08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (2544)

211. mál, vegáætlun 1964

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég sannfærðist alveg um það áðan, þegar hv. 5. þm. Norðurl. v. talaði, að hann hefur ekki tært af Snorra. En hann hefur lært af kettinum, það er alveg greinilegt, og er útskrifaður í því. Þó gerir hann annað en kisa gerir, og það á ekki hvað sízt við þá hv. þm., sem virðast vera hinir ánægðustu með það, þegar gengið hefur verið á rétt þeirra kjördæmis, því að þá sýna þeir ánægjuhljóð sín. En það væri sama og kisu væri strokið móti hárunum, þá mundi hún urra, og ef þeir hefðu nú brugðizt eins við og kisa í þessu, Þá held ég, að stjórnin hefði tekið til greina þeirra óskir. En þeir virðast bara vera hjartanlega ánægðir. Þegar kisu er strokið og látið vel að henni, þá malar hún. En að sýna af sér ánægjuhljóð, þegar er gengið gegn hagsmunum þeirra kjördæmis og þeirra umbjóðenda, það er það, sem ég hef verið að áfellast menn fyrir hér.

Um ræðu hv. 11. landsk. ætla ég ekki að fara mörgum orðum, aðeins segja það, að þegar menn koma heim í Vestfjarðakjördæmi, eftir að gullin loforð höfðu verið gefin um, að það yrði mikið um auknar fjárveitingar til vegamála, þegar vegáætlunin yrði afgreidd, og verða svo að játa, að þá hefur hlutfall Þeirra fallið úr 19.5% í 14.4%, Þá held ég, að það sé betra fyrir þá að hafa sem fæst orð um, og það hafa ýmsir af hv. stjórnarþm. úr Vestfjarðakjördæmi gert. Þeir hafa haft um það fá orð, og það var hyggilegt. Og svo skal ég aðeins undirstrika eina setningu úr ræðu hv. 11. landsk. þm.: Þingmenn eru hér til þess að sjá um að fá fjárveitingar fyrir sín kjördæmi. — Og það vildi ég, að þeir hefðu munað, og það vona ég, að þeir muni fram yfir atkvgr. um þá till., sem hér liggur fyrir.