08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (2516)

211. mál, vegáætlun 1964

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Samkv. nýlega settum vegal. ber að leggja fyrir Alþingi till. um vegáætlun til 4 ára í senn, þar sem gerð er grein fyrir framkvæmdum í vegamálum og fjáröflun til þeirra. Sú vegáætlun, sem hér liggur fyrir, gildir þó aðeins fyrir yfirstandandi ár og er því ekki eiginleg vegáætlun samkv. vegal., heldur bráðabirgðasamþykkt, og ber öll afgreiðsla hennar eðlilega þess merki. Ég mun því ekki að þessu sinni ræða þessi mál svo sem ella væri ástæða til, heldur aðeins drepa á örfá atriði.

Með setningu hinna nýju vegal. voru lögð ný gjöld á notendur ökutækja með hækkun á benzínskatti, þungaskatti og gúmmígjaldi. Auknar álögur á notendur ökutækja og þá um leið auknar tekjur til vegaframkvæmda voru taldar nema um 100 millj. kr. á þessu ári. í umr. um afgreiðslu hinna nýju vegal., sem gerðu ráð fyrir svo stórauknum álögum, lagði ég áherzlu á mikilvægi þess, að við setningu l. og framkvæmd þeirra yrði þess gætt og það fyllilega tryggt, að allt þetta nýja fé kæmi þegar fram sem viðbót við Þær vegaframkvæmdir, sem unnar voru fyrir það fé, sem fyrri gjaldstofnar áður gáfu.

Það, sem ekki er sízt athugavert við afgreiðslu hinnar nýju vegáætlunar, eftir að álögurnar voru samþykktar, þeirrar áætlunar, sem hér liggur fyrir, er, að hún ber það með sér, ef athuguð eru þau gögn, sem henni fylgja, að álögurnar nýju, 100 millj. kr. skattarnir, komu ekki fram sem auknar framkvæmdir, eftir að farið var að innheimta þær, heldur sem greiðsla á skuldum sveitarfélaga vegna vegaframkvæmda, sem búið var að vinna, áður en hækkun gjaldanna kom til, svo og sem endurgreiðslur til ríkissjóðs sjálfs. Í fyrra var unnið fyrir miklu meira fé en veitt var á fjárl. til vegamála, en í ár mun verða unnið fyrir minna fé en innheimt er til vegamála, þar sem mjög stór hluti fjárins fer til greiðslu skulda, auk þess sem minni framkvæmdir fást fyrir hverja krónu vegna verðhækkana. Það er þess vegna því miður sýnt, að vegaframkvæmdir munu ekki aukast á þessu ári þrátt fyrir stóraukna skatta á ökutæki, og mun það án efa valda mörgum þeim, sem greitt hafa hin nýju gjöld, vonbrigðum. Till. innan fjvn. í þá átt, að umframgreiðslur úr ríkissjóði til vegaframkvæmda í fyrra yrðu teknar inn á fjáraukalög fyrir s.l. ár, en ekki endurgreiddar af vegafé í ár, fengust ekki teknar til greina.

Annað, sem athugavert er við afgreiðslu þessarar vegáætlunar, er, að hún uppfyllir ekki ákvæði 10. gr. vegalaga um, að áætlunin skuli annars vegar gera grein fyrir þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru á áætlunartímabilinu, en hins vegar þeirri fjáröflun, sem gert er ráð fyrir vegna þeirra. Þetta ótvíræða ákvæði l. veldur því, að i vegáætlun á tvímælalaust að tilgreina alla þá fjáröflun, sem gert er ráð fyrir, þ. á m. lántökur og þær framkvæmdir, sem ætlað er að vinna fyrir þær. Í fjvn. fengust engar ákveðnar upplýsingar um, hvað fyrirhugað er að taka af lánum til vegamála úr héruðum eða annars staðar að, nema að því leyti sem upplýst er í grg. vegamátastjóra með till. hans um skiptingu á fé til hraðbrauta, að vegna framkvæmda í ár hafi verið samið við Íslenzka aðalverktaka um lán til að greiða að mestu 15.7 millj. kr. framkvæmdir við Reykjanesbraut. Jafnvel þetta lán, sem þegar hefur verið samið um, fékkst ekki sett inn í vegáætlunina þrátt fyrir skýlaus lagaákvæði, sem kveða á um, að svo skuli gert. í nál. fjvn. um vegáætlunina er greint frá því, að í n. hafi fulltrúi Alþb. ásamt fulttrúum Framsfl. lagt til, að farið yrði að lögum í þessu efni, þannig að allt lánsfé til vegamála og framkvæmdir fyrir það yrði tilgreint í vegáætlun, og verður að vænta Þess, að sá háttur verði hafður á við afgreiðslu vegáætlunar næsta haust.

Þriðja atriðið, sem ég tel ástæðu til að vekja athygli á við afgreiðslu þessarar fyrstu vegáætlunar, eftir að lagður hefur verið á nýr, 100 millj. kr. árlegur skattur á notendur ökutækja í landinu, er, að svo til ekkert af þessu viðbótarfé fer til þess að leysa það vandamál, sem er langsamlega alvarlegast í umferðarmálum á Íslandi í dag og brýnust þörf er á að bæta úr og fullkomin nauðsyn væri að gengi fyrir öllum öðrum framkvæmdum. Þar á ég við Hafnarfjarðarveginn og þó einkum og sérstaklega þann hluta hans, sem liggur um Kópavogskaupstað. Það er í sjálfu sér furðulegt og sýnir bezt, hve mjög skortir á, að hin nýju vegalög og vegáætlun séu fullnægjandi, að það skuli vera unnt að leggja 100 millj, kr. viðbótarskatta á ökutæki í landinu á einu ári, án þess að einni krónu af því sé varið til þess að leysa það stórhættulega öngþveiti, sem umferðin um Kópavog er, að undanskildu því, sem Kópavogskaupstaður fær í sinn hlut af þeim 31 millj. kr., sem ættaðar eru til þjóðvega um Þéttbýti.

Áðan gat ég þess, að annað af þeim tveim atriðum, sem ég lagði við umr. um vegalögin áherzlu á, að gætt yrði við setningu og framkvæmd l., væri, að allur viðbótarskatturinn á ökutæki kæmi fram sem viðbót við þær vegaframkvæmdir, sem til þessa hafa verið unnar á hverju ári. Vegáætlun þessa árs staðfestir, að þetta mikilvæga atriði verður ekki uppfyllt í ár a.m.k. Annað höfuðatriðið, sem ég lagði áherzlu á við umr. um vegal., var, að það yrði að tryggja notendum ökutækja, sem nú tækju á sig 100 millj. kr. nýjar álögur á ári, að framkvæmdum í vegamálum yrði þannig hagað, að þeir fengju sem allra fyrst og bezt til baka sitt fé með bættum vegum og aukinni þjónustu, þar sem umferðin er mest. Til þess að sem flestir fengju þannig sem mest til baka á sem stytztum tíma, þyrfti því ekki sízt að leggja áherzlu á að hraða óhjákvæmilegum úrbótum, þar sem umferðarþunginn er mestur og umferðarmálin eru nú í öngþveiti og valda vegfarendum jafnvel stöðugri lífshættu. Þetta höfuðatriði er einnig sniðgengið með því, eins og ég áður lýsti, að í þessari fyrstu vegáætlun er ekki gert ráð fyrir að sinna þessu verkefni í neinu.

Við 1. umr. um frv. til vegalaga, sem var til umr. skömmu fyrir s.l. áramót, vakti ég athygli á þessu vandamáli og hinni knýjandi þörf, sem er á því, að annars vegar verði Hafnarfjarðarvegurinn endurbættur samkv. þeim kröfum, sem umferðin gerir til hans, og hins vegar verði hafizt handa um lagningu nýs vegar ofan við hina þéttu byggð í Kópavogi. Sé ég ekki ástæðu til að rifja það frekar upp að þessu sinni, en það er naumast unnt að komast hjá því að vekja á því athygli, að þrátt fyrir 100 millj. kr. nýja skatta á einu ári verður lausn þessa vandamáls alveg út undan. Til þess að leysa það er ekki einu sinni áætlað að geyma fé.

Við umr. um vegal, um s.l. áramót taldi ég miður farið, að þeim um það bil 20 millj. kr., sem ætlaðar eru til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum, skyldi samkv. l. vera dreift í framkvæmdir á öllum þessum stöðum í einu, og taldi þá tilhögun ganga þvert gegn þeirri viðleitni, sem hin síðari ár hefur verið höfð í frammi í sambandi við nýtingu á vegafé, að leggja það fremur í færri framkvæmdir í etnu, en þá þeim mun verulegri og hagkvæmari. Ég er enn á þeirri skoðun, að þessari upphæð og þó fremur meira fé ætti að verja til framkvæmda einmitt á þessum afmarkaða hluta þjóðveganna, þ.e.a.s. um kaupstaði og kauptún, en féð ætti, a.m.k. fyrstu árin, að koma til skipta eftir því, sem þörfin segir til um. þannig að það yrði notað til stærri átaka í einu og hægt væri að verja því til myndarlegri og árangursríkari framkvæmda, þar sem þörfin er mest hverju sinni, taka þannig verkefnin í skynsamlegri röð eftir því, hve þau eru aðkallandi, og láta framkvæmd á hverjum stað ganga greitt. Ég held, að það væri a.m.k. full nauðsyn, að þess i háttur væri á hafður um tiltekinn árafjölda, t.d. 5 ár, til þess beinlínis að vegagerðin gæti skilað þessum þjóðvegaspottum, sem um bæina liggja og hún hefur a.m.k. suma séð um, hún gæti skilað beim í sem tiltölulega líkustu ástandi alls staðar, þannig að það geti ekki gerzt, sem gerzt hefur með Kópavogskaupstað og e.t.v. fleiri staði, að vegagerðin arfleiði kaupstaðinn að öngþveitisástandi, sem hann á að leysa fyrir tiltölulega lítinn hluta þess heildarfjár, sem ætlað er til að endurbæta þjóðvegi, sem liggja gegnum kaupstaði og kauptún. En til þess að leysa slík vandamál þarf jafnvel milljónatugi, svo að framlag bæjarins og jafnvel viðbótarframtag, sem fengist af þeirri upphæð, sem vegagerðin heldur eftir af þessu fé, fer um ófyrirsjáanlega langan tíma til þess að endurbæta þennan hluta þjóðvegarins vegna umferðar, sem a.m.k. að hálfu leyti er umferð utanbæjarmanna, sem fara um þveran kaupstaðinn á leið sinni til annarra byggðarlaga. Ef ekki kemur annað til en ákvæði núgildandi vegalaga, er sýnilegt, að löngu áður en Kópavogskaupstaður getur lokið framkvæmdum við þjóðveginn, hafa önnur sveitarfélög getað notað sinn hluta af þessu fé til gatnagerðar hvar sem er í sínum íbúðarhverfum, og er þó enginn vafi á því, að fáum kaupstöðum væri meiri nauðsyn á því að geta einmitt notað þetta fé til þess að bæta gatnakerfið annars staðar í sveitarfélaginu.

Eins og ég gat um áðan, er ljóst, að afgreiðsla þessarar vegáætlunar ber þess eðlileg merki, að hún er bráðabirgðaáætlun, sem ekki verða gerðar sömu kröfur til og hinnar væntanlegu áætlunar, sem tekur til lengra tímabils og getur jafnframt hlotið ýtarlegri undirbúning. Þess vegna er erfitt um vik um þær brtt., sem þó væri knýjandi nauðsyn að gera. En ég vil þó á þessu stigi málsins benda á þau atriði, sem ég hef hér rakið, í þeirri von, að þeim verði hægt að gefa meiri gaum við undirbúning næstu áætlunar.

Þeim till. um skiptingu vegafjár, sem fjvn. fékk til meðferðar, reyndist erfitt að hnika. hversu auðsæjar sem þarfirnar voru til úrbóta á ýmsum sviðum, m.a. vegna þess, að þegar n. fékk málið til afgreiðslu, höfðu verið gerðar till. um ráðstöfun hverrar einustu krónu, þannig að væri bætt við ákveðnar framkvæmdir eða lagðar til nýjar, varð ekki hjá því komizt að skera niður till. um fjárveitingu í eitthvert ákveðið, tiltekið verk. Þegar engar undirtektir fengust um hækkað framlag ríkisins eða að umframgreiðslur frá fyrra ári yrðu teknar inn á fjáraukalög til þess að bæta við fjárveitingar til brýnna verkaefna, var því gripið til hálfgerðra loddarabragða, að lækka um 5 millj, kr. fé til viðhaldskostnaðar á þjóðvegum, sem þó var sízt of mikið fyrir, og dreifa þeirri upphæð þangað, sem þörfin var talin mest við nýjar vegaframkvæmdir. Með þessu móti átti að vera hægt að bæta úr, þar sem mest var þörf leiðréttingar, án þess að skera niður tillögur um framkvæmdir á ákveðnum, tilteknum stöðum. Á mig verkuðu þessar aðferðir eins og að horfa upp á það, að hundur væri fóðraður með því að stinga upp i hann bita af rófunni af honum sjálfum, og ég gat þess vegna fyrir mitt leyti sætt mig þolanlega við það. að Reykjaneskjördæmi fengi ekkert af slíku fóðri, og varla samglaðzt þeim, sem bitana fengu.

Ég er þeirrar skoðunar, að tekjuáætlun vegaáætlunarinnar sé of lág, m.a. gert of lítið ráð fyrir tekjum vegna bílainnflutnings á árinu, svo að þess vegna hefði verið hægt að hækka framlag til nýrra vegaframkvæmda án þess að skera niður af viðhaldsfénu.

Út af þeim erfiðleikum, sem það hefur valdið fjvn. að hnika til tillögum um framkvæmdir á frumdrögum vegáætlunarinnar held ég að úr þeim ætti að draga með þeim hætti, að í næsta skipti gangi vegamálastjóri þannig frá tillögum sínum, að hann skili eftir ákveðna upphæð. t.d. 5-10 millj. kr., óráðstafaða, sem mætti nota til leiðréttinga og úrbóta án þess að hægt sé að benda á ákveðinn niðurskurð á tilteknum framkvæmdum á móti. Ég held, að það væri öllu skárri aðferð en sú, sem nú er gripið til.

Ég endurtek það að lokum, að vegna þess að vegáætlun sú, sem hér liggur fyrir, er bráðabirgðaáætlun fyrir aðeins eitt ár og undirbúningur hennar ófullnægjandi af eðlilegum orsökum, er erfiðara en ella að gera till. um nauðsynlegar úrbætur. Jafnvel verður að samþykkja hana, án þess að flokkun vega sé rétt, en þess er að vænta, að við afgreiðslu næstu vegáætlunar, sem ætlað er að gilda í 4 ár, verði bætt úr ýmsu því, sem mest er ábótavant í þeirri, sem hér liggur fyrir. En ljóst er, að þessi fyrsta vegáætlun mun valda þeim, sem 100 milli. kr. nýju skattana greiða á ári, verulegum vonbrigðum, því að þeir hafa án efa átt von á því, að sköttunum yrði fyrst og fremst varið til nýrra framkvæmda, sem kæmu sem viðbótarframkvæmdir við það, sem unnið hefur verið í vegamálum á einstökum undanförnum árum.