08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (2592)

163. mál, fóðuriðnaðarverksmiðjur

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við höfum allir þm. Norðurl. e, og hv. 8. landsk. þm., sjö í hópi, leyft okkur að leggja fram till. til þál. á þskj. 299 um, að Alþingi feli hæstv. ríkisstj. að láta sérfróða menn athuga skilyrði til að koma upp á Norðurlandi eystra heyköggla- og/eða heymjölsverksmiðju, gera áætlanir um stofnkostnað og rekstrarkostnað slíkrar verksmiðju og þá auðvitað um leið áætlun um, hvernig hún mundi bera sig.

Menn tala um þessar mundir mikið um iðnað, og það er að vonum. Hann er atvinnuvegur, sem getur án efa tekið miklum vexti með þjóðinni, samhliða því sem þjóðinni fjölgar. Ekki er hægt að segja hið sama um sjávarútveginn, Því miður. Fiskstofnarnir þola ekki ótakmarkaða veiði í framtíðinni. Nýjasta kenningin er, að fiskstofnarnir þoli ekki nema 20% aukningu á veiði.

Landbúnaðurinn getur aftur á móti lengi vaxið, eins og augljóst er af því, að ekki eru nema 3% af ræktanlegum svæðum landsins enn komin í rækt, að því er fróðir menn segja.

Iðnaðinn þarf að efla, m.a. til þjónustu við báða hina gömlu atvinnuvegi, landbúnaðinn og sjávarútveginn, undirbyggja þá atvinnuvegi með iðnaði og margfalda afurðaverðmæti þeirra með hjálp hans og kunnáttu við tilreiðingu afurðanna. Iðnaðurinn er þúsund þjala smiðurinn í atvinnulífi þjóðarinnar og meistari tilreiðslunnar.

Eitt af því, sem gera þarf vegna landbúnaðarins, er að tryggja það, að aldrei skorti búfénaðinn fóður. Land okkar er svo misærasamt, að í þessu efni þarf að hafa mikla og sívökula fyrirhyggju. Hvernig sem árar, verður að vera til í landinu nógur fóðurforði og helzt af innlendum fóðurefnum. Ef það á að takast, verður að koma upp fóðuriðnaði í nægilega stórum stíl. Grasrækt verður auðvitað að vera aðalundirstaða þess iðnaðar, kornrækt kemur einnig til greina í og með, en grasræktin er miklu auðveldari og árvissari og heyskapur hlýtur því alltaf að verða aðalhráefnisöflunaraðferðin fyrir fóðuriðnaðinn.

Þessi fóðuriðnaður er þegar hafinn, eins og öllum er kunnugt, en áreiðanlega má betur, ef duga skal.

Fyrir fáum árum tók til starfa grasmjölsverksmiðja á Hvolsvelli á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga. Grasmjölsverksmiðja er rekin á Kjalarnesi sem einkafyrirtæki, að ég hygg. S.l. haust var fullgerð og sett af stað í Gunnarsholti heykögglaverksmiðja, sem ríkið á. Þetta er gott og blessað, það sem það nær. Allar eru þessar verksmiðjur sunnanlands. Þær eru í þeim landsfjórðungi, sem venjulega er minnst vetrarríki í. Mest vetrarríki mun að jafnaði vera á Norðurlandi og einkum þó Norðausturlandi. Aldrei má heldur gleyma því, að fyrir norðan lagðist oft fyrrum hafís að landi og lokaði flutningaleiðum á hafnir þar langtímum saman. Enginn veit, hvenær hafisár kunna að skella yfir aftur. öllum má ljóst vera, að hvergi er brýnna en í þeim landshluta að koma upp fóðuriðnaði og fóðurbirgðastöð til öryggis. Af þeirri ástæðu er þessi till. til þál. flutt og miðuð við þann landshluta. Hún er samt ekki fyrirmæli um, að ríkið stofnsetji nú þegar fóðurverksmiðju nyrðra, heldur um, að sérfróðir menn séu látnir athuga skilyrði þar fyrir slíka verksmiðju, gera áætlanir um stofnkostnað hennar og rekstrarkostnað og athuga, hvar heppilegast muni að staðsetja slíka verksmiðju. Reynsla af verksmiðjum þeim, sem búið er að setja upp, getur sennilega gefið einhverjar bendingar í þessum efnum. Enn fremur hlýtur að vera hægt að fá upplýsingar, sem skipta máli, erlendis frá, þar sem fóðurverksmiðjur eru reknar. Sjálfsagt er að flana ekki að neinu í þessum efnum, en athuga málið vel. En málið er svo mikilsvert, að athuganir þær, sem till. gerir ráð fyrir, má ekki draga. Um það ættu allir að geta verið sammála. Enginn vafi er á því, að staðsetning slíkrar verksmiðju skiptir miklu máli með tilliti til skilyrða á staðnum, svo sem skilyrða til hráefnisöflunar, hráefnisgæða o.fl. Staðarval hlýtur því að vera mikilsverður liður til athugunar, um leið og áætlanir um stofnun og rekstur eru gerðar.

Eins og fskj. þau, sem prentuð eru með till., bera með sér, hafa bæjarráð Húsavíkur, hreppsnefnd Reykjahrepps og sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu samþykkt yfirlýsingar, sem bera með sér, að þessir aðilar lita svo á, að Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu sé heppilegur staður fyrir umrædda starfsemi. Frá mínu leikmannssjónarmiði í þessum efnum er Reykjahverfið tilvalinn staður fyrir fóðurverksmiðju. Þar eru ræktunarskilyrði ágæt. Landnám ríkisins á þar 500—600 ha. af góðu, ræktanlegu landi, sem það gæti vel staðið af til fyrirtækisins, og auðvelt mundi vera að fá miklu meira af sams konar landi í samfellu við ríkislandseignina. Auðveit er að fá þangað frá Húsavík sjófang til vinnslu og fóðurblöndunar, en það hlýtur að hafa nokkra þýðingu. Hverahiti er þarna mikill. Milli 80 og 100 sekúndulítrar af sjóðandi vatni koma úr jörðu skammt frá landinu, sem um er að ræða, og hitann hlýtur að mega nota í þessu sambandi, t.d. við þurrkun hráefnis, eða svo hefur að minnsta kosti stundum sagt verið af þeim, sem um þessi mál hafa rætt og ritað.

Þá er ekki ólíklegt, að í verksmiðju fóðuriðnaðar megi einnig vinna vörur til manneldis, og það hafa fræðimenn sagt mér, og má því vel hugsa sér, að við jarðhitann í Reykjahverfi mætti framleiða manneldishráefni handa verksmiðju, sem þarna væri reist, og hefði hún þá meira verkefni en eila mundi vera og tvíþætt verkefni.

Ekki virðist fjarstæða að láta sér koma í hug, að framleiðsla frá fóðuriðnaðarverksmiðju gæti orðið útflutningsvara. Þar á ég ekki sérstaklega við manneldisvörur, heldur skepnufóður, grasmjöl, graskex og heyköggla. Hráefnið hérlendis í fóðurframleiðslu er afar gott og betra en gerist og gengur erlendis. Frá því var sagt í vetur í dagblöðum, að þýzkur vísindamaður hafi tekið hér sýnishorn af heyi og grasmjöll, hafi sýnishornin verið rannsökuð í Þýzkalandi og í ljós komið, að vísindamenn þar séu mjög undrandi yfir gæðum heysins og grasmjölsins héðan, sem stafi af þeirri jöfnu birtu, sem grasíð nýtur í náttleysu landsins á sprettutímanum, enda hennar vegna grænna en gerist í flestum öðrum löndum. Jafnvel er talið, að grasið sé grænna og um leið kostameira norðanlands en sunnan, vegna þess að miðnæturskugga gætir þar fyrir norðan minna en sunnan fjalla á sprettutíma gróðursins. Mælir þetta ásamt öðru með því, að sett verði upp fóðuriðnaðarverksmiðja á norðanverðu landinu. Það mætti vel hugsa sér, að ef til útflutnings á slíkri vöru kæmi, og að útflutningi á auðvitað að stefna, þá yrði að utan sótzt eftir Norðurlandsgrasmjöli, eins og nú er sótzt eftir Norðurlandssíld fremur en annarri síld. Þess er rétt að geta um leið, að Reykjahverfi liggur vel við samgöngum, og hinn nú nýlega fyrirhugaði kísilgúrvegur mundi liggja rétt þar um, sem eðlilegast væri að reisa verksmiðjuna.

Ég þykist nú hafa fært gild rök að því, að full ástæða sé til að láta fram fara þá athugun, sem till. fer fram á að gerð verði. Búnaðarþing það, sem kom saman í vetur, tók till. til umr. og samþykkti einróma að mæla með henni. Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. alþm. fallist á till. Ég geri þó ráð fyrir, að þingheimur vilji fylgja þeirri venju að láta þingnefnd athuga hana, áður en hún er tekin til fullnaðarafgreiðslu, og legg til, herra forseti, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.