16.12.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

1. mál, fjárlög 1964

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Mér er sérstaklega ljúft að byrja mál mitt með því að þakka samstarfið í fjvn. að þessu sinni. Mæli ég þar fyrir munn okkar allra fulltrúa Framsfl. í n., er ég þakka samstarfið, og sérstaklega þó vil ég þakka formanni fyrir góða og röggsama stjórn, skipulögð vinnubrögð, góðan vilja til samstarfs og lipurð. Það er því ekki við formann að saka, þó að tími sá, sem hér er til afgreiðslu fjárlfrv., sé skammur.

Það verður að segjast eins og er, að það er mjög takmarkaður tími að ætla sér að afgreiða 2. og 3. umr. fjárlaga á einni viku. Hitt er jafnvíst, að nauðsyn ber til að halda þeirri reglu, að fjárlög verði afgreidd fyrir áramót. Hins vegar verður að gera sér grein fyrir því í upphafi þinghalds, hvort sá tími er nógu langur til fjárlagaafgreiðslu að hefja þing ekki fyrr en 10. okt. ár hvert. En því skulu þm. gæta vel að, að Alþingi þarf að halda reglu sinni og virðingu gagnvart fjárlagaafgreiðslu, sem er eitt af stærstu málum, sem reglulegt Alþingi afgreiðir á hverjum tíma.

Enda þótt samstarf okkar í fjvn. hafi að þessu sinni verið með bezta móti, fór það svo sem fyrr, að leiðir skildu, er til afgreiðslu kom á hinum stærri málum. Ber það að sjálfsögðu til, að fjárlög hvers tíma eru mörkuð af þeirri stjórnarstefnu, sem ríkjandi er í landinu, og þess vegna skilja leiðir með stjórnarsinnum og stjórnarandstæðingum, og er það ekki nema eðlileg afgreiðsla málsins. Hins vegar er það svo, eins og frsm. meiri hl. tók fram hér, hv. formaður n., að n. flýtur sameiginlega allmikið af till. á sérstöku þskj., sem er nr. 131. Formaður hefur nú gert grein fyrir þessum till., og þarf ég við það litlu að bæta, en afstaða okkar til þeirra er mörkuð í nál. okkar. En í sambandi við þær vil ég þó segja það, að þeim má í raun og veru skipta í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi er þar um að ræða till. frá ráðuneytunum, sem eru nánast leiðrétting á því, sem fram þurfti að koma við fjárlagaafgreiðsluna, en eftir lá, er fjárlagafrv. var samið. Í öðru lagi eru svo till., sem við sumir hverjir nm. hefðum kosið að meiri fjárveiting hefði fengizt til en samkomulag varð um í n. Sumar af þessum till. höfum við gert brtt. við, en aðrar ekki, og mun ég síðar gera grein fyrir þeim, sem við gerum brtt. við í þriðja málaflokknum eru svo þau mál sem við stöndum algerlega sameinaðir að. Í þeim málaflokki vil ég sérstaklega taka fram um skólamálin.

Að þessu sinni var fylgt þeirri reglu, sem fylgt hefur verið undanfarin þing, að unnið var að því í sameiningu að fá sameiginlega niðurstöðu um afgreiðslu skólamálanna. Mikil vinna var lögð í þá afgreiðslu af hálfu n. sem í aðra málaflokka. Í því sambandi lá fyrir n. grg. frá embættismönnum skólamála. Í fyrsta lagi lá fyrir n. grg. frá fjármálaeftirlitsmanni skóla. Í þeirri grg, var gerð glögg skýrsla um alla þá skóla, sem unnið er að nú í landinu. Það var gerð grein fyrir því, á hvaða stigi framkvæmdir stæðu, hvað ríkið væri búið að veita til framkvæmdarinnar og hvað gert hafði verið ráð fyrir í upphafi áætlunarinnar að ríkið þyrfti að veita til þessarar framkvæmdar. Í sambandi við þá grg. og í framhaldi af henni gerði fjármálaeftirlitsmaðurinn sérstaka grein fyrir þeim skólabyggingum, sem þyrftu leiðréttingar við, vegna þess að áætlun þeirra væri fjarri lagi. Skýrði hann í n. í sinni grg., hvaða stofnanir þetta væru og hvað leiðréttingin næmi miklu. Sú varð niðurstaða n. að taka þessar leiðréttingar algerlega óbreyttar frá hendi fjármálaeftirlitsmannsins, og námu þær í heild um 8.7 millj. kr. Um framkvæmd nýbygginga var svo farið eftir grg. og skýrslu sem lögð var fram af fræðslumálastjóra. Í þeirri skýrslu lágu fyrir allar þær umsóknir um nýjar skólabyggingar, sem fræðslumálastjóraembættinu höfðu borizt, enn fremur grg. fræðslumálastjóra um þörf þessara bygginga og í hvaða röð hann teldi að nauðsyn bæri til að samþykktar yrðu. Það fór svo sem fyrr, að ekki var hægt að taka allar þær umsóknir, sem fyrir lágu. En í sambandi við val umsókna var fylgt þeirri meginreglu, að þær umsóknir, sem næst voru því að verða samþykktar á síðasta þingi, urðu nú í fremsta flokki, og var um val umsóknanna stuðzt við álit þessara forráðamanna, sem ég hef hér greint, og hinar glöggu grg., sem fyrir lágu frá hendi fræðslumálastjóra. Var reynt að meta þetta að verðleikum, og treysti ég því, að hv. Alþingi sjái, að hér hefur verið farið að eftir fyllstu reglum og samvizkusemi og leitazt við að leysa málin á sem heilbrigðastan hátt. Enda þótt mikið sé að gera í skólabyggingum og hafi sérstaklega áunnizt nú tvö síðustu árin og mér telst svo til, að fjárveitingar til framkvæmda í skólum á fjárlfrv. því, sem hér liggur fyrir, séu 82.1 millj. kr., þá bíða mörg verkefni framtíðarinnar, og á næstu árum verður að gera stórt átak í héraðs- og gagnfræðaskólum. Nú er svo komið, að mörgu fólki þarf að vísa frá, vegna þess að ekki er húsnæði til þess að taka á móti því í þessar stofnanir og sérstaklega héraðsskólana. Slíkt getur ekki átt sér stað um langa framtíð. Þess vegna þarf að hefja þarna nýja sókn með því að stækka eldri héraðsskólana og stofna nýja og sömuleiðis gagnfræðaskólana.

Þetta stutta yfirlit mun ég láta nægja um þær sameiginlegu tillögur okkar og að bæta því við, að ég tel, að samstaða sé af okkar hendi um skólamálin.

Eins og ég gat um hér áðan, er afgreiðsla fjárlaga hverju sinni spegilmynd af þeirri stjórnarstefnu, sem fylgt er á hverjum tíma. Þess vegna ætla ég að víkja nokkuð að fjárl. frá þeim bæjardyrum séð og þeim áhrifum, sem núv. stjórnarstefna hefur á fjárlagaafgreiðsluna og þjóðlífið í heild. En áður en að því er vikið, þykir mér rétt — að vitna til fyrri ummæla forustumanna núv. hæstv. ríkisstj. til afgreiðslu fjárlaga og vil þá — með leyfi hæstv. forseta — vitna fyrst í ræðu, sem hæstv. félmrh., formaður Alþfl., flutti 20. okt. 1958, en þá lýsti hann afstöðu sinni til afgreiðslu fjárlaga m.a. með þessum orðum:

„Fjárlög hvers árs hafa sífellt verið hærri en ársins á undan. Þessi þróun er uggvænleg og stefnir greinilega í fullkomið óefni.“

Og þessu til viðbótar vil ég vitna hér í ræðu, sem hæstv. núv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, flutti hinn 24, okt. 1960. Með leyfi hæstv. forseta, fórust honum orð á þessa leið m.a.:

„Undanfarna áratugi hafa útgjöld fjárlaga hækkað ár frá ári, svo að það hafa þótt litlar fréttir, þótt lögð væru fram á hverju þingi hæstu fjárlög í sögu þjóðarinnar. Við undirbúning fjárlfrv. fyrir árið 1961 var reynt að snúa inn á aðra braut og freista þess að færa útgjöldin niður. — 14 eru útgjaldagreinar fjárlaga. Þessi viðleitni hefur borið þann ávöxt, að 10 af 14 útgjaldagreinum fjárlaga lækka frá gildandi fjárlögum. Þótt ekki sé hér um stórar fúlgur að ræða miðað — við heildarupphæð fjárl., er það stefnubreyting, sem máli skiptir. Risabygging ríkisins verður ekki endurskoðuð og endurskipulögð á nokkrum mánuðum, en mestu varðar, að starfið sé hafið með hentugum vinnubrögðum og réttu hugarfari.“

Varðandi fyrri ummælin, eftir hæstv. félmrh., höfð eftir honum úr ræðu frá 20. okt. 1958, er rétt að gera sér grein fyrir því, hvað gerzt hefur hér á Alþingi síðan. Að tveimur mánuðum liðnum, frá því að þessi ræða var flutt, gerðist þessi hæstv. núv. félmrh. forsrh. í nýrri ríkisstj. Verkefni þeirrar ríkisstj. var að stöðva dýrtíðina í landinu, og að tæpum fjórum mánuðum liðnum lýsti hæstv. menntmrh. og viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, því yfir í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur, að þeim hefði tekizt að leysa verkefnið og tvö önnur að auki á þessum stutta tíma. Og Morgunblaðið sagði frá frásögn fundarins eftir Alþýðublaðinu hinn 1. maí 1959 og bætti þá við: „Ja, miklir menn erum við Hrólfur minn.“ En þó að svo hafi til tekizt, að hv. formaður Alþfl. hafi getað ráðið mikið um stjórnarstefnuna, sem honum fannst uggvænleg, þegar fjárlög voru innan við 900 millj. kr., og þó að hann hafi sjálfur myndað ríkisstj. og stöðvað dýrtíðina, eins og menntmrh. hæstv. komst að orði, þá hafa fjárlög samt hækkað á þessu tímabili um 1700 millj. kr. eða um 200%. Hv. formaður Alþfl. hefur ekki lýst því yfir nú, að það stefndi í fullkomið óefni og uggvænleg væri þróun þessi. Hann hefur setið í ráðherrastól síðan og virðist una sér þar vel, þótt fjárlögin hækki, heldur sér bara í brík stólsins.

Og síðan hæstv. fjmrh. núv. flutti ræðuna á haustmánuðum 1960 og lýsti yfir, að stefnubreyting hefði átt sér stað í þá átt að lækka fjárl., að nú væri verið að endurskipuleggja risabákn ríkisins með hentugum vinnubrögðum og réttu hugarfari, eru liðnir 36 mánuðir, svo að hæstv. ráðh. hefur haft tíma til þess að koma að hentugum vinnubrögðum og réttu hugarfari. Og hvað hefur gerzt? Frá þessu fjárlfrv., sem lagt var fram í okt. 1960, hefur fjárlfrv., sem er til afgreiðslu nú; hækkað um 1100 millj. kr. Hæstv. núv. fjmrh. hefur stjórnað fjármálum ríkisins síðan og notað til þess hentug vinnubrögð og rétt hugarfar. Fjárlög hækka nú ára á milli eins og heildarniðurstaða þeirra var fyrir 10 árum. Þetta eru hentugu vinnubrögðin og rétta hugarfarið.

En hver er ástæðan fyrir því, að fjárlög hækka svo ár frá ári, eins og raun ber vitni? Ástæðan er stefnubreytingin, sem búið var að gera, þegar hæstv. fjmrh. flutti ræðu sína 1960. Ástæðan er stefnubreytingin, sem upp var tekin með þeirri stefnu, sem höfunda hennar kölluðu viðreisn. Og hvað fólst í þessari stefnu? Þetta var álögustefna. Það eru búnar að eiga sér stað í tíð núverandi stjórnarflokka gengisfellingar tvisvar sinnum. Það er búið að leggja almennan söluskatt á allar neysluvörur almennings og flesta þjónustu í landinu. Það er búið að hækka söluskatt í innflutningi, það er búið að meira en tvöfalda hann. Og þó að hann ætti upphaflega að gilda til bráðabirgða, er hann orðinn nú fastur í tollakerfi ríkisins. Innflutningsskattur, sem álagður var vegna starfsemi útflutningssjóðs, gerði ríkisstj. að tekjustofni ríkisins og hefur fest hann einnig í tollakerfinu. Benzínskattur var hækkaður 1960, ekki til þess að hann gengi í vegina, heldur til þess að gera hann að tekjustofni fyrir ríkið. Og ríkisstj. hefur farið margar aðrar leiðir til að auka álögur á þjóðina. Hún hefur sett upp útibú eins og ríkisábyrgðasjóð og tekið þangað sinn skatt. Auk þess hafa svo verið á fólkið í landinu og framleiðsluna lagðir margs konar aðrir skattar, þó að þeir hafi ekki verið beinir skattar til ríkissjóðs. Í því sambandi má minna á útflutningsgjaldið á sjávarafurðunum, það má minna á bændaskattinn, það má minna á hækkunina á skemmtanaskattinum, svo að nú er svo komið, að það er ekki hægt að fara inn á veitingahús að kvöldlagi án þess að greiða stórgjöld fyrir að geyma þar hattinn sinn. Gengishagnaðinn 1961 tók hæstv. ríkisstj. til sín og ráðstafaði honum síðan í ríkisábyrgðasjóð. Ofan á þetta kemur svo almenn vaxtahækkun og styttri lánstími. Viðhaldið er öllum eldri tekjustofnum, að mestu óbreyttum, því að dýrtíðin hefur lagað það til, sem ríkisstj. hefur skort á. Og auðvitað hefur þetta allt leitt til þess, að fjárl. eru svo risavaxin sem nú ber raun vitni um.

Ef hæstv. ríkisstj. hefði ætlað sér að lækka fjárl., hefði hún ekki farið þannig að, að leggja álögur ofan á álögur. Þess vegna hefur það farið svo, að allar þessar álögur hafa orðið til þess að hækka útgjöld ríkisins svo gífurlega sem raun ber vitni um.

Það er ekki allt talið með þessu, því að við hliðarráðstafanir, sem gerðar hafa verið á þessu tímabili, þar koma álögurnar einnig fram. Á þessum árum núv. hæstv. ríkisstj. hafa þjónustugjöld ýmissa ríkisstofnana, svo sem pósts og síma, Skipaútgerðar ríkisins, ríkisspítala og ríkisrafveitna, hækkað frá 80–100%. Þrátt fyrir þetta er rekstur ýmissa þekktra ríkisstofnana, eins og t.d. ríkisrafveitnanna, verri nú en nokkru sinni fyrr. Á Alþingi 1959 lagði hæstv. þáv. ríkisstj. fyrir fjvn. grg. raforkumálastjóra um rekstrarhorfur ríkisrafveitnanna á næstu árum. Í þeirri grg. var gert ráð fyrir því, að ríkisrafveiturnar yrðu rekstrarhallalausar árin 1962, 1963 og 1964. Með þeirri stefnu, sem þá var tekin upp og kölluð var breytt stefna, átti að tryggja það, að rekstur ríkisrafveitnanna yrði greiðsluhallalaus. Fram til ársloka 1958 var rekstrarhalli þeirra 5.3 millj. kr. En hvað hefur gerzt síðan? Samansafnaður rekstrarhalli rafmagnsveitna ríkisins er nú í árslok orðinn yfir 120 millj. kr., og á yfirstandandi ári, þrátt fyrir hækkun á tekjum þeirra, verður hann um 35 millj, kr. Og ekkert er enn að gert til þess að leiðrétta þennan rekstrarhalla.

En ástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið svo til sín í álögum sem raun ber vitni um, er fyrst og fremst einn þáttur í stefnu hennar. Það er liður í þeirri keðju, sem hún kallar stjórn á peningamálum. Til þess að það sé hægt að stjórna peningamálunum í landinu, þarf hún að taka peningana til sín. Hæstv. ríkisstj. hefur þess vegna ekki látið sér nægja að afla sér tekna fyrir þeim gjöldum, sem greidd eru skv. fjárl., og eðlilegum greiðsluafgangi, heldur hefur hún nú síðustu árin haft í greiðsluafgang svo að hundruðum millj. skiptir.

Skv. ríkisreikningi 1962 fóru tekjur ríkissjóðs um 300 millj. kr. fram úr tekjuáætlun. Og ef gert er ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs verði hlutfallslega svipaðar nú tvo síðustu mánuði þessa árs og þær voru tvo síðustu mánuði s.l. árs, þó fara tekjur ríkissjóðs á árinu 1963 350–400 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga. Þetta sýnir, að hæstv. ríkisstj. hefur heimt til sín miklu meira fjármagn en hún þurfti vegna útgjalda fjárl. Þessi þáttur er af sama stofni og frv. hennar nú um að innheimta til Seðlabankans megnið af sparifé landsmanna, það er þessi þáttur um stjórn peningamálanna og stjórn í efnahagskerfinu. En ekki þarf orðum að því að eyða, hversu farið hefur um stjórnina á efnahagsmálum þjóðarinnar, það nálgast nú mest stjórnleysi.

Enda þótt útgjaldahlið fjárlaganna hafi ekki hækkað svo sem tekjuhliðin, sem ég hef hér bent á, hafa útgjöld samt hækkað gífurlega á þessu tímabili, svo sem fjárlögin sýna.

Í sambandi við útgjöld fjárlaganna þykir mér rétt að minna á nokkrar fyrri yfirlýsingar um sparnað í ríkisrekstrinum og hvernig að því mætti fara að draga saman ríkiskerfið. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna hér til forustumanna ríkisstjórnarflokkanna frá eldri tímum. Í ræðu, sem hæstv. utanrrh. flutti sem fjmrh. hinn 24. apríl 1959, komst hann m.a. svo að orði: „En af þeirri reynslu og þeim kynnum, sem ég hef haft af þessum hlutum, þá er það sannfæring mín, að mikið megi spara í ríkisbákninu.“ Við 1. umr. fjárl. fyrir árið 1959 talaði hv. þm. Magnús Jónsson af hálfu Sjálfstfl. Hann komst þá m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Það er áreiðanlega hægt að spara á mörgum sviðum, en það þarf í senn réttsýni og kjark til þess að gera slíkar ráðstafanir á viðunandi hátt: Án einbeittrar forustu fjmrh. á hverjum tíma er þess ekki að vænta, að andi sparnaðar og hagsýni ráði í ríkisstj.“ Og í fyrstu fjárlagaræðu núv. hæstv. fjmrh. komst hann m.a. svo að orði í sambandi við sparnaðarfyrirheit, með leyfi hæstv. forseta: „Og það ætla ég, að allir góðir Íslendingar séu sammála um, að nauðsynlegt sé að hafa sívökult auga á öllu í rekstri ríkisins, er til sparnaðar má horfa, bættra vinnubragða og aukinnar hagsýni.“

Við virðum nú fyrir okkur fyrirheitin, því að auk þess sem svo er kveðið að með almennum orðum, eins og ég hef hér lýst, þá hefur hæstv. núv. fjmrh. og meiri hl. fjvn. á Alþingi, síðan þessi ríkisstj. var mynduð, gefið út um 59 tölusett sparnaðarfyrirheit. Og nú er það langt um liðið, frá því að byrjað var að gefa þessi fyrirheit, að nokkur ástæða er til þess að spyrja um árangurinn af sparnaðinum í framkvæmd. Og nú ætla ég mér að spyrja hæstv. fjmrh., hvernig honum hefur gengið að koma í framkvæmd nokkrum af þessum atriðum, sem áður hefur verið yfirlýst að athuguð yrðu.

1) Hafa verið lögð niður sendiráð á Norðurlöndum, og er gert ráð fyrir því, að það verði gert?

2) Hefur sérstaklega verið dregið úr opinberum veizlum?

3) Hefur verið dregið úr tölu sendimanna á alþjóðaráðstefnum og fjölda slíkra ferða, tölu fulltrúa í viðskiptanefndum? Kostnaður við slíkar sendinefndir er orðinn 5.5 millj. skv. ríkisreikningi 1962, en var um 2 millj. 1958.

4) Hefur verið fækkað bifreiðum ríkisins og ríkisstofnana? Mér sýnist kostnaðurinn hafa hækkað um 4 millj. kr.

5) Hefur öryggiseftirlit og skipaskoðun verið sameinuð?

6) Hefur verið sameinað bifreiðaeftirlit og lögreglustjórn?

7) Hefur verið dregið úr framlögum til ýmissa sérþinga?

8) Hafa verið endurskoðuð gildandi lagaákvæði um embættisbústaði?

9) Hver er árangurinn af hagsýslugerðinni? 10) Hefur verið dregið úr kostnaði við að eyða refum og minkum? Hefur t.d. verið komið í framkvæmd minkabúi, sem hæstv. fjmrh. talaði um í annarri fjárlagaræðunni að ætti að bera uppi þennan kostnað?

11) Hefur framkvæmd skattamálanna orðið til sparnaðar?

12) Hefur verið dregið úr rekstrarkostnaði Skipaútgerðar ríkisins?

13) Kostnaður við skyldusparnað, hefur hann verið minnkaður?

14) Hefur verið minnkaður kostnaður við framkvæmd orlofslaga?

15) Hafa verið lagðar niður margar launaðar nefndir? Mér sýnist á ríkisreikningi 1962, að þá sé kostnaður við launaðar nefndir og það, sem kallað er þar að athuga ýmis mál, sem áður hétu nefndir, hann er orðinn 4.3 millj. kr., en var 2.1 1958. Þessi kostnaður virðist því ekki hafa dregizt saman.

16) Er innheimtustofnun ríkisins til sparnaðar?

17) Hefur orðið mikill árangur af endurskoðun ú starfskerfi ríkisins?

18) Er strangara eftirlit með starfsmönnum ríkisins nú en áður var?

19) Hvernig var hallinn á póstsjóði lækkaður?

20) Með hvaða hætti, hætti ríkið að greiða landssímanum framlag?

Ef við virðum nú fyrir okkur sum af þessum sparnaðarfyrirheitum, kemur í ljós, að þau hafa verið framkvæmd í fyrsta lagi með því að hækka tekjustofna þeirra sjálfra, eins og gert hefur verið með póstinn og símann. Með því að láta póst- og símagjöld hækka um 100% er hægt að láta þessar stofnanir standa undir sér sjálfar. Áður lagði ríkið þeim til, en þá var gjöldunum haldið niðri. Þannig er sá sparnaðurinn framkvæmdur. Um Skipaútgerð ríkisins er það að segja, að þar er geymdur rekstrarhalli upp á 3.2 millj., eftir að búið er að greiða rúmar 7 millj. kr. umfram fjárveitinguna.

Um kostnað við eyðingu refa og minka er það einnig að segja, að lögin eru óbreytt. Kostnaðurinn var á þriðju milljón, að mér er tjáð, á s.l. ári og verður auðvitað greiddur samkvæmt lögunum eða þá geymdur eins og hjá Skipaútgerð ríkisins.

Sumar af þessum sparnaðartillögum hæstv. ráðherra eru svo að verða stórfelldur útgjaldabálkur.

Ekki orkar það tvímælis, að skattakerfið, sem nú er verið að setja upp, muni verða verulegt útgjaldabákn hjá ríkinu. Og það er fjarstæða að halda því fram, að það sé til sparnaðar, þegar sennilega ein skattstofa úti í hverju kjördæmi mun fara að kosta eins mikið og skattakerfið allt kostaði áður fyrr. Það sýnir sig fyrr eða seinna, að þessi ráðstöfun verður ekki til sparnaðar. Um hitt má svo aftur deila, hvort af henni hlýzt annað gagn. Ætla ég ekki að dæma um það að þessu sinni, því að til þess er of lítil reynsla.

Efnahagsstofnunin verður engin sparnaðarstofnun. Hún er að verða eitt geysilega mikið fyrirtæki. Ríkið sjálft ætlar að leggja henni eina milljón samkvæmt fjárlagafrv., og það er einn þriðji kostnaðar.

Innheimtustofnuninni er áætlað á fjórðu millj. kr., og það verður eins, það verður ekki heldur nein sparnaðarstofnun.

Og svo er það með nefndirnar, sem átti að leggja niður. Kostnaður við þessi störf, sem nefndirnar voru látnar vinna, heldur áfram að verða til, þó að það sé nú kallað að athuga þetta og hitt mál, í staðinn fyrir að þetta sé kostnaður við nefnd, eins og áður var. Auðvitað er það nefnd í framkvæmd, sem gerir þessa athugun, hvort sem við köllum hana nefnd eða nefnd ekki.

Árangurinn, sem hefur orðið af þessu sparnaðartali öllu, er ekki sá, sem um var rætt í fyrstu, heldur hinn, að það er hætt nú að tala um sparnað, og það er komið svo langt, að í síðustu fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. ræddi hann ekki einu sinni um hagsýslu, hvað þá, að hann gæfi út nokkurt sparnaðarloforð. Út af fyrir sig er þetta virðingarverður árangur og ber að meta hann, er menn hafa áttað sig á staðreyndunum.

Við skulum bara vera hreinskilnir og viðurkenna það, að þetta tal um sparnað var meira og minna gaspur. Við skulum líka viðurkenna það, að hið sívökula auga hæstv, fjmrh. reyndist ekki eins vökult og hann vildi vera láta. Og við skulum líka gera okkur grein fyrir því, þó að menn komi hér og telji upp lið fyrir lið um sparnað, sem þeir þykjast ætla að framkvæma og framkvæma aldrei, þá verður ekki komið við verulegum samdrætti í útgjöldum ríkisins nema með breyttu skipulagi, sem við mundum deila um. En við eigum að hætta þeirri aðferð að þylja hér langan lista um væntanlegan sparnað, sem við ætlum að koma í framkvæmd, og út úr því kemur svo ekkert annað en útfærsla á sjálfu ríkisbákninu. Það, sem hæstv. ríkisstj. hefur hins vegar gert, komið í framkvæmd, það er veruleg útfærsla á ríkisbákninu. Og það er mikill munur á, hvort við höldum, að það sé hægt að draga mikið saman, eða hvort við útfærum ríkiskerfið út verulega mikið. Þar þurfum við að vera vel á verði. Og nú ætla ég þessu næst að nefna nokkrar stofnanir og embætti, sem hafa orðið til í stjórnartíð núverandi hæstv. ríkisstj.

Ég hef áður nefnt Efnahagsstofnunina, sem er að verða álitleg stofnun. Almannavörnum, sem voru með einnar millj. kr. fjárveitingu fyrir, eru ætlaðar 4 millj. kr. á þessu fjárlagafrv. Hvað haldið þið, að verði næst? Saksóknaraembættið er komið með 2 millj. kr. fjárveitingu. Borgardómari, saksóknari og borgarfógeti, þessum embættum hefur öllum verið skipt í 4 eða 5 embætti. Fjárveiting til þessara embætta samanlagt núna er 10 millj. kr. hærri en hún var 1958. Og hækkun á húsaleigu, ljósi og hita til eins af þessum embættum frá árinu í ár til 1964 er 2.5 millj, kr. Þetta er útfærsla á ríkisbákninu, en ekki sparnaður.

Fjölgun bankastjóra, bankaráðsmanna og fjölgun í ýmsum stjórnum hefur átt sér stað í tíð núv. ríkisstj., eins og húsnæðismálastjórn, úthlutunarnefnd listamannalauna o. fl., fjölgun á prófessoraembættum. Innheimtustofnun hefur verið sett á stofn og svo skattakerfið, sem á eftir að verða risamikið fyrirtæki. Fjölgað hefur verið í síldarútvegsnefnd. Ráðunautur sérstakur hefur verið skipaður í viðskiptamálum. Útfærsla er í kvikmyndasafni ríkisins, nýtt gisti- og veitingahúsaeftirlit og fleira mætti telja. Þannig er það staðreynd, að sparnaður hæstv. ríkisstj. hefur enginn orðið. Hitt er líka staðreynd, að útfærsla á ríkiskerfinu er mikil ár frá ári.

Þegar fjárlög hækka svo risaskrefum sem nú á sér stað frá ári til árs, þá skiptir það mestu, til hvers fjármunirnir fara. Eins og hv. formaður fjvn. vék að í upphafi ræðu sinnar, þá getur það skipt framtíð eins byggðarlags miklu, hvort fjárveiting er til þess eða ekki. Hin smærri byggðarlög, það getur skipt þau sköpum, hvort fé er veitt úr ríkissjóði þangað eða eigi. Þess vegna er það höfuðáhugamál okkar, að uppbyggingin í landinu fái sinn hluta og aukinn hluta af útgjöldum fjárlaga. En því er ekki að heilsa með þeirri stefnu, sem núverandi ríkisstj. hefur fylgt.

Aukinn rekstrarkostnaður og aukin framlög vegna dýrtíðarinnar eru höfuðeinkenni þessa fjárlagafrv. Ef hlutfallslega sama hluta fjárlaganna væri varið til nýrra raforkuframkvæmda nú á árinu 1964 og var 1958, þá ætti fjárveiting til raforkuframkvæmda að vera 71.2 millj. kr. Ef sama hlutfallsfjárveiting væri til jarðræktarframkvæmda í landinu, þá ætti hún að vera 65 millj. kr., en hún er 26 millj. Og til raforkuframkvæmdanna er hún 24.2 millj. eða heldur lægri en hún var á fjárlögunum 1958. Til þjóðvega og brúa ættu að vera 172 millj. kr. í staðinn fyrir 124 millj. kr., sem er á fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir. Til atvinnubótasjóðs ættu eftir sömu reglu að vera 45 millj. kr., en eru 10 millj.

Þessi fáu dæmi sanna, að það er ekki uppbyggingin í landinu, sem veldur hækkun fjárlaganna, heldur stefna ríkisstj., sem hefur leitt til aukins rekstrarkostnaðar og aukinnar dýrtíðar. Það er því greinilegt eins og vera má, sem ég sýndi fram á hér áðan, að sparnaður fyrirfinnst ekki í sambandi við þetta fjárlagafrv., heldur útfærsla á ríkiskerfinu og hlutfallslega minna til uppbyggingar í landinu. En staðreynd er hitt, að álögur samkvæmt fjárlagafrv. hafa þó hækkað um 200% frá 1958, og hitt er líka staðreynd, að ýmsar stofnanir ríkisins hafa orðið að hækka sín þjónustugjöld um 80–100%.

Hæstv. núv. ríkisstj. eða núgildandi valdasamsteypa hefur þó haft ýmis betri skilyrði til að koma við sinni stefnu í þjóðmálum heldur en undanfarnar ríkisstjórnir. Hún sat hér samfleytt í 2½ ár með algeran vinnufrið í landinu. Á þeim tíma lækkaði hún þó kaupgjaldið í landinu. Á þeim tíma lækkaði hún gengi krónunnar. Á þeim tíma lagði hún stórfellda skatta á þjóðina. Samt var vinnufriður í 2½ ár, Svo að stjórnin hafði nægan tíma til þess að koma vel fyrir sinni stefnu. Og þegar svo gerður var nýr kaupgjaldssamningur, þá var hann gerður til tveggja ára og ríkisstj. þannig tryggður vinnufriður, ef hún sjálf, vildi una því, út allt s.l. kjörtímabil. Það var hins vegar hennar mat, að því skyldi ekki una, og þess vegna var gengið fellt á nýjan leik, og þar með var sá samningur brostinn.

Á sama tíma sem álögur hafa hækkað um 200%, eins og ég hef hér greint, hefur kaupgjald í almennri verkamannavinnu hækkað um 30% frá því, sem var í okt. 1958, til þess, sem það er nú. Er ástæða til, að það hafi gert það að verkum, að ástandið í efnahagsmálunum er slíkt sem raun ber vitni um? Nei, það eru álögur af hendi hæstv. ríkisstj. á fólkið í landinu, sem hafa skapað það ástand dýrtíðar og verðbólgu, sem nú er ríkjandi hér á landi. Það er vegna þessarar álögustefnu, sem niðurstaða kjaradóms var nú í sumar sem raun ber vitni um. Það er vegna þessarar innheimtu- og álögustefnu, sem nú verða endurtekin verkföll eða vinnustöðvanir með nokkurra mánaða fresti. Það er vegna þessarar stefnu núverandi ríkisstj., sem er algert getuleysi atvinnuveganna að þeirra sögn eftir sérstök góðæri, sem nú hafa gengið yfir. Þrátt fyrir það að á þessum árum hafi verið aukið framlag til þess að greiða niður vöruverð í landinu, svo að hundruðum milljóna skiptir, þá hefur samt vísitala vöru og þjónustu hækkað um 63%. Og hvernig hefur svo fólkið, sem hefur fengið 30% hækkun, orðið að mæta þessu? Þess eina leið hefur verið sú að lengja vinnudaginn. Það hefur ekki verið um annað að ræða en að lengja hann. Og nú er svo komið, að þessi langi vinnudagur er farinn að hafa alvarlegar afleiðingar í atvinnulífi þjóðarinnar, það er ég sannfærður um. Og niðurstaðan af þessu öllu saman er svo sú, að nú eru málefni þjóðarinnar a.m.k. í tvísýnu, þótt ekki sé minnzt á hitt.

Þetta almenna yfirlit yfir stefnu hæstv. ríkisstj. og árangur hennar eða afleiðingar hennar mun ég láta nægja að sinni, en snúa mér nokkuð að þeim till., sem við flytjum sérstaklega á þskj. 133. Eins og við gerum grein fyrir í nál. okkar og ég hef stuttlega gert grein fyrir hér, þá er stefna hæstv. ríkisstj. sú að taka til sín miklu meira í tekjur skv. fjárlögunum en hún gerir ráð fyrir að nota þurfi vegna útgjaldanna. Við höfum sýnt fram á þetta undanfarin ár hér á hv. Alþ. og bent á það, að tekjurnar mundu fara verulega fram úr áætlun. Það hefur hins vegar verið álitið gáleysi af okkar hendi og talið nálgast ábyrgðarleysi. Staðreyndin er hins vegar sú, að tekjurnar hafa farið um 300 millj. kr. fram úr áætlun og sennilega meira á þessu ári. Þess vegna gerum við enn á ný tilraun til þess, að Alþ. skipti meira af þessum tekjum, sem fjárlagafrv. kemur til með að skila hæstv. ríkisstj., og því gerum við till. um að hækka tekjuhliðina um 100 millj. kr. Þessi stefna hæstv. ríkisstj. að heimta til sín fé til þess að hafa á því ofstjórn, eins og bezt sýnir sig í sambandi við bankakerfið, hún er nú að verða undirstaðan að því stjórnleysi, sem nú er að verða ríkjandi í landinu.

Þessar tekjur sem við gerum ráð fyrir að fjárlagafrv. skili. — og náttúrlega skilar það mun meira en við gerum ráð fyrir, því að gera má ráð fyrir því, að tekjuáætlun fjárlagafrv. sé byggð upp með sama hætti og verið hefur undanfarin ár og henni ætlað að skila 200–400 millj. kr. umfram áætlun, — við gerum ráð fyrir að skipta þessu aftur niður til nokkurra málaflokka, sem við gerum sérstaka till. um.

Það er í fyrsta lagi, að við gerum ráð fyrir því að hækka fjárveitingu til sjúkrahúsanna í landinu um 8 millj. kr. Hv. frsm. meiri hl. fjvn., form. nefndarinnar, gerði grein fyrir því áðan, hversu þörfin væri mikil þar. Enda þótt við vonumst til, að hægt verði eftir öðrum leiðum að veita fé til þess að mæta þeim skuldum, sem nú eru áhvílandi, þá er þörf fyrir þessa fjárveitingu vegna framkvæmda á næsta ári. Hv. form. n. gat þess, að skuldir vegna sjúkrahússins í Reykjavík væru nú um 15 millj. kr., og gert er ráð fyrir því að halda áfram við þá framkvæmd, svo að mikið fé þarf til. Og mörg sjúkrahús eru úti um landsbyggðina og læknisbústaðir, sem eru fyrirhuguð á næsta ári og mikla fjárveitingu þarf til. Þess vegna er hér um að ræða algert lágmark og reyndar vonazt til, að fé komi eftir öðrum leiðum til þess að mæta því, sem áfallið er.

Þá gerum við till, um að hækka fjárveitingu til hafnargerða upp í 26 millj. kr. Þessi till. okkar er miðuð við það að mæta að nokkru því, sem vitamálastjórinn taldi að þyrfti til framkvæmdanna á þessu ári. Þó gerði hann ráð fyrir, að fjárveiting þyrfti að vera allt að 28 millj. kr., ef ætti að vera hægt að greiða hluta ríkissjóðs af framkvæmdunum 1964. En við gengum ekki lengra í tillögugerð okkar, vegna þess að þar var þó komið nokkuð á móti þörfinni, í von um það, að eldri fjárveitingum yrði mætt á annan hátt.

Þá gerum við till. um það, að á 14. gr. fjárlaganna verði hækkað framlagið til íþróttasjóðs um 2 millj, frá frv. eða 1 millj. meira en hv. fjvn. gerir till. um. Það skal viðurkennt, að það er spor í rétta átt, sú hækkun, sem þar er lögð til, en eins og hv. form. n. gerði hér grein fyrir áðan, þá hrekkur það skammt til þess að mæta fjárþörf sjóðsins. Þess vegna þarf að ganga lengra í því, og okkar till. er nánast lítið spor, því að miklum mun meira þarf til, en vonlaust er að ná þangað í einum áfanga.

Við 16. gr. fjárlagafrv. höfum við flutt nokkrar brtt. í fyrsta lagi leggjum við til, að hækkuð verði fjárveiting til þess að styrkja vélakaup jarðræktarsambandanna upp í 4 millj. kr. Við höfum þar tekið upp þá till., sem stjórn vélasjóðs lagði til að tekin yrði inn á fjárlögin, Hér er um hið mesta nauðsynjamál að ræða, því að eins og nú er komið getur sjóðurinn ekki sinnt því hlutverki, sem honum var ætlað, að styðja ræktunarsamböndin til vélakaupanna, nema hann fái til þess aukið fé. Þess vegna treystum við því, að það verði komið til móts við okkur í þessu og fjárveitingin verði hækkuð frá því, sem nú er í till. nefndarinnar.

Einnig leggjum við til, að lítils háttar verði hækkað framlagið til mjólkursamlaga. Það er verið að byggja nokkur mjólkursamlög nú og bæri þess vegna nauðsyn til að hækka þetta framlag. Hér er um lága till. að ræða af okkar hendi, sem ég treysti því að nái samþykki hér á hv. Alþingi.

Þá höfum við tekið upp aftur till. þá, sem við fluttum hér á síðasta þingi, um að hækka framlögin til haf- og fiskirannsókna um 1 millj. kr.

Við gerum einnig till. um það, að aukið verði framlag til iðnlánasjóðs um 1 millj. kr. Hér er að vísu um litla fjárhæð að ræða, en kunnugt er, að fjárþörf sjóðsins er mikil, og nánast er þessi till. okkar ekki nema viðurkenning á því, að þörf sé að hækka framlag til sjóðsins og svo að Alþ, sýni skilning sinn á starfsemi hans.

Sú till, okkar, sem er um hæsta fjárveitingu, er um tillag til raforkuframkvæmdanna. Eins og ég gat um áðan, er fjárveiting til nýrra raforkuframkvæmda svo fjarri öllu lagi, að enginn einn liður fjárlagafrv. er svo fráleitur sem sá. Fjárveiting til nýrra raforkuframkvæmda er lægri nú í krónutölu heldur en hún var á fjárlögum 1958, þó að fjárlög hafi síðan hækkað um 200%. Ekki þarf heldur orðum að því að eyða, hvað framkvæmdakostnaður hefur aukizt, síðan þessi fjárveiting var samþykkt. Þess vegna verður ekki hjá því komizt að mæta þörf raforkusjóðs fyrir aukna fjárveitingu. Og þessi till. okkar er þar nánast algert lágmark. Því treysti ég og hef þar fyrir mér orð frsm. meiri hl., að þetta mál verði tekið til athugunar, áður en fjárlög verða afgreidd. Hitt er svo annað mál, hvernig mæta á rekstrarhalla rafveitnanna, en það virðist nú tími til kominn að fara að skoða það mál niður í kjölinn, þar sem hann er nú orðinn á 2. hundrað millj. kr. Við verðum á næstu árum að gera stórt átak í að koma rafmagninu áfram, því að það er skilyrðislaus krafa, að rafmagn komi inn á hvert heimili á landinu, og því fyrr, því betra.

Þá leggjum við til að hækka fjárveitingu til jarðhitasjóðs um 10 millj. kr. Jarðhitasjóður var stofnaður með lögum árið 1961, og hefur hann mikið verk að vinna. Á síðasta Alþ. komu hér fram margar tillögur um rannsókn á jarðhitasvæðum og jarðhitaleit. Jarðhitinn er eitt af meiri háttar náttúruauðæfum okkar, og það er ekki vansalaust, fyrir utan það tjón, sem það veldur, hvað lítið er gert enn þá til þess að vita, hve mikil auðæfi eru þarna ónotuð, og koma því í framkvæmd að nota þau. Ég hef áður hér á hv. Alþ. sýnt fram á, að í sambandi við gróðurhúsastarfsemina er jarðhitinn orðinn undirstaða undir verulegri atvinnugrein. Og hitt er þó mest um vert, hvað hann er mikils virði til upphitunar húsa. En almennt verður þetta ekki, nema við gerum meira að því að rannsaka jarðhitasvæðin og leita að jarðhita, og þessi fjárveitingartill. okkar er borin fram í því skyni að leita eftir jarðhitanum og rannsaka hann miklu meira en gert hefur verið. Og við erum sannfærðir um það, að þessi fjárveiting mun skila sér aftur í þjóðarbúið með vöxtum og vaxtavöxtum.

Við gerum till. um það, að á 17. gr. fjárlaga verði hækkað framlag til vatnsveitna. Samþ. var í nefndinni að hækka þá fjárveitingu upp í 2 millj. kr., en hefði að sjálfsögðu þurft að vera miklu meira, því að ógreiddur kostnaður ríkisins vegna vatnsveitnanna mun nú vera um eða yfir 2 millj. kr., og eru þá framkvæmdir, sem gert er ráð fyrir að framkvæma á næsta ári, þar alveg fyrir utan. Kunnugt er það, að áður fyrr voru vatnsveitur kauptúna og þorpa hinar frumstæðustu. Með vaxandi hreinlæti, auknum iðnaði og fólksfjölgun eru þessar vatnsveitur algerlega ófullnægjandi, svo að ýmis byggðarlög standa nú í stórum framkvæmdum til þess að koma á nýjum vatnsveitum. Framkvæmdir þessar eru yfirleitt mjög kostnaðarsamar, og einnig er erfitt að draga framkvæmdina og næstum því ómögulegt að gera hana í áföngum. Þess vegna ber mikla nauðsyn til þess að hækka fjárveitinguna, svo að stutt verði við bakið á þeim byggðarlögum, sem standa í slíkum framkvæmdum.

Þá höfum við nokkrir þm. Framsfl. flutt hér á hv. Alþ. frv. til l. til breyt. á l. um vatnsveitur, þar sem gert er ráð fyrir aukinni aðstoð við framkvæmd vatnsveitna. Við treystum því, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og þess vegna er nauðsynlegt, að fjárveitingin verði hækkuð.

Einnig höfum við lagt til, að á 17. gr. fjárlaga verði tekinn inn nýr liður, sem er fjárveiting til félagsheimilasjóðs. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að lögin um félagsheimilasjóð eru að verða að litlu liði vegna fjárskorts sjóðsins. Stór og glæsileg félagsheimili, sem kostað hafa milljónir, standa nú uppbyggð af sveitarfélögum og félögum í sveitunum, en ríkishlutinn liggur að mestu eða öllu leyti niðri. Það þarf ekki að skýra það fyrir hv. alþm., hversu erfitt það er fyrir fámenn og fjárlítil sveitarfélög að standa undir svo dýrri framkvæmd sem þau hafa gert í trausti þess, að framlag félagsheimilasjóðs kæmi jafnharðan eins og þeirra framlag. En það að þurfa að standa einnig undir framlagi sjóðsins verður til þess, að það verður að litlu meira gagni en það eitt að greiða vexti af vangoldnu framlagi hans. Þess vegna leggjum við á það mikla áherzlu, að þessi 10 millj. kr. fjárveiting verði tekin upp.

Á 20. gr. fjárlaga leggjum við til að gerðar verði nokkrar breyt. Er þar í fyrsta lagi, að aukin verði fjárveiting til þess að byggja á jörðum ríkisins. Þessi till. okkar er um lága fjárhæð, en gæti þó bætt nokkuð úr þeim skorti, sem er af hendi ríkissjóðs til þess að standa að sínum hluta fyrir þessum fjárframlögum. Það er kunnugt þeim, sem til þekkja, að framkvæmdir á jörðum ríkisins hafa dregizt aftur úr, m.a. vegna þess, hvað lítið fé hefur verið ætlað til þess á fjárlögum hverju sinni að standa undir þessum framkvæmdum, og venjulega hefur það verið svo, að fjárveitingunni hefur allri verið eytt fyrir fram. Þess vegna treystum við því, að hv. Alþ. sameinist um það að samþykkja þessa till., og værum við tilbúnir til þess að standa að algerri till.,ef meiri hluti Alþ. treystir sér til þess. En minna en þetta getur hækkunin á þessum lið ekki verið.

Þá leggjum við einnig til að hækka nokkuð framlag til flugvallagerða og sjúkraflugvalla. Hér er um mikið brennandi fjárhagsmál að ræða, en venjulega er það svo með flugvallagerðina, að hún eyðir fjárveitingunni að mestu fyrir sig fram. Þess vegna þarf að hækka þetta nokkuð verulega ár frá ári, til þess að á árabili væri hægt að leiðrétta eða komast til móts við þörfina að nokkru leyti. Það er tiltölulega stutt síðan flugið var tekið upp sem þáttur í samgöngumálum okkar, en með hverju ári sem líður er það veigameiri og áhrifaríkari þáttur í þeirri starfsemi, og mundi að sjálfsögðu verða enn þá meira, ef við gætum lagt meira fé til flugvallagerða. Þessari till. okkar er sem öðrum till. okkar stillt mjög í hóf, og við treystum því, að það náist um hana samkomulag fyrir lokaafgreiðslu fjárlaganna.

Ég vék að því fyrr í ræðu minni, að ef atvinnubótasjóðurinn ætti að hafa svipaða fjárveitingu nú, miðað við heildartölu fjárlaganna, eins og hann hafði 1958, þá ætti fjárveitingin að vera 45 millj. kr. Honum er nú ákvörðuð samkv. sérstökum lögum 10 millj. kr. fjárveiting af hendi ríkisins, og er fjárlagafrv. miðað við þá fjárveitingu. Á yfirstandandi ári var stjórn atvinnubótasjóðs neydd til vegna þeirra verkefna, sem hún hefur að sinna, að ráðstafa meira en hálfum tekjum sjóðsins 1964, svo að raunverulega hefur hún nú innan við 5 millj. kr. til þeirra verka, sem hún á að sinna á næsta ári. Með breyt., sem gerð var á starfsemi sjóðsins nú fyrir nokkrum árum, var starfsemi hans færð mjög út, svo að hann var látinn styðja öll skipakaup í landinu. Þetta kostaði hann að sjálfsögðu mikið fé. Og nú er vitanlegt, að á næsta ári verður mjög mikið um umsóknir vegna nýrra skipakaupa. Nú er það sannast að segja, að fjárhæð sú, sem sjóðurinn hefur lánað til skipakaupa, er orðin brosleg. Þegar um er að ræða skip, sem kostar 10–15 millj. kr., þá er það í raun og veru brosleg fjárhæð að lána 200 þús., en það hefur verið hámark þeirra lána, sem sjóðurinn hefur veitt. Þó að hámark væri ekki hækkað, mundu þessar 10 millj. kr., sem við leggjum til að hækka fjárveitingu til sjóðsins, ekki hrökkva nema til þess að mæta þeim verkefnum með svipuðum hætti og verið hefur undanfarið, sem sjóðurinn þarf að sinna á næsta ári. Ef þessi sjóður á að verða að þeim notum, sem hugsað er með lagasetningunni og starfseminni frá upphafi, þá verður hann að fá aukið fé. Og það er ekki nema eðlilegt, að ríkið styðji meira að þeirri uppbyggingu, sem þar á sér stað. Og það er í fyllsta samræmi við upphafsorð form. fjvn., þegar hann benti á það, að fjárveiting gæti skipt sköpum fyrir hin smáu byggðarlög. Og það getur alveg skipt sköpum fyrir hin einstöku byggðarlög úti um landið, hvort þessi sjóður getur stutt þar að uppbyggingu eða eigi. En það er alveg vonlaust, að hann geti þar nokkuð á árinu 1964, sem heitið geti, með þeirri fjárhæð, sem hann hefur þá til ráðstöfunar, ef ekkert verður meira að gert. Þess vegna verður ekki hægt að komast hjá því að auka möguleika sjóðsins til útlánastarfsemi, og við treystum því fastlega, að þessi till. okkar nái fram að ganga.

Síðasta till. okkar er um að veita 10 millj. kr. í fiskirannsóknaskip. Þetta er eitt af þeim verkefnum, sem íslenzka þjóðin getur ekki látið dragast úr hömlu öllu lengur. Hér er um framkvæmd að ræða, sem kosta mun nokkra tugi millj. kr., og það er vonlaust að koma málinu áfram nema veita verulega fjárhæð, til þess að það dragist ekki lengi, því að m.a. þeir möguleikar, sem nú eru um tekjur vegna þessara framkvæmda, rýrna ár frá ári með vaxandi dýrtíð. Þess vegna verður að horfast í augu við þá staðreynd, að ef þetta mál á að ná fram að ganga, þá verður að koma til fjárveiting samkv. fjárlögum, og þess vegna gerum við till. um það.

Herra forseti: Ég hef í ræðu minni hér að framan lýst viðhorfi okkar til till. nefndarinnar, til starfs nefndarinnar og lýst till. okkar. Ég hef einnig lýst stjórnarstefnunni og áhrifum hennar á þjóðlífið. Þetta fjárlagafrv. er eins og önnur fjárlagafrv. spegilmynd af þeirri stjórnarstefnu, sem ríkjandi er á hverjum tíma. En einkenni þessa fjárlagafrv. er aukinn rekstrarkostnaður ríkissjóðs, hlutfallslega minni framlög til uppbyggingar í — landinu, aukin útfærsla á ríkiskerfinu, fleiri krónur í skattheimtu af þegnunum til ríkissjóðs, vaxandi dýrtíð, hærri fjárlög. Fjárlagafrv. fyrir árið 1964 er því í fullu samræmi við stefnu hæstv. ríkisstj.