16.12.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

1. mál, fjárlög 1964

Frsm:

(Jónas G. Rafnar): Herra forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1964 var útbýtt hér á hæstv. Alþ. 14. okt. s.l. sem 1. máli þingsins. Hefur sá háttur verið á hafður nú síðustu árin og er vel til fallinn, þar sem afgreiðsla þess er án efa þýðingarmesta viðfangsefni Alþ. hverju sinni. Segja má, að niðurstaða fjárlaganna lýsi betur en nokkuð annað þjóðarbúskapnum, þegar á heildina er litið, enda varða ákvæði fjárlaganna alla þætti atvinnulífsins að meira eða minna leyti til sjávar og sveita, menningar- og mannúðarmálin öll. Þá má ekki gleyma því, að með fjárlögunum er farið ofan í pyngju skattgreiðenda í landinu, en þeim ber lögum samkvæmt að standa undir útgjöldum landssjóðsins. Því má segja, að fyrirmæli fjárlaganna hafi þýðingu fyrir landsmenn alla, hvar í stétt sem þeir standa, en þó misjafnlega mikla. Ég nefni sem dæmi: fyrir íbúa afskekktra sveita getur það ráðið úrslitum, hvort þeir haldi þar áfram búsetu, að fé fáist til að koma þeim í samband við umheiminn, eins og það er svo oft orðað á fundum og í blöðum. í mörgum sveitum getur mjólkurframleiðsla ekki hafizt að nokkru ráði, fyrr en vegir hafa verið svo lagðir, að um þá megi fara með stærri ökutækjum svo til allt árið um kring. Sveitarfélag, sem byggir afkomu sína á sjávarafla, verður að hafa viðhlítandi höfn. Hún er grundvöllurinn, sem allt byggist raunverulega á. Í strjálbýlinu óskar fólkið eðlilega eftir því að fá sem allra fyrst að njóta raforkunnar, og án hennar getur þar aldrei orðið um neinn iðnað að ræða, sem nokkru máli skiptir. Í öllum þessum tilfellum veltur á framkvæmdum, sem að öllu eða nokkru leyti eru kostaðar af ríkisfé. Hins vegar má segja, að afgreiðsla fjárlaganna snerti ekki eins áþreifanlega allan almenning í þéttbýlustu landshlutum. Þar eru það aðrir straumar, sem fremur ráða, — straumar, sem að sjálfsögðu varða þjóðina alla, en eru ekki beinlínis háðir ákvörðunum sjálfs Alþ. eins og fjárlögin.

1. umr. um fjárlagafrv. fór hér fram á hæstv. Alþ. 22. okt. s.l. Hæstv. fjmrh. gerði þá ýtarlega grein fyrir efni þess og þeim ástæðum, sem leitt hafa til breytinga frá gildandi fjárlögum. Miðað við fjárlög yfirstandandi árs hækka rekstrarútgjöld samkvæmt frv. um 329.2 millj. kr. Hækkun launa samkvæmt kjaradómi veldur þar mestu um og svo almennar kauphækkanir í landinu, sem munu nema á milli 12 og 13%, og þá einnig stórkostlega aukið framlag til tryggingamála.

Með tilvísun til framsöguræðu hæstv. fjmrh. mun ég fyrst takmarka mál mitt við þær brtt., sem öll fjvn. leggur til að gerðar verði á útgjaldaliðum frv. Frv. var vísað til nefndarinnar 23. okt., en hún hafði áður byrjað athugun sína á því. Til þessa hefur nefndin haldið 40 fundi og tekið til athugunar og afgreiðslu 435 erindi varðandi fjárlagafrv., og enn bíða fjöldamörg erindi afgreiðslu.

Ég vil leyfa mér að þakka öllum nefndarmönnum fyrir gott samstarf og drengileg vinnubrögð. Innan nefndarinnar hefur að sjálfsögðu oft risið ágreiningur og hverjum sýnzt sitt, bæði um tillögugerð og samþykktir. Það mun jafnan fylgja okkar ágæta lýðræðisfyrirkomulagi.

Fjvn. var ekki sammála um endanlega afgreiðslu frv., eins og fram kemur á þskj. frá 1. og 2. minni hl. n. Hins vegar stendur n. óskipt að þeim brtt. við frv., sem tilgreindar eru á þskj. 131, en fulltrúar Alþb. og Framsfl. í nefndinni hafa áskilið sér rétt til þess að flytja og fylgja brtt. við þær og aðrar, sem fram kunna að koma við frv.

Fjvn. hóf starf sitt með því að fara yfir fjárlagafrv. og bera það saman við gildandi fjárlög og ríkisreikning 1962. Nefndin boðaði til sín forstöðumenn ríkisstofnana og átti við þá ýtarlegar viðræður. Þá tók n. til athugunar álitsgerðir og till. um fjárveitingar frá hinum ýmsu ráðuneytum og las yfir, ræddi og afgreiddi fjöldamörg erindi frá einstaklingum og félagssamtökum.

Ég vil taka fram. að æskilegt væri, að fjvn. hefði tök á að verja meiri, tíma en raun er á til viðræðna við forstöðumenn ríkisstofnana og til kynnisferða, þar sem sjón er oftast nær sögu ríkari.

Ég hef getið þess, að ég muni takmarka mál mitt við brtt. á þskj. 131. Ég mun aðeins gera grein fyrir þeim helztu og í sem fæstum orðum.

Þá vík ég fyrst að útgjaldaliðum frv. og mun síðar koma að tekjugreinum þess og heildaniðurstöðunni, eins og hún liggur fyrir við þessa umr.

Till. er gerð um eftirfarandi breytingar á gjaldabálkinum:

Við 7. gr. frv. Vextir af innlendum lánum hækki um 321 þús. kr. vegna nýrra lána, sem tekin hafa verið vegna ríkisspítalanna, eftir að frv. til fjárlaga var samið.

Við 8. og 9. gr. frv. eru engar brtt. fluttar við þessa umr.

Við 10. gr. frv. eru fluttar brtt., sem leiða af sér hækkun á greininni, sem nemur samtals 282672 kr. Hækkunin stafar að mestu leyti af nýjum lið: Tillag til World Food Program á vegum FAO, 215 þús. kr. Með framlagi þessu á víst Ísland að bætast í hóp þeirra fjöldamörgu ríkja, sem veita matvælahjálp til þurfandi þjóða. Í erindi er lagt til, að upphæð þessari verði varið hér heima til kaupa á skreið, sem síðar yrði þá send til þeirra þjóða, sem hjálpa á. — Þá er í greinina tekinn upp nýr liður, 16 þús. kr., til Alþjóðarauðakrossins, en 0.04% af heildarútgjöldum hans nema þeirri upphæð í íslenzkum krónum. Rauði kross Íslands mun í mörg ár hafa lagt af mörkum nokkra upphæð til hinnar alþjóðlegu starfsemi hans.

N. leggur til nokkrar hækkanir á 11. gr. frv., samtáls að fjárhæð 2 739 040 kr. Þessi hækkun stafar að verulegu leyti af breytingum á launaliðum. Lagt er m.a. til að hækka annan kostnað við sakadómaraembættið um 1300 þús. kr. vegna flutnings embættisins í annað húsnæði, sem þegar hefur leitt þann kostnað af sér. — Framlag til sumar- og vetrarlöggæzlu á nokkrum stöðum hækkar samtals um 70 þús. kr. — Þá þótti óhjákvæmilegt að leggja fram aukið fé til rekstrar vinnuhælisins að Kvíabryggju og til útgáfu hæstaréttardóma, en prentkostnaður hefur mikið hækkað að undanförnu, eins og kunnugt er.

Þá leyfi ég mér að víkja að 12. gr. frv., sem fjallar um heilbrigðismálin. Launagreiðslur á gr. hækka samtals um 1067150 kr. vegna of lágrar áætlunar, sem fram hefur komið, eftir að frv. var samið. Yfirleitt hækka laun á 12. gr. mikið frá fjárlögum vegna niðurstöðu kjaradóms. Nú eru daggjöld á spítölum og heilsuhælum 210 kr. og 150 kr. Þar sem ákveðið hefur verið, að daggjöld skuli hækka í 300 kr. á spítölunum og 200 kr. á heilsuhælunum, þá hækka tekjuliðir sjúkrahúsanna verulega eða samtals á gr. um 18 millj. og 50 þús. kr. Hækkun þessi leiðir svo að sér hækkanir á 17. gr., sem ég vík að síðar.

Varðandi þessa gr. leggur nefndin m.a. til, að annar kostnaður heilsuhælisins að Vífilsstöðum hækki um 250 þús. kr. til endurnýjunar á nauðsynlegustu húsgögnum og til þess að setja handlaugar í nokkrar stofur. — N. fór að Kleppi til að kynna sér útbúnað stofnunarinnar, og er leitt að þurfa að skýra frá því, að mikill skortur er þar á húsgögnum og yfirleitt vöntun á sómasamlegum skilyrðum, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. N. leggur því til, að tekinn verði upp nýr liður varðandi rekstur Kleppsspítala: til húsgagna- og áhaldakaupa 1 millj. Má þá bæta ástandið að verulegu leyti. Óhjákvæmilegt verður að gera sem allra fyrst róttækar ráðstafanir til að auka húsrými fyrir geðsjúklinga í landinu. Það mál er í athugun hjá ríkisstj., og fást vonandi úrbætur, áður en langt um líður, á þessu sviði.

Ég vil geta þess, að Kristneshæli sótti til n. um 350 þús. kr. til kaupa á flutningabíl. Bíllinn, sem nú er í notkun, er 15 ára gamall og endurnýjun því óhjákvæmileg. N. ætlast til þess, að nýr bíll verði keyptur fyrir hælið fyrir fé úr fyrningarsjóði ríkisbifreiða, sbr. 20. gr. fjárlaga, en þar eru ætlaðar 4 millj. kr. í þennan fyrningarsjóð.

Georg Lúðvíksson forstöðumaður ríkisspítalanna og Sigurður Sigurðsson landlæknir mættu báðir á fundum n. og gáfu henni margvíslegar upplýsingar um rekstur ríkisspítalanna og annarra sjúkrahúsa, — sem eru á vegum bæjar- og sveitarfélaganna. Það er alls kostar ljóst, að rekstrarafkoman hefur stórkostlega versnað að undanförnu og þá m.a. fyrst og fremst vegna kjaradóms. Nefna má sem dæmi, að á árinu 1962 námu launagreiðslur landsspítalans 16.3 millj. kr., en þær eru áætlaðar á næsta ári 39.4 millj. Að sjálfsögðu stafar þessi hækkun að nokkru af fjölgun starfsfólks vegna opnunar nýrrar deildar við spítalann, en þó að mestu leyti af beinum launahækkunum. Meðaltalskostnaður stærri sjúkrahúsa úti á landi á legudag mun á árinu 1962 hafa numið frá 280–290 kr., en er áætlaður á næsta ári ekki undir 420 kr. Upp í þennan kostnað fá sjúkrahúsin greidd daggjöldin frá sjúkrasamlögunum, sem verða á næsta ári 300 kr., svo og að auki nokkurn rekstrarstyrk á legudag beint úr ríkissjóði, sbr. 12. gr. VI. Að öðru leyti verða sveitarfélögin sjálf að standa undir rekstrinum. Ég vil til fróðleiks geta þess, að árið 1953 stóð daggjaldið undir 61% af kostnaði landsspítalans, en í ár mun það ekki ná meira en um 30% af kostnaði. Kostnaður á legudag á landsspítalanum er áætlaður á næsta ári um 800 kr., en mun sennilega í ár verða eitthvað í kringum 650 kr.

Lögin um sjúkrahús eru nú í endurskoðun, og má búast við því, að frv. til nýrra laga um sjúkrahús verði lagt fram nú á þessu þingi.

Landlæknir gerði n. ýtarlega grein fyrir fjárþörfinni vegna byggingarframkvæmda ríkisspítalanna og vegna sjúkrahúsabygginga sveitarfélaganna. Á fjárlagafrv. er eins og í fjárlögum í ár gert ráð fyrir 7 millj. kr. byggingarstyrk til sjúkrahúsa, sjúkraskýla og læknisbústaða. Vegna þessara framkvæmda mun ríkið nú vera á eftir með sinn hluta, vegna Borgarsjúkrahússins um ca. 15 millj. kr. og til annarra sjúkrahúsa úti á landsbyggðinni milli 15 og 20 millj. kr. Ríkisstj. mun hafa þetta vandamál til heildarathugunar, og má vænta tillagna frá henni á næstunni. Ég vil vona, að framlagið, 7 millj. kr., sem er á frv., geti að mestu leyti gengið til nýrra framkvæmda á næsta ári.

Um málefni ríkisspítalanna og framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á þeirra vegum á næstu árum, væri unnt að flytja langt mál, en það verður þó ekki gert að þessu sinni. Stækkun landsspítalans hefur verið mikið átak, sem að sjálfsögðu kostar stórfé. Heildaráætlun hefur nú verið gerð um skipulag á landsspítalalóðinni, sem mjög fróðlegt er að kynna sér. Úti á landi er fyrirhuguð aukning við sjúkrahús og nýbyggingar, t. d. á Akureyri, Húsavík, Akranesi og í Vestmannaeyjum.

Þá er samkv. till. n. tekinn upp nýr liður á 12. gr.: byggingarstyrkur til heilsuhælis Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, 200 þús. kr. Sá liður þarfnast ekki nánari skýringa, þar sem flestum mun vera kunnugt um þátt félagsins í heilsugæzlunni.

12. gr. lækkar og er eina grein frv., sem lækkar. Hún lækkar um 15 532 900 kr. vegna hækkunar daggjalda á sjúkrahúsum og heilsuhælum, sem ég áður hef lýst og nemur um 18 millj. kr., sem svo aftur kemur til útgjalda á 17. gr. frv.

13. gr. A fjallar um vegamál. Till. n. varðandi þá grein verða ekki fluttar fyrr en við 3. umr. Innan n. náðist um það samkomulag, þar sem frv. til vegamála liggur fyrir þinginu, en afgreiðsla þess mun væntanlega hafa í för með sér stórvægilegar breytingar á tekjuöflun og framlögum til samgöngumálanna í landinu.

Lagt er til, að styrkur til að halda uppi byggð og gistingu fyrir ferðamenn hækki um 60 þús. kr., en forða verður frá því, að byggð falli alveg niður á langleiðum. Teknir eru upp á greinina tveir nýir liðir, sem ekki þarfnast skýringa: til Guðmundar Jónassonar til rekstrar snjóbíla 20 þús. kr. og til rekstrar snjóbíls á Fljótsdalshéraði 30 þús. kr., en sá bíll er og verður m.a. notaður til sjúkraflutninga. — Við þessa umr. hækkar 13. gr. A þannig ekki nema um 110 þús. kr.

13. gr. B fjallar um samgöngur á sjó. Fyrsti liðurinn er um Skipaútgerð ríkisins. Forstjóri Skipaútgerðarinnar, Guðjón Teitsson, mætti hjá n. og afhenti henni ýtarlega grg., dagsetta í nóv. 1963, um fjárhagsafkomu útgerðarinnar. í nefndri grg, kemst framkvæmdastjórinn að þeirri niðurstöðu, að Skipaútgerðin muni á næsta ári ekki komast af með minna en 25 millj. kr. ríkisstyrk, en á frv. eru henni ætlaðar 15 millj. kr. Með bréfi skömmu síðar bætti framkvæmdastjórinn svo við þessa áætlun sína um 2.9 millj. kr., en þannig, að hallinn verði áætlaður tæpar 28 millj. kr. Í skýrslum sínum bendir framkvæmdastjórinn á, að í sambandi við fjárhagsáætlun fyrir árið 1964 verði að taka tillit til þess, að þá eigi að fara fram flokkunarviðgerðir á 4 eða 5 skipum og óhjákvæmileg sé viðgerð á öllum strokkbullum aðalvéla m/s Esju. Þessi viðgerð ein virðist vera áætluð kosta um 2.9 millj. kr. Rekstur Skipaútgerðar ríkisins og framtíð hennar hefur nú alllengi verið í athugun og vonandi, að niðurstaða, sem leiði af sér sparnað, fáist, áður en langt um líður. Fjvn. gerir það að till. sinni, að Skipaútgerð ríkisins hækki um 3 millj. og liðurinn verði samtals 18 millj. Er á það treyst og ég vil undirstrika það, að raunverulegar sparnaðarráðstafanir verði framkvæmdar hjá Skipaútgerðinni á næsta ári.

Við 3. umr. frv. verður gerð grein fyrir skiptingu á fé til flóabáta og vöruflutninga, sem nú er áætlað 4.8 millj. kr. Samgöngumálanefndir þingsins munu gera till. um skiptinguna.

Samkv. till. n. hækkar 13. gr. B þannig um 3 millj. kr.

Varðandi 13. gr. C leggur n. til, að framlag vegna rekstrar vitaskips hækki um 250 þús., og er það gert með hliðsjón af þeirri reynslu, sem þegar er fengin. Vitamálastjóri taldi erfitt að áætla með nokkurri vissu tekjur skipsins á næsta ári, en þær munu þó örugglega verða allverulegar. — Liðurinn til áhaldakaupa hækkar um 500 þús. kr., en vitamálastjóri fór fram á mun meiri hækkun, þar sem á næsta ári þyrfti að greiða afborganir og vexti af láni, sem fengið var hjá sölunefnd varnarliðseigna. Vitamálaskrifstofuna vantar sem áður — það er ekkert nýtt — ýmis tæki, og nefni ég sem dæmi kranabíl, bortæki og sanddælu, sem sennilega mun kosta um 10 millj., ef keypt yrði. Ef mæta ætti þessum þörfum að einhverju leyti, er ljóst, að lántaka verður óhjákvæmileg.

Vitamálastjóri lét n. í té upplýsingar um byggingarkostnað hafnanna á yfirstandandi ári, sem er áætlaður um 87 millj. kr., og kostnaður við landshafnir um 13 millj. kr. Þorlákshöfn er talin í fyrri upphæðinni, en þar var unnið fyrir um 15 millj. kr. Samkv. áætlun á að vinna við hafnargerðir á næsta ári fyrir um 104 millj. kr. Landshafnir eru þar fyrir utan, en vitamálastjóri taldi, að ekki yrði unnið nema fyrir 70 millj. Vegna framkvæmda á næsta ári, miðað við þá upphæð, þarf því ríkið að greiða um 30 millj. Vangreidd framlög ríkisins nema við árslok 1963 um 41 millj. kr. Fjvn. hækkar hafnarféð um 550 þús. kr., og nemur það þannig í ár 17 millj. 550 þús., auk hafnarbótasjóðs, sem er upp á 8 millj. Til þess að tryggja nauðsynlegar framkvæmdir við hafnirnar á næsta ári hefur ríkisstj. leiðir til athugunar, þ. á m. lántökur og úrræði til þess að greiða eitthvað af halanum, þ.e.a.s. gömlu skuldunum.

13. gr. C hækkar um 1 millj. 300 þús. kr.

13. gr. D fjallar um flugmál. N. leiðréttir launalið við stjórn flugmála, það er hækkun upp á rúmlega 101 þús. kr., en laun flugráðs féllu niður af vangá. — Viðhald og varðveizla mannvirkja hækkar um 400 þús. — Þá þarf að hækka til leiðréttingar 10. lið gr., alþjóðaflugþjónustuna, um 189723 kr., en það er liður upp á hvorki meira né minna en 60 millj. kr., og langsamlega mestur hlutinn af þessum kostnaði er greiddur með alþjóðatillagi. Þá leggur n. til, að tekjur af Keflavíkurflugvelli verði áætlaðar 3 millj. kr. lægri en þær eru í frv., og er í því efni stuðzt við fengna reynslu, bæði frá því í fyrra og þá reynslu, sem komin er á nú í ár. Útgjaldahækkun 13. gr. D nemur þannig samtals 3 740 835 kr. Fjárveiting til flugvallagerðar og öryggistækja er á 20. gr., og verður síðar að henni vikið.

Ég vil aðeins geta þess, að flugmálastjóri, Agnar Kofoed Hansen, mætti á fundi n. og ræddi þar ýtarlega fjármálin og allar brýnustu þarfir flugþjónustunnar. Mun mjög mikið á skorta til að fullnægja þeim verkefnum, sem fram undan eru á því sviði. Að undanförnu hafa, átt sér stað umr. um það, hvað gera skyldi í flugvallarmálum höfuðstaðarins og hvernig innan- og utanlandsflug verði tryggt í framtíðinni með sem hagstæðustu móti. Í því sambandi hefur m.a. til greina komið, að starfsemi við millilandaflugið yrði alveg flutt á Keflavíkurflugvöll. Einnig hefur farið fram athugun á því, hvað kosta mundi að gera millilandaflugvöll á Álftanesi. Það mun vera til áætlun í sambandi við Álftanes í kringum 420 millj., í Garðahrauni áætlun upp á 320 millj., og svo hefur athugun farið fram varðandi væntanlega flugvallargerð í Kapelluhrauni. Allt þetta vandamál er í athugun hjá flugmrh., flugráði og borgaryfirvöldunum hér í Reykjavík. En flugmálastjóri kveðst áætla, að það mundi kosta í kringum 60 millj. að koma Reykjavíkurflugvelli, eins og nú stæði, í viðunandi horf fyrir framtíðina. Ég tel, að ekki megi dragast mjög lengi úr þessu að taka fullnaðarákvarðanir um það, hvaða stefnu eigi að fylgja í flugvallarmálum Reykjavíkurborgar og nágrennis. Flugið mun stöðugt færa út kvíarnar og verða æ ríkari þáttur í atvinnulífi okkar Íslendinga. Þegar hefur margvíslegra gagna verið aflað í málinu og upplýsingar fengizt, en úr þessu öllu þarf að vinna, og það má ekki dragast mjög lengi.

Samkv. till. fjvn. kemur 13. gr. E. sem fjallar um veðurþjónustuna, til með að hækka um 515 þús. Hækkunin er að mestu leyti vegna launa, eins og brtt. bera með sér, og vegna hækkunar á símakostnaði, 258 þús. kr., sem láðist að taka tillit til, þegar gengið var frá frv. — Þá verður á greininni samkv. till. n. nýr liður: Til veðurathugana á hálendi Íslands 70 þús. kr., og þarfnast hann ekki nánari skýringa, en slíkar athuganir munu hafa farið fram í sumar og taldar mjög gagnlegar og nauðsynlegar í framtíðinni.

13. gr. F. sem fjallar um ýmis mál, hækkar samtals um 454 960 kr., og þar af eru launahækkanir 264 þús. kr. Stýrimannaskólinn þarf nauðsynlega að kaupa nýjan radar, sem greiða má á 2 árum, og verður liðurinn: Til áhaldakaupa því að hækka um 100 þús. kr. — Þá er á greininni nýr liður: Til Flugbjörgunarsveitar Akureyrar 500 þús. kr. Flugbjörgunarsveitin þarf á þessum styrk að halda til endurbóta á flutningatækjum og til talstöðvakaupa. Sveitin hefur áður fengið framlag á fjárlögum í sama skyni, en hún hefur starfað í mörg ár við góðan orðstír. Komi til slysa, er sveitin jafnan reiðubúin til aðstoðar og leitar. Allt sem hún gerir, er unnið í sjálfboðavinnu, og fjöldamargir einstaklingar hafa lagt henni fé til kaupa á nauðsynlegum búnaði og tækjum.

14. gr. A fjallar um kennslumál og nokkur önnur menningarmál. Í meðförum n. hefur greinin hækkað samtals um 15 024 803 kr. Ég mun aðeins geta um helztu breytingarnar á greininni, þar sem of langt mál yrði að fara út í hvern einstakan lið og skýra hann. Þá mun ég með örfáum orðum gera grein fyrir nýjum framlögum, sem n. leggur til, að tekin verði upp á greinina.

Útgjöld vegna Háskóla Íslands hækka nokkuð og þá sérstaklega 21. liðurinn, til sérlestrarherbergja stúdenta, sem hækkar um 200 þús. kr. Sú upphæð mun ganga í kaup á húsinu Aragötu 9 í því skyni að innrétta það sem sérlestrarherbergi stúdenta, en húsakostur háskólabókasafnsins er nú orðinn með öllu ófullnægjandi. Laun og stundakennsla hækka samtals um 201920 kr. Viðhald menntaskólans á Akureyri hækkar um 200 þús. kr., en þar er um gamalt timburhús að ræða, sem þarfnast stöðugra aðgerða, ef vel á að vera. Annar kostnaður við menntaskólann í Reykjavík hækkar um 50 þús. kr.

Þá eru á frv. nýir liðir, sem ekki þarfnast skýringa: Til bókasafns nemenda á Laugarvatni 5 þús. kr. og við vélskólann nýr liður, námsferðir 3 þús. kr. Liðurinn til framkvæmdar sundskyldu í skólum hækkar um 500 þús. kr., og mun því miður tvísýnt, hvort sú hækkun muni duga, en úr því verður reynslan að skera.

Á fjárlagafrv. eru ætlaðar 36 205 416 kr. til byggingar barnaskóla og íbúða fyrir skólastjóra, sem nú eru í smíðum. Aðalsteinn Eiríksson fjármálaeftirlitsmaður skála mætti hjá n. og lagði fyrir hana ýtarlega skýrslu um fjárþörf barnaskólanna, en samkv. l. er nú gert ráð fyrir því, að ríkið greiði sinn hluta stofnkostnaðar á 5 árum. Samkv. skýrslunni munu eftirstöðvar áætlaðs framlags ríkissjóðs nema um 99 millj. kr., og er upphæðin á frv. miðuð við þá tölu og fyrrnefnda 5 ára framlagsskyldu. En þar sem hækkanir hafa átt sér stað hjá skólabyggjendum frá upphaflegri áætlunargerð, m.a. vegna frávika frá uppdráttum og svo vegna almennra kauphækkana í landinu, þá leggur fjvn. til, að útgjöld til barnaskólanna, sem nú eru í smíðum, hækki um 5 850 058 kr. Á þskj. 131 er gerð till. um skiptingu fjárins, og fjölyrði ég ekki um hana, en við hana mun að mestu leyti hafa verið farið eftir till. Aðalsteins Eiríkssonar. A. fjárlagafrv. eru ætlaðar 8.5 millj. kr. til nýrra barnaskólabygginga og skólastjórabústaða. Helgi Elíasson fræðslumálastjóri mætti hjá n. og lagði fram ýtarlega grg. um þörfina fyrir nýjar skólabyggingar. N. hefur orðið sammála um, að framlag til nýrra barnaskólabygginga lækki að þessu sinni um 485 þús. kr. frá því, sem ráð er fyrir gert í frv. — Þá leggur n. til, að rekstrarliðir nokkurra skóla verði samtals hækkaðir um 1781750 kr., sem nánast mun vera leiðrétting. Samkv. till. n. hækka þannig fjárveitingar til barnaskólanna um 5119 642 kr. frá því, sem ráð er fyrir gert í frv.

N. leggur til, að framlag til byggingar gagnfræða- og héraðsskóla í smíðum hækki um 1124 825 kr. og til nýrra skólahúsa um 2 millj. kr. — N. hefur orðið að taka upp allháa upphæð vegna vanreiknaðra tryggingagjalda á frv., þ.e.a.s. XII, 27. tölul., XIII, 37. tölul., en samtals nemur þetta 950 þús. kr. — Þá taldi n. rétt samkv. tilmælum fræðslumálastjóra að hækka framlag til unglingafræðslu um 100 þús. kr. og liðinn annan kostnað við Hjúkrunarskóla Íslands um 200 þús. kr. Samkv. tilmælum menntmrn. var liðurinn til listkynningar í skólum hækkaður um 100 þús. kr.

Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi mætti á fundi n. og gerði grein fyrir afkomu íþróttasjóðs og möguleikum til þess að inna greiðslur af hendi á næstu árum. Hann upplýsti, að sjóðsstjórnin hefði sett sér þær reglur að greiða 40% af stofnkostnaði sundlauga, íþróttahúsa og íþróttavalla, 20% af skíðamannvirkjum og 30% af stærri íþróttatækjum. Miðað við þessar reglur hefði sjóðurinn að lokinni úthlutun 1963 átt vangreiddar vegna áætlaðrar þátttöku yfir 22 millj. kr. Öllum mun nú vera ljóst, að breyta verði um stefnu í málefnum íþróttasjóðs, og er raunverulega um tvennt að velja, annaðhvort að gera ráðstafanir til þess að stórauka tekjur hans eða þá í öðru lagi að setja sjóðnum nýjar og miklu þrengri reglur um þátttöku í framkvæmdum: Í fjárlagafrv. eru sjóðnum ætlaðar 3 millj. kr., en n. leggur til, að framlag til sjóðsins hækki um 1 millj. kr. Miðað við aðstæður hrekkur þessi hækkun skammt, og vil ég því undirstrika nauðsynina á, að málið verði hið fyrsta tekið til rækilegrar endurskoðunar.

Teknir eru upp á greinina nýir liðir til Handknattleikssambands Íslands vegna Norðurlandamóts í útihandknattleik kvenna, 50 þús. kr., sem fram á að fara hér á landi næsta sumar, en það mun vera fyrsta Norðurlandamótið í íþróttum, sem haldið hefur verið hér á Íslandi. — Þá er og Skáksambandi Íslands ætluð sama upphæð vegna alþjóðlegs skákmóts hér á landi, 50 þús. kr. — Veittar eru 250 þús. kr. til kaupa á rafstöð til Dvalarheimilis fyrir afvegaleidd börn og unglinga, en sú var ónýt, sem fyrir var. Einnig er samkv. till. viðkomandi rn. annar kostnaður dvalarheimilisins hækkaður um 345 þús. kr. þar að auki. — Erlendum námsmönnum í íslenzkum skólum er ætluð hækkun á styrkveitingu, sem nemur 100 þús. kr.

Fyrir n. lágu fjöldamörg erindi varðandi 14. gr. B, eins og jafnan hefur verið. Samkv. tilmælum þjóðminjavarðar féllst n. á, að auka þyrfti fjárveitingu til viðhalds hússins um 100 þús. kr., en vatn kemur inn með gluggum og veldur skemmdum. Einnig hækkar liðurinn til þjóðhátíðardeildar um 150 þús. kr., en með þeirri hækkun er ætlazt til, að Lúðvík Kristjánssyni gefist færi á að verja starfskröftum sínum til þess að skrá ýtarlega sögu um íslenzka sjávarhætti, en til þess er hann talinn allra manna hæfastur. Hann hefur um langan tíma unnið að því að draga saman frumheimildir um þetta efni. Þá hækkar launaliður við þjóðminjasafnið um 139 920 kr.

Kostnaður við útgáfu myndskrár, fyrsta greiðsla af þremur, 50 þús. kr., er samkv. tilmælum menntmrn. færður frá náttúrugripasafninu yfir á Listasafn ríkisins. Annar kostnaður listasafnsins hækkar um 100 þús. kr., en hann er of lágt áætlaður í frv. miðað við þau verkefni, sem fram undan eru. M.a. þarf að senda málverk til útlanda til innrömmunar, og mun það vera allkostnaðarsamt.

Kostnaður við fræðslumyndasafn ríkisins hækkar samkv. eindregnum tilmælum ráðuneytisins um 153 080 kr. Og nú er liðnum skipt, það eru laun 256 080 kr., kvikmyndagerð 250 þús., húsaleiga o. fl. 102 þús., annar kostnaður 100 þús., en samtals er allur liðurinn 708 080 krónur.

Eftirfarandi nýir liðir eru samkv. till. n. teknir inn á greinina: Til norræns móts laganema og lögfræðinga sumarið 1964 100 þús. kr., en það er á vegum lagadeildar. Til Sambands ísl. stúdenta erlendis 50 þús. kr., en það annast margvíslega fyrirgreiðslu fyrir stúdenta.

Á síðasta Alþingi voru samþykkt lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Með l. var ætlunin að koma föstu skipulagi á styrkveitingar úr ríkissjóði til tónlistarskólanna en þeir eru orðnir allmargir, eins og kunnugt er. Á fjárlögum hefur hver skóli, haft ákveðna upphæð, en með nýju lögunum er gert ráð fyrir því, að ríkisstyrkurinn fari ekki fram úr 1/3 hluta rekstrarkostnaðar viðkomandi skóla. Ber þeim, sem styrks ætla að njóta, að senda menntmrn. árlega endurskoðaðan rekstrar- og efnahagsreikning fyrir s.l. ár ásamt skýrslum um starfsemina. Í samræmi við lög þessi leggur fjvn. til, að tekinn verði upp á fjárlfrv. nýr liður: Til tónlistarskóla 1900 000 kr., en sérstyrkirnir til skólanna, sem nú eru á frv., verði þá jafnframt allir saman felldir niður. Styrkir þessir nema nú samtals röskri 1 millj. kr. Af breyt. leiðir því yfir 800 þús. kr. útgjaldahækkun fyrir ríkissjóðinn.

Hækkunartill. n. við 14. gr. B á frv. nema samtals 2 022 720 kr., en eins og ég gat um áðan hef ég ekki séð ástæðu til þess að gera grein fyrir öllum brtt við greinina, sem er ein fjölþættasta grein fjárlfrv.

N. mun fyrir 3. umr. skila till. um hækkun styrks til skálda, rithöfunda og listamanna, en sá liður var látinn bíða. Ég teldi því eðlilegt, að brtt., sem nú hafa komið fram við þann lið, verði teknar aftur til 3. umr.

Biskupinn mætti á fundi hjá n. og ræddi við hana um kirkjumálin, sem 15. gr. fjallar um. Áður hafði n. kynnt sér erindi biskupsembættisins og kirkjumrn. N. mælir með því, að liðurinn til endurbóta á gömlum. íbúðarhúsum á prestssetrum verði hækkaður um 1 millj. Vegna fjárskorts hefur viðhaldinu verið mjög ábótavant, en það hlýtur fyrr eða síðar að leiða til vandræða. Það hefur ekki verið talið búmannlegt að láta fasteignir níðast niður.

Þá leggur n. til, að teknir verði upp á greinina eftirfarandi nýir liðir: Til eftirlitsmanns með prestssetrum, kostnaður samtals 162 920 kr., og er ætlazt til, að hann hafi samvinnu við húsameistara ríkisins í starfi sínu. Af hálfu kirkjustjórnarinnar var lögð mjög mikil áherzla á nauðsyn þessa starfs. — Til sjúkrahúsaprests 30 þús. kr., en honum er ætlað að starfa í sjúkrahúsum borgarinnar. Hefur áður verið leitað eftir fjárveitingu í þessu skyni, en ekki fengizt: Þá var að lokum tekinn upp nýr liður: Til æskulýðsfélaga þjóðkirkjunnar á Suðurlandi vegna framkvæmda við sumarbúðir í Skálholti, 100 þús. kr., en þar eru hafnar byggingarframkvæmdir á vegum nefndra samtaka eins og Norðlendingar hafa gert við Vestmannavatn í Suður-Þingeyjarsýslu: — Samtals hækkar 15. gr. þannig um 1373 920 kr.

16. gr. fjárl. fjallar um framlög ríkisins til atvinnuveganna, og hefst hún á landbúnaði. Búnaðarmálastjóri, Halldór Pálsson, Pálmi Einarsson landnámsstjóri, stjórn vélasjóðs, framkvæmdastjóri vélasjóðs, Haraldur Árnason skógræktarstjóri, Hákon Bjarnason, og sandgræðslustjóri, Páll Sveinsson, mættu allir á fundum nefndarinnar og báru þar fram óskir sínar og till.

Búnaðarmálastjóri skýrði í stórum dráttum frá starfsemi Búnaðarfélagsins og lagði áherzlu á, að aukið fé fengist á fjárlögum til hennar. Sérstaklega benti hann á, að félagið þyrfti að fá ráðunauta í mjólkurvinnslu og mjólkurmeðferð, í garðrækt og búnaðarhagfræði. Yrðu þessir menn ráðnir, mundu laun þeirra nema samtals 442 800 kr. N. gerir það að till. sinni að hækka framlag til Búnaðarfélags Íslands um ½ millj. kr. til að mæta að nokkru leyti óskum forráðamanna þess.

Á frv. höfðu af vangá fallið niður laun veiðistjóra, 122 040 kr., og leiðréttir n. það. — N. leggur til, að tekin verði upp fjárveiting, fyrri greiðsla, 750 þús. kr., til kaupa á holræsaplóg. Plógurinn er keyptur frá Finnlandi og kostar með dráttarvél 1½ millj. kr. Notkun hans á að geta leitt af sér mikinn sparnað við gerð djúpra skurða, sem styrkt er af ríkisfé. — Liðurinn til kaupa á jarðræktarvélum hækkar um 250 þús. kr., en í því sambandi vil ég vísa til þeirrar lántökuheimildar, sem vélasjóður fær á 22. gr. samkv. till. n.N. leggur til sem fyrr nokkrar nýjar fjárveitingar varðandi landþurrkanir og fyrirhleðslur, sem ég tel ekki ástæðu til þess að gera sérstaka grein fyrir. — Skipting á fjárveitingu, rösklega 1½ millj., til sjóvarnargarða er framkvæmd samkv. till. vitamálastjóra. — Framlög til sandgræðslunnar hækka samkv. till. n. um 600 þús. kr., en hjá henni eru geysimikil verkefni fram undan, m.a. á Haukadalsheiði og við Þeistarreyki í Suður-Þingeyjarsýslu, en framkvæmdir sandgræðslunnar á Hólssandi munu hafa gefið mjög góða raun, og er það sannarlega gleðilegt. — Skógræktin hækkar um 227 þús. kr., en hún hefur auk fjárlfrv. tekjur af sölu vindlinga, sem á þessu ári gætu numið um 2 millj. kr. Af þessum vindlingaskatti renna 10% í landgræðslusjóð, en hann lánar skógræktarfélögum til starfsemi sinnar. Sjóðurinn mun nú nema um 4 millj. kr. Í landinu munu vera starfandi 29 skógræktarfélög með eina 10 þús. meðlimi. — N. hækkaði útgjöld til bændaskólans á Hvanneyri um 236 þús. kr., en þar af eru vanreiknuð laun 116 þús. kr. — Veiðimálaskrifstofan, annar kostnaður, hækkar um 100 þús. kr. vegna styrkveitinga til laxastiga samkv. lögum. — Framlag til byggingar húsmæðraskóla utan kaupstaða hækkar um tæpa 1½ millj., og er þessu framlagi skipt af n. — 16. gr. A hækkar þannig samtals um 5 446 450 krónur.

Þá er það 16. gr. B, sem fjallar um sjávarútvegsmál. Davíð Ólafsson fiskimálastjóri mætti á fundi hjá n. og gaf henni margvíslegar upplýsingar: N. kynnti sér skýrslu Þórðar Þorbjarnarsonar varðandi rannsóknir á vegum Fiskifélagsins. Hann telur, að á því sviði séu svo mörg verkefni óleyst, að nauðsyn beri til að stórauka framlög til rannsóknarstofunnar. N. leggur til 700 þús. kr. hækkun til Fiskifélagsins og gengur þá út frá því, að á verulegur hluti fjárins renni til rannsóknarstarfsemi á vegum þess. 16. gr. B hækkar samtals um 777.400 kr.

16. gr. C fjallar um iðnaðarmál. N. leggur til eftirfarandi hækkanir: Vegna byggingar iðnskólans í Reykjavík 1 millj., hækkun til iðnskólans á Akureyri, 200 þús. kr., og hækkun til iðnskólans á Selfossi, 43 25C kr. Hækkun á iðnskólunum er þannig samtals 1243 250 kr. — Þá hækkar framlag til iðnfræðsluráðs samkv. beiðni rn. um 150 þús. kr. Hækkunin á 16. gr. C er þannig 1393 250 kr.

16. gr. D fjallar um framlög til raforkumála o. fl. N. leggur til, að framlög til jarðhitasjóðs verði hækkuð um 1 millj. til þess að standa straum af kostnaði við vatnsleit í Vestmannaeyjum. Alkunnugt er það óhagræði, sem íbúar Vestmannaeyja hafa af vatnsleysi. Ber því nauðsyn til að leita allra ráða til þess að bæta úr því. — Till. varðandi framlög til nýrra raforkuframkvæmda munu bíða 3. umr. — 16. gr. D hækkar um 1 millj. við þessa umr. samkv. till. nefndarinnar.

16. gr. E fjallar um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. N. mælir með hækkun til Atvinnudeildar háskólans vegna launa og annars kostnaðar, 360 760 kr. Þá tekur hún upp nýjan lið til endurbóta á efnagreiningarsal, 1 millj. kr., og til rannsókna á aðferðum við bætta nýtingu á íslenzku ullinni, ½ millj. kr. — Það getur ekki dregizt lengur að framkvæma umbætur á húsakynnum rannsóknarstofu atvinnudeildarinnar, þar sem fyrir liggur bréf borgarlæknis í Reykjavík, að henni verður lokað í vetur, ef ekki fáist úrbætur. Sérstaklega er það gólfið, sem er illa farið og beinlínis talið heilsuspillandi fyrir starfsfólk stofnunarinnar. — Iðnmrn. leggur til, að nefnd fjárveiting, 500 þús. kr., verði tekin upp til þess að greiða kostnað af tilraunum, sem fram eiga að fara á því, hvort takast megi að aðskilja hina ólíku þræði ullarinnar, þel og tog, en þessi athugun mun verða framkvæmd í samvinnu við Norðmenn, en beri hún góðan árangur, má gera ráð fyrir stórhækkuðu ullarverði. — Þá er og tekinn upp nýr liður: Til uppgræðslutilrauna á hálendinu, 100 þús. kr., en með því er m.a. að því stefnt að auka beitarþol afréttarlanda, og mun ekki af veita. — 16. gr. E hækkar samtals um 2110 760 kr.

Á 17. gr., grein félagsmálanna, eru eftirfarandi breytingar helztar: Vatnsveiturnar hækki um 50 þús. kr., en mörg sveitarfélög standa í kostnaðarsömum vatnsveituframkvæmdum, sem ríkið styrkir samkv. lögum að nokkru leyti. — Til greiðslu kostnaðar við skipulag miðsvæðis Kópavogs eru veittar 100 þús. kr., en aðrir bæir hafa í því sambandi fengið svipaða fyrirgreiðslu, eins og t.d. Akureyri. Styrkur til Rauða kross Íslands hækkar um 155 þús. kr., en hann þarf nauðsynlega á auknu fé að halda vegna starfsemi sinnar, sem stöðugt fer vaxandi. Mun standa til að ráða fastan starfsmann, sem hafi framkvæmdir með höndum. — Teknir eru upp byggingarstyrkir til dagheimila fyrir börn í kaupstöðum, samtals 250 þús., en slíkir styrkir hafa oft verið veittir áður. — Þá er framlag til Egilsstaðakauptúns vegna skolpveituframkvæmda hækkað um 200 þús. kr., en það byggist á l. nr. 59 frá 1957, en þau skylda ríkið til að standa straum af kostnaði við veiturnar. Þar sem vinna á verkið á næsta sumri var upphæðin á frv. of lágt áætluð. — Styrkur til Æskulýðsráðs Íslands er hækkaður um 35 þús. kr. — Tekinn er upp nýr liður, byggingarstyrkur til Blindrafélagsins, 150 þús. kr. — Þá voru teknir upp nokkrir styrkir til vatnsöflunar, svo sem áður hefur verið gert. — Styrkur til orlofsheimila verkalýðssamtakanna hækkar um 525 þús. kr., verður 1 millj., og ætlast n. til að orlofsheimili A.S.Í., sem byrjað er á, fái eigi minna en 750 þús. kr. af þeirri upphæð.

Vegna hækkunar daggjalda úr 150 kr. og 210 kr. í 200 kr. og 300 kr. á sjúkrahúsum og heilsuhælum hækka framlög til sjúkratrygginga samkv. 55. gr. l. nr. 40 1963 um 15 millj., styrkur til berklasjúklinga um 2 378 000 kr. og styrkur til sjúklinga annarra en berklasjúklinga um 18 370 407 kr. Samtals nema þessar hækkanir 35 738 407 kr. Þar kemur svo á móti, að tekjur ríkisspítalanna hækka um röskar 18 millj.

Vegna 15% hækkunar á bótum almannatrygginga, nema fjölskyldubóta, frá 1. júlí 1963 til 31. des. 1964 hækkar framlag ríkissjóðs samkv. 23. gr. l. nr. 40 1963 um 32 700 000 krónur.

Samtals hækkar 17. gr. þannig um hvorki meira né minna en 70 643 407 kr.

Á 18. gr. frv. er tekinn upp nýr liður: Uppbætur á lífeyri samkv. 18. gr. frá 1. júlí 1963 til ársloka 1964, svo og uppbætur á lífeyri úr lífeyrissjóðum frá 1. júlí til 31. des. 1963, 3 millj. 870 þús. kr. Er það gert samkv. tilmælum fjmrn. og leiðir beint af þeim launahækkunum, sem orðið hafa. — Að öðru leyti, eins og fram kemur í nál., bíða brtt. við 18. gr. 3. umr.

Þá er lagt til, að eftirfarandi hækkanir verði samþykktar varðandi 20. gr.: 1) Afborganir lána ríkissjóðs hækki um 518 þús. kr. vegna nýrra lána til ríkisspítalanna, sem tekin hafa verið, eftir að frv. var samið. — 2) Framlag til viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana hækkar samkv. till. n. um 3 millj. Mikið fé vantar til þess að halda áfram framkvæmdum á þeirra vegum. Er það mál allt til athugunar hjá hæstv, ríkisstj. — Til endurbóta á heilsuhælinu Kristnesi 200 þús. kr., en þar er nú unnið að viðbyggingu við leguskála, og þar á að koma upp tveimur íbúðarhúsum fyrir starfsfólk. — 3) Til flugvallagerða og flugöryggistækja hækki um 2½ millj, kr., en ekki mun af veita, þar sem í ár hefur verið unnið fyrir 7–8 millj. kr. fyrir fram. — 4) Til byggingar garðyrkjuskólans á Reykjum 150 þús. — 5) Til byggingar íþróttakennaraskóla Íslands 200 þús. kr., en á fjárl. í ár var fyrst tekin upp fjárveiting til byggingar skólans, sem getur ekki dregizt öllu lengur. — 6) Til byggingar embættisbústaða héraðsdómara hækki um 300 þús. — 7) Til byggingar embættisbústaða dýralækna hækki um 400 þús. kr. — 8) Til byggingar sjómannaskólans hækki um 200 þús. kr., en leggja þarf í sérstakan kostnað vegna hitaveitunnar, þ.e.a.s. það þarf að greiða heimtaugargjald svonefnt.

Þá er á 20. gr. lagt til að taka upp eftirfarandi nýja liði: Til byggingar lögreglustöðvar á Akureyri 500 þús. kr., en hún er nú í smíðum. Hækkunin er samkv. tilmælum dómsmrn. En ég vil vekja athygli á því, að til byggingar fangahúsa er sérstakur liður á 12. gr., að fjárhæð 475 þús. kr. — Til byggingar jarðskjálftastöðvar á Akureyri. Fjárveiting þessi er tekin upp samkv. tilmælum veðurstofunnar, en hún hefur fengið að gjöf jarðskjálftamæla frá Bandaríkjunum gegn því skilyrði, að veðurstofan sæi um rekstur og uppsetningu þeirra og léti þeim í té afrit af jarðskjálftamælingum. Eftir athugun var Akureyri talin hentugasti staðurinn fyrir staðsetningu þessara jarðskjálftamæla, og náðst hefur um það samkomulag, að veðurstofan fái til eignar hluta í fyrirhuguðu húsi lögreglustöðvarinnar þar í bænum. — Þá er nýr liður: Til byggingar laxeldisstöðvar í Kollafirði. Við samningu frv. féll sá liður niður, en framkvæmdir eru þar byrjaðar fyrir alllöngu. — Og svo er að lokum nýr liður: Til kaupa á eignum Ræktunarfélags Norðurlands 1½ millj., en fyrir skömmu var gengið frá þessum kaupum. Ríkið hefur haft stöðina á leigu í 17 ár. Ræktunarfélag Norðurlands mun nota, eftir upplýsingum, sem ég hef fengið, um 500 þús. kr. af söluverðinu til stofnunar efnarannsóknarstofu á Norðurlandi, og að öðru leyti mun Ræktunarfélagið verja söluverðinu til ýmiss konar rannsóknarstarfa í þágu landbúnaðarins.

20. gr. Út hækkar þannig samtals um 12 millj. 98 þús. kr.

Þá er að lokum komið að 22. gr. frv., þ.e.a.s. heimildagr., og þar er lagt til að taka upp nokkra nýja liði: 1) Að leyfa Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins að greiða allt að 45 aurum til Slysavarnafélags Íslands og Íþróttasambands Íslands af hverjum seldum vindlingapakka, og skiptist gjaldið til þeirra að jöfnu. — 2) Að ábyrgjast allt að 3 millj. kr. lán til Hveragerðishrepps vegna hitaveituframkvæmda, gegn tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar. — 3) Að ábyrgjast allt að 3 millj. kr. lán til byggingarframkvæmda og umbóta á heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar. — 4) Að gefa eftir aðflutningsgjöld af jarðskjálftamælingatækjum fyrir Veðurstofu Íslands. — 5) Að greiða 15% uppbót á greiðslur samkv. 18. gr. fjárl. frá 1. júlí 1963. — 6) Að lána til Reykjanesbrautar jafnvirði 300 þús. dollara af mótvirðisfé. — 7) Að ábyrgjast allt að 50 millj. kr. lán fyrir Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands vegna byggingar Bændahallarinnar, með þeim skilyrðum og gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar. — 8) Að ábyrgjast allt að 70% af byggingarkostnaði nýs flóabáts fyrir farsvæði Breiðafjarðarbáts, Stykkishólmsbáts, gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar. — 9) Að ábyrgjast allt að 3 millj. kr. lán vegna byggingar Domus Medica, gegn tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar — 10) Að leyfa vélasjóði að taka allt að 3 millj. kr. lán til vélakaupa og ábyrgist ríkissjóður lánið.

Samkv. till. n., ef þær verða samþykktar, munu útgjaldaliðir fjárl. hækka samtals um 112 691217 kr.

Þá vík ég með örfáum orðum að tekjuhlið frv.

Meiri hl. n. leggur til, að eftirfarandi breytingar verði gerðar varðandi tekjuhlið frv. með hliðsjón af fenginni reynslu: Að tekju- og eignarskattur hækki um 35 millj. kr., aðflutningsgjöld hækki um 25 millj. kr., söluskattar hækki um 15 millj. kr., gjald af bifreiðum og bifhjólum hækki um 20 millj. kr., og hagnaður af áfengi og tóbaki hækki um 25 millj. kr. Þá nemur hækkun tekjuáætlunar samtals 120 millj. kr.

Verði allar hinar sameiginlegu till. n. samþ. og enn fremur till. meiri hl. um tekjuhlið frv., mun niðurstaða á sjóðsyfirliti verða þessi: Hækkun gjalda 128 224 217 kr. mínus lækkun gjalda 15 532 900 kr., hækkun gjalda samtals 112 691317 kr. Hækkun tekna 120 millj. plús greiðsluafgangur, eins og hann er áætlaður í fjárlfrv., 10 813186, tekjuauki alls þannig 130 813186 kr. Og niðurstöðutölurnar koma þá til með að verða samkv. till. n. við þessa umr.: Inn komi 2 659 675 000 kr. og út 2 641 553 131 kr., greiðsluafgangur 18 121 869 kr.

Eins og ég hef tekið fram, bíða enn nokkur mál óafgreidd hjá n., og þau atriði, sem sennilega mestu máli skipta og enn eru í athugun, eru ákvæði 13. gr. A, sem fjallar um vegamálin, og eins væntanleg brtt. varðandi framlag til nýrra raforkuframkvæmda, og þá bíður endurskoðun 18. gr. frv. 3. umr., eins og verið hefur undanfarandi ár.

Samvn. samgm. mun svo gera till. um skiptingu á styrk til flóabáta og vöruflutninga.