08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (2542)

211. mál, vegáætlun 1964

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er búið að tala hér mikið um Strákaveg eða Siglufjarðarveg og svik í því sambandi. Ég skal játa, að það er mjög leitt, ef það dregst að leggja þennan veg, að ekki sé staðið við þau loforð, sem gefin voru. Ég tók það aldrei mjög hátíðlega, þótt það væri sagt, að vegurinn mundi koma í ágúst til Siglufjarðar. Yfirleitt er erfitt að segja nokkurn veginn upp á dag um framkvæmd slíkra fyrirtækja, en ég hygg þó, að flestir muni hafa gert sér vonir um, að vegurinn kæmi sumarið 1965.

Vitanlega má segja það nú, að Þessi undirbúningur hafi ekki verið í lagi og æskilegra, að áætlanir um hann hefðu verið fyrr gerðar og betur. En það þýðir ekki að deila um það, það er komið sem komið er, og ég vil bara vona, að þessum athugunum verði hraðað sem allra mest og verkinu verði hraðað eins mikið og hægt er, þannig að Siglfirðingar þurfi ekki að biða vegarins nema sem minnst fram yfir það, sem þeim voru gefin loforð um. En hitt bætir ekki neitt úr, að vera að brigzla hver öðrum um svik, þótt eitthvað komi fyrir. Það vill oft verða þannig í kosningum, sjálfsagt hjá öllum flokkum, að það er eitthvað lofað upp í ermina sína, þegar kosningar standa fyrir dyrum.

Það var sérstök tilviljun, að ég tók hér til máls áðan. Þannig var, að ég var staddur þarna í dyrunum og hv. 5. þm. Vestf. var að tala. Mér datt þá í hug, að þetta væru óþarflega mörg orð og óþarflega mikil orka, sem maðurinn eyddi hér í ræðustólnum. Og mér datt í hug, að þetta væri ólíkt Snorra Sturlusyni. Þið hafið sjálfsagt atlir lesið Heimskringlu. Hún er listaverk, og listin liggur í því, að það er hver einasta setning meitluð, þar er eiginlega ekkert óþarfaorð, og allt af viti, sem þar stendur. Ég er búinn að taka eftir því, að menn, sem eru stuttorðir, nota ekki óþarfaorð og yfirleitt alltaf viturleg orð, eru hagsýnir menn og hyggnir, og yfirleitt eru þeir vel efnum búnir. En hinum, sem teygja lopann og hafa heimskuleg orð um hlutina og eru hávaðasamir, þeim gengur yfirleitt allt heldur illa í lífinu, flestir hálfsnauðir. Ég skal segja ykkur, að hagsýni manna kemur fram í öllum sköpuðum hlutum. Sumir nenna varla að snúa sér við, nema það hafi einhverja þýðingu, og aðrir geta hlaupið, hoppað og snúizt, án þess að það hafi nokkra minnstu þýðingu, og talað og gert ýmsa hluti. Ég satt að segja hallast heldur að þeim flokknum, sem eyðir ekki orkunni til ekki neins, ég satt að segja nenni því ekki nema sem allra minnst og yfirleitt hef meiri mætur á þeim mönnum, sem slíkt gera.

Nú er mér ákaflega vel við hv. 5. Þm. Vestf. og alveg sérstaklega vel við hann vin minn þarna, 5. landsk., Ragnar Arnalds, og það var alveg óþarfi af hv. 5. þm. Vestf. að fara að skipta sér eitthvað af uppeldismálum mínum. Guð hirtir þann, sem elskar hann. Og mér er ekki eins annt um nokkurn mann í þessum sal og þennan elskulega dreng. En hitt skal ég játa, að það var barnaskapur af mér að ætta að fara að ala þennan hv. þm. upp, hv. þm. Vestf., jafnvel þótt hann þyrfti þess með. Vitanlega var ég ekki nema með vinsamlegar leiðbeiningar í hans garð, því að það, sem ég var að hugsa um þarna í dyrunum, var, hvað maðurinn færi óviturlega að, ef hann ætlaði að koma málinu fram.

Nú vildi ég gjarnan, að ég gæti stutt að því, að Vestfirðir fengju 10 millj. meira en þeir fá í vegafé, þeim veitir víst áreiðanlega ekki af því. En þá verður maður bara að nota aðrar aðferðir en þetta, ef maður vill koma einhverju fram.

Hann var víst að núa bæði mér og hv. 4. þm. Norðurl. v. um nasir um það, að við værum eitthvað líkir malandi köttum. Og það má meira að segja læra af ketti. Kötturinn malar, þegar hann er í góðu skapi, og ekki er hægt að lá neinum það. En kötturinn er skynsamur, hann veiðir. T.d. ef allir kettir væru með skaplyndi hv. 5. þm. Vestf., mundu þeir aldrei veiða nokkra einustu mús. Ég skal segja ykkur það, að ef kötturinn hefði þetta skaplyndi, þá mundi hann mjálma 4-5 sinnum, áður en honum dytti í hug að taka músina, í staðinn fyrir að þegja og veiða músina. Og ef hv. þm. hefði haft aðferð kattarins að ná í peningana til Vestfjarða, þá hefði það tekizt, en ekki fara hér upp í ræðustól og mjálma og mjálma, áður en hann veiðir. Ég hef satt að segja ekki nokkra einustu trú á því, að það væri ekki hægt að fá upplýsingar um, hvað Vestfirðir ættu að fá. Vegamálastjóri bað okkur um að koma til sín, þm. Norðurl. v. Við fórum til hans, við bárum fram okkar óskir, og hann gaf okkur upplýsingar, og þetta var allt í bróðerni. Ég hef enga trú á því, að við séum nein eftirlætisbörn hjá honum. Annars vil ég ekki leyfa mér að segja, að hv. þm. segi neitt ósatt, það er ekki þannig. Ég held bara, að það hafi einhvern veginn ekki verið gengið rétt eftir þessu, ekki verið haft lag kattarins að reyna að veiða sem mest. Vitanlega þurfa þeir að fá meira fé, þessir menn. En það er hægt að læra af mörgu. Það er hægt að læra af Heimskringlu, og það er meira að segja hægt að læra af ketti. Ég ætla mér nú ekki að reyna að ala þennan hv. þm. upp, þótt ég gæfi honum föðurlegar og vinsamlegar leiðbeiningar um, að hann notaði ekki réttar aðferðir. Það eru engir mannasíðir að vaða upp með skammir og vanþakklæti fyrir þessa vinsamlegu leiðbeiningu. Ég ætlast ekki til, að hann fari að læra af Heimskringlu beinlínis eða Snorra, því að hann er nú svo hátt yfir okkur hafinn með andans yfirburði, en af kettinum ætti hann alltaf að geta lært.