08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (2533)

211. mál, vegáætlun 1964

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð og þá sérstaklega um Strákaveginn, af því að hér hefur verið rætt dálítið um hann með fullyrðingum og að ég ætla frekar af misskilningi heldur en menn séu að fara með visvitandi ósannindi. Stóryrðum kæri ég mig ekkert um að svara, þegar talað erum kosningaloforð og svik, fullyrðingar á Siglufjarðarfundi o.s.frv. Hv. 5. landsk. viðurkenndi, að ég hefði ekki talað um Strákaveginn í minni fyrri ræðu, en í seinni ræðunni las ég upp úr þjóðhagsáætlun ríkisstj., sem lögð var fram í fyrra, og lét hana tala. Annað sagði ég ekki um Strákaveginn. En nú spyrja menn: Hvernig stendur á því, að þessi þjóðhagsáætlun var gerð og gengið var út frá því í henni að hefja framkvæmdir á jarðgöngunum á þessu ári og ljúka þeim á næsta ári? Vegamálastjóri hefur gert grein fyrir því, hvers vegna áætlunin var gerð og gert var ráð fyrir, að hægt væri að hefja jarðgöngin á þessu ári. Og grg. vegamálastjóra birtist í Morgunblaðinu 23. apríl s.l. Í henni segir, og ég geri ráð fyrir, að flestir hv. þm. hafi lesíð þessa grg., — segir skýrt, að jarðfræðingur atvinnudeildar háskólans hafi gert ýtarlega rannsókn á berglögunum 1956 og aftur 1960, sami jarðfræðingur. Og með leyfi hæstv. forseta, segir eftir þessum sama jarðfræðingi: „Í okt. 1960 voru svo Þessi göng athuguð af sama jarðfræðingi og áður, og gaf hann síðar skýrslu um þá athugun.“ Í lok hennar segir svo: „Reynslutími þessi (þ.e. af þessum 30 m jarðgöngum, sem búið var að gera), þótt skammur sé, virðist styðja þá skoðun, sem látin var í ljós í áliti, dags. 5. ágúst 1956, að unnt verði að grafa mestöll jarðgöngin án þess að grípa þurfi til dýrra varúðarráðstafana.“ Á þessum ummælum jarðfræðings atvinnudeildar háskólans, sem byggjast á rannsóknum, sem hann hafði tvisvar gert, var framkvæmdaáætlun ríkisstj. byggð. Og það var á áliti þessa jarðfræðings byggt, að það mætti hefja framkvæmdir við jarðgöngin á þessu ári. Nú var öðrum jarðfræðingi falið að undirbúa útboðslýsingu og rannsaka þetta mál í leiðinni, þar sem sérstaklega þurfti að undirbúa útboðslýsinguna. Og þá kemur aths. frá þessum ágæta jarðfræðingi, þar sem hann telur, að það sé rétt að haga framkvæmdum á allt annan veg, byrja á öðrum stað en áður hafði verið ráðgert og gera framkvæmdina með allt öðrum hætti. Og það er þess vegna, sem vegagerðin í janúarmánuði s.l. bar það undir forstöðumann rannsóknarstofu norsku vegagerðarinnar, hvernig standa ætti að þessu máli. En niðurstaðan af þeim umr. varð sú, að Norðmennirnir töldu, að enn nákvæmari rannsókn þyrfti að gera, til þess að hægt sé að áætla, hve miklu kostnaðarsamari varúðarráðstafanir þyrfti að gera á þeirri leið, sem upprunalega var ráðgert að fara, en á þeirri, sem jarðfræðingurinn stingur upp á, þ.e. seinni jarðfræðingurinn, og sjá, hvort þær vega upp þann kostnað, sem er því samfara að vinna göngin á Sauðanesi. Verður því ekki hjá því komizt, segir vegamálastjóri, að fresta grefti jarðganga til ársins 1965, meðan endanleg rannsókn fer fram, og er af þeim ástæðum aðeins gerð till. um fjárveitingu til að ljúka undirbyggingu vegarins á Strákum á þessu ári.

Ég held, þegar þetta liggur nú fyrir, að það sé eðlilegt, að menn spari stóryrði um þetta og annað því um líkt, enda hafa hinir gætnari þm., sem áhuga hafa fyrir því að koma málinu sem fyrst í höfn, sparað sér það. Og mig undrar ekki, þótt Siglfirðingar hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum, því að vitanlega höfðu þeir ástæðu til þess að ætla, að byrjað yrði á jarðgöngunum á þessu ári, eins og áætlað var í þjóðhagsáætlun ríkisstj. En það, sem fram hefur komið samkv. skýrslu vegamálastjóra, gefur ekki tilefni til þess að ásaka ríkisstj. eða stjórnarflokkana um svik í þessu máli. Það getur enginn ásakað ríkisstj. eða vegamálastjóra, þótt Þjóðhagsáætlunin árið 1963 væri byggð á áliti jarðfræðings atvinnudeildar háskólans, sem var gert 1956 og aftur 1960, og ummælum hans, sem staðfestu Það, að sú reynsla, sem væri fengin af hinum 30 m jarðgöngum, sem gerð voru 1957, væri þannig, að það væri ekki ástæða til annars en hér væri um fullnægjandi rannsókn að ræða. Ég þarf ekki að fjölyrða meira um Þetta. Ég veit, að hv. þm. hafa gert sér fulla grein fyrir því, hvernig í málinu liggur, og eins og ég sagði áðan, að hinir gætnari þm. hafa forðazt öll stóryrði í þessu máli, þótt Þeir hafi rætt um það .

Ég ætla ekki að fara út í ræðu hv. 5. þm. Vestf., þegar hann var að tala um þetta vegamál, og þau orð, sem hann viðhafði í samræmi við það, sem hv. 5. landsk. hafði viðhaft. Það er engin ástæða til þess að fara að mótmæla þessum stóryrðum. (HV: Þetta voru ekki stóryrði.) Nei, það voru ekki stóryrði, en þeir, sem hlustuðu, eru nú kannske á öðru máli. Það voru fullyrðingar um það, að hér hefði verið um svik að ræða, fullyrðingar um það. Og úr því að hv. þm. var það svona geðslegt að viðhafa þetta, eftir að hafa þó lesíð skýrslu vegamálastjóra, því að það er ég alveg sannfærður um, að þessi þm. hefur gert, og hann hefur alveg vitað, hvernig í málinu lá, þá kemur hann hér upp í ræðustólinn — og er þó reyndur þm. — með fullyrðingar og slagorð, sem ekkert hafa við að styðjast. Það væri hægt að taka undir með hv. 5. þm. Norðurl. v., að það væri hægt frekar að fyrirgefa hv. 5. landsk., vegna Þess að hann hefur ekki slíka reynslu sem hv. 5. þm. Vestf., og líka að fyrirgefa honum, vegna þess að hann er nú svo oft í sömu stofu og hv. 5. þm. Vestf. og þess vegna ekki eðlilegt, að hann læri vel mannasíði.

En að öðru leyti vil ég þakka fjvn. enn á ný fyrir það, að hún hefur lagt sig fram í þessu máli, og ég verð að segja það, að hv. þm. yfirleitt hafa rætt af hófsemi og skynsemi, raunsæi um þetta mál. Vegamálin, samgöngumálin eru viðkvæm. Fólkið heima í héruðunum heimtar meiri framkvæmdir, þm. vilja sem mestar framkvæmdir og vinna að því. Þess vegna er eðlilegt, að hver þm. haldi kröfunum fram. En við þessar umr. hefur með örlitlum undantekningum allt farið fram með hófi og spekt.