja nýju álögurnar á og að þær rynnu þá í vegina til viðbótar en að horfa lengur upp á ástandið eins og það var orðið. Og þegar við nú sjáum þessa vegáætlun, sem hér er lögð fram, og þær skýringar, sem henni fylgja, vænti ég, að mönnum skiljist, að það var ekki einkennilegt, þó að við tækjum þennan kostinn. Við sjáum nefnilega nú, jafnvel enn greinilegar en áður hefur legið fyrir nokkurs staðar, í hvert óefni vegamálin og brúamálin voru komin, og sannast að segja verð ég að játa, að þótt ég teldi mig dálítið kunnugan þessum málum, hnykkir mér við, þegar dregin er upp af þessu jafnskýr og vafataust sónn mynd og gert hefur verið í fskj. þessa frv. Ég held, að okkur hljóti að hnykkja við, þegar við sjáum, hvað þessar miklu nýju álögur hrökkva skammt til þess að bæta úr þörfinni.

Ég ætla ekki að fara langt út í þetta mál, vegna þess áhuga, sem ég hef fyrir því, að það komist í n., þar sem það á að fá þýðingarmikla athugun, og stikla því á stóru.

Í fyrsta lagi vil ég benda á, að það kemur greinilega í ljós af þessum upplýsingum, sem hér liggja fyrir, að vegagerð hefur að verulegu leyti verið haldið áfram með því að taka lán. Bæði hefur ríkið sjálft tekið lán upp á framtíðina, og eins hafa sveitarfélögin unnvörpum tekið stórlán til þess að halda vegagerðinni gangandi. Það kemur í ljós, að sveitarfélögin hafa dregið og draga á eftir sér skuldaslóðann, og þau hafa tekið þessi lán til að reyna að koma i veg fyrir, að vegagerð stöðvaðist alveg.

Ríkið hefur svo í vaxandi mæli einnig farið inn á þá braut að taka lán til vegagerða, eins og við sjáum á því, að nú þarf stórfé til að greiða af þeim lánum, og áhöld handa vegagerðinni hafa verið keypt með lánum, og nú þarf stórfé til þess að greiða af þeim. Þannig hefur þessu upp á síðkastið verið draslað áfram og byrðarnar lagðar á framtíðina, og getum við því nokkurn veginn séð, hvað hefði beðið okkar, ef menn hefðu þó ekki rifið sig upp og lagt á þessar nýju álögur til að fá aukið fé inn í þessi mál, fyrst ekki var látið meira af ríkisfénu sjálfu, sem þó hefði verið eðlilegt.

En það er til marks um þessi efni, að samkv. þeim skýrslum, sem hér liggja fyrir, er ráðgert, að ætti að borga upp skuldaslóðann, sem sveitarfélögin draga á eftir sér, og greiða fastar afborganir og vexti af þeim lánum, sem ríkið hefur tekið vegna vegagerðar, mundi þurfa 43 millj. af vegafénu í að koma þessu i kring. Og þannig er dæminu í raun og veru stillt upp í grg., að 43 millj. af vegafé þessa árs fari til þess að greiða skuldir, sumpart skuldir ríkisins sjálfs, afborganir og vexti af þeim, bæði vegna Keflavíkurvegar og fleiri vega, enn fremur vegna áhaldakaupa, og svo þær skuldir, sem sveitarfélögin hafa stofnað til.

Hitt er svo annað mál, eins og hæstv. ráðh. sagði, hvort það er hugsanlegt, þó að þessu sé stillt svona upp til þess að sýna ástandið, að klípa svo mikið af fjárveitingunum til nýju veganna, jafnvel þó að þær hækki eitthvað, sem þær væntanlega gera, til þess að sveitarfélögin geti greitt þessar skuldir sinar á einu ári eða tveimur. Um það skortir mig þekkingu til að dæma. En þetta er sú mynd, sem blasir við, af þeim hnút, sem þessi efni voru í komin. Auðvitað veit ég, að það hefur áður komið fyrir, að sveitarfélög hafa tekið lán til að greiða fyrir vegagerðum, en það er augljóst af þessu, að þetta hefur orðið sí og æ í vaxandi mæli, eftir því sem þessi mál urðu erfiðari viðfangs vegna stórvaxandi dýrtíðar, en lítið eða ekki hækkandi fjárveitingar.

Ef ætti að greiða upp allar þessar skuldir og dæmið væri tekið bókstaflega, eins og það er í grg., þá færu aðeins 24 millj. í nýlagningar á þessu ári, i nýja þjóðvegi af öllu tagi. En sem sagt, þetta fer þó eftir því, hversu langt verður gengið í að reyna að ryðja af strax hinum gömlu skuldum sveitarfélaganna, en auðvitað verður að greiða föstu greiðslurnar af ríkislánunum, sem tekin hafa verið til vegagerðanna. Það kemur nú í ljós, að það hafa verið um 181/2 millj., sem sveitarfélögin voru búin að taka að láni samtals til að fleyta vegagerðunum áfram og standa nú að sjálfsögðu straum af.

Þá er fleira, sem sýnir, hve mikill vandi er á höndum þrátt fyrir þennan tekjuauka í vega og brúamálin. T.d. það, að fjárveiting til brúa yfir 10 m er hugsuð 12 millj. í þessari vegáætlun, og er það í raun og veru engin hækkun frá því, sem áður hefur verið, eins og upplýst er í grg. Það er aðeins hækkun, sem svarar auknum stofnkostnaði við brýrnar. Það eru því ekki auknar fjárveitingar til þessara brúa. En þó er þannig ástatt um þessi mál, að óbrúaðar ár á þjóðvegum yfir 10 m að lengd, sem eiga að koma þarna til greina, eru hvorki meira né minna en 70 talsins og ástandið í þessum efnum víða mjög alvarlegt og búið að vera alvarlegt undanfarið. En þrengslin í vegáætluninni eru svona ofboðsleg, að jafnvel þeir, sem hafa fultkomlega opin augu fyrir þessu vandamáli, treysta sér ekki til að stinga upp á hærri fjárhæð en 12 millj. í þessu skyni, eða óbreyttum fjárveitingum til þessa þáttar í brúarmálunum. Það er að vísu dálítið meiri hækkun ráðgerð á smábrúnum, enda hefur ástandið verið ömurlegra en hægt er að lýsa, að því er varðar framkvæmdir í þeim efnum.

Þá enn eitt dæmið, sem sýnir vandamálið, og það er vegaviðhaldið. Það er gert ráð fyrir að hækka vegaviðhaldið í 85 millj. kr., en samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja i málinu, er ekki þar um neina raunverulega aukna fjárveitingu að ræða til vegaviðhalds, því að sérfræðingar gera ráð fyrir, að vegna aukins kostnaðar við vegaviðhald og lengingar þjóðvegakerfisins verði í raun og veru hægt að halda vegunum álíka vel eða réttara sagt álíka illa við með 85 millj. nú og 70 millj. áður, eða þannig skil ég dæmið. En samt sem áður verða í þetta að fara 15 millj. af þeim peningum, sem aflað var til viðbótar í vegina. Og þó að 15 millj. fari í þetta af þeim, þá á ástandið samt sem áður að verða eins i viðhaldsmálunum og það hefur verið. Og því miður er þá óhætt að segja: eins slæmt og áður. Ég held, að það sé enginn ágreiningur um, að í raun og veru hafi ekki verið hægt með því fé, sem veitt hefur verið til viðhaldsins, að halda vegunum við. Þeim hefur víða hrakað vegna skorts á viðhaldi.

Lítum svo enn á einn lið, áhaldaliðinn. Hæstv. ráðh. lýsti áðan með sterkum orðum, hversu lélegur væri áhaldakostur vegagerðarinnar, en hefði þó verið bætt talsvert úr í fyrra. En þá kemur í ljós, að þær úrbætur hafa verið gerðar fyrir lánsfé, sem nú þarf að greiða af vegafénu, og meginhlutinn af þeirri hækkun, sem gert er ráð fyrir á áhaldaliðnum, er til þess að greiða upp í þessar skuldir, sem stofnað hefur verið til vegna áhaldakaupa.

Eins og ég sagði áðan, er það ekki ætlun mín að fara að setja hér á langa ræðu um þessi efni, því að efnið er i sjálfu sér nálega ótæmandi, ef ætti að fara að ræða það í einstökum atriðum. En ég vildi bregða upp þessum myndum, sem mér hnykkti nokkuð við að sjá, þó að ég teldi mig dálítið kunnugan þessum málum. Og þær sýna okkur, hversu ódrjúgar verða í framkvæmdinni, því miður, miðað við hina stórkostlegu þörf, þessar 100 millj., sem við vorum að sameinast um að taka með nýjum sköttum.

Það er ekki nein ástæða til þess að fara að ræða hér um skiptingu á þessu fé á milli liða, og í raun og veru er ekki heldur hægt að skapa sér fullkomlega skoðun á þessu, fyrr en öll gögn eru komin fram frá vegamálastjóra, t.d. tillögur um skiptinguna á þessu fé í einstaka liði. Þess vegna fer ég ekki út í þau efni núna. En ég er að benda á þetta, sem ég hef dregið fram, til að sýna mönnum, að allar upplýsingar hniga nú í þá átt, að það verður að halda áfram baráttunni fyrir því, að það fáist meira fé til veganna og brúnna en gert er ráð fyrir i þessari vegáætlun. Þetta er sýnilega alveg óhjákvæmilegt og lífsnauðsyn. Og það er einmitt á þeirri hugsun, sem fær nú stórum aukinn stuðning við þær upplýsingar, sem hér eru lagðar fram, sem byggð hefur verið barátta okkar framsóknarmanna hér á hv. Alþingi fyrir því, að þær álögur, sem raunverulega eru lagðar á umferðina í landinu, fái að renna til vega og brúargerða, a.m.k. í vaxandi mæli, ef menn geta ekki fallizt á, að það verði gert í einu stökki, að það verði a.m.k. í áföngum stefnt að því, að svo verði í raun og veru. En mér taldist þannig til í vetur eftir upplýsingum góðra manna, að það mundu vera um 200 millj.. sem ríkissjóður hefði til almennra þarfa af því fé, sem raunverulega er lagt á umferðina, og það alveg jafnt fyrir því, þótt það fé gangi til veganna og brúnna, sem greint er í þessari vegáætlun. Ég vil þess vegna lýsa yfir því, — og það var í raun og veru erindi mitt hingað til viðbótar því að benda á þau atriði, sem ég hef greint, — lýsa yfir því, að við munum halda áfram viðleitni okkar til þess að fá meira og meira af þessum álögum til vega- og brúamálanna.

Að lokum vil ég svo taka undir það með hæstv. ráðh., að þó að við höfum verið óþolinmóðir að bíða eftir vegáætluninni, þá sjáum við auðvitað, þegar við athugum þetta mál að þau skilríki, sem prentuð eru með henni, hvílík óhemju vinna það hefur verið að setja upp þetta nýja kerfi, og þurfum því ekki að undrast, þó að það hafi tekið mikinn tíma á vegum vegamálastjórnarinnar, enda sýnist þetta allt vera glöggt og skilmerkilega fyrir lagt og gefa góðan grundvöll til þess að sjá, hvernig ástandið er í þessum málum. Þetta er mjög skýr mynd af ástandinu, sem nú kemur fram, og þarna er lagður nýr grundvöltur til að byggja á frekari sókn, einmitt í þessum mátefnum. Ég vil því alls ekkert finna að því , þó að þetta hafi dregizt.

Þá vil ég minna á eitt, sem ég gleymdi áðan, og það er þetta: Ég hafði staðið í þeirri meiningu, að í vegáætluninni ættu að vera greindar allar fyrirhugaðar vega- og brúargerðir, líka þær, sem fyrirhugað væri að gera fyrir lánsfé. En ég sé ekki, að þetta sé ráðgert. Hér í þessari vegáætlun eru ekki ráðgerðar neinar nýjar framkvæmdir, svo að ég fái séð, fyrir láns£é á vegum ríkisins, Þ.e.a.s. af lánum, sem ríkið tæki. Í því sambandi vil ég leyfa mér að spyrja: Er ekki meiningin að halda áfram með Keflavíkurveginn, og er ekki hugsunin sú að ljá máls á því að taka líka lán í ýmsar aðrar aðkallandi vegaframkvæmdir í öðrum landshlutum einnig, nokkuð til jafnvægis á móti því , sem gert hefur verið? Ég hef staðið í þeirri meiningu, að þetta væri hugsunin, og þá hef ég ætíð skilið það svo, að þetta eigi að koma inn í vegáætlunina. Þar ættu að koma allar vegagerðir og allar brúargerðir, bæði þær, sem kostaðar eru af beinum fjárveitingum á fjári., einnig þær, sem kostaðar eru af skattinum, sem við lögleiddum í vetur, og loks þær, sem áætlaðar væru með lántökum. Með þessu eina móti fæst auðvitað alveg fullt yfirlit yfir þetta mál, að þetta sé allt saman greint. Þá kæmu hér til viðbótar þær vegagerðir, sem greiddar yrðu af lánsfé ríkisins, og aftur teknamegin þau lán, sem til þeirra ætti að taka. Ég vil beina þessu sérstaklega til hæstv. ráðh. og hv. fjvn., að þessi háttur verði á hafður, þannig að með þessari aðferð verði öll vega- og brúamálin tekin til meðferðar og engu þar undan skotið, það komi allt i einni mynd og verði allt í heild gert upp. Og ég vil vona, sannast að segja, að um þetta geti náðst samkomulag.