08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (2523)

211. mál, vegáætlun 1964

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1964 er nú komin á lokastig hér í þinginu. Síðari umr. um þáltill. fer nú fram, og af hálfu hv. fjvn. hefur verið gerð grein fyrir málinu, eins og það horfir nú, og fyrir till. hennar, sem fyrir liggja á þskj. 586. Nokkrir hv. þm. utan fjvn. hafa nú tekið til máls við þessa umr., bæði til þess að ræða málið almennt og einnig til þess að gera grein fyrir vegamálum í kjördæmum sínum og þá sérstaklega óunnum framkvæmdum þar, sem fé vantar til að vinna að. Það hefur verið vakin athygli á því, að þessi bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1964 sé frumsmíð, og það er hún vissulega. Ég hygg, að Alþ. þurfi ekki að kvarta yfir því, að ekki hafi verið unnið að þessari áætlun af hálfu vegamálastjóra og vegamálaskrifstofunnar, eftir því sem tími var til. Þar var mikið verkefni fyrir höndum, eftir að vegal. höfðu verið samþ., í fyrsta lagi að gera sér grein fyrir

því, hvaða vegir yrðu þjóðvegir samkvæmt þeim reglum, sem settar voru í l., og í öðru lagi að afla ýmiss konar gagna til stuðnings þeim till., sem lagðar voru fyrir þingið, og upplýsinga fyrir hv. fjvn. En það er svo um alla frumsmíð, að á henni finnast venjulega gallar í byrjun, og hér hefur verið bent á það, að í þá upptalningu á þjóðvegum, sem gerð er í grg. þáltill, á þskj. 443, vanti vegi, sem að réttu lagi ættu að teljast þjóðvegir samkv. reglum vegal. Ég vil nota tækifærið til að benda á, að ég hygg, að það kunni einnig að vanta brýr í þá upptalningu, sem gerð hefur verið í grg, þeim, sem þm. hafa haft til athugunar, og ég vil nefna það til dæmis, að við lauslega athugun í því kjördæmi eða þeim landshluta, sem ég er fulltrúi fyrir, þá man ég nokkur vatnsföll á þjóðvegum, sem eru ekki talin í þessum skjölum, en eru þar eigi að síður til staðar og þarf að brúa fyrr eða síðar. Þetta er eðlilegt um slíka frumsmíð sem hér erum að ræða, og verður að sjálfsögðu úr því bætt síðar.

Það er nú svo, að menn eru orðnir vanir háum tölum hér á landi, háum krónutölum, og þegar maður fær upplýsingar um það, að einn vegur, sem að vísu er kallaður hraðbraut og er með sérstakri gerð, sem er 38 km langur, kosti hálft þriðja hundráð millj. kr. eða líklegaum 240 millj, kr. eftir áætlun og að verið sé að vinna að því að fullgera þennan veg fyrir lánsfé, sem ekki er nema gott um að segja, fer manni að finnast, að upphæðin, sem verja á til nýbyggingar á þjóðvegum samkv. þessari þáltill., 571/2 millj. kr. á öllu landinu, nái ekki langt. En hún verður ekki meiri en þetta, þegar búið er að taka það, sem til annarra hluta þarf af tekjum vegasjóðsins. Og við þetta bætist svo það, að vegagerðarkostnaðurinn hefur hækkað um 10-12% frá því í fyrra og víða hvíla á vegum lán, sem tekin hafa verið innanhéraðs á undanförnum árum, og þar sem svo stendur á, verður annað hvort, að ekki verði unnið í þessum vegum á þessu ári eða lánin að meira eða minna leyti standi áfram og lengur en búizt var við.

Þannig eru nú staðreyndirnar, að verkefnin eru mikil, en fjármunirnir litlir. Og þó vitum við í raun og veru ekki, hver verkefnin eru, því að það er nú svo, að þó að gerð hafi verið mæling á þjóðvegum, mæling, sem sýnir, hvað þjóðvegir séu langir samtals, og þó að það liggi fyrir, hve mikið af því séu hraðbrautir, hve mikið séu þjóðbrautir, sem eru fjölfarnir vegir, og hve mikið landsbrautir, og þó að það liggi fyrir, hve búið sé að byggja mikið upp af þessu, að því er talið er, og hve mikið sé rutt og hverjar leiðir séu veglausar, þá hefur samt ekki, svo að mér sé kunnugt, verið gerð áætlun um það, hvað allir þessir þjóðvegir, sem nú eru í l., með þeirri gerð, sem gert er ráð fyrir að á þeim verði samkv. vegal., muni kosta, t.d. miðað við núverandi verðlag. Og á meðan slík framkvæmdaáætlun eða kostnaðaráætlun um vegagerð á Íslandi, gerð þeirra þjóðvega, sem búið er að lögfesta, liggur ekki fyrir, þá vitum við í raun og veru ekki, hvert verkefnið er. Það, sem við þm. segjum um þetta, verður meira og minna handahófskennt. En hins vegar vitum við víða af reynslunni og getum sýnt fram á það, svo að ekki verður um villzt, að verkefnin eru mikil víða um landið og fjármunirnir litlir til þess að vinna fyrir.

Tveir hv. þm. Vestf, og einn hv. þm. Austf. hafa skýrt frá ástandi vega í sínum kjördæmum og lýst því á þann hátt, sem hv. þm. hafa heyrt og vafalaust veitt athygli, enda ekki með öllu ókunnugt áður. Því miður er það víðar á landinu, sem mikil verkefni eru fyrir hendi. Ég skal nefna það sem dæmi, að í því kjördæmi, sem ég er einn af fulltrúum fyrir, er einn kafli á þjóðbrautinni þar, — ég man þetta dæmi glögglega, — í austanverðu kjördæminu, sem er rúml. 200 km langur, en af þessum 200 km er nálega helmingur aðeins ruddir vegir. Þetta er nú dæmi um ástand þjóðbrautanna og raunar landsbrauta líka í þeim landshluta. Og auk þess er það nú svo, að þó að talið sé, að ýmsir vegir teljist uppbyggðir í skýrslu, þá er það svo um suma af þessum vegum, að þeir hafa verið byggðir upp fyrir löngu, byggðir upp með gömlum aðferðum, þegar tækin voru reka, kvísl og haki, hestur og kerra, og þá var reynt að hafa vegina sem efnisminnsta, þeir voru hafðir svo mjóir sem mögulegt var og svo lágir sem mögulegt var og ofaníburðurinn það lítill sem frekast varð komizt af með, vegna þess að tæknin var ekki meiri en svo á þeim tímum. Ýmsir af þessum vegum, þó að þeir teljist uppbyggðir, eru þannig, að það þarf að byggja þá upp, þeir eru of mjóir, þeir eru of lágir og þeir eru of efnislitlir. Og ég get sagt það til dæmis um okkar kjördæmi, Norðurl. e., að það er nú þannig ástatt þar, að þar er t.d. í Eyjafjarðarsýslu og S-Þingeyjarsýslu töluvert af þessum gömlu vegum, sem ég nú var að nefna. í báðum þeim sýslum er stunduð mjólkurframleiðsla um mikinn hluta svæðisins, og þar eru ferðir með þungavöru, þungar bifreiðar og þungavörur, allan ársins hring. Eins og kunnugt er, þá er mjólkurframleiðslan nú að breiðast mjög út í landinu, og liggja til þess ýmsar ástæður, sem ekki verða raktar hér. Í héruðum eins og t.d. í austanverðu þessu kjördæmi, sem ég var að nefna, var til skamms tíma eingöngu stunduð sauðfjárrækt. Þá var ekki eins mikil nauðsyn og kannske annars staðar á vegum, sem væru færir allan veturinn. Nú er þetta að breytast, þarna er að koma mjólkurframleiðsla líka, og verður þörf á því, að vegir séu færir allt árið, og einmitt í þessum hluta, þessu byggðarlagi er nú þetta ástand þjóðbrautanna svona, eins og ég sagði, að af 200 km rúmlega eru milli 90 og 100 km, ef ég man rétt, aðeins ruddir vegir. Ég segi þetta almennt í framhaldi af þeim umr., sem hér hafa farið fram um ástand veganna víðs vegar um land, og ég veit það, að þetta er misjafnt eftir landshlutum, en í flestum landshlutum a.m.k. er eitthvað af vegum, sem eru í mjög alvarlegu ástandi miðað við samgönguþörfina, eins og hún er nú á tímum.

Hér hefur verið vikið að því og var tekið fram sérstaklega af hv. 3. þm. Vesturl., að samkv. vegal. ætti í raun og veru að taka inn í vegáætlunina þær framkvæmdir, sem gert er ráð fyrir að verði unnar fyrir lánsfé á þessu ári, og ég er því alveg sammála. Ég hygg, að það sé ótvírætt samkv. vegal., að þessar framkvæmdir eigi að taka inn í vegáætlunina. Nú hefur þetta ekki verið gert að þessu sinni, og vegna þess að það er ekki gert að taka lánsfjárframkvæmdirnar inn í vegáætlunina, þá snúast umr. minna um þá hlið málsins eða hafa snúizt minna um þá hlið málsins en þær mundu hafa gert, ef lánsfjárframkvæmdirnar hefðu líka verið inni í þessu þskj., sem hér er fram komið.

Ég hefði haldið, að í vegáætlun, sem næst verður gerð til 4 ára, verði lánsfjárframkvæmdirnar að koma inn líka, enda heyrist mér, að því sé nú ekki beinlínis andmælt af neinum. Ég heyrði ekki a.m.k. , að hv. frsm. fjvn. hefði neitt á móti því, að það yrði gert, og ég hefði haldið, að þegar þannig verður gengið frá áætluninni, þá þurfi að vera fyrir hendi möguleikar til þess að koma inn í áætlunina heimildum fyrir ríkisstj. til að taka lán í því skyni, þannig að Alþ. geti fjallað í einu lagi um vegamálin í heild og jafnframt í þeirri sömu málsmeðferð aukið þá fjármuni, sem til ráðstöfunar verða. En að sjálfsögðu fær sú aðferð í slíku máli sem þessu, sem nú er uppi, ekki staðizt. Ef ríkisstj. byrjar á því að útvega lánsfé til þess að vinna að einhverri ákveðinni vegaframkvæmd og síðar er samþ. á þingi eitthvað fleira af slíkum lánsheimildum til vegaframkvæmda á einhverjum stöðum, þá fær það ekki staðizt, ef þetta á að gera sums staðar á landinu, að það eigi ekki einnig að gerast annars staðar á landinu, þar sem líkt stendur á. Auðvitað er tekið lán til Reykjanesbrautar og annarra slíkra vega, sem heimilað er að taka lán til og sumpart búið, vegna þess að þarna erum óvenjulegar framkvæmdir að ræða, óvenjulega dýrar framkvæmdir miðað við vegalengdir. Reykjanesbrautin er ekki nema 38 km, hún kostar 240 millj. kr., það er auðvitað alveg óvenjulegur kostnaður á km og langt umfram það, sem er í venjulegum þjóðvegum. Ennisvegur mun hafa kostað um 15 millj., og einhvers staðar stóð, að hann væri 6 km. Það er líka alveg óvenjulega mikill kostnaður á km. Um Strákaveginn, sem ég var að ræða áðan, er hið sama að segja, það er líka óvenjulega dýr framkvæmd miðað við vegalengd. Og þar sem svo stendur á, að þar þarf að framkvæma slíka óvenjulega mannvirkjagerð, alveg óvenjulega dýra, þá er sýnilegt, að það er ekki hægt að vinna að slíkum framkvæmdum með sæmilegum hraða og með tilliti til annarra framkvæmda nærlendis öðruvísi en taka til þeirra sérstök lán. Það er ekki hægt að taka það fé, sem til þess þarf að ljúka slíkum verkum á hæfilegum tíma, af venjulegum fjárveitingum til þess landshluta, sem þar á hlut að máli. Og ég vil t.d. segja það í þessu sambandi í framhaldi af því, sem ég nefndi áðan, að svokallaður Múlavegur milli Ólafsfjarðar og Svarfaðardals er ein af slíkum framkvæmdum. Það, sem eftir er að leggja af Múlavegi, er svo dýr framkvæmd, að ég held, að það sé ekki fjarri því, að hver km kosti í kringum 2 millj. kr. Þessi vegur er í flokki með þeim vegum, sem lán hafa verið tekin til.

Við leyfðum okkur í sambandi við umr. hér um fjárl. í vetur, hv. 1. þm. Norðurl. e., hv. 5. þm. kjördæmisins og ég, að flytja till. um þrjár lántökuheimildir, sem varða okkar kjördæmi.

Ein þeirra var einmitt um lántöku til Múlavegarins umfram þá lágu upphæð, sem samþ. var í fjári., önnur var um lántöku til Tjörnesvegar og hin þriðja var um lántöku til Hálsavegar milli Raufarhafnar og Þistilfjarðar. Á Tjörnesi, sem er ákaflega fjölfarin leið nú orðið, stendur þannig á t.d., að þar eru nokkur djúp gil, sem eru mikil torfæra á vetrum, og varanleg umbót á þessari leið er ekki önnur en sú að brúa gilin, sem kalla má, þ.e.a.s. byggja svo háan veg með uppfyllingu, að þessi hætta sé ekki lengur fyrir hendi. Það er búið að brúa eitt af þessum giljum, og það á að brúa annað næsta sumar. Það er ætlast til þess, að þessar brýr séu byggðar af almennu vegafé, að öðru leyti en því, að ræsin sjálf niðri í gilbotninum munu vera kostuð af brúafé, en kostnaðurinn er miklu meiri en það . A svona stað er auðvitað eðlilegt að lán sé tekið til þess að koma þessum framkvæmdum áfram og ljúka þeim þá á styttri tíma en nú er hægt að gera. Þriðji vegurinn, sem ég nefndi, er Hálsavegur. Ég ræddi nokkuð um hann í fjárlagaumr. í vetur, en það er vegur, sem liggur með sjó fram eða nærri sjó, milli Raufarhafnar á Austursléttu og Þistilfjarðar. Þessi vegur er talinn akfær, en er það í raun og veru ekki. Mikill hluti af honum er aðeins rudd leið, og það gerði nú ekki svo mikið til, ef þarna væri lítil umferð. En á þessum vegi er einmitt feikimikil umferð, a.m.k. nokkurn tíma ársins, á sumrin, á síldarvertíðinni, feikimikil umferð milli Raufarhafnar og næstu kauptúna og milli síldarstöðvanna fyrir norðan og austan. Þegar búið er að opna Hellisheiðarveginn milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs, eykst þessi umferð enn. Það nær í sjálfu sér ekki nokkurri átt að ætlast til, að það taki kannske áratug — eða þótt ekki væri nema hálfur áratugur — að byggja slíkan veg. Hann þyrfti að byggjast á tiltölulega skömmum tíma, og það verður ekki gert öðruvísi en með lánsfé. Og það er alveg sama ástæða til þess að veita ríkisstj. heimild til þess að taka lán til slíkrar framkvæmdar, þó að hún sé norður á Sléttu eða norður við Þistilfjörð, eins og hér suður við Faxaflóa. Ég tel á sama hátt rétt að gera það .

Nú skal ég ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég vildi mega vænta þess, að þegar hæstv. ríkisstj. og vegamálastjórnin undirbýr næstu vegáætlun, sem væntanlega verður lögð fyrir þing í haust, þá hafi hún athugað þau sjónarmið, sem ég nú hef gert að umræðuefni.