15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2507)

211. mál, vegáætlun 1964

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Einn liður vegáætlunarinnar hefur orðið sérstakt umræðuefni hér í kvöld, en það eru vegaframkvæmdir fyrir lánsfé, bæði fyrr, nú og í framtiðinni. Er þetta ekki óeðlilegt, því að unnið hefur verið fyrir fram fyrir tugi milljóna á síðustu árum, og er sérstaklega áberandi, hve misjafnlega mikið hefur verið gert að þessu í hinum ýmsu kjördæmum.

Hv. síðasti ræðumaður virtist skilja vegáætlunina þannig, að fyrst eigi að borga upp þessar skuldir og síðan eigi afgangur þess fjár, sem fyrir hendi er, að skiptast á milli kjördæmanna til nýrra framkvæmda á svipaðan hátt og áður, þannig að þau kjördæmi, sem mest hafa unnið fyrir lánsfé hingað til, mundu þar með fá sínar skuldir greiddar, en það yrði því minna eftir til skiptanna í hlut þeirra, sem ekki hafa tekið lánsfé.

Þetta held ég að hljóti að vera misskilningur, því að slíkt kerfi væri illþolanlegt, — og ætti ég þó ekki að halda slíku fram, því að mitt kjördæmi er eitt af þeim, sem mest hafa unnið við vegi fyrir lánsfé.

Ég held, að greiðsla á lánum, sem unnið hefur verið fyrir við vegi, komi hér i þinginu fram hreinlega sem fjárveiting til vegarins, og sé ómögulegt að framkvæma þetta mál öðruvísi en að skipta fyrst heildarupphæðinni á milli kjördæma, eins og þinginu þóknast, og skipta því síðan á milli vega í hverju kjördæmi. Ég geri ráð fyrir því, að þm. kjördæmanna fái að hafa einhver áhrif á fjárveitingar í sínu kjördæmi eins og áður og þeir taki þá tillit til þess í sínum till., hvort þeir telja sig þurfa að veita féð að einhverju leyti eftir því, hvar skuldir hvíla á vegunum. En segjum svo, að t.d. Vesturlandsvegur hafi á einhverjum kafla skuld, 500 þús. Ég held, að ekki komi til greina neinar sérstakar ráðstafanir hér til að greiða þá skuld. Kemur aðeins fram fjárveiting til þess vegar, eins og þinginu þóknast og þegar því þóknast. Og segjum svo, að þessi vegur fengi 500 þús. kr. fjárveitingu, þá hlyti það að verða nú eins og áður á valdi viðkomandi þm. og endanlega ráðh., hvort þessar 500 þús. yrðu allar notaðar til að borga upp skuldina, hvort skuldinni yrði velt áfram eða greiddur hluti af henni og unnið fyrir einhvern hluta.

Ég held, að það hljóti að hafa vakað fyrir vegamálastjórninni og hæstv. ráðh. að sýna þinginu, hversu langt við erum komnir í þessum lántökum, og e.t.v. veita okkur eitthvert aðhald um að reyna að greiða þessi lán með því að setja málið upp eins og gert er í áætluninni. Ég tel, að framsetningin þar sé eins fróðleg og hún getur verið, hvað þetta snertir. Ég held, að við verðum að fallast á það, að skynsamlegt sé af okkur nú, þegar nýtt kerfi kemur til skjalanna, að reyna að minnka þessar skuldir, losna við þær og komast á skömmum tíma á hreint. Þá þyrftum við ekki í allan þorra vega að nota mikið lánsfé og getum þá beint því fé, sem hugsanlegt er að taka að láni, að einstökum, stórum verkefnum, sem ekki er hægt að ýta fram með átökum hvers árs.

Í sambandi við lántökur til vega vaknar enn eitt vandamálið í sambandi við þessa áætlun. Hér eru teknar inn vaxtagreiðslur af þeim lánum, sem ríkið hefur tekið til að leggja vegi, og er sýnilegt, að það á að greiða þá vexti af almannafé. Þá vaknar gamalt vandamál: að héruðin eru látin greiða vexti af því fé, sem þau taka að láni til að ýta vegaframkvæmdum áfram. Við þekkjum af reynslu, að oft eru það tiltölulega fámennir hreppar, sem neyðast til að taka slík lán til að þoka vegaframkvæmdum áfram. Ég veit, að þetta er viðkvæmt og erfitt vandamál, en það opnast til umr, við það, að nú er sett inn í áætlunina, að allmikið fé skuli fara í vaxtagreiðslur fyrir vegalán.

Í sambandi við það, hvort taka eigi lán til vegaframkvæmda inn á áætlunina eða ekki, vil ég segja nokkur orð. Vil ég þá í fyrsta lagi staðfesta það, sem hv. 5. þm. Austf. sagði um þær upplýsingar, sem hann fékk um þetta mál, og ég er þeirrar skoðunar, að sú nefnd, sem samdi frv. til vegalaga, hafi hugsað sér, að orðið „fjáröflun“ í 10. gr. ætti að geta náð til lántöku líka. Hins vegar er ýmislegt vandasamt við þetta í framkvæmd, t.d. það, að ég hygg, að lögum samkvæmt sé þál. ekki nóg til þess að heimila lántöku. Þar af leiðandi er ekki hægt að gera það að fastri reglu, að heimildir til lántöku til vegaframkvæmda séu í áætluninni, því að hún er aðeins þál. Heimildir til lántöku verða einhvers staðar að vera í lagaformi eftir sem áður og þá eðlilegast, að þær séu í fjárlögum, þar sem þær hafa verið. Þetta er eitt framkvæmdaratriði, sem þarf að íhuga vel. Ég held, að það sé rétt, að við minnumst þess, að það hefur verið stuttur fyrirvari og þetta er aðeins áætlun til eins árs, kjarni málsins sé sá, hvernig sem lántökunum verður komið fyrir, að við teljum rétt að halda áfram að nota lántökur til stórátaka í vegaframkvæmdum, eins og gert hefur verið, á síðustu árum, vegna þess að við okkur blasa mörg verkefni, sem við getum ekki leyst á annan hátt en gera stórátak á stuttum tíma. Við verðum að fá lánsfé til þeirra átaka.