08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (2517)

211. mál, vegáætlun 1964

Halldór E. Sigðurðsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 580, hefur fjvn. skilað sameiginlegu áliti um vegáætlunina. Af hálfu okkar framsóknarmanna í fjvn. verður þess vegna engin framsaga haldin hér, og erindi mitt verður aðeins að benda á 2–3 atriði, sem ég vildi leggja áherzlu á. Í upphafi máls míns vil ég taka undir það með formanni og frsm. n., að það létti mikið störf n., sem voru nægjanlega erfið, að samstarfið var gott, og þakka ég honum og öðrum fyrir það. Það orkar ekki tvímælis, að þetta verk, sem hér hefur verið unnið, fyrst og fremst af embættismanninum, vegamálastjóra, og hans starfsliði og síðar í fjvn., hefur á margan hátt verið erfitt og ekki sízt þar sem var verið að vinna það verk í fyrsta skipti. Og ég vil taka undir það. sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Geirs Gunnarssonar, að nauðsyn ber til að hafa það hugfast, þegar gerðar eru tillögur til skiptingar í fjvn. næst, að skipta ekki upp allri fjárhæðinni, eins og gert hefur verið að undanförnu og gert var nú. Það er nógu erfitt að vinna slíkt verk sem hér er á ferðinni, þó að eitthvert svigrúm sé fyrir n. til þess að taka tillit til þeirra atriða, sem upp kunna að koma í meðferð málsins hér á hv. Alþ., og á þann hátt leiðrétta stærstu ágallana án þess að þurfa að klípa það af öðru.

En þau atriði, sem ég vildi mega leggja áherzlu á fyrir hönd okkar framsóknarmanna, eru í fyrsta lagi, að við athugun á vegáætluninni kom í ljós, að niður höfðu fallið vegir, sem að okkar dómi eiga að vera teknir upp í vegáætlunina. N. afgreiddi það mál, eins og fram kemur í nál., með því að leggja áherzlu á, að við endurskoðunina fyrir næsta Alþ. yrði það grandskoðað, að ekki yrðu eftir þjóðvegir, sem í þjóðvegatölu eiga að vera. Og ég vil undirstrika það, að nauðsyn ber til, að þetta verði gert, áður en vegáætlun sú, sem gilda á um næstu ár, verður lögð fyrir Alþ., því að það er ekki framkvæmanlegt innan veggja Alþ. að grandskoða þetta, það verður að gerast af embættismönnum og starfsmönnum vegamálastjóra, sem hafa kunnugleika til. En nauðsyn ber til, að sveitarstjórnir og aðrir þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, láti til sín heyra um þessi atriði í sumar, svo að vegáætlun sú, sem næst verður lögð fyrir. verði að þessu leyti gallalaus.

Í öðru lagi, eins og fram er tekið hér í nál.. lýstum við fulltrúar Framsfl. og Alþb. yfir í n., að við álítum, að samkvæmt 10. og 11. gr. vegalaganna ætti að taka inn í vegáætlunina framkvæmdir þær í vegamálum, sem gera ætti fyrir lánsfé, og lögðum á það áherzlu, að það yrði gert, þegar vegáætlun fyrir næsta tímabil yrði samin. Ég vil undirstrika þetta og leggja á það áherzlu, að þetta er skilningur okkar á ákvæðum þessara lagagreina í vegalögunum, og nauðsyn ber til þess, að vegáætlunin greini frá þeim heildarverkum, sem á að vinna á því tímabili, sem hún gildir fyrir, og lánsfé verði einnig tekið með. Því treysti ég, að þetta verði gert, þegar undirbúningur að vegáætlun fyrir næsta tímabil verður gerður, og þegar Alþ. afgreiðir næstu vegáætlun, þá verði einnig þessi þáttur með. Vegna þess takmarkaða tíma, sem við höfðum að þessu sinni, töldum við ekki ástæðu til að gera ágreining um þetta mál, heldur undirstrika það, eins og er gert í nál.