08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (2520)

211. mál, vegáætlun 1964

Ragnar Arnaldas:

Herra forseti. Hinn 10. apríl 1963, nokkru fyrir seinustu Alþingiskosningar gaf hæstv. ríkisstj. út svokallaða þjóðhags- og framkvæmdaáætlun fyrir næstu 3 árin. Í þessari framkvæmdaáætlun var ekki mikið rætt um vegamál, en þó var getið um þrjár vegaframkvæmdir, og var ein þeirra bygging Strákavegar milli Siglufjarðar og Fljóta. Siglfirðingum og Austur-Skagfirðingum hefur lengi verið lofað, að gerður yrði öruggur vetrarvegur um svonefnda Stráka, en lítið hefur orðið um efndir. Þó hefur verið unnið nokkuð við veginn nú seinustu árin, en kostnaður við þær framkvæmdir, sem búnar eru, nemur aðeins litlum hluta af þeim kostnaði, sem eftir er að leggja í. Þetta hátíðlega loforð ríkisstj. í fyrravor vakti nokkrar vonir Siglfirðinga, sérstaklega þar sem tilkynnt var í framkvæmdaáætluninni, á hvaða ári verkinu skyldi lokið og meira að segja í hvaða mánuði. Í þessu fræga plaggi hæstv. ríkisstj. stóð þessi setning:

„Sá vegur (þ.e. Strákavegur) mun síðan fullbyggður sumarið 1964 og göngunum lokið í ágústmánuði 1965.“

Að vísu voru þeir margir, sem litu tortryggnum augum á þessi hátíðlegu loforð, einkum vegna þess, að engar ráðstafanir höfðu verið gerðar til að tryggja fé til framkvæmdanna. Einnig þótti mönnum grunsamlegt, að eftir svo margra ára bil skyldi hæstv. samgmrh. loksins rjúka til og lofa veginum 11/2 mánuði fyrir kosningar. En öllum efasemdum og tortryggni var mætt af fyllstu einurð af hálfu stjórnarflokkanna. Þannig var forsíðufyrirsögnin um Strákaveg í blaði sjálfstæðismanna á Siglufirði um þessar mundir: „Gerð Strákavegar með tilheyrandi jarðgöngum verði lokið í ágúst 1965. Nær eina framkvæmd áætlunarinnar, sem sérstaklega er fastmælum bundið, hvenær lokið verði: Og til að undirstrika þetta hátíðlega loforð enn frekar sendi ríkisstj. hæstv. samgmrh. norður á Siglufjörð, og kom hann þar fram á geysifjölmennum fundi. Á þessum fundi var ég einnig staddur, og hélt ég því fram í ræðu, að heitstrengingar og loforð ráðh. væru byggð á sandi og víst væri, að hæstv. samgmrh. tryði ekki einu sinni sjálfur á loforð sitt um, að Strákavegur yrði opnaður til umferðar í ágústmánuði 1965. Eins og nærri má geta, þóttist hæstv. ráðh. vera afskaplega hneykslaður yfir þessum efasemdum og afgreiddi þær sem slúður af versta tagi.

Nú liggur vegáætlunin 1964 fyrir þinginu. Eins og hv. þm. er kunnugt af skýrslu vegamálastjóra, sem birt hefur verið í blöðum, er núna eftir kosningar búið að breyta öllum áætlunum um Strákaveg. Nauðsynlegur tæknilegur undirbúningur er alls ekki fyrir hendi, segir vegamálastjóri. Það er ekki ætlunin að hefja vinnu við hin margumtöluðu og marglofuðu jarðgöng sumarið 1964, eins og sagt var fyrir kosningar, og það er ekki einu sinni búið að ákveða, hvar göngin verða grafin og hvernig þau eiga að liggja.

Við athugun á skýrslu vegamálastjóra kemur í ljós, að aðeins einu sinni hefur verið unnið af einhverjum krafti við þessa mikilvægu vegagerð. Þá var unnið af nokkrum krafti í fáeina mánuði og grafnir um 30 m af þessum 900 m jarðgöngum. Og hvenær skyldi nú þetta hafa verið? Jú, Þetta var einmitt sumarið 1959, mánuðina fyrir haustkosningarnar 1959. Þá var slíkur gangur í málunum, að enginn Siglfirðingur gat leyft sér að efast um, að vegurinn yrði fullgerður á stuttum tíma á næsta kjörtímabili. Svo lauk kosningunum haustið 1959, og þá lögðust framkvæmdirnar niður.

Í 4 ár gerðist ekkert í málinu, nema hvað sendur er sérfræðingur að skoða vegagerðina og Strákafjallið og komst hann að sömu niðurstöðu og áður. Og árin líða. Það er að vísu unnið lítils háttar í veginum að göngunum sjálfum, en jarðgöngin bíða ósnert í tæp 4 ár. Og þá allt í einu eru kosningar á ný, og nýtt loforð er gefið. Vegurinn skal nú vera tilbúinn til umferðar í ágústmánuði 1965. Þá mega menn aka í gegnum göngin. Takk fyrir. Síðan er kosið, og þegar það er afstaðið, kemur í ljós, að nægilegur tæknilegur undirbúningur hefur ekki farið fram og öll hin fögru kosningaloforð eru byggð á sandi.

Ég vil taka það fram, að ég tel enga ástæðu til að efast um þá fullyrðingu vegamálastjóra, að nægilegur tæknilegur undirbúningur sé ekki enn fyrir hendi. Einmitt af þeirri ástæðu mun ég ekki flytja neina brtt. við þá grein vegáætlunar, sem hér liggur fyrir, — þá grein, sem fjallar um Strákaveg, enda verða menn víst að sætta sig við orðinn hlut, Þótt illt sé, úr því að nægilegur tæknilegur undirbúningur er ekki fyrir hendi. Hins vegar er engin furða, þótt menn áfellist hæstv. samgmrh. fyrir þær stórkostlegu blekkingar og sýndarmennsku, sem boðið var upp á fyrir seinustu Alþingiskosningar í því skyni að veiða nokkur saklaus atkv. norður á Siglufirði í kosninganet stjórnarflokkanna. Hæstv. ráðh. hefur þegar reynt að þvo af sér alla sök í þessu máli og mun vafalaust reyna það hér á eftir á sama veg og áður, Þ.e.a.s. með því að skella allri skuldinni á vegamálastjóra og tæknimennina. En er þetta rétt? Er sökin þeirra? Í grg. vegamálastjóra er frá því sagt, hver voru tildrög þess, að hin fyrri áætlun um vegagerðina var lögð á hilluna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á s.l. vori var gerð áætlun um framkvæmd vegagerðar á Siglufjarðarvegi ytri, og í henni var gert ráð fyrir, að byrjað væri á grefti jarðganganna sumarið 1964. Þar sem mjög kom til álita að bjóða jarðgöngin út, var fenginn annar jarðfræðingur, starfsmaður atvinnudeildar Háskóla Íslands, til að gera nauðsynlegar athuganir og mælingar vegna væntanlegrar útboðslýsingar.“

Síðan kemur fram í skýrslunni, að niðurstaðan varð sú, að tæknilegur undirbúningur var alls ónógur.

Eins og sjá má af þess um orðum vegamálastjóra, var það höfuðástæðan fyrir stefnubreytingunni núna, að tekin var loksins ákvörðun um að bjóða verkið út. En nú er það spurningin, sem hæstv. ráðh. mætti gjarnan svara: Hvers vegna var ekki fyrr ákveðið að bjóða verkið út? Hvers vegna var það ekki gert fyrir 4 árum? Ef það hefði verið gert fyrir 4 árum og ef vegamálastjóri hefði fyrir 4 árum fengið um það fyrirskipun frá hæstv. samgmrh. að hefja framkvæmd verksins, þá er ekki vafi á því, að jarðgöngin til Siglufjarðar væru þegar orðin að veruleika. En málið er svo skammt á veg komið í dag sem raun ber vitni vegna þess eins, að hæstv. samgmrh. beið með það í 4 ár að ákveða, hvort bjóða skyldi verkið út.

Í dag er staðan í þessu máli sú, að enginn getur um það sagt, hvað verkið kostar, enginn veit, hvar á að afla fjárins og hvort peningar fást frekar en fyrri daginn, og þar að auki vita menn alls ekki, hvar á að grafa. Fyrir rúmum 4 árum eða árið 1959 var málið vissulega nokkuð skammt á vegi statt. En núna, 4 árum seinna, er Strákavegsmálið að því leyti enn skemmra á veg komið en haustið 1959, að þá vissu menn a.m.k., hvar grafa skyldi, en nú vita menn það ekki lengur. Það er því ljóst, að hæstv. samgmrh. ber alla sök í þessu máli. Hann ber ekki aðeins ábyrgð á því, að legið hefur verið á málinu í 4 ár, heldur einnig á því, að nú er undirbúningur málsins enn skemmra á veg kominn en virtist vera fyrir 4 árum.

Ég vil að lokum skora á hæstv. samgmrh. að sjá sóma sinn í því að láta nú hraða tæknilegum undirbúningi að jarðgöngunum gegnum Stráka sem mest má vera. Nógur dráttur er þegar orðinn á framkvæmdum. Það er margrætt hér í þinginu, hve geysistórt hagsmunamál þessi nýi vegur er fyrir Siglfirðinga og Austur-Skagfirðinga, og engin ástæða er til að tefja þingfund þess vegna. Byggðarlagið er einangrað, eins og allir vita, frá vegakerfi landsmanna a.m.k. 8—9 mánuði á hverju ári, og yfir sumarið teppist Siglufjarðarskarð venjulega hvað eftir annað. Ég vil því aðeins segja að lokum: Siglfirðingar eru búnir að bíða nógu lengi.