08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (2534)

211. mál, vegáætlun 1964

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þegar vegal. voru sett hér í desembermánuði s.1., tókst gott samstarf á milli þm. úr öllum flokkum um setningu vegal., og allir voru bjartsýnir á það, að tekjur til vegamála mundu hækka stórkostlega, eins og raun ber vitni, þegar við litum á þessa till. til þál. um vegáætlun, sem hér liggur fyrir. En þó ber að hafa það í huga í sambandi við þessa vegáætlun fyrir árið 1964, að tekjur af 13 aura gjaldinu eru reiknaðar af 3/4 hlutum ársins eða 75% og gefa á þessu ári 56 millj. kr., en ef þessar tekjur hefðu komið á allt árið, mundi þessi liður teknamegin í vegáætluninni verða um 18.7 millj.kr. hærri, og ef það hefði orðið, hefði verulegur hluti af þessari upphæð farið til nýbyggingar vega í landinu, og þá hefðu menn yfirleitt orðið ánægðari með skiptinguna á vegafénu, sem mjög hefur komið hér í ljós óánægja með, þó að flestir menn skilji, hvernig ástandið er. Mér finnst rétt að fara nokkrum orðum um þessa skiptingu.

Samkv. till. á að skipta í hraðbrautir, þjóðbrautir og landsbrautir 57 595 000 kr. Og skiptingin á þessu fé á milli kjördæmanna er sem hér segir: Reykjaneskjördæmi 7.3 millj. kr., Vesturlandskjördæmi 12.5 millj. kr. tæpar, Vestfjarðakjördæmi 7.5 millj. kr., Norðurl. v. 4.8 millj. kr., Norðurl. e. 7 millj. kr., Austf. 9.7 millj. kr. og Suðurl. 8.6 millj. kr. Þannig er skipting

samkv. till. vegamálastjóra á þessum 57 595 000 kr.

Þegar við þm. Sjálfstfl. og stjórnarsinnarnir frá Vestfjörðum sáum þessar till., sem við sáum ekki fyrr en þær höfðu verið lagðar fram í fjvn., og þar á aðeins fulltrúi Alþfl. sæti, en enginn af okkur þm., sem erum frá Vestfjarðakjördæmi fyrir Sjálfstfl., en við fengum fljótlega að okkar beiðni sjálfra að sjá þessar till., þá urðum við mjög óánægðir með þessa skiptingu, sérstaklega hvað snertir skiptingu á fé til þjóðbrauta. Hins vegar gátum við að mestu leyti fallizt á skiptingu vegamálastjóra á fé til landsbrauta, en vegamálastjóri hafði nokkuð annað sjónarmið, sem mér finnst rétt að komi hér fram, þó að ég sé ekki á sömu skoðun og hann, að þjóðbrautafé yrði ekki skipt á milli kjördæma, heldur færi það í ákveðna vegi. Og það, sem deilu olli á milli okkar og vegamálastjóra, var skiptingin til Vesturlandsvegar. Þar ætlaði hann verulegan hluta eða mestan hluta framlagsins til Vesturlandsvegar á þeim hluta hans, sem er í Vesturlandskjördæmi. Við töldum, að þörfin væri ekki síður fyrir bætta vegi á Vestfjarðavegi í okkar eigin kjördæmi, og þar stóð töluverð deila á milli. Fyrsta verk okkar var að ræða við vegamálastjóra, við samgmrh., formann fjvn. og láta í ljós óánægju yfir þessari skiptingu á vegafénu, og við töldum það miklu vænlegra en að sitja þegjandi hjá, á meðan fjvn. var að afgreiða till. um vegáætlun, og töldum það vera hyggilegra til þess að fá einhverju um þokað í þessum efnum. Reyndin varð svo sú, að það verður samkomulag um að lækka viðhaldsfé um 5 millj. kr. og verja því til nýbyggingar vega. Og í skiptingu á Þessum 5 millj. kr. verður hlutur Vestfjarðakjördæmis 1.5 millj. kr., hlutur Austurlands 1.3 og hlutur Norðurl. v. og Norðurl. e. og Suðurl. 500 þús. kr. til hvers kjördæmis, en Reykjaneskjördæmi fékk ekkert. Þrátt fyrir það að fá þessar 5 millj. vorum við ekki ánægðir. Og við héldum áfram að vinna að lausn málsins, og við áttum algera sérstöðu hvað snertir framkvæmdir á s.l. ári, að skuldir í hinum ýmsu vegum í Vestfjarðakjördæmi voru meiri en í nokkru öðru kjördæmi á landinu, og það hefur áunnizt, að vilyrði hafa verið gefin fyrir því, að þessar skuldir verði eðlilega að greiðast upp af fjárveitingu samkv. vegáætluninni, sem hér er til afgreiðslu á þessu ári, en hins vegar hefur samgmrh. dregizt á það, að helming til tveggja þriðju af þessum upphæðum fái að taka aftur að láni, til þess að framkvæmdir í vegamálum dragist ekki verulega saman í þessu kjördæmi. Og ég verð að segja það, þó að ég og við sjálfstæðismennirnir úr Vestfjarðakjördæmi séum ekki ánægðir með þessa skiptingu, að þá tel ég, að hér hafi verið miklu hyggilegra að vinna á þennan hátt að lausn þessa máls heldur en að bíða og kasta hér fram á síðustu stundu óraunhæfri till., eins og hv. stjórnarandstæðingar úr þessu kjördæmi hafa gert nú á lokastigi umr. um vegáætlun. Og till. þeirra er eingöngu sett fram til þess að geta haft eitthvað til að tala um, þegar menn koma aftur og ferðast um þetta kjördæmi og segja frá því, að stjórnarsinnarnir, sem sitja á þingi fyrir kjördæmið, hafi alls ekki viljað fá meira fé. Og það er eftirtektarvert,

að þó að þm. séu almennt óánægðir með skiptingu og hafi látið það hér í ljós, þm. frá öllum flokkum eða bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu, þá hefur enginn þm. úr öðru kjördæmi flutt sýndartill., nema hv. stjórnarandstæðingar úr Vestfjarðakjördæmi.

En þegar við ræðum um mál, sem við erum óánægðir með, er líka rétt að muna eftir því að nefna einnig það, sem menn eru ánægðir með, og ég ætla að segja það, að ég er mjög ánægður með framlagið til brúargerða á Vestfjörðum í þessari áætlun. En hv. stjórnarandstæðingar, hvorki 3. þm. Vestf. né 5. þm. Vestf., minntust einu orði á það. Af 13 millj. kr. fjárveitingu til stórbrúa samkv. áætluninni er veitt í eina brú á Vestfjörðum 2.1 millj., til að byggja brú á Mórillu í Kaldalóni. Þessi brú er 50 m löng, og þetta er í fyrsta skipti, sem Vestf. fær fjárveitingu til brúargerðar af stórbrúafé. Og takið eftir því, hv. þm., að það kom aldrei fram nein till, eða nein ábending á þeim árum, sem þessir tveir hv. þm. voru í stjórnaraðstöðu, hv. 3. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Vestf., um að fá fjárframlag til stórbrúa á Vestfjörðum. Þeir eru núna fyrst eftir öll þessi ár að sjá, að það er í fyrsta skipti, sem þetta kjördæmi fær framlag til stórbrúa. En það er ekki nóg að hafa áhuga aðeins við lokaafgreiðslu mála og Það aðeins þegar menn eru í stjórnarandstöðu, en sofa á verðinum, þegar þeir eru í stjórnaraðstöðu, eins og þessir hv. 2 þm. hafa löngum gert. Sömuleiðis vil ég geta þess og tel mér skylt að gera það, að af framlagi til annarra brúa af brúafé, brúa, sem eru 10 m eða lengri, eru veittar nú 820 þús. kr. í þetta kjördæmi, og auk þess er greidd fjárveiting af brú, sem var byggð á s.l. ári á Grjótá í Gilsfirði, sem er rétt handan við Vestfjarðakjördæmi og er í raun og veru í Vesturlandskjördæmi, og sú brú var byggð fyrir tilstuðlan þm. Vestf., eins og segir í till, vegamálastjóra.

Samkv. þessu, sem ég nú hef nefnt, verða framlög til Vestfjarða af þjóðbrauta- og landsbrautafé 9 millj. 35 Þús., stórbrúaféð 2.1 millj., aðrar brýr 820 þús. kr., framlag af fé til gatnagerðar í kaupstöðum og kauptúnum yfir 300 íbúa er samkv. áætlun vegamálastjóra um 1 millj. 268 þús. kr., og svo kem ég að síðasta liðnum, sem er framlag til sýsluvega í kjördæminu, sem mér þykir líka rétt að geta um, að það framlag hefur stórkostlega hækkað í okkar kjördæmi. Ég hef átt tal undanfarið, frá því að þessi vegáætlun kom fram, við nokkra oddvita og fyrirsvarsmenn í ýmsum sveitum í kjördæminu, og allir þessir menn hafa látið í ljós mikla ánægju yfir framlagi til sýsluvega í kjördæminu. Það er reiknað með, að til sýsluvega fari 2 millj. 279 þús. kr., þar af kemur ríkissjóður til með að greiða 1 millj. 644 þús. kr. af sýsluvegafé, og til samanburðar skal ég geta þess, að í Arnessýslu eru 820 þús. frá ríkissjóði, en 848 þús. heimaframlag. Hér ræður skiptingunni strjálbýli, íbúafjöldi, hvort það eru ruddir eða óruddir vegir, og þetta finnst mér vera ánægjulegt, og það er nauðsynlegt, að það komi fram, þegar mönnum líkar eitthvað vel, en ekki alltaf jagazt á því, sem miður fer og menn eru óánægðir með. Samkv. skiptingunni á s.l. ári af 33 millj, kr., sem þá var varið til nýbyggingar vega, var hluti Vestfjarða 6.4 millj. kr. eða 19.4%. Í þessari áætlun voru upprunalega af 57.6 millj. kr. 7.5 millj. kr. til Vestfjarða eða 13.1%, en með hækkuninni 11/2 millj. kr. hækkar prósentan í 14.43%. Og þegar tekið er tillit til framlags samkv. vegáætlun til brúa og sýsluvega, er hlutur okkar ekki eins slakur og hann sýnist vera við fyrstu yfirsýn.

Ég vil segja það í sambandi við framtíð þessa máls, að í sambandi við setningu vegáætlunar, sem gilda á í 4 ár, sé ég ekki ástæðu til þess að ríghalda sér við einhverja ákveðna prósentu til vega, sem einu sinni hefur verið. Finnst mér, að hv. Alþingi og hv. fjvn. eigi í fyrsta lagi að taka tillit til þess, hve mikið er ólagt af vegum í þessu kjördæmi, eða hins, hvað er eftir að gera og hverjir eru verst á vegi staddir. Þá má einnig taka tillit til þess, að í tvo áratugi var svo að segja engu fé varið í þetta kjördæmi, þegar var verið að leggja vegi annars staðar um þéttbýlustu héruð landsins, svo að það má segja, að við setningu nýrrar vegáætlunar, sem gilda á í 4 ár, megi taka fullt tillit til þessa og jafnvel hafa prósentuna hærri en var á s.l. ári.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði, að það hefði verið kastað fé fyrir kosningarnar í vegi, þegar komið var fram á haust. En ég vil nú minna þennan hv. þm. á það, að kosningarnar fóru fram 9. júní, og eftir því sem ég bezt veit, er sumar 9. júní, en ekki haust. En það er einhvern veginn þannig með suma menn, jafnvel þótt þeir séu komnir á sjötugsaldur, að þeir þurfa að hafa mikinn hávaða í kringum allt, og það er ekki vænlegt til þess að ná árangri í þeim málefnum, sem á að vinna að hverju sinni. Ég vil sömuleiðis minna á það, að þriðji flm. brtt. var í 14 ár vegamálaráðh., lengur en nokkur annar maður, og ég get ekki séð það eða aðrir Vestfirðingar, að hlutur Vestfjarða hafi verið mikill á þeim árum, heldur öfugt. Og ég vil líka geta þess, að þegar Framsfl. tapaði Barðastrandarsýslu 1942, var þessi sýsla svo að segja vegalaus með öllu. Þá fyrst hófust framkvæmdir í þessu kjördæmi í vegamálum. Sama er að segja um Norður-Ísafjarðarsýslu. Þegar Sigurður Bjarnason, hv. 2. þm. Vestf., varð þm. Norður-Ísfirðinga 1942, þá hófust fyrst vegaframkvæmdir í Norður-Ísafjarðarsýslu. Og þetta eru tvær einhverjar erfiðustu sýslur, sem þurfa mest fé, til þess að vegir og brýr geti tengt sveitir og bæi innan þessara kjördæma.

Og þó að það sé að fara nokkuð út fyrir ramma þessara umr., get ég ekki stillt mig um það að gefnu tilefni eftir glamurræðu hv. 5. þm. Vestf. að geta þess, að í framkvæmdum í vegamálum í Norður-Ísafjarðarsýslu, í þeim stóru átökum, sem áttu sér stað í að tengja kauptúnin með vegum við Ísafjarðarkaupstað, bæði Súðavík og Bolungarvík, þá var þessi hv. þm. alltaf með fýlu, á meðan var verið að vinna að þessari vegagerð. Þegar var farið að leggja veginn inn með Arnarnesi og sprengja gegnum hamarinn, nei, hann vildi ekki fara þá leið, hann vildi fara upp í fjall, nógu hátt upp í fjall, yfir Arnarnesháls, skrifaði um það grein í Skutul. Þegar verið var að leggja veginn um Óshlíð til Bolungarvíkur, skrifaði hann aðra grein. Hann hafði betur vit á þessum framkvæmdum en nokkur annar maður. Þá átti að senda loftpressuna á undan á vírstreng, sem átti að strengja. Nú hlæja menn að því, þegar þeir lesa þessar greinar. Nú dettur engum slíkt í hug, að það hefði átt að velja aðra leið en valin var inn í Súðavík. Þannig hefur hann verið öfuguggi í öllum framkvæmdum og alltaf verið með fýlu, þegar verið var að vinna að umbótamálum. Og það er kominn tími til fyrir menn, þegar þeir eru komnir á sjötugsaldur, að fara að taka upp jákvæða stefnu, þótt ekki væri nema einu sinni.

Ég er alveg óhræddur við það að greiða atkv. um þessa sýndartill. þeirra þremenninganna og sálufélaganna. En ég ætla að segja það sérstaklega við þann þeirra, sem hyggnastur er og er með mesta reynslu og stilltastur, hvort hann hefði talið það hæfa fyrir þm. úr hans flokki, ef hann hefði verið ráðh., að greiða atkv. með till., sem flutt er við lokaafgreiðslu máls, og benda ekki á neinn tekjustofn annan en að greiða fé úr ríkissjóði. Ég býst við því, að þessi reyndi stjórnmálamaður, og hér á ég við hv. 1. þm. Vestf., hefði ekki talið það vera hægt fyrir mann í hans flokki að gera það, eftir að búið er að semja um hlutina. Og ég vil meira að segja segja við þennan vanstillta mann, 5. þm. Vestf., sem er alvanur maður í samningum um kaup og kjör verkafólks, að þegar menn eru að semja, þá verða yfirleitt báðir að sjá af, bæði hann sem samningsaðili fyrir launþegann og samningsaðilinn fyrir atvinnurekendur. Þá þýðir ekki, þegar á að staðfesta samkomulagið, að flytja þá einhverja aðra till. til hækkunar. Það er aðeins til þess að spilla fyrir. Ef við ætlum að samþykkja till. um það, eftir að við erum hér búnir að gera samkomulag við okkar flokka um málið og leita til hins ýtrasta eftir því, að það sé komið til móts við okkar óskir, þó að við séum ekki að öllu leyti ánægðir, þá hygg ég, að það yrði nú losarabragur á afgreiðslu þingmála, ef þm. hinna einstöku kjördæma geta farið að flytja þá til samans till. um tugmilljóna útgjöld úr ríkissjóði. Ég er hræddur um, að Hermann Jónasson, hvað þá heldur Eysteinn Jónsson, vildi ekki vera fjmrh. í þeirri ríkisstj., þar sem slík vinnubrögð væru viðhöfð.

Þessir hv. tveir þm. stjórnarandstöðunnar úr Vestfjarðakjördæmi, sem hafa talað, hafa gengið lengra en allir aðrir. Allir aðrir þm., að undanskildum 5. landsk., hafa talað um þessi mál af skilningi og velvilja. Þetta er í fyrsta skipti, sem verið er að setja vegáætlun samkv. hinum nýju vegal., og þessi áætlun á aðeins að gilda fyrir þetta eina ár. Og það ríður á miklu að reyna að hafa sem bezt samstarf í þessum efnum og halda því góða samstarfi áfram, þegar setzt verður niður hér að hausti til þess að vinna að undirbúningi vegáætlunar, sem gilda á næstu 4 ár.