08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (2543)

211. mál, vegáætlun 1964

Axel Jónason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég gat þess hér í minni fyrri ræðu í kvöld, að ég tel, að höfuðsök á því, að ekki er búið að ganga frá skipulagi í miðbæ Kópavogs og þar með ákveða og staðsetja Reykjanesbrautina um það svæði, lægi í því, að fyrrv. bæjaryfirvöld Kópavogs hefðu ekki sinnt því máli sem skyldi.

Hv. 10. landsk. var að reyna hér áðan að mæla gegn þessu og taldi, að hér væri fyrst og fremst um sök ríkisins, skipulagsnefndar og vegamálastjóra að ræða. Hann gat þess, að skipulag og staðsetning Reykjanesbrautar í gegnum miðbæ Kópavogs ætti að ákveðast af skipulagsstjórn, vegamálastjóra og bæjaryfirvöldunum í Kópavogi. Þetta er rétt. Þessir aðilar í samvinnu eiga að ákveða þessi mál. En ég hygg, að hv. þm. sé ekki verulega kunnugur gangi þessara mála, því að hann sagði líka orðrétt: Það er ekki til neins fyrir bæjarstjórn Kópavogs að ákveða vegarstæði Reykjanesbrautar í gegnum Kópavog upp á sitt eindæmi. — Þetta er alveg rétt. En þetta var einmitt það, sem hans flokksbræður í fyrrverandi meiri hl. bæjarstjórnar Kópavogs ætluðu sér að gera og töfðu alla framkvæmd við skipulagningu á þessu svæði um hartnær tveggja ára skeið með þessum vinnubrögðum. í stað þess að fara að ráðum skipulagsstjóra ríkisins og efna til hugmyndasamkeppni um miðbæjarskipulagið, sem vissulega er mikið verkefni skipulagslega séð, ganga þeir þar þvert á móti og án þess að hafa nokkurt samráð við hann ráða til þess arkitekt að gera þetta skipulag upp á sitt eindæmi. Þetta tafði málið í tvö ár. Og það gerði meira. Þegar núverandi bæjaryfirvöld ákváðu að efna til hugmyndasamkeppni, töfðu þessi fyrrverandi vinnubrögð hv. flokksbræðra 10. landsk. þm. einnig fyrir framgangi málsins, því að það tók nokkuð langan tíma að fá Arkitektafélag Íslands til þess að viðurkenna fyrirhugaða samkeppni, vegna þeirra vinnubragða, sem við höfðu verið höfð í þessu máli áður, þannig að allir, sem til þekkja, vita glöggt, að það var fyrst og fremst vegna þess, að bæjarstjórn Kópavogs var fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar lítt til viðtals um skipulagsmál, hvorki hvað þetta snertir né annað, og af þeim sökum stendur þetta mál eins og það er í dag. Það eru fyrstu vonir til þess, að hægt verði að fara að vinna úr skipulagssamkeppninni síðast á þessu ári, ef það verður þá fyrr en seinni hluta næsta vetrar, og þarna liggur höfuðástæðan fyrir því, að í dag stöndum við andspænis því, að þótt við viljum hefja varanlegar endurbætur á þessari miklu umferðaræð í gegnum Kópavog, þá er það ekki hægt, vegna þess að skipulagsmálin eru í algeru ófremdarástandi, og ástæðan er fyrst og fremst sú, sem ég rakti hér áðan.