15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (2502)

211. mál, vegáætlun 1964

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Vegáætlun sú, sem lögð er nú hér fyrir Alþingi samkv. nýjum vegalögum, er lögð fram í þál..-formi, og er það í samræmi við það, sem ráðgert hafði verið í hinum nýju vegalögum. Eins og þessi þáltill. ber með sér, er hún í allmörgum liðum, og ekki kæmi mér á óvart, miðað við það, sem á undan er gengið hér á Alþingi, að ýmsir kynnu að óska atkvgr. hér um hina einstöku liði þessarar þáltill., þar sem annars vegar eru gerðar till. um fé til brúarframkvæmda og fé til ýmiss konar vegaframkvæmda. En því minnist ég nú á þetta, að hér fyrr á fundi í dag voru framin alveg einstæð þingskapaafglöp í sambandi við afgreiðslu þáltill. Ef ætti nú að fara eitthvað svipað að við afgreiðslu þessarar till. eins og hinnar, sem hér fékk raunverulega enga þinglega afgreiðslu, þá mundi sá háttur vera á hafður að bera upp til atkvgr. í sambandi við þessa þáltill. þann hluta af fyrstu setningu till., þar sem segir: „Alþingi ályktar samkv. ákvæði til bráðabirgða og III. kafla vegal., nr. 71 20. des. 1963“, þetta yrði borið upp, þó að þetta sé ekki nema hálf setning, og þar með væri allt málið úr sögunni. Ég er alveg viss um það, af því að ég hef verið hér á Alþingi í 22 ár, að það mun reynast vandfundinn forseti, sem ber þáltill. upp á slíkan hátt sem þennan oftar en einu sinni eða hann léti ekki fara fram leiðréttingu á slíku, þegar slík mistök henda forseta. Ég er auðvitað alveg fullviss um það, að þessi þáltill. hlýtur að verða þannig borin upp, eins og aðrar hliðstæðar þáltill. hafa áður verið bornar upp hér á Alþingi, að hinir einstöku efnisliðir till. geti fengizt bornir upp út af fyrir sig, og um þá á að fara fram efnisleg atkvgr., um efnisatriði málsins, og það hlýtur að verða gert. Ég er sannfærður um það, að þm. mundu telja, að ómögulegt væri að standa að afgreiðslu þessa máls, ef þannig ætti að fara að eins og hér var gert fyrr á fundi í dag. Við vitum. að allar þáltill. svo að segja einmitt hefjast á slíkum orðum sem þessum: „Alþingi ályktar að“, og svo kemur vitanlega efnisatriði málsins, en svo ætti að fara að taka upp þann hátt að bera aðeins upp þetta: „Alþingi ályktar að“, bera slíkt upp út af fyrir sig til þess að koma sér hjá því að greiða atkv. um efnisatriði málsins. En ég vil sem sagt vænta þess, að þegar þessi þáltill., sem hér er til meðferðar, kemur til atkvgr., verði hafður á gamli hátturinn við að afgreiða þáltill., en ekki sá nýi, sem tekinn var upp hér i dag, og ég vona, að ekki muni finnast annað forsetaefni hér á Alþingi, sem viðhefur slíka reglu, því að það jafngildir vitanlega því að koma i veg fyrir það, að þm. fái að taka afstöðu til þeirra efnisatriða málsins, sem fyrir liggja.

En svo langar mig að víkja hér nokkrum orðum að nokkrum aðalefnisatriðum þeirrar till., sem hér liggur fyrir.

Þegar nýju vegalögin voru samþ. á Alþingi rétt fyrir jólin, var þar gert ráð fyrir nýjum tekjustofnum til þess að standa undir útgjöldum til vegamála í landinu og brúargerða og gert ráð fyrir því, að sú gjaldahækkun, sem þar var ákveðin, mundi veita nýjar tekjur á ári hverju, sem næmu í kringum 100 millj. kr. Og það var hér skýrt fram tekið, bæði af mér og fleirum, sem þátt tóku í þessum umr., að algert skilyrði fyrir því, að við stæðum með því að leggja á þessar nýju álögur, væri, að það mætti telja tryggt, að öll þessi fjárhæð kæmi sem viðaukaframlag til vega- og brúargerða í landinu, m.ö.o. að það væri alveg tryggt, að ríkissjóður drægi ekki til sín höndina frá því, sem áður hafði verið, miðað við þá tekjustofna, sem hann hafði þá þegar fengið. Og þannig var afgreiðsla málsins skilin á símum tíma, að þetta mundi eiga að verða svo í framkvæmdinni. En nú eru sem sagt fyrstu till. í samræmi við hin nýju vegalög komnar hér fram. Mér sýnist, að þessar till. séu þannig, að eins og a.m.k. þær koma hér fram í grg. með þessari þáltill., leiki allmikill vafi á Því, að hér verði um að ræða 100 millj. kr. meiri fjárveitingar til vega- og brúargerða en verið hefur í framkvæmd að undanförnu, t.d. á s.l. ári.

Ég skal þá víkja hér að nokkrum helztu liðunum.

Sá liðurinn, sem er stærstur og fyrirferðarmestur í sambandi við fjárveitingar til vegamála, er varðandi viðhald þjóðvega. Samkv. þessari till. er gert ráð fyrir, að varið verði til viðhalds þjóðvega á þessu ári 85 millj. kr., og er þar um að ræða 15 millj. kr. hærri fjárhæð en um var rætt í sambandi við afgreiðslu fjári. fyrir yfirstandandi ár. En í grg., sem fylgir þessari till., er tekið fram, að þó að þessi hækkun verði nú samþ., sé þarna ekki um neinn viðauka að ræða í rauninni frá því , sem áður hafi verið, vegna þess að á tímanum hefur farið fram veruleg verðhækkun, viðhaldið verður dýrara í framkvæmd, og má því aðeins búast við því , að haldið verði í horfinu með þessari upphæð frá því, sem áður var. Mér sýnist því, að þessi fyrsti liður komi þannig fram í till., að það er ekki gert ráð fyrir meira viðhaldi en áður hefur verið, í bezta falli er gert ráð fyrir svipuðu viðhaldi og áður var. Þó er það rétt á mörkunum, því að núna er gert ráð fyrir því, að þjóðvegirnir verði allmiklu lengri en áður var, eða í kringum 11% lengri en áður var, þ. e. fleiri vegir í landinu flokkist undir þennan lið, og vitanlega krefst það miklu meiri fjárhæðar.

En áður var. m.ö.o.: á þessum veigamesta lið útgjaldanna, sem er viðhald þjóðvega, verður ekki um neina aukningu að ræða. Að vísu eru þar veittar heldur fleiri krónur til, en í bezta falli verður um það að ræða, að viðhaldið verði svipað og það var áður.

Annar liðurinn af þeim stærri í sambandi við vegamálin er svo framlög til nýrra þjóðvega. Þeim er skipt í þrennt í þessum till.: í fyrsta lagi hraðbrautir svonefndar, í öðru lagi þjóðbrautir og í þriðja lagi landsbrautir.

Um hraðbrautirnar er það að segja, að í grg. kemur fram, að nú er lagt til að verja til þeirra 10 millj. kr. En jafnframt er þess getið, að af þessu fé verði að greiða í vexti og afborganir af lánum, sem tekin hafa verið til Keflavíkurvegar, 6 millj. 778 þús. kr. og einnig verði að greiða til ríkissjóðs vegna fyrirframnotkunar á fé til Austurvegar, austur yfir fjall, 1.5 millj., eða af þessum 10 millj. verði að taka, vegna þess að þegar er búið að ráðstafa þeim, 8 millj: 278 þús. kr. Eftir eru þá til þessara hraðbrauta 1 millj. 722 þús. kr., eftir því sem grg. skýrir frá. Það er því alveg augljóst, að eins og þessi gögn liggja fyrir, er þarna ekki um aukningu að ræða frá því, sem áður hefur verið. Ef þannig á að verja fénu, sem kemur fram í þessari grg., þá verður greinilega um beinan samdrátt að ræða í sambandi við þessar framkvæmdir: Hér hefur að vísu verið á það minnzt, að það sé ekki endilega víst, að það þurfi að greiða upp öll þau lán, sem tekin hafa verið. Þó býst ég við því, að það verði ekki hægt að komast hjá því að borga umsamdar afborganir og vexti af lánum, sem tekin hafa verið, eins og t.d. í sambandi við Keflavíkurveginn.

Um annan liðinn í þessum efnum, þ.e. þjóðbrautir, samkv. áætluninni er gert ráð fyrir að verja til þeirra 23 millj. kr. En síðan er tekið fram, að af þessum 23 millj. kr. verði að renna í afborganir og vexti af lánum, sem tekin hafa verið, 4 millj. 685 þús. kr. og greiðsla til ríkissjóðs vegna fyrirframnotkunar 1 millj. 450 þús., og síðan eru talin bráðabirgðalán, sem tekin hafa verið til þessara framkvæmda úr hinum ýmsu héruðum, 5 millj. 150 þús., eða samtals 11 millj. 285 þús. kr. Og þá eru eftir af þessum lið 11 millj. 715 þús. kr., en til þessara vega höfðu verið veittar áður, á árinu 1963, 13 millj. 340 þús. kr., eða nokkru hærri fjárhæð en þarna er gert ráð fyrir, eins og í grg. segir, að varið verði til þessara framkvæmda. Þarna er því ekki um aukningu að ræða, heldur beinlínis um minnkun að ræða.

Þriðji liðurinn í sambandi við framkvæmdir við þjóðvegi eru hinar svonefndu landsbrautir. Samkv. þáltill. er gert ráð fyrir, að til þeirra verði varið á þessu ári 24 millj. 595 þús. kr., og síðan er fram tekið, að greiða þurfi ríkissjóði vegna fyrirframnotkunar 1 millj. 850 þús. og vegna bráðabirgðalána, sem tekin hafa verið í héruðum, 13 millj. 350 þús., eða þetta er samanlagt 15.2 millj., og þá eru eftir af þessum lið 9 millj. 395 þús. kr. En jafnframt er upplýst, að til þessara brauta hafi verið varið á s.l. ári, ekki 9 millj. 395 þús. kr., eins og þarna er eftir, heldur 18 millj. 400 þús. kr. Þarna er því greinilega um verulegan samdrátt að ræða, svo framarlega sem á að haga framkvæmdinni á þann hátt, sem hér er stillt upp í þeirri grg., sem fylgir með till.

Þetta er engan veginn eins og til hafði verið ætlazt af þeim, sem stóðu með því að hækka verulega álögur á umferðina í landinu til þess að tryggja á þann hátt 100 millj. kr. í auknar tekjur á ári, sem ættu að öllu leyti að renna sem viðbótarframlög við það, sem áður hafði verið varið til vega- og brúargerða í landinu.

Um framlög til brúargerða segir í þessari ályktun, að til stórbrúa svonefndra sé áætlað að verja 13 millj, kr., en hins vegar upplýst, að árlegar tekjur brúasjóðs, sem áður stóð undir slíkum framkvæmdum, hafi verið i kringum 10.4 millj. kr. Virðist því greinilegt, að hér sé um litla hækkun að ræða frá því, sem hafði verið í tíð brúasjóðs, a.m.k. fram yfir það, sem samsvarar beinni verðhækkun, sem orðið hefur á byggingarframkvæmdum. Um fjárveitingar til brúa, sem eru 10 m og lengri, er lagt til nú að varið verði 12 millj. kr., en var á s.l. ári varið 10 millj. 705 þús. kr., en þess er síðan getið, að nú þurfi af fjárveitingunni í ár, af þessum væntanlegu 12 millj. kr., að greiða 2.2 millj. kr. til ríkisins og upp í bráðabirgðalán, þar sem þarna hafi verið unnið fyrir meira en búið var að veita til framkvæmdanna. Og til smábrúa er síðan áætlað að verja 6 millj. kr., en mun hafa verið 4 millj. kr. árið 1963, og þar er því um nokkra hækkun að ræða.

Ég veitti því athygli, að hæstv. samgmrh. gat þess, þegar hann talaði hér fyrir málinu, að þó að uppsetningin í grg. till. væri á þessa lund, að gert væri ráð fyrir því að greiða bæði umframnotkun, sem fram hefði farið, endurgreiða ríkinu það, og einnig væri gert ráð fyrir því að greiða upp bráðabirgðalán, sem tekin hefðu verið í héruðum, væri ekki þar með sagt, að þessu þyrfti að haga svona í framkvæmdinni, og vel má það vera. En eins og málið er lagt hér fyrir Alþingi, er þessi grein gerð fyrir því, og það er ekki hægt að sjá annað en til þess sé ætlazt, að þessar fjárhæðir verði goldnar á þennan hátt, því að það er ekki heldur gert ráð fyrir því i þessari vegáætlun, að tekin séu nein ný lán, því að þá þyrfti auðvitað að geta þess hér í áætluninni um leið.

En það er alveg ljóst af þessari till. til þál., að hins vegar stendur það, að um allverulegar úrbætur verður að ræða í sambandi við fjárveitingar til vegagerðar í kauptúnum og kaupstöðum. Til vegagerða á þeim stöðum er nú áætlað að verja rúml. 30 millj. kr., en í því skyni var svo að segja engu fé varið áður. Þar er um mjög verulega bót að ræða frá því, sem áður hafði verið.

Einnig er greinilegt, að framlög til sýsluvega hækka talsvert frá því, sem áður var. Ríkið mun hafa greitt til sýsluvega í kringum 3 millj. kr., en nú er gert ráð fyrir að verja í því skyni um 10 millj. kr.

Það er líka ljóst, að ætlað er að verja nokkru meira fé en áður hefur verið gert til véla- og áhaldakaupa hjá vegagerðinni. Og það er vitanlega ekkert nema gott um það að segja.

En það, sem mér sýnist af þessu vera aðalatriðið, er, að það þarf að halda þannig á þessu málí nú við afgreiðslu þess hér á hv. Alþingi, að ráðstafanir séu gerðar til þess, að þau bráðabirgðalán, sem tekin hafa verið til vegaframkvæmda í héruðum, verði greidd af ríkissjóði. Það er löngu búið að vinna fyrir þetta fé, og það var ekki meiningin að leggja á þennan nýja skatt, það var ekki túlkað þannig, að það væri verið að leggja á þennan nýja skatt til þess að borga upp skuldir, sem upp höfðu safnazt áður vegna þeirra framkvæmda, sem höfðu verið gerðar í vegamálum. Ríkið verður að taka að sér þessar greiðslur, semja um lánin eða þá nota umframtekjur ríkisins nú til þess að greiða þessar skuldir upp, og eins verður að koma því þannig fyrir, að þær umframgreiðslur, sem orðið hafa hjá vegamálastjórninni fram yfir það, sem fé hafði verið veitt til beint á fjárlögum, af því, sem ríkissjóður hefur beinlínis greitt, það verði flokkað undir umframgreiðslur hjá ríkissjóði, en ekki farið að taka hinn nýja tekjustofn til þess að borga það upp. Þetta álít ég, að sé höfuðatriði í málinu, að þessar ráðstafanir þurfi að gera, svo að það sé hægt að standa við það, sem hér kom greinilega fram við afgreiðslu hinna nýju vegalaga, að það verði sannanlega hægt að verja til framkvæmda í vega- og brúargerðum á þessu ári a.m.k. 100 millj. kr. hærri fjárhæð en gert var t.d. á árunum 1962—1963. Stórframkvæmdir eins og að leggja Keflavikurveg og reyndar fleiri vegi verða að vinnast að verulegu leyti með því að halda áfram að taka lán til þeirra, svo að hægt sé að dreifa stofnkostnaði þeirra á mörg ár. Ef á að fara að taka fé af þessum takmörkuðu tekjustofnum, sem fyrir hendi eru til vega- og brúargerða almennt í landinu, til þess að leggja þá vegi, eins og nú standa sakir, þá vitanlega yrðu margir menn fyrir vonbrigðum, sem hafa gert sér vonir um það, að almennar framkvæmdir í öllum héruðum landsins gætu farið talsvert vaxandi einmitt við setningu hinna nýju vegalaga frá því , sem áður hafði verið.

Ég skal ekki, bæði af því , að það er komið nokkuð fram yfir venjulegan fundartíma, og eins af því, að ég vil mjög gjarnan, að þetta mál geti komizt til fjvn., svo að öll gögn, sem því hljóta að fylgja, fái að koma fram í málinu, lengja hér umr. frekar en orðið er, en vil leggja á það höfuðáherzlu, að ráðstafanir verði gerðar til þess að standa við það meginloforð, sem gefið var við setningu vegalaganna, að séð verði um það, að til framkvæmda verði a.m.k. 100 millj. kr. hærri fjárhæð á þessu ári heldur en var t.d. að meðaltali árin 1962 og 1963 og þá gert ráð fyrir því, ef féð hrekkur ekki að öðru leyti, að tekin verði nauðsynleg lán, til þess að hægt verði að standa við það meginloforð.