15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (2505)

211. mál, vegáætlun 1964

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti taka undir þessa ósk, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að umr. verði hagað þannig, að fyrri umr. verði frestað, eins og gert er með fjárl. Það er á allan hátt miklu eðlilegra og fer betur á Því, og ég vona, að um það geti orðið samkomulag.

Þá ætla ég að segja það út af því, sem hæstv. ráðh. sagði í tilefni af ummælum mínum um lánsfé til vegagerða og vegáætlunina, að ég tel eðlilegt að setja inn í vegáætlun, eins og ég sagði í dag, allar vegagerðir, sem fyrirhugaðar eru, og á móti tekjur til þeirra, bæði þær, sem eiga að koma inn samkv, ákvæðum vegalagafrv., og þær, sem veittar eru á fjárl., einnig það, sem hugsað er að taka að láni til þess að standa undir vegagerðarkostnaði, og loks það, sem kann að vera veitt beinlínis til viðbótar fjárlagafjárveitingum í sjálfri vegáætluninni, því að það er líka hægt að veita viðbótarfé þannig, ef hv. Alþingi vill.

Í því sambandi vil ég leyfa mér að lesa 10. gr. vegalaganna, en hún er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegamálastjóri semur till. að vegáætlun fyrir þjóðvegi, aðalfjallvegi og aðra fjallvegi til 4 ára i senn til leiðbeiningar um skiptingu þess fjár, sem til ráðstöfunar er hverju sinni til vegagerðar. Skal áætlunin annars vegar gera grein fyrir þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru á tímabilinu, en hins vegar þeirri fjáröflun, sem gert er ráð fyrir vegna Þeirra.“

Ég skil þetta lagaákvæði þannig, að þegar talað er um fjáröflun, sé það ekki eingöngu það, sem dregið er saman samkv. ákvæðum sjálfra vegalaganna, heldur einnig annað það fé, sem á að ná saman til vegagerða. Þetta er minn skilningur á því, hvernig ætlazt sé til að framkvæma þessi mál. Þetta vil ég biðja um að verði athugað í hv. fjvn., því að þetta finnst mér á allan hátt eðlilegast.

Á hinn bóginn heyrist mér á hæstv. ráðh., að hann vilji frekar hafa þann háttinn á að hafa aðeins í vegaáætluninni það, sem á að greiða beinlínis af tekjum ríkissjóðs samkv. vegalögunum og af því fé, sem beinlínis er veitt á sjálfum fjárl., en síðan skuli annars staðar, í einhverjum öðrum samþykktum af hálfu hv. Alþingis, ákveða, hvaða fjármagn skuli lagt í vegina af lánsfé.

Ég þori ekki að segja, að þetta væri lagabrot, að haga þessu á þessa lund, eins og hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir, — það þori ég ekki að segja. Það má vera, að lögin geri mögulegt að hafa tvenns konar hátt á þessu, annars vegar þann, sem ég tel eðlilegan, og hins vegar þennan, sem hæstv. ráðh. talaði um. En á hinn bóginn er sá ágalli á þeirri málsmeðferð, sem hæstv. ráðh, talar um, að þá eru vegamálin til meðferðar alveg í tvennu lagi. Það verða þá tvær vegáætlanir til meðferðar, og það er slæmt, að slíkur klofningur verði i framkvæmdinni. Annað verður þá hin reglulega vegáætlun skv. vegalögunum í þessum þrengra skilningi, sem hæstv. ráðh. heldur fram. En hins vegar yrði svo annaðhvort sérstök löggjöf um lántöku til vegagerðar eða þá kafli í fjárl., t.d. í 22. gr., heimildagr. fjárl., um sérstakar heimildir til að taka lán í ákveðna vegi. Það verður þá eins konar önnur vegáætlun alveg sér. Verður þá tekizt á um hana í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Ég skal að vísu játa, að það vottar fyrir þessari framkvæmd nú þegar, því að í fjárl., sem gilda fyrir þetta ár, eru nokkrar heimildir um lántökur í vegi. Þarna vottar fyrir þessum tvískinnungi í þessu og að þetta verði alveg tvískipt, sem ég tel óheppilegt. Ég tel, að það verði miklu heppilegra að taka inn í vegáætlunina allt saman og þá einnig nú í þetta sinn það, sem búið var að samþykkja af lántökum til vega í fjárl. Það væri réttast að taka þetta allt saman inn í vegáætlunina og hafa vegamálin og brúamálin undir í einu lagi. — Ég kvaddi mér hljóðs til að vekja nánari athygli á því, hvað fyrir mér vekti í þessu, og gera greinilegri í hugum manna þá aðferð, sem mér finnst eðlilegust.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri rétt, að það yrði einhvers staðar að koma fram, hvaða framkvæmdir væri fyrirhugað að vinna fyrir lánsfé, og enn fremur skýrslur um það, hvað fyrirhugað væri í því. Við skulum segja, að þetta sé eðlilegt, að þetta komi fram. En það þarf meira en skýrslur um, hvað fyrirhugað sé í þessu sambandi. Það verður að samþykkja á Alþingi sjálfu, hvað heimilt er að taka af lánum til vegagerða, hvaða vegagerðir er heimilt að vinna fyrir vegalán. Ríkisstj. getur ekki tekið neina ákvörðun í því að réttu lagi, hvorki eina né neina, þótt hún hafi raunar leyft sér það i frægu dæmi. En ríkisstj. getur það alls ekki. Það er brot á stjórnarskránni að gera slíkt. Þetta verður að ákveðast með lögum eða annarri Alþingissamþykkt, a.m.k. þál. Það verður því engan veginn komizt fram hjá Alþingi í því efni, enda býst ég varla við, að það sé það, sem hæstv. ráðh. meinar. En hann vill tvískipta málinu og fjalla um lánin í vegina og vegagerðir fyrir lánsfé út af fyrir sig og aftur aðrar vegagerðir sér. En það tel ég óheppilegt og ekki í anda vegalaganna nýju.