13.05.1964
Sameinað þing: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (2566)

132. mál, hægri handar akstur

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Till. þessi fjallar um það, að Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta hefja hið allra fyrsta undirbúning að því, að upp verði tekinn hægri handar akstur á Íslandi. Þessari till. var vísað til allshn. Allshn. sendi þessa till. til umsagnar þeim aðilum, sem mestra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við umferðarmál og mesta þekkingu hafa á þeim málum. Í öllum þeim umsögnum, sem komu fram til n., var sterklega mælt með því, að þessi till. verði samþ.

Það er í rauninni óþarft að vera að endurtaka hér hin þýðingarmiklu rök fyrir því að taka upp hægri handar akstur hér á landi innan skamms. Þau rök koma bæði fram í grg. með till. og hafa eins komið fram í framsöguræðu með henni.

N. hefur að fengnum áðurgreindum umsögnum og athugunum á þessu máli samþ. að mæla með því, að þessi till. verði samþ.