08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (2527)

211. mál, vegáætlun 1964

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það má segja, að Það sé nokkur atburður á hv. Alþingi, þegar hin nýja skipan í vegamálum Þjóðarinnar er tekin upp, fyrsta vegáætlun afgreidd. Það er því ekkert óeðlilegt, þó að þm. ræði nokkuð þetta mál, hina nýju tilhögun og þá fyrstu afgreiðslu, sem málið fær í því formi.

Vegamálin, skipting fjár til framkvæmdanna á því sviði, hafa oft og tíðum verið allmikið umræðuefni hér á Alþingi, þegar afgreiðsla fór fram með þeim hætti, sem venja hefur verið allt til þessa, í sambandi við afgreiðslu fjárl. Ég hef heyrt það í dag, að það hafi verið friður góður um afgreiðslu vegáætlunarinnar, og er sjálfsagt ekkert nema gott um það að segja. Formaður hv. fjvn. er friðarins maður og elskulegur í samstarfi, býst ég við, og hann hefur fengið sína meðnm. í þessu máli sem öðrum til þess að sætta sig við það góða og sumt hið minna góða, sem frá virðulegri fjvn, hefur komið á þessu ári, og það ber lagni hans vitni. En þó finnst mér, að það séu viss takmörk fyrir því, hvað til friðarins megi vinna, og ég skil a.m.k. ekki þá þm. Vestfjarða eða þann þm. Vestf., hæstv. forseta sameinaðs Alþingis, sem setið hefur getað í fjvn. á friðarstóli um það að láta hlutfall Vestfjarða til vegamála lækka frá næstliðnu ári. Helzt hefðu fulltrúar Vestfjarða í hv. fjvn. þurft að muna það, að þeir þurftu að vilja eitthvað í vegamátum Vestfjarða. Þeir máttu gjarnan vinna allnokkuð til friðar og góðs samstarfs, en ekki játast undir það, að hallað væri á Vestfirði í fjárveitingum til vegamála frá því, sem verið hefur, með altar vegleysurnar, miklu fremur vegleysurnar heldur en vegina í huga. Ef rætt erum samgöngumál á Vestfjörðum, er þar miklu meira efni í ræðu um vegleysur heldur en um vegi. Hv. 1. þm. Austf. sagði í dag, að það fyndist sér þunnur þrettándi, að Austfirðir hefðu tæpast haldið því hlutfalli, sem þeir hefðu hingað til haft um úthlutun vegafjár, og ég tek undir það með honum. Það er anzi þunnur þrettándi fyrir Austfirðinga og Vestfirðinga að verða að sætta sig við það nú, þegar þessi nýja skipun er tekin upp, og kannske þannig að verða að horfast í augu við það til frambúðar, að þeirra hlutfall af því fé, sem varið er til vegamála, skuli nú skert við þessi tímamót og þeir settir meira hjá en áður.

Þegar við litum yfir vegina um Vestfjarðakjördæmi hérna á vegáætluninni, allt frá nr. 1 til 41, eru fáir þeirra, ef það er þá nokkur einn einasti, sem er að öllu leyti fullgerður vegur. Maður getur farið yfir allt svæðið, og það eru aðeins partar úr þessum vegum, sem eru uppbyggðir og þannig eiginlega teljandi í vegatölu, en allur þorri þessara vega, sem þarna eru nefndir, er niðurgrafnir troðningar og ólagðir og óbyggðir vegir. Það var minnt á það hér í dag, að áður hefðu Vestfirðir fengið til vegamálanna 19.5% af heildarupphæðinni, en nú yrðum við að sætta okkur við 14%o, eins og hv. þm. sagði, lækkun um 26%. Það er fjórðungsskerðing í hlutfallinu við aðra. Ég verð, þó að mér sé það ekki ljúft, að segja það sérstaklega við hv. Vestfjarðaþm. í stjórnarliðinu, að mér finnst þeirra frammistaða slæleg í þessu máli. Þeir hafa verið að skýra okkur frá, að þeir hafi barizt hraustlega, en við hvern skrattann voru þeir að berjast? Voru það öfl í stjórnarflokkunum, sem vildu okkar hlut enn þá minni? Það hlýtur að vera, ef þeir eru að segja satt, og er það Þó lítt trúanlegt. Svo mikið er víst, að hversu hraustleg sem þeirra barátta hefur verið, þessara góðu félaga okkar, er árangurinn sorglega lítill. Það er ekki of mikið sagt, þótt maður fullyrði, að ef þeir hefðu beitt sér, sett hnefann einu sinni í borðið við þessi öfl, sem þeir voru að berjast við, þá hefði það verið á þeirra valdi að fá a.m.k. hlutfall Vestfjarða óskert, því að til þess lágu hin fyllstu rök, sem ekki var hægt að ganga gegn nema með ósanngirni og ranglæti. Ég verð því að segja, að hv. þm. Vestfjarða í stjórnarliðinu hafa verið of lítilþægir í þessu máli, því að það má ætla, að það hefðu orðið og verði þeirra atkvæði hér á hv. Alþingi, sem ráða úrslitum um það, að hlutur Vestfjarða er ekki skárri en þetta. Það vekur ekkert samúð mína með þeim, þótt þeir á eftir berji í vænginn og segi: Það er farið illa með okkur.

Ég held, að það megi fullyrða, að stjórnarandstöðuflokkarnir mundu hafa staðið að því að sýna Vestfjörðum réttlæti í þessu höfuðmáli þeirra, því að samgöngumálin ásamt atvinnumálunum eru höfuðmál fyrir hvaða landshluta sem er. Og það vita allir, að þannig er Alþingi skipað, að ef stjórnarandstaðan stendur saman um mál og 2–3 þm. úr stjórnarliðinu bætast þar við, þá er góðu máli borgið. Ef sú till., sem hér er nú frammi, flutt af hv. 1. og 3. þm. Vestf. auk mín, fellur hér á hv. Alþingi, þá er það af því, að okkur vantar hendur okkar samþingismanna á loft með þeirri till., sem ekki fer fram á meira en það, að Vestfirðingar fái að halda hlutfallinu 19.5 af heildarupphæð til vegamála, eins og Vestfirðirnir höfðu áður, og þeir tjá sig þá með þeirri atkvgr. um það, að það þyki þeim of mikið.

Hæstv. samgmrh. gerði þessa litlu till, að umtalsefni fyrir kvöldmatinn og hafði lítil rök fram að færa fyrir því, að ógerningur væri að samþ. hana. Upphæðin er 3.8 millj. kr. Svo tæpt getur hagur ríkissjóðs ekki staðið, að hann geti ekki, ef vilji er með, tekið á sig 3.8 millj. kr. umfram það fé, sem skammtað var til vegamála við afgreiðslu fjárlaganna síðastliðið haust.

Hér er bara um það að ræða, hvort hv. stjórnarflokkar og hæstv. ríkisstj. vilja játa þá staðreynd, að það hafi orðið þarna mistök, og mistök ber að leiðrétta. Það hefur áreiðanlega ekki verið ætlunin að skerða hlut þess landshlutans, þess kjördæmisins, sem langverst er á vegi statt í vegamálum og samgöngumálum, umfram öll önnur kjördæmi. Svo illa er ekki komið réttlætistilfinningu hv. alþm. Hér hafa því mistök orðið, og þau ber að leiðrétta, og það er fyrst og fremst á valdi hæstv. samgmrh. að leggja þarna lóð á vogarskálina, þegar þessi atkvgr. fer fram, og þó helzt nokkru fyrr að tjá vilja sinn til að leiðrétta þessi mistök, eða hv. þm. Vestf. í stjórnarliðinu enn að beita sér fastar og fá þessi mistök leiðrétt, því að það er á þeirra valdi.

Ég man eftir því einu sinni, þegar ég var kennari, þá fór fram skriflegt próf í mínum skóla, og þá sagði einn pilturinn, að rjúpan væri spendýr, en skrifaði neðan á úrlausn prófblaðsins hjá sér: „Ég veit, að þetta er nú ekki gott hjá mér, en ég ætla nú að reyna að gera það betur næst.“ Og það sama segja hv. þingbræður mínir fyrir Vestfjarðakjördæmi: Við vitum, að þetta er nú ekki gott hjá okkur, en við ætlum að reyna að gera betur næst. — Og þeir segjast hafa loforð fyrir því, að það verði gert anzi vel við Vestfjarðakjördæmi, þegar næsta áætlun, aðalvegáætlunin, þriggja ára vegáætlunin, verður gerð. Það var búið að segja mér það og mörgum fleirum, að það mundi nú heldur verða rétting á okkar málum, þegar vegáætlunin yrði afgreidd, og ég trúði því, en ég hef orðið fyrir sárum vonbrigðum. Nú get ég ekkert gert annað en að halda mér dauðahaldi í þessa fullyrðingu þeirra, að þeir viti, að þetta hafi ekki farið vel hjá þeim, en þeir ætli að gera betur næst, og ég ætla að halda mér dauðahaldi í þessa von, þangað til afgreiðsla næstu vegáætlunar fer fram. Og þá vona ég, að þeir missi ekki af takinu á þessu hálmstrái. Það verður full þörf á því að gera betur næst, þó að samþykkt verði till. okkar þriggja Vestfjarðaþingmanna um, að Vestfirðir haldi því hlutfalli, sem þeir áður höfðu.

Um afgreiðslu vegáætlunar vil ég segja það, að það ber að harma, að hún liggur svo seint fyrir hv. Alþingi sem nú ber raun vitni. Það er enginn möguleiki til að afgreiða hana með neinum eðlilegum eða sómasamlegum hætti, þannig að menn séu frjálsir gerða sinna. Vegáætlunin verður að liggja fyrir Alþingi í framtíðinni, áður en fjárl. eru afgreidd, og þetta undirplagg fjárl. hafa fengið sína afgreiðslu, áður en fjárl. eru afgreidd. Annars eru allir þm. með bundnar hendur, eins og hér hefur verið játað í dag, meira að segja af stjórnarsinnum, að heildarákvörðun hefur verið tekin með afgreiðslu fjárl. um það fjármagn, sem til vegamála eigi að fara. Það er ekki hægt að hækka, segja þeir, og þá er ekkert um annað að ræða, hið þinglega frjálsræði í þessu máli til afgreiðslu er ekkert annað en það að færa frá einum vegi til annars, og það er ekkert skemmtilegt verk. Ég játa hins vegar, að vegamálaskrifstofan var í nokkrum vanda stödd í fyrsta sinn, er setja skyldi saman vegáætlun, og þess vegna má fyllilega afsaka það, að hún sé seint á ferðinni núna. En í framtíðinni má það ekki ske, í framtíðinni þarf og verður vegáætlunin að liggja fyrir Alþingi að haustinu til. áður en fjárl. eru afgreidd. Að öðrum kosti væri alveg eins hægt að láta hana fara fram hjá sölum hv. Alþingis og afgreiða hana inni á vegamálaskrifstofu til fulls eða niðri í rn. hjá hæstv. samgmrh. Hún á í raun og veru ekkert erindi inn á Alþingi, ef á að afgreiða hana framvegis með sama hætti og nú.

Þetta vildi ég segja sem mína skoðun um tilhögun við afgreiðslu vegáætlunar nú. Ég fellst á afsakanir, sem fyrir því liggja, að hún er seint fyrir Alþingi nú, en tel, að þau vinnubrögð megi ekki viðhafa framvegis.

Með Vestfjarðakjördæmi verður það þannig á komandi sumri, að ég hygg, að það verði jafnvel minni framkvæmdir í vegamálum þar fyrir það fé, sem nú er ætlað til þeirra mála, heldur en oft áður, svo miklu er það orðið dýrara að framkvæma slík verk, að fjárveitingin nú, þótt hún sé hærri að krónutölu, eins og sumir eru að hugga sig við, þá hafi upphæðin minna framkvæmdagildi, og þá þýðir það í raun og veru afturför frá því, sem verið hefur. Það var unnið fyrir kosningarnar seinustu að vegaframkvæmdum og mikið látið af því, að þarna væri verið að útvega fé til þessa og hins vegar og þetta væru þannig auknar framkvæmdir. En það var bara verið að taka frá fjárveitingum næsta árs. Það var skammgóður vermir, og það er þetta m. a., þessi kosningaherkostnaður, sem veldur því, að það verður minna úr framkvæmdunum en menn hefðu vænzt á fyrsta framkvæmdaári vegáætlunar. Ég er þeirrar skoðunar, að það hefði verið langsamlega myndarlegast og mennilegast að taka þennan kosningaherkostnað til hliðar, setja hann á fjáraukalög og hafa upphæðir fyrstu vegáætlunar óskertar til framkvæmda.

Hæstv. ráðh. vék að þessu í kvöld og sagði, að þetta væri nú ekki svo slæmt, því að héruðin þyrftu ekki að borga lánsupphæðirnar á einu ári, nú ættu þau kost á því að borga lánsupphæðirnar á 2–3 árum. Má ég þá spyrja: Er það ríkissjóður, sem ætlar að borga vaxtabyrðina, borga vextina, eða eiga héruðin að standa undir vöxtum af þessu þrjú ár í viðbót við það eina, sem þau hafa borið vexti yfirleitt af Þessu, þannig að þau fái á þetta fjögurra ára vaxtabyrði? Ekki drýgir það framkvæmdamátt upphæðanna. Ég vil vona, að það verði ríkissjóður, sem taki á sig vextina af þessu fé, af þessum framkvæmdum frá kosningaárinu, og teldi ég það þó billega sloppið.

Ýmsir hafa rætt um, að það sé einn af brestum þessarar áætlunar, að lánsfé til vega hafi ekki verið tekið inn á áætlunina, en það beri tvímælalaust að gera. Ég er sammála þeim hv. þm., sem hafa haldið því fram, að lánsfé til vegagerða á að sjást og þeirra framkvæmda á að geta, sem framkvæmdar eru með lánsfé, og vænti ég þess, að svo verði framvegis. Það kemur héraði eða kjördæmi alveg í sama stað niður, hvort framkvæmdin er innt af hendi fyrir fjárveitingar, sem teknar hafa verið inn á fjárl. eða vegáætlun, eða hvort það er útvegað að láni. Þegar um vegaframkvæmdir sérstaks eðlis er að ræða, sem ekki verða unnar öðruvísi en í stórátökum, þá er þetta eðlileg leið, enda þegar farin í fleiri en einu tilfelli.

Ég hefði eiginlega átt að minnast á ræðu hv. 4. þm. Norðurl, v., sem talaði hér í kvöld og beindi máli sínu til hv. 5. landsk. þm., sem var þá fjarverandi, en það var út af Strákaveginum, sem síðasti hv. þm. ræddi hér um líka. Ég hefði átt að minnast á þetta í raun og veru fyrr í ræðu minni, þegar ég minntist á þau gullnu loforð, sem hefðu verið gefin einnig í Vestfjarðakjördæmi um það stóra og mikla, sem skyldi ske, þegar vegáætlunin kæmi með allri þeirri fjáröflun, sem stæði til að framkvæma samtímis því. Það fer ekkert á milli mála, að það hafa verið gefin anzi ákveðin, gullin loforð um framkvæmd á jarðgöngunum í gegnum Stráka, og þess vegna gat ég ekkert skilið í því, þegar hv. 4. þm. Norðurl. v. var svo hjartanlega ánægður, hann iðaði bara af fögnuði og ánægju yfir því, að öll loforðin höfðu verið svikin. Þegar stjórnarstuðningsmenn haga sér svona, þegar mál kjördæma þeirra eru annars vegar, mala eins og kettir yfir því að vera sviknir og leiknir grátt, er þá von til þess, að þeir nái miklu fram? (Gripið fram í: Hver sveik?) Nú, þeir, sem loforðin gáfu. Hér hafa komið tveir þm. og sagt, að loforðin hafi verið gefin, og þau eru ekki orðin framkvæmd enn. Hvað heitir það ? Hvað heitir það, þegar loforð hafa verið gefin og ekki framkvæmd? Heitir það ekki svik á íslenzku máli? (Gripið fram í: Af óviðráðanlegum ástæðum.) Eru það óviðráðanlegar ástæður, þegar hampað er framkvæmdaáætlun, sem hér er sagt að ráðh. hafi látið gera af sérfræðingum fyrir kosningar, og sagt við kjósendur: Þessi framkvæmdaáætlun verður framkvæmd á ákveðnu ári, lokið í ákveðnum mánuði, — að menn segi nú ekki eins og síðasti hv. þm.: klukkan þrjú á ákveðnum degi? (Gripið fram í: Kosningaloforð eru engin loforð.) Kosningaloforð eru svik, ég veit það, þau eru ekki loforð, þau eru svik þessara herra. Strákavegurinn er staðfesting á því. Nei, ég er hræddur um það, að því bregði fyrir víðar en í Norðurlandskjördæmi vestra, að stjórnarstuðningsmenn hafa verið of ánægðir með að láta misbjóða sér og þannig verið of lítilþægir. En þeir þurfa ekki að vera að tala, þeir þurfa ekki að vera að lýsa þessu í ræðum, þeir ættu að fara betur með þetta.

Það má vel vera, að það þurfi nú að rannsaka jarðlög og að það þurfi kannske að fóðra göngin innan. En var það ókunnugt sérfræðingum, sem gerðu framkvæmdaáætlunina fyrir hæstv. ráðh.? Gat það ekki flögrað að þeim og að það þyrfti því að hafa einhverja fyrirvara á loforðunum? En þá hefðu þau ekki verið eins líkleg til þess að vera eins konar flugnaveiðari fyrir kosningar, ef það hefðu verið margir fyrirvarar í bak og fyrir. Þess vegna hefur fyrirvörunum verið sleppt og framkvæmdaáætlunin, sem þá var hampað, það er sagt, að hún sé bara frumathugun núna og allt sé eftir að rannsaka, það sé ekki búið að rannsaka þetta enn, og er þó góður tími liðinn síðan. Ég held, að það þýði ekkert að segja, að allt sé af því, að það komi eitthvað óvænt fyrir. Það er engin afsökun í því.

Ég skal nú láta mínum lestri um þessa fyrstu vegáætlun Alþingis lokið. Ég get tekið undir það, að það má afsaka ýmsa bresti á henni, af því að hún er frumsmíð. Ég tel, að það hafi verið hallað sérstaklega á Vestfjarðakjördæmi, og hef ekkert farið dult með það, að ég tel, að stuðningsmenn ríkisstj. í hópi Vestfjarðaþm. hefðu getað og hefðu átt að beita sér fastar fyrir því, að a.m.k. óbreytt hlutfalt héldist, og ég tel, að þeir eigi einn möguleika enn, þann að greiða atkv. með þessari litlu till., sem hér liggur fyrir um 3.8 millj. kr. úr ríkissjóði, til þess að hlutfall Vestfjarðakjördæmis standi óhaggað og óbreytt. Að öðru leyti ætla ég að lífa í voninni, eins og ég áðan sagði, um það, að Vestfirðingar verði samstæðari og standi sig betur og þá sérstaklega þeir, sem þá verða stjórnarstuðningsmenn, þegar á að afgreiða þriggja ára vegáætlunina. Verður hún ekki þriggja ára næst eða verður hún fjögurra ára næst? Það læt ég alveg liggja á milli hluta, hvort hún verður þriggja ára eða fjögurra ára, það er sjáifsagt framkvæmdaatriði hjá stjórnarvöldum, úr því að þessi hefur verið afgreidd til eins árs til bráðabirgða.

En ég skal að lokum segja það, að ég tel það ákaflega lítils vert að vinna mikið fyrir fram í vegum og yfirleitt tel það óviðkunnanlegt, þegar sá háttur er sérstaklega hafður á árið fyrir kosningar, upp á svo að skerða framkvæmdamöguleikana á fyrsta og öðru ári eftir kosningar stórlega. Það er engin úrbót og ekkert til þess að gleðja kjósendur með, a.m.k. ekki þegar þeir eru búnir að átta sig á því, að þessu er svona varið. Ég tel miklu eðlilegra, að framkvæmt sé undir stjórn vegamálastjóra nokkurn veginn það, sem fjárveitingar hvers árs leyfa, nema þá alveg sérstaklega standi á, að ljúka þurfi einhverjum sjálfsögðum áfanga, þá geti vegamálastjóri gengið þar frá. Og alveg fráleitt tel ég það, þegar þm. einn og einn ráða því með einkaviðtölum við ráðh. eða vegamálastjóra, að vikið sé frá þeirri skiptingu, sem þm. hafa komið sér saman um. Til þess eiga þeir ekki heimildir að mínu áliti, og við mig var a.m.k. ekki haft neitt samráð um það að vinna

fram á haust og kasta þannig fé til lítils gagns fyrir kosningarnar, eins og gert var í Vestfjarðakjördæmi í ýmsum tilfellum. Það hefur skilað litlu, það fé, nema kannske atkv.

Ég skil svo við þetta mál að sinni, en svo mikið er víst, að hlutur Vestfjarða er illa tryggður með afgreiðslu þessarar fyrstu vegáætlunar og þar þarf mikið úr að bæta, til þess að Vestfjarðaþm. geti verið upplitsdjarfir, þegar þeir koma til sinna kjósenda, og það geta þeir a.m.k. ekki allir verið að afloknu þessu þingi, ef ekki verður a.m.k. úr bætt með það litla, sem hér er farið fram á.