08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (2526)

211. mál, vegáætlun 1964

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að lengja verulega þær umr., sem fram hafa farið hér um vegáætlunina. Þó hafa þau tíðindi gerzt síðustu vikur í sambandi við framkvæmd viss þáttar vegamála., að ég tel mér skylt að segja hér nokkur orð. Ég á þá við þá yfirlýsingu stjórnarvalda, að framkvæmd við jarðboranir í Strákafjalli verði frestað um óákveðinn tíma. Tilkynning um þetta barst til Siglufjarðar með sumarkomunni og var öllum þar og mörgum fleiri mikið harmsefni. Það er ekki tími til þess hér í kvöld að rekja sögu Siglufjarðarvegar ytri eða svokallaðs Strákavegar s.l. 10 ár hér á Alþingi og í framkvæmd. Þó er það freistandi ýmissa hluta vegna. Á þessa punkta vil ég þó leyfa mér að minna í sambandi við þetta mál:

Fyrir 9 árum var samþykkt að taka umræddan veg í þjóðvegatölu. Sama ár, 1955, leiðir rannsókn í ljós, að tiltækilegt sé að sprengja veginn utan í klettabeltið. 1956 fer fram enn á ný rannsókn, sbr. síðustu skýrslu vegamálastjóra um þetta mál til fjvn., og vil ég leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér ofur lítið upp úr þessari skýrslu, en þær staðreyndir varpa nokkru ljósi yfir þetta mál. í þessari skýrstu segir vegamálastjóri m. a.:

„Í júlí 1956 var gerð nánari athugun á Strákum, og framkvæmdi hana jarðfræðingur frá atvinnudeild háskólans. Mælti hann með því, að gerð yrðu jarðgöng gegnum flallið, enda var það ekki álitið dýrara en fara framan í það, m.a. vegna þess, að í það eru djúpar skorur, sem brúa þurfti. í skýrslu sinni segir jarðfræðingurinn: Enda þótt bergið sé nokkuð myndbreytt og sprungið vegna jarðhita, virðist ekki ástæða til að óttast mikla erfiðleika við gröft ganganna.“ Þetta er sagt og fullyrt 1956. Og enn segir: „Má þess vegna gera ráð fyrir, að unnt verði að grafa mestöll jarðgöngin, án þess að grípa þurfi til dýrra varúðarráðstafana.“ Og enn segir í skýrslu jarðfræðingsins: „Jarðgöngin um Stráka verða einkum að vetrinum miklu öruggari leið en opinn vegur framan í klettunum.“

Var því horfið að því ráði að grafa jarðgöng hallandi um það bil 4% upp á við frá Siglufirði. Á árunum 1957–1958 var vegur ruddur að þeim stað, sem ákveðið var að byrja jarðgöngin á, en sumarið 1959 voru sprengd um 30 m löng göng til reynslu. Í okt. 1960 voru svo þessi göng athuguð af sama jarðfræðingi og áður, og gaf hann síðar skýrslu um þá athugun. Í lok hennar segir svo:

„Reynslutími þessi, þótt skammur sé, virðist styðja þá skoðun, sem látin var í ljós í áliti, dags. 5. ágúst 1956, að unnt verði að grafa mestöll jarðgöngin, án þess að grípa þurfi til dýrra varúðarráðstafana.“

Þetta er síendurtekið í bréfum og skjölum í rn., hér á hv. Alþingi og á skrifstofu vegamálastjóra. Frá því að þessari rannsókn lauk og með hana sem leiðarljós hefur öðru hverju verið unnið að framkvæmdum við þessa vegargerð. En því miður verður það að segjast eins og er, að það hefur alltaf verið gert með hangandi hendi. Þó ber að geta þess, sem gert hefur verið, að nokkur fjörkippur hefur komizt í framkvæmdir fyrir síðustu tvennar alþingiskosningar.

Þegar samþykkt var lántökuheimildin á Alþingi til að fullgera þennan veg, sem mun kosta um 20 millj. eða rúmar 20 milli. kr., jók það bjartsýni allra þeirra, sem þrá þessa vegargerð og bíða eftir henni, og enn jók það á gleði manna, þegar það var tilkynnt á Siglufirði af frambjóðendum þáv. stjórnarflokka og núverandi og því lofað, að Strákavegurinn skyldi verða fullgerður í ágúst 1965. Hinir varkárari stuðningsmenn stjórnarinnar töldu, að Þetta yrði þó ekki fyrr en hinn 30. eða 31. ágúst, en gárungarnir bættu við, að það yrði kl. 3. Ég varð því nokkuð hissa, þegar hv. 4. þm. Norðurl. v., Einar Ingimundarson, sagði hér í ræðu nokkru fyrir kl. 7, að það væru engin svik við neinn, að Strákaveginum yrði ekki lokið í ágúst 1965. Þessi hv. þm. man það eins vel og ég, að á framboðsfundunum á Siglufirði, — ég skal ekki segja, hvað samgmrh. hefur fullyrt á fundinum á Siglufirði, sem minnzt var hér á, því að ég var ekki á þeim fundi, — en ég fullyrði, að á framboðsfundunum á Siglufirði fyrir síðustu alþingiskosningar var því haldið fram, að þessari vegarlagningu yrði lokið í ágúst 1965, og það var varað við að kjósa bæði mig og aðra, vegna þess að þá mundi það koma á daginn, að þessi vegur yrði ekki tilbúinn í ágúst 1965. Ég hafði því miður ekki tíma í dag til að fletta upp í blaðinu Siglfirðingi, stuðningsblaði hv. þm., sem ég er hér að ræða sérstaklega við, en ég er alveg viss um, að þar get ég fundið línur máli mínu til stuðnings. Og hvers vegna var þessu haldið svona blákalt fram? Var það ekki vegna þess, að þeir voru að reyna að fá atkv. út á þetta? Ég þekki tiltekna menn, sem sagt var við af stuðningsmönnum ríkisstj., að eina tryggingin fyrir því, að Strákavegur yrði akfær í ágúst 1965, væri að kjósa stjórnarsinna í kosningunum í júní 1963. Þess vegna eru þetta svik við þá fullyrðingu og þau loforð, sem voru gefin. Ég er ekki að segja, að það sé vísvitandi, það leyfi ég mér ekkert að fullyrða. Hér hafa orðið alvarleg mistök, sem Siglfirðingar og Skagfirðingar og aðrir þeir, sem telja nauðsyn á þessum vegi, harma mjög mikið.

Ég lofaði því í upphafi, að ég skyldi ekki draga þessar umr. á langinn, og ég skal standa við það. En ég vil að lokum segja við þessa hv. norðlenzku meðþm. mína í stjórnarliðinu, að þegar ég minnist þeirra orða, sem þeir höfðu í sambandi við þennan veg, og skrifa blaða þeirra í júní 1963, þá dettur mér í hug eitt orð, það er orðið strákapör.

Að lokum vil ég leyfa mér að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. samgmrh. í trausti þess, að hann sé þess umkominn að svara þeim nú eða þá síðar, áður en þinginu lýkur. Í fyrsta lagi: Er hin svokallaða fullnægjandi athugun á berglögunum í Strákafjalli hafin, og ef svo er, hvaða aðili hefur þá athugun með höndum? Og í öðru lagi: Má ekki treysta því, að veginum Fljótamegin, frá Heljartröð að jarðgangaopinu fyrirhugaða, verði lokið í sumar? Ég vil svo að lokum skora á hæstv. samgmrh. að gera allt, sem í hans valdi stendur, til þess að flýta því, að lokaframkvæmdir í Strákaveginum geti hafizt sem allra fyrst.